[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
NÁTTÚRUFRÆÐI

FORMÁLI

Í þessari námskrá er gerð grein fyrir námssviði náttúrufræða í grunnskóla. Í námskránni eru skilgreind markmið námssviðsins. Auk þess er rökstuðningur fyrir nauðsyn þess, lýsing á stöðu og hlutverki í almennu námi barna, umfjöllun um nám og kennslu og aðferðir við námsmat.

Eins og fram kemur í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla eru markmið sett fram í þremur flokkum, þ.e. sem lokamarkmið, áfangamarkmið og þrepamarkmið.

Lokamarkmið gefa heildarmynd af því sem stefnt skal að í kennslu náttúrufræða í grunnskóla. Þau skýra almennan tilgang náms og lýsa því sem nemendur eiga að hafa tileinkað sér að loknu lögbundnu skyldunámi.

Áfangamarkmið eru meginviðmið í öllu skólastarfi. Þeim er deilt niður á þrjú stig, þ.e. 1.- 4. bekk, 5.- 7. bekk og 8.- 10. bekk. Áfangamarkmiðin eru flokkuð undir yfirheitin hlutverk og eðli náttúruvísinda, eðlisvísindi, jarðvísindi, lífvísindi og vinnubrögð og færni.

Þrepamarkmið eru safn markmiða eða viðfangsefna með þáttum úr eðlisvísindum, jarðvísindum og lífvísindum. Þau taka einnig mið af áfangamarkmiðum í sameiginlegum þáttum námssviðsins og fela því víða í sér kröfu um skilning á hlutverki og eðli náttúruvísinda og þjálfun ákveðinna vinnubragða. Þrepamarkmið eru sett fram til leiðsagnar við að ná settum áfangamarkmiðum og eiga að mynda eðlilega stígandi í náminu, allt frá upphafi til loka grunnskóla.

Ólíkir einstaklingar eiga að fá viðfangsefni eftir því sem þroski, hæfni og áhugamál leyfa. Því geta nemendur á sama aldri verið staddir á mismunandi þrepum í námi. Skólar geta raðað þrepamarkmiðum á annan hátt en aðalnámskrá gerir og birt þau í skólanámskrá.

Nánar er fjallað um markmiðssetningu í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla.
 
 

INNGANGUR

Fræðasvið náttúruvísinda er víðfeðmt. Það spannar undur náttúrunnar í ótal myndum; eðli og öfl, himingeim, jörð og líf. Um leið er sviðið síbreytilegt þar sem val á rannsóknarefni og aðferðum, svo og túlkun niðurstaðna og eftirfylgni, ræðst af þekktum lögmálum og ríkjandi hugmyndum hverju sinni. Í aldanna rás hefur þessi þróun verið ríkur þáttur í menningu þjóða, mótað heimssýn og lifnaðarhætti mannsins og verið uppspretta þekkingar og tæknibreytinga á ýmsum sviðum.

Traustur skilningur á eðli fræðasviðsins og hlutverki þess innan nútímasamfélags, þekking á helstu lögmálum og ríkjandi kenningum, svo og ákveðin færni í vinnulagi vísindanna, telst vera veigamikill þáttur í þroska og menntun barna og unglinga og snýst um leið um að viðhalda og efla forvitni og áhuga þeirra á umhverfi sínu og fyrirbærum náttúrunnar þannig að byggja megi á alla ævi.

Námssviðið er í eðli sínu alþjóðlegt en um allan heim endurspegla áherslur í skólastarfi sérkenni lands og þjóðar. Það er ekki undarlegt að Íslendingar leggi áherslu á trausta náttúrufræðimenntun frá byrjun skólagöngunnar sé litið til sérstöðu landsins og aðstæðna sem veita einstæð tækifæri til athugana og rannsókna. Þannig er viðfangsefnum náttúrufræða í grunnskóla ætlað að víkka sjóndeildarhring nemenda, byggja upp þekkingu og vinnulag, efla skynjun á umhverfi sínu og stuðla að því að nemandinn umgangist það af ábyrgð og virðingu í anda sjálfbærrar þróunar. Litið er til þess að Íslendingar þurfa sem hluti af samfélagi þjóða að vera meðvitaðir um að mannlegar ákvarðanir og gjörðir hafa áhrif á sameign allra jarðarbúa.

