[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla

NÁTTÚRUFRÆÐI Í 5.-7. BEKK

Inngangur

Á þessu aldursstigi er fylgt eftir áherslum af yngsta stigi auk þess sem gera þarf völdum atriðum góð skil til að leggja frekari grunn að sérhæfðara námi síðar.

Áfram skal byggt á dæmum úr náttúru landsins, nánasta umhverfi nemenda og þeim raunveruleika sem við þeim blasir. Námið skal tengt merkingarbærum og áhugaverðum verkefnum sem fela í sér athuganir, úrvinnslu og túlkun niðurstaðna og leitast skal við að opna augu nemenda fyrir hagnýtu gildi þekkingar og tæknikunnáttu.

Aukna áherslu skal leggja á að nemendur kynnist og átti sig á samhenginu í náttúrunni og að námið efli ábyrgðartilfinningu nemenda gagnvart náttúru og umhverfi.

Nemendur á þessu aldursstigi ganga í gegnum miklar breytingar, bæði líkamlegar og félagslegar. Nauðsynlegt er að vinna eftir áhuga og þörfum ólíkra einstaklinga af báðum kynjum þegar kennslan er skipulögð. Nemendur hafa mikla þörf fyrir að tjá sig, sjálfsvitund eykst og oft gætir óöryggis um félagslega stöðu. Það þarf að taka tillit til alls þessa en aukin námsgeta gerir kennurum kleift að skipuleggja kennslu á fjölbreyttan en krefjandi hátt. Nú er í auknum mæli krafist sjálfstæðari vinnubragða af hendi nemenda, að þeir skipuleggi og framkvæmi athuganir og verkefni af ýmsu tagi sjálfir og í samvinnu og þjálfist í að kynna hugmyndir, aðferðir sínar og lausnir í töluðu máli og skriflega. Námsefnið skal áfram sótt í öll sviðin og alla efnisþætti þeirra þannig að nemendum séu tengingar á milli þeirra sem ljósastar. Það er æskilegt að bjóða upp á þemaverkefni af ýmsum toga sem kalla á umfjöllun um hlutverk og eðli náttúruvísinda og verklega nálgun.

Lykilorðin á miðstigi eru forvitni, sköpun, leit, upplifun í lengri og skemmri ferðum, ákveðin vinnubrögð, tjáning, öryggi, aukinn skilningur á völdum hugtökum og vinnubrögðum.

Dæmi um samþættingu þar sem unnið er úr mörgum efnisþáttum:

Námsmat

Símat er áfram mikilvægur þáttur námsmats en jafnframt skal byrja að styðjast við verklegt mat og sjálfsmat nemenda. Í verklegu mati leysir nemandinn ákveðna þraut eða sýnir fram á að hann hafi tileinkað sér ákveðna færni. Hann getur stjórnað því hvernig hann fer að því að vinna verkið. Þannig er bæði afurðin og sjálft vinnuferlið metið. Með sjálfsmati er hér átt við hvernig nemandi metur viðhorf sín, þekkingu og/eða færni innan ákveðinna námssviða. Hann á ekki að fella dóm um sjálfan sig sem persónu, heldur hvort honum hafi tekist að ná settum markmiðum. Mikilvægt er að nemendur geri skýran greinarmun á þessu tvennu. T.d. væri hægt að setja upp gátlista fyrir nemendur til að vinna eftir eða sem lýsa stígandi kröfum sem gerðar eru í náminu. Að matinu loknu er mikilvægt að kennari, nemandi og foreldrar fari saman yfir matið og ræði.
 
 

Áfangamarkmið við lok 7. Bekkjar

Nemandi á að
Um hlutverk og eðli náttúruvísinda Úr eðlisvísindum Úr jarðvísindum Úr lífvísindum Um vinnubrögð og færni [Til baka]

EAN 1999