[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
MYNDLIST

Inngangur

Sjónræn upplifun er stór þáttur skynjunar og skilnings mannsins á heiminum enda bendir flest til þess að hann hafi allt frá upphafi vega myndgert líf sitt og umhverfi í margvíslegum tilgangi. Myndir hafa sitt eigið tungumál, myndmál, og maðurinn hefur alla tíð notað myndir sem boðtæki þeirra hluta sem ekki er hægt að lýsa á annan hátt. Myndmál miðlar viðhorfum, skoðunum og hugmyndum samfélagsins ekki síður en tungumál.

Í nútímasamfélagi er myndin gífurlega mikilvægur áhrifavaldur. Fyrir utan hefðbundna myndlist má nefna aukið vægi myndmiðla á borð við kvikmyndir, sjónvarp, auglýsingar, blaðaútgáfu og tölvur. Þáttur myndhugsunar hefur því vaxið hratt í upplýsingasamfélagi nútímans en ekki að sama skapi almennur skilningur á eðli og áhrifamætti myndar. Markmið myndlistarkennslu er því, auk þess að kenna tjáningarleiðir myndlistar, að gera nemendum kleift að skilja myndræna hugsun og gera þá læsa á sjónrænt umhverfi sitt, hvort sem um er að ræða fagurlistaverk listasafna eða myndmál _götunnar". Nútímamanninum er nauðsynlegt að lesa myndir og skilja eðli þeirra. Til þess að hafa vald á umhverfi sínu þarf hann að vega og meta myndræn skilaboð.
 

Nám og kennsla

Við skipulagningu myndlistarnáms skal byggja á eftirfarandi atriðum: Myndlistarnám felur í sér ákveðið ferli sem má skilgreina sem færniþættina: sköpun, túlkun og tjáningu annars vegar og skynjun, greiningu og mat hins vegar. Myndlistarkennsla skal byggjast á því að þroska færni nemanda á báðum þessum sviðum. Eðlilegt vægi og samspil ætti að vera á milli þessara þátta eftir aldri og þroska nemenda.

Sköpun/túlkun/tjáning
Vísar til notkunar nemandans á fjölbreytilegu úrvali efniviðar og miðla greinarinnar til þess að skapa og tjá tilfinningar, hugsanir, hugmyndir og lausnir.

Skynjun/greining/mat
Vísar til þekkingar og skilnings á eðli myndlistar og á því menningarlega samhengi sem hún er sköpuð í. Enn fremur til hæfninnar til að skynja og skilgreina myndlist og meta á rökstuddan hátt.

Inntak myndlistarnáms er flokkað í

Námsmat

Námsmat ætti að endurspegla markmið í öllum námsþáttum. Símat og sjálfsmat er mikilvægt til að ná árangri í að þroska myndlistarfærni og til að þróa jákvæð og lifandi viðhorf til þátttöku í listinni alla ævina.

Að ögra sjálfum sér og kanna nýjar hugmyndir og námstækni eru grundvallaratriði í listrænum þroska. Mikið af daglegu skólastarfi í listkennslu á því að vera ferlismiðað. Þess vegna ætti að útskýra fyrir nemendum að þessi ferli eru metin til jafns við fullunnið frágengið verk. Námsmat byggist þannig bæði á gögnum um vinnuferlið, tilraunum og undirbúningi nemandans og á fullunnu frágengnu verki.

Í lokamati skal, hvort sem um er að ræða einkunnir í tölustöfum eða umsagnir, taka tillit til eftirfarandi þátta: framfara, frumkvæðis og vinnulags.

Meta skal eftir markmiðum:

Nemendur geta sýnt fram á færni sína, skilning og þekkingu með ýmsum hætti; myndverkum, skriflegum verkefnum, vinnubókum, skissubókum, hefðbundnum prófum, í umræðum.

Kennarar geta nýtt sér ýmsar aðferðir við gagnasöfnun, s.s. gátlista um vinnu nemenda og unnin verk, viðtöl við nemendur, dagbók kennara (kladdann), próf, munnleg og/eða skrifleg, auk verkefna nemenda.
 

[Til baka]


EAN 1999