[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla

NÁTTÚRUFRÆÐI Í 1.-4. BEKK

 

Inngangur

Þegar börn byrja í skóla 6 ára gömul eru þau yfirleitt mjög næm og eftirtektarsöm á umhverfi sitt. Þau hafa þegar reynslu og hugmyndir um flesta efnisþætti sem falla undir námssviðið náttúrufræði.

Börnum er það tamt að bera saman og greina á milli ólíkra einstaklinga, dýra og plantna. Þau vita að til eru margar tegundir af fuglum og blómum þótt þau þekki einungis þær allra algengustu með nafni. Í athugunum sínum skoða þau mismunandi ytri eiginleika, t.d. stærð, lögun eða hreyfingu. Þeirra eigin líkami og þroski er daglegt umræðuefni. Þau tengja dýr og ólíkar plöntur mismunandi skilyrðum og heimkynnum. Þau tengja hitastig og veðurfar við árstíðir þó að þau hafi kannski ekki enn áttað sig á orsökum árstíðaskipta né veðurfars hér á landi, hvað þá í stærra samhengi. Þá þekkja þau muninn á lofti, vökvum og föstum efnum og geta gert greinarmun á mismunandi yfirborði, s.s. sléttu og hrufóttu, á milli lögunar ýmissa hluta, þyngdar og svo mætti áfram telja.

Allt er þetta tengt reynsluheimi flestra barna og daglegum veruleika þeirra. Þau vantar orðaforða og færni til að skilgreina þessi atriði betur en hugmyndirnar hafa verið þroskaðar á heimilum þeirra og í leikskólum og á þeim verður skólinn að byggja.

Það er mikilvægt hlutverk skólans að viðhalda og styrkja forvitni og áhuga nemendanna á umhverfinu og leyfa þeim að takast á við nýjar aðstæður og viðfangsefni sem taka mið af forhugmyndum þeirra en jafnframt víkka sjóndeildarhring og orðaforða og þroska málfar og skynjun. Það er sérstaklega mikilvægt að vel takist til á þessum fyrstu árum skólagöngu og ný þekking og sérhæfð vinnubrögð séu tvinnuð saman við leit barnanna að svörum við spurningum sínum.

Á þessum aldri eru flest börn að öðlast lestrarfærni og því ber að varast að gera ráð fyrir að þau geti tileinkað sér nýja þekkingu í gegnum flókið lesmál. Það er hægt að gera kröfu um frásagnir og fjölbreytta tjáningu, skoðun og lestur bóka þar sem textinn er einfaldur og studdur lifandi myndum, ákveðna verkfærni og nokkuð fjölbreytta úrvinnslu og skráningu. Mikilvægt er að í náttúrufræði séu tækifæri nýtt til að auka áhuga á lestri og tjáningu almennt og með aukinni lestrarfærni og ritun aukast síðan námskröfurnar.

Við skipulagningu náttúrufræðikennslu þarf m.a. að hafa sérstaklega í huga

Lykilorðin á yngsta stigi eru forvitni, leit, leikur, upplifun, spurningar, umræður, vettvangskannanir, ákveðin ferli og fyrirbæri í nánasta umhverfi barnsins, algeng hugtök og ákveðin vinnubrögð.

Dæmi um samþættingu þar sem unnið er úr mörgum efnisþáttum:

Gott væri að bjóða nemendum upp á ýmiss konar þemaverkefni sem spretta upp úr hugmyndum þeirra um t.d. pappír, gosdrykki, efnafræði eldhússins, hljóðfæri, risaeðlur, leikföng, árstíðir, náttúrusýn í ljóðum, rímum og þjóðsögum, örnefni.
 

Námsmat

Námsmat á þessu aldursstigi á að vera í formi símats þar sem kennarar fylgjast stöðugt með stöðu og framförum nemenda án þess þó að leggja fyrir hefðbundin skrifleg próf. Námsmat skal ekki einskorðast við þekkingarmarkmið heldur ná til markmiða annarra þátta einnig.
 
 

Áfangamarkmið við lok 4. Bekkjar

Nemandi á að
Um hlutverk og eðli náttúruvísinda Úr eðlisvísindum Úr jarðvísindum Úr lífvísindum Um vinnubrögð og færni [Til baka]

EAN 1999