[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Samfélagsfræði

Inngangur

Með samfélagsfræði er í þessari námskrá átt við samþættingu greina, einkum sögu og félagsfræði, á yngsta stigi grunnskóla. Ekkert er því til fyrirstöðu að í skólanámskrám og kennslu sé landafræði og jafnvel fleiri greinum bætt við