[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Samfélagsgreinar

 

FORMÁLI

Í þessu hefti aðalnámskráa grunnskóla eru sett fram markmið fyrir kennslu í samfélagsgreinum, gerð grein fyrir hlutverki þeirra og inntaksþáttum og nokkuð fjallað um kennslu og námsmat. Samfélagsgreinar skiptast þannig: landafræði (1.-9. bekkur), samfélagsfræði (1.-4. bekkur), saga (5.-9. bekkur) og þjóðfélagsfræði (10. bekkur).

Eins og á öðrum greinasviðum eru markmið námsins kjarni þess sem hér er fjallað um. Þau eru af þrennum toga: lokamarkmið, áfangamarkmið og þrepamarkmið. Í lokamarkmiðum er dregin upp heildarsýn námsgreina og tilgreint það sem stefnt skal að með námi í grunnskóla. Þau eru nánar sundurgreind í áfangamarkmiðum fyrir hvert stig grunnskólans, yngsta stig (1.-4. bekk), miðstig (5.-7. bekk) og unglingastig (8.-10. bekk). Teljast áfangamarkmið vera meginviðmið í skólastarfinu. Fyrir hvern bekk eru loks sett fram þrepamarkmið þar sem útfærslan er nánar sundurliðuð. Þrepamarkmið eru til leiðsagnar um nánari útfærslu enda eru þau hér, einkum í sögu 5.-9. bekkjar, í nokkrum mæli í valformi. Samfélagsfræði og saga mynda samfellu og hafa því sameiginleg lokamarkmið. Fyrir þjóðfélagsfræði eru aðeins sett fram þrepamarkmið, sem jafnframt eru lokamarkmið greinarinnar, þar sem hún er einungis kennd á lokaári grunnskóla, í beinu framhaldi af landafræði og sögu.
 
 

SAMFÉLAGSGREINAR

Inngangur

Sá greinaflokkur, sem hér nefnist samfélagsgreinar, fjallar um stöðu, hlutverk og möguleika mannsins í samfélagi og náttúru, í tíma og rúmi; um einingar samfélags og umhverfis frá hinu minnsta (einstaklingi, fjölskyldu, heimabyggð) til hins stærsta (þjóða, heims, vistkerfa). Markmið samfélagsgreina er að gera nemandann læsan á umhverfi, samfélag og menningu, auðvelda honum að fóta sig og beita sér í mannlegu félagi og að temja honum gildi sem þar ríkir samkomulag um.

Í grunnskóla er viðfang samfélagsgreina þríþætt og milli þáttanna þarf að ríkja jafnvægi og tillit í skólastarfinu

Á yngsta stigi hefur löngum tíðkast að flétta nokkrum námsgreinum saman í aðalnámskrá, einkum sögu, landafræði, ýmsum félagsgreinum og jafnvel náttúrufræði og íslensku að hluta til. Í þessari aðalnámskrá eru markmið einstakra námsgreina sett fram með sjálfstæðari hætti en skólunum ætlað stærra hlutverk við að tengja og samþætta greinar eftir því sem talið er henta. Þannig eru rituð markmið fyrir landafræði í 1.-9. bekk. Saga hefur sjálfstæð markmið í 5.-9. bekk. Á yngsta stigi er sagan uppistaða samfélagsfræði en fléttast þar iðulega saman við félagsgreinar. Því er samfélagsfræðiheitinu haldið. Á lokaári grunnskóla er dregin upp samþætt námsgrein sem kölluð er þjóðfélagsfræði.

Þess hefur verið gætt, þar sem tilefni gafst til, að haga viðfangsefnum sögu og landafræði á hverju ári þannig að þau gæfu möguleika á tengingum og samþættingu. Tilefni og tækifæri til samþættingar við aðrar námsgreinar eru einnig til staðar í ýmsum bekkjum. Það er hlutverk skólanna að uppfylla markmið námsgreinanna með sjálfstæðri kennslu námsgreina eða með því að tengja markmið saman í skólanámskrá og kennslu kringum ákveðin viðfangsefni eða á annan hátt. Ítarleg og sundurgreind þrepamarkmið aðalnámskrárinnar ættu að auðvelda þetta verk.
 

Námsmat

Um námsmat í samfélagsgreinum gildir flest það sem segir í almennum hluta námskrár. Markmiðin eru grundvöllur námsmatsins; meta skal hve vel þeim hefur verið fylgt. Sum þeirra má aðveldlega meta með skriflegum fjölvalsspurningum eða öðrum nákvæmnisaðferðum. Markmið um innlifun, að setja sig í spor annarra og skoða sjálfan sig í samhengi sögunnar verða oft best metin út frá ritgerðum, skálduðum skrifum, munnlegum frásögnum og myndrænni eða leikrænni framsetningu. Símat kennara og nemenda sjálfra á við um verkefnavinnu, vettvangsferðir, upplýsingafærni, verklag og fleiri þætti.
 
[Til baka]

EAN 1999