[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Saga

 

Inngangur

Saga sem fræðigrein og námsgrein í skólum er skipuleg umfjöllun um mannfélagið frá fortíð til líðandi stundar. Sjálfsmynd einstaklinga og hópa mótast af því sem á undan er gengið, af sameiginlegum minningum og menningararfi. Þennan arf þarf að skoða og endurskoða og í þeim tilgangi hafa þróast gagnrýnar leiðir í sögu og sagnfræði. Sagan hefur almennt menntunargildi þar sem til hennar er vísað í daglegu lífi og rökræðu um úrlausnarefni samtímans. Könnun á fortíð lýkur aldrei því að viðhorf til hennar breytast stöðugt. Þó að endanleg niðurstaða fáist ekki er jafnan leitað í sjóð reynslunnar og rýnt í visku kynslóðanna.

Lærdómur, sem dreginn er af sögunni, er því aldrei einhlítur en hann er fyrir hendi. Sameinuðu þjóðirnar, Marshallhjálpin og skipuleg samvinna Evrópuþjóða eru dæmi um stofnanir og bandalög sem eru til orðin vegna lærdóms sem dreginn var af seinni heimsstyrjöldinni. Segja má að sagan hafi þar fengið hagnýtt gildi og hún gegnir einnig hagnýtu hlutverki í ferðaþjónustu og ýmissi annarri atvinnustarfsemi. Ekki varðar minna að hún snertir tilvistarspurningar mannsins þar sem hún greinir frá reynslu einstaklinga og þjóða í háska og gleði, amstri og velsæld. Söguleg þekking og innsæi getur dýpkað skilning og aukið víðsýni og lífsnautn í mannlegu félagi þar sem skrafað er saman, leitað er lausna á þjóðfélagsvanda og lista notið.

Skólanámsgreinin saga hefur löngum snúist mest um stjórnmál þjóða og ríkja enda hefur henni verið ætlað að ala ábyrga þegna sem gætu tekið þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Í þessari námskrá er stjórnmálum gaumur gefinn en jafnframt er leitast við að breikka sögusviðið þannig að auk stjórnmála sé vikið að öðrum þáttum mannlífs svo sem menningu í víðri merkingu, siðum og trú, hugarfari og hugmyndastefnum, efnahag og umhverfismálum, félagslegum málum hvers konar og þar á meðal sögu fjölskyldu, kynja og barna. Þetta merkir ekki að allir málaflokkar séu jafnan á dagskrá. Oft er vænlegast að beina athygli að fáum þáttum í einu.

Í þessari námskrá er þjóðarsagan tengd nánari böndum við umheiminn en áður. Saga þjóðar er mikilvæg og verður svo um fyrirsjáanlega framtíð. Á dögum sjálfstæðisbaráttu var mönnum gjarnt að einangra hana. Nú er brýnna að sjá hana í tengslum við það sem gerst hefur í nálægum og fjarlægum löndum til að greina það sem almennt er og sérstætt. Saga Íslands ætti að skýrast fyrir vikið. Þetta er verðugt markmið en vandasamt og merkir ekki að ávallt sé horft bæði heiman og heim. Stundum er tilefni til að flétta saman, stundum að kanna hliðstæður eða samtímaþætti og stundum er hugað að hvoru fyrir sig. Þjóðin er heldur ekki eina einingin sem á sér merkingarbæra sögu. Hægt er að rekja sögu fjölskyldunnar, hópa af ýmsu tagi, landshluta, heimabyggðar, samsteypuríkja (t.d. Danaveldis á nýöld), hópa landa (t.d. Norðurlanda), landsvæða (t.d. Norður-Evrópu) og heimsálfna. Auk þess má horfa til trúar- og hugmyndahreyfinga, menningarstrauma og breytinga á atvinnulífi og segja söguna í ljósi þessara þátta án þess að takmarka sig við eigin þjóð.