Að loknu grunnskólanámi er stefnt að því að nemendur hafi öðlast grunnþekkingu, þjálfun og sjálfstraust til að takast á við kröfur nútímasamfélags þar sem sveigjanleiki og hæfni til að takast á við krefjandi og fjölbreytt verkefni er nauðsynlegur eiginleiki. Námið er því ekki einungis undirbúningur undir sérhæft framhaldsnám. Allir eiga að geta tekið virkan þátt í samfélagi þar sem umræður og ákvarðanataka hversdagsins grundvallast á upplýstum og gagnrýnum viðhorfum.
 

Uppbygging námssviðs

Áfangamarkmið í aðalnámskrá náttúrufræða skiptast niður á þann hátt sem myndin sýnir, þ.e. Þá eru útfærð þrepamarkmið með efnisþáttum úr eðlisvísindum, jarðvísindum og lífvísindum en áhersla lögð á það að við gerð skólanámskrár og kennsluáætlana séu viðfangsefni skipulögð með efnisþættina þrjá og sameiginlegu þættina tvo jafnt í huga. Þessir þættir eiga þannig að tengjast og fléttast saman í eina heild sem mynda eðlilega stígandi í námi hvers og eins.
 

Um hlutverk og eðli náttúruvísinda

Sett eru fram markmið sem kalla á umfjöllun um hlutverk og eðli náttúruvísinda út frá áhrifum þeirra á lífshætti og viðhorf einstaklingsins, umhverfi hans og samfélag. Markmiðum er raðað upp undir yfirheitunum hagnýting þekkingar, vísindaleg þekking, saga vísinda, vísindi, tækni og samfélag og viðhorf til umhverfis, náttúru og vísinda.

Samspil manns og náttúru skal t.d. rætt og skoðað með það að leiðarljósi að efla þekkingu og skilning nemenda á grundvallarmarkmiðum sjálfbærrar þróunar ásamt vilja til að starfa í anda þeirra. Þá er ljósi varpað á að vísindin hafa gagnvirk áhrif á hugsun og lifnaðarhætti nútímamannsins og móta þróun samfélags í ríkum mæli. Þannig er lögð áhersla á að sýna þekkingu sem mannanna verk, smíði hugtaka og skýringa til að ná tökum á þessum heimi og finna lausnir á ýmiss konar vandamálum sem maðurinn stendur frammi fyrir.
 

Um vinnubrögð og færni

Markmið með vinnubrögðum og færni eru gefin því að markviss þjálfun í vinnubrögðum er nauðsynleg við framkvæmd athugana, í leit að skýringum og lausnum og við mat á niðurstöðum. Stefnt er að því að efla frumkvæði og öryggi nemenda með auknum þroska og samhliða aukinni þekkingu og reynslu. Nemendur þjálfist í gagnrýninni hugsun með því að líta viðfangsefnin hlutlægum augum frá ólíkum sjónarhornum og komast að rökréttum niðurstöðum.

Markmiðum þessa þáttar er raðað undir fimm yfirheiti sem um leið er ætlað að lýsa ákveðnu ferli í vísindalegum vinnubrögðum: skilgreining viðfangsefna; áform og skipulagning; framkvæmd; skráning og úrvinnsla; túlkun og mat; framsetning og miðlun.
 

