[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
TEXTÍLMENNT

Inngangur

Að nýta efnisheiminn áþreifanlega og milliliðalaust til þess að búa til hlut er uppspretta gleði og lífsfyllingar fyrir einstaklinginn. Jafnframt er sú þekking, færni og skilningur, sem glíman við efnisheiminn hefur leitt til, undirstaða allrar verkmenningar í sérhæfðu nútímasamfélagi. Þráðarmenning hvílir á árþúsundaþróun og rótgrónum hefðum. Verkmenningararfur felur því ekki aðeins í sér tækni og aðferðir heldur einnig fagurfræði sem er tungumál manngerðs umhverfis.

Textílnám byggist á þekkingu á eðli efna og vinnuferla og ríkri hefð nýtingar og endurnýtingar. Í nútímasamfélagi verður æ brýnna að koma í veg fyrir mengun og sóun efna með endurnýtingu og endurvinnslu efnislegra gæða. Slíkum markmiðum verður ekki náð nema almenningur hafi þekkingu á efnum og eiginleikum þeirra og þá færni sem þarf til að hagnýta sér þessa eiginleika.

Textílmennt er ríkur þáttur í íslenskri menningu. Íslenskur útsaumur, tóvinna, prjón og vefnaður er meðal gersema íslenskrar listasögu, arfleifð sem þjóðin þarf að þekkja og meta sem veganesti til framtíðar. Þetta veganesti er ekki einungis þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar heldur einnig meðal þeirra efnislegu verðmæta og atvinnusköpunar sem nú á sér stað, m.a. í tengslum við uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu. Handverk var áður órjúfanlegur hluti lífsbaráttunnar en er nú vaxandi atvinnuvegur og hluti þeirrar ímyndar sem einkennir íslenska menningu.

Textílmennt er einnig ríkur þáttur í félagslegum veruleika þjóðarinnar. Með hannyrðum skapar fólk sér persónulegan stíl, setur svip á heimili sitt og nánasta umhverfi, gleður sig og sína nánustu með því að skapa hluti sem hafa persónulegt gildi. Með hannyrðum hefur þjóðin átt og mun eiga möguleika á að búa í haginn með því að búa til og gera við hluti til daglegra nota. Á tímum breytinga á þjóðlífi og efnahagsástandi er verkkunnátta á sviði hannyrða samfélagsleg auðlind og trygging ákveðinna lífsgæða fyrir einstaklinginn.

Námsgreinin textílmennt felur bæði í sér þátt hönnunar og handverks. Handverk á sér djúpar rætur í menningu þjóðarinnar, heimilisiðnaðinum, þar sem unnið er út frá hefð og rótgróinni þekkingu á efnum og aðferðum. Þeim menningararfi ber að skila áfram í takt við þá tíma er þjóðin lifir hverju sinni. Hönnun, hvort sem er fyrir fjöldaframleiðslu eða handverk, gegnir vaxandi hlutverki í samfélagi þar sem fólk starfar að mestu í manngerðu umhverfi. Fagið er nú undirstaða margbreytilegrar textílhönnunar, textílframleiðslu og listræns handiðnaðar. Textílhönnun er snar þáttur í mótun umhverfis, hvort sem borið er niður í tísku- eða listheiminum, því hver athöfn mannsins í daglegu starfi og leik útheimtir umgjörð og búninga.
 
 

Nám og kennsla

Við skipulagningu textílnáms skal byggja á eftirfarandi atriðum:  Textílnám felur í sér ákveðið ferli sem má skilgreina sem færniþættina: sköpun, túlkun og tjáningu annars vegar og skynjun, greiningu og mat hins vegar. Textílkennsla skal byggjast á því að þjálfa færni nemenda á báðum þessum sviðum. Með þessari flokkun er leitast við að tryggja það að kenndir séu og þjálfaðir allir þættir greinarinnar; færni, þekking og skilningur. Mismunandi vægi ætti að vera milli þessara þátta eftir aldri og þroska nemenda. Inntak textílnáms er flokkað í Fræðileg kennsla skal að hluta til samþætt verklegri kennslu á grunnskólastigi og fari fram með fyrirlestrum, verkefnum og safnaheimsóknum og í tengslum við starfandi hönnuði og handverksfólk.
 

Námsmat

Námsmat í textílmennt er nauðsynlegur leiðsagnarþáttur fyrir nemendur, kennara og skólastarfið í heild. Mikilvægt er að í upphafi hvers skólaárs sé nemendum gerð grein fyrir markmiðum, þ.e. að hverju skal stefna og hvernig á að meta.

Námsmat miðar að því að safna upplýsingum um stöðu nemenda, getu þeirra og kunnáttu og þarf fyrst og fremst að taka mið af settum markmiðum hverju sinni. Mismunandi viðfangsefnum hæfa mismunandi matsaðferðir. Í lokanámsmati skal að sjálfsögðu einnig huga að þáttum eins og framförum, sjálfstæði, frumkvæði, ástundun, vinnubrögðum og samstarfshæfni.

Í textílmennt er stefnt að því að efla mismunandi túlkunaraðferðir nemenda og jákvætt námsmat á að vera leiðbeinandi, gefa nemendum ábendingar um stöðu sína og veita þeim hvatningu.

Símat er nauðsynlegur þáttur í jákvæðu og uppbyggjandi námsmati. Með símati sér kennarinn auðveldlega hvort viðfangsefnin eru rétt valin og nemendur fylgjast með eigin framförum.

Hvort sem notað er skrifleg umsögn, tákn eða tölulegt mat er mikilvægt að námsmatið sé ekki eingöngu kennaramat heldur fái nemendur frá upphafi leiðsögn í að meta eigin frammistöðu og verk á raunhæfan hátt og taki þar með þátt í ábyrgðinni sem fylgir námsmatinu. Sjálfsmat þjálfar nemendur í gagnrýninni hugsun og gefur þeim tækifæri til að tjá sig.

Skipulegt námsmat í formi kannana eða prófa er skilvirkt til að skoða t.d. skilning og þekkingu á hugtökum, áhöldum, samhengi í vinnuferli og sögulegum og félagslegum kunnáttuatriðum. Slíkar kannanir ættu að fara fram reglulega eða a.m.k. við lok 4., 7. og 10. bekkja áfanga. Kannanir mega samt ekki vera of stýrandi fyrir námið því að þær eru einungis hluti af heildarnámsmati.

Verklegar æfingar eða samræmd próf ættu að vera fastur liður í námsmati í textílmennt. Þar væri athugað hvernig nemendur leysa verkefnin á sjálfstæðan hátt, vinna með áunna þekkingu og reynslu í námsgreininni og nýta handbækur og tiltæk gögn.

[Til baka]


EAN 1999