[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla

NÁTTÚRUFRÆÐI Í 8.-10. BEKK

Inngangur

Á unglingastigi bætist sértæk þekking í auknum mæli ofan á almennan grunn. Áhersla skal lögð á að val á viðfangsefnum taki mið af samtímaumræðu og að leiðir séu farnar að markmiðum sem æfa það verklag sem nýtist nemendum best þegar fram í sækir. Þannig er miðað að því að nemendum sé ljóst gildi þekkingarinnar, hún tengd áhugasviðum og reynsluheimi beggja kynja, áframhaldandi námi nemenda og fjölbreyttum starfsvettvangi. Umræða skal taka mið af mögulegri þróun og áhrifum tækni og hversu háð íslenskt samfélag er nútímatækni og vísindum.

Þátttaka nemenda á jafnréttisgrundvelli í umræðum, vettvangsferðum og heimsóknum gesta í skólann er leið til þess að þeir finni fyrir ábyrgð og því hversu mikilvægt framlag þeirra er fyrir þróun lýðræðislegs samfélags. Mikilvægt er að nemendur fái tækifæri til að nýta námið og tengjast atvinnulífi og umhverfi í heimabyggð sinni.

Lykilorðin á unglingastigi eru sjálfstæði, ábyrgð, sköpun, samvinna, rökhugsun, sjálfstraust, eigin skipulagning og framkvæmd athugana, samþætting út frá sérkennum lands og þjóðar, fjölbreytt miðlun, samþætting efnisþátta innan verkefna, lengri vettvangsferðir.

Sérstaklega skal huga að hagnýtum hliðum náttúrufræðináms. Hafa verður í huga að líkt og á fyrri aldursstigum má í skipulagningu kennslunnar víða flétta markmiðum úr eðlis-, jarð- og lífvísindum markvisst saman. Sem dæmi má nefna efni úr jarðvísindum og eðlisvísindum á 9. þrepi. Öll vitneskja um alheiminn er byggð á almennum lögmálum um hreyfingu hluta og einkenni rafsegulbylgna. Því má, út frá sjónarhóli stjörnufræðinnar, gera krafti og hreyfingu og ljósi glögg skil. Á 10. þrepi er lögð áhersla á að taka upp umræðu og vinnu varðandi ýmis atriði sem hafa verið til umfjöllunar áður en nú út frá fleiri sjónarhornum og í tengslum við nýja og dýpri þekkingu um efnið. Þar má t.d. stilla saman markmiðum með þáttum tengdum vistfræði og nýtingu orku og tengja í þemaverkefni.

Önnur dæmi um samþættingu efnisþátta náttúrufræðinnar:

Þrátt fyrir áherslu á aukna ábyrgð nemenda gagnvart náttúru, umhverfi og nýtingu skal varast að umræður og viðfangsefni verði um of tengd eðli og umfangi mikilla vandamála. Ekki má missa sjónar á að umhverfisvandamál eru samfélagslegs eðlis en náttúrufræðileg þekking eykur skilning á afleiðingum athafna mannsins. Það eru ólíkir hagsmunir einstaklinga og hópa innbyrðis og í tengslum við náttúruna sem rekast á og skapa umhverfisvandamál. Ágreiningurinn snýst oft um hagnýtingu sameiginlegra auðlinda okkar allra. Öll umfjöllun hlýtur að taka mið af því. Virkja þarf áhuga og getu nemenda til umfjöllunar og athugunar á ýmsum þáttum. Sem dæmi um þemaverkefni má nefna heilsu og lífsstíl, mannfjölgun, samgöngur, erfðatækni, búsetuval og umhverfismat.
 

Námsmat

Námsmat getur í auknum mæli tekið á sig formlegri mynd en þó er ekki einungis átt við skrifleg próf. Ekki má missa sjónar á að mat skal vera í samræmi við sett markmið á öllum sviðunum. Áhersla skal lögð á að meta nemanda í þáttum sem eru mikilvægir frekar en auðmælanlegir, þ. á m. áhuga, sjálfstæði, ábyrgð, sköpunargáfu og rökhugsun. Leitast skal við að meta hvort nemendur geta sett þekkingu sína fram í víðara samhengi frekar en sem stakar staðreyndir. Æskilegar matsleiðir eru enn þá símat og mat á verklegu námi en að auki skal mat ná til þátta eins og mats á verkmöppu og stærri verkefnum. Gert er ráð fyrir að kennarar geri talsverðar kröfur um fjölbreytni í framsetningu.
 

Áfangamarkmið við lok 10. Bekkjar

Nemandi á að
Um hlutverk og eðli náttúruvísinda Úr eðlisvísindum Úr jarðvísindum Úr lífvísindum Um vinnubrögð og færni [Til baka]

EAN 1999