Úr eðlisvísindum, jarðvísindum og lífvísindum

Efnisþættir úr eðlisvísindum, jarðvísindum og lífvísindum eru valdir og settir fram með tilliti til mikilvægis þeirra innan fræðasviðsins og innbyrðis tengingar en ekki síður hvernig þeir tengjast umhverfi grunnskólanemenda og þeim raunveruleika sem blasir við þeim sé litið til nútíðar og framtíðar. Þannig eru valin markmið og viðfangsefni sem hafa nærtæka þýðingu fyrir nemandann og vísað til fjölbreytni og samhengis innan íslensks lífríkis og íslenskrar náttúru. Þótt námsefnið sé aðgreint á þennan hátt í fjórtán smærri efnisþætti og tíu sameiginlega þætti er mikilvægt að flétta efnið saman þannig að nemendur skynji námsefnið sem samstæða heild og það laði fram yfirsýn og jákvæð viðhorf þeirra. Einstök tækniatriði, s.s. mælingar, útreikningar og athuganir, eru aðferðir til að auka skilning nemenda og varpa ljósi á hugtök og hina vísindalegu aðferð. Nemendur ættu að skynja nám í náttúrufræðum sem ferli og skapandi athöfn fremur en söfnun afmarkaðrar þekkingar og kunnáttu.
 

Nám og kennsla

Kennsluhættir skulu vera fjölbreytilegir og miðast við það hvar hver og einn nemandi er á vegi staddur og hvernig hann geti nýtt hæfileika sína og krafta sem best. Gera skal ráð fyrir því að verulegur hluti námsins fari fram í samvinnu nemenda í litlum hópum, þeir vinni saman að öflun upplýsinga, athugunum, mælingum og fjölbreyttri úrvinnslu þeirra.

Vinna verður gegn mismunun af ýmsum toga, s.s. því að nemendur festist um of í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar og sérstaklega skal það athugað að einstaklingar af báðum kynjum fái sambærileg og jafngild tækifæri.

Með auknum aldri og þroska nemenda má gera auknar kröfur um sjálfstæð vinnubrögð, ábyrgð og frumkvæði. Nemendum skulu þó frá upphafi vera kynntar fjölbreyttar leiðir til öflunar upplýsinga og framsetningar á þeim, þeir hvattir til gagnrýninnar rökhugsunar og fjölbreyttrar miðlunar. Mikilvægt er að við skipulagningu náttúrufræðikennslu velji kennarar leiðir að markmiðum náttúrufræða sem æfi það verklag sem best á við hverju sinni og sem nýtist nemendum örugglega þegar fram í sækir. Möguleikar til öflunar upplýsinga og meðhöndlunar og miðlunar á ýmiss konar gögnum hafa gjörbreyst með tilkomu upplýsingatækni þó að aðrar upplýsingaveitur, s.s. prentað mál og myndmál, haldi gildi sínu. Í gegnum margmiðlunarefni, gagnabanka, leitarvefi og veraldarvefinn má nú flakka vítt og breitt, eiga samskipti, miðla og sækja hugmyndir. Með hjálp tækninnar og ýmissa forrita opnast nýir möguleikar til verklegra æfinga og í markmiðum aðalnámskrár í náttúrufræðum er gert ráð fyrir að þeir möguleikar séu vel nýttir frá upphafi skólagöngunnar.

Náttúrufræðinámið á vera heildstætt. Samfella á að vera í því hvað er kennt og hvernig það er gert þannig að námsþættir styðji og styrki hver annan sem best. Þannig eru kennarar hvattir til að lesa saman markmið allra þátta námssviðsins í leit að samþættingarmöguleikum og þemum. Oft eru tengingar við önnur námssvið og greinar innan þeirra augljósar og mjög æskilegt að taka mið af þeim við skipulagningu skólanámskrár og kennslu.

Í námskránni er lögð áhersla á samvinnu heimila, skóla og ýmissa aðila innan samfélagsins um náttúrufræðinám og virka þátttöku í einstökum verkefnum, einkum þeim sem snúa að nánasta umhverfi nemenda og heimabyggð.

Í aðalnámskrá er litið svo á að útikennsla, það að flytja kennslu að einhverju leyti út fyrir veggi skólans, auðgi og styrki allt nám ásamt því að vera holl bæði líkama og sál. Útikennsla er sérstaklega nauðsynleg í náttúrufræðinámi þar sem úti í samfélagi, umhverfi og náttúru er sá raunveruleiki sem börnin eru að læra um og þurfa að þekkja, skilja og skynja. Það er því mikilvægt að skólar samþætti útikennslu í skólanámskrá sína með það m.a. að markmiði að kynna nemendunum nánasta umhverfi sitt og efla vitund þeirra og virðingu fyrir því.
 

