[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Þjóðfélagsfræði

Inngangur

Á lokaári grunnskóla er staldrað við og hugað að stöðu nemandans sem lýkur skyldunámi sínu. Fram undan er ákvörðun um frekara nám eða störf, síðan fjárræði, sjálfræði, kosningaréttur og fullorðinsár. Í sögu og landafræði hefur nemandinn skoðað heiminn í nútíð og fortíð en nú skal litið nær og spurt: Hver er ég? Hver eru réttindi mín og skyldur? Hverjir ráða í samfélaginu? Og hvernig erum við stödd í heiminum, við sem búum á Íslandi? Þetta eru spurningar sem fengist er við í fræðigreinum á borð við sálfræði, heimspeki, félagsfræði og stjórnmálafræði. En hér verður ekki einungis spurt á forsendum fræðigreina heldur nemendanna sem sjálfir fá að leggja til spurningar og leita svara sem ekki eru öll gefin fyrir fram. Í leit að svörum koma þessar fræðigreinar og fleiri að gagni en vænlegast er að nemendur fari á stúfana og taki spurningunum sem verkefnum sem leita þarf svara við undir leiðsögn og með leiðbeiningu kennara.

Námsþættirnir eru þessir:

Sjálfsmynd
Hér er boðið upp á sjálfsskoðun en eftir brautum sem sálfræði og félagsfræði hafa varðað. Sjálfsmyndin varðar upplag, væntingar, uppeldi og aðstæður, þar á meðal heimabyggð og þjóðerni. Rétt er að gæta þess að kennsla gangi ekki of nærri nemendum og einkalífi þeirra.

Réttindi og skyldur
Lög og reglur setja aldursmörk sem gilda um fjárforræði, útivist, skólagöngu, vinnu og fleiri þætti réttinda og skyldna. Nærtækt er að unglingar kynni sér reglusamfélagið sem þeir búa í og ræði gildi þess og grundvöll.

Hverjir ráða?
Unglingar hafa að jafnaði ekki mikinn áhuga á stjórnmálum og finnst þau fjarlæg tilveru sinni. En stjórnmál teygja anga sína til þeirra líka ef að er gáð og geta orðið nærtæk og brennandi málefni. Hin nærtæku mál geta opnað sýn á stjórnkerfi og þjóðfélagið í heild.

Samastaður í heiminum
Íslendingar hafa alla tíð velt fyrir sér kostum þess og göllum að búa í landi sínu og stöðu sinni í heiminum. Hér er litið til margra þátta í náttúru og menningu, m.a. hugað að möguleikum þjóðarinnar í samrunaferli Evrópu.

Efst á baugi
Eitthvert brýnt og vekjandi málefni líðandi stundar er krufið til mergjar og í leiðinni þarf að grannskoða og meta upplýsingamiðla samtímans.
 

Nám og kennsla

Þjóðfélagsfræði er samfélagsgrein á síðasta ári grunnskóla sem kemur í kjölfar landafræði og sögu í bekkjunum á undan. Hún er samþætt námsgrein en stendur félagsfræði næst af fræðigreinum. Ýmsir efnisþættir eru skyldir því sem tekið er fyrir í lífsleikni og samþætting við hana því vel hugsanleg. Vettvangs- og skoðunarferðir á Alþingi, á bæjarstjórnarfundi, til lögreglunnar og fleiri aðila geta fengið aukið gildi ef þær eru tengdar beint við þessa kennslu.

Þjóðfélagsfræðin á að vekja nemendur til umhugsunar um stöðu sína, ábyrgð og tækifæri í þjóðfélaginu. Hún þarf því að miðast við áhugamál þeirra og hugarheim.
 

Námsmat

Þjóðfélagsfræði á að vera vekjandi og skapandi námsgrein þar sem nemendur öðlast þekkingu og færni með því að fást við nærtæk efni sem varða tilveru þeirra hér og nú með því að kanna málefni og leita svara. Námsmatið verður því að vera í sama anda. Próf má því ekki einungis mæla staðreyndaþekkingu heldur einnig ályktunarhæfni, rökvísi, innsæi, hugmyndaflug og fleiri þætti. Slíkt getur verið vandasamt með skriflegu prófi einu saman og því er eðlilegt að hluti námsmatsins byggist á mati á verkefnum og vinnuferli.
 
[Til baka]

EAN 1999