Þessi markmið, að segja fjölþætta sögu og tengja Ísland við umheiminn, eru í samræmi við margt það sem keppt er að í heimi fræðanna, bæði á Íslandi og erlendis. Af þessum sökum verður hins vegar torvelt að finna einn rauðan þráð í sögunni. Í fjölræðissamfélagi okkar tíma þykir mönnum einnig sem þræðirnir séu margir en ekki einn. Merkingar, samhengi og tengsl eru þó mikilvæg og eru þræðir víða dregnir saman á ýmsum stigum námsins. Jafnframt er hvatt til þess að nemendur og kennarar leiti merkingar og samhengis með eigin athugun. Í þeirri leit þarf að skoða heimildir og röksemdir með gagnrýnum huga en jafnframt að beita skapandi og frjórri hugsun og tilfinningu.

Einstaklingurinn, nemandinn, er alltaf nálægur og miðar sig og mátar við sögu mannkyns, þjóðar, byggðarlags eða fjölskyldu. Hann stendur ekki utan við söguna heldur andspænis henni sem túlkandi og þátttakandi. Í sögunámi er leitast við að túlka fortíð, skilja nútíð og mæta og móta framtíð. Þetta hefur verið kallað söguvitund. Nemandinn mætir fyrri tíðar fólki sem einnig reyndi að móta tilveruna eftir forsendum síns tíma. Í náminu verður leitað að gerendum sögunnar og jafnframt kappkostað að kanna þær skorður sem hugarfar, lífsbjargarhættir og þjóðskipulag setti þeim og þeir tókust á við.

Sagan er inntaksmiðuð grein í þessari námskrá. Val inntaksins tekur mið af íslenskum menningararfi og hefðum sem myndast hafa. Inntakið er þó ekki gefið í eitt skipti fyrir öll heldur er sífellt í endurskoðun. Færni-, leikni- og viðhorfsmarkmið, sem einnig eru mikilvæg, snúast því að jafnaði um ákveðið inntak. Fyrirsagnir efnisþáttanna í þrepamarkmiðum flestra bekkja eru þar af leiðandi ólíkar og taka mið af viðfangsefninu hverju sinni.
 

Nám og kennsla

Saga og félagsgreinar eru uppistaða samfélagsfræði á yngsta stigi grunnskóla. Saga er sjálfstæð námsgrein í 5.-9. bekk grunnskóla. Landafræði hefur sjálfstæð markmið í 1.-9. bekk. Í þjóðfélagsfræði 10. bekkjar fléttast samfélagsgreinar saman. Þannig er þessum greinaflokki hagað í þessari aðalnámskrá en það er síðan skólanna að tengja greinarnar við aðrar námsgreinar eftir því sem best þykir henta til að ná markmiðum aðalnámskrár.

Markmiðum námskrár í sögu verður best náð með virkum og skapandi kennsluaðferðum og sum markmiðanna gera ráð fyrir sjálfstæðri könnun nemenda undir handleiðslu kennara. Í þrepamarkmiðum eru gefnar vísbendingar um efnisþætti og nálgun. Úr þeim má velja og þeim má raða á mismunandi vegu enda eru þeir yfirleitt fleiri en komist verður yfir með góðu móti. Öðrum jafngildum má bæta við ef ástæða þykir til. Á nokkrum stöðum eru sett fram markmið undir fyrirsögnunum þversnið og langsnið. Með þversniði er átt við nána könnun á afmörkuðum efnisþætti, oftast á stuttu tímaskeiði. Langsnið merkir hins vegar að efnisþætti er fylgt eftir um lengra tímabil. Stundum er raunar erfitt að greina þarna á milli. Hvorttveggja hentar þetta til verkefnavinnu þar sem margvíslegar leiðir upplýsingatækni koma að góðum notum. Fleiri markmið mætti auðkenna með þessum hætti.
 
[Til baka]


EAN 1999