Námsmat

Í almennum hluta aðalnámskrár segir eftirfarandi (bls. 35):

„Hverjum kennara og skóla ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem aðalnámskrá og skólinn setja þeim. Námsmat miðar að því að afla sem öruggastrar vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstökum nemendum eða hópum gengur að ná settum markmiðum. Megintilgangur námsmats er því sá að afla upplýsinga sem hjálpa nemendum við námið, örva þá og hvetja til að leggja sig enn betur fram."

Ofangreind atriði, ásamt öðru því sem fram kemur í almennum hluta námskrár, eru bindandi fyrir nám og kennslu í náttúrufræði. Námsmat er mikilvægur hluti af skólastarfi og þarf að byggjast á þeim kröfum sem gerðar eru í markmiðum aðalnámskrár, sér í lagi áfangamarkmiðum við lok 4., 7. og 10. bekkjar, og vera útfært fyrir alla þætti námsins, jafnt efnisþætti sem sameiginlega þætti. Það felur í sér að varast ber að miða eingöngu við þekkingarmarkmið í námsmati. Einnig verður að horfa til færni- og skilningsmarkmiða, virkni, framfara og frumkvæðis nemenda.

Mismunandi markmið innan efnisþátta námssviðsins gera kröfur um ólíkar matsaðferðir. Þannig skal ekki síður leggja áherslu á verklega þætti, símat og sjálfsmat en skrifleg próf og verkefni eins og nánar er fjallað um í inngangsköflum aldursstiganna þriggja hér á eftir.

Mikilvægt er að matið sé leiðbeinandi og hvetjandi fyrir nemendur. Sú vitneskja, sem námsmatið veitir, hjálpar kennurum einnig til nýrrar markmiðssetningar og gefur oft tilefni til breytinga á námsefni, niðurröðun þess á skólaárið og kennsluaðferðum.

Námsmat er árangursríkast þegar endurgjöf til nemenda og foreldra er sjálfsögð og tíð. Auk mats á stöðu nemandans þurfa að fylgja námsmatinu upplýsingar um leiðir sem nemandinn getur farið til að bæta stöðu sína. Kennari, nemandi og foreldrar geta þá unnið saman við setningu námsmarkmiða í samræmi við stöðu nemenda og gildandi námskrá.
 

Umhverfismennt

Í aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á umhverfismennt sem mikilvægan þráð í skólastarfi og kennslu ólíkra námsgreina frá upphafi skólagöngunnar. Þar skipa námssviðin náttúrufræði, lífsleikni, samfélagsgreinar og heimilisfræði ákveðinn sess þar sem efni þeirra tengist mjög, hvert á sinn hátt, sívirku og viðkvæmu samspili manns og náttúru og hlutverki nemenda sem neytenda og ábyrgra samfélagsþegna.

Í námskrá náttúrufræða er ekki gerð grein fyrir umhverfismennt sem stökum námsþætti heldur hefur verið leitast við að setja fram skýr markmið er tengjast ýmsum áherslum umhverfismenntar innan allra þátta náttúrufræða sem skólum er síðan ætlað að útfæra í skólanámskrám og við gerð kennsluáætlana.

Mikilvægt er að viðfangsefni á sviði umhverfismenntar séu unnin í nánu samstarfi við heimilin. Einnig að skólar nýti sér þá reynslu sem býr í þjóðfélaginu og hafi forgöngu um samstarf við ýmsa aðila, félög, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, sér í lagi þegar unnið er að útfærslu á markmiðum með þætti umhverfismenntar. Þetta samstarf getur t.d. verið í formi kynninga, vettvangsferða og verkefnavinnu þar sem nemendur fá færi á að skoða viðfangsefnið í fjölbreyttu samhengi og lifandi tengslum við samfélagið.
 
[Til baka]


EAN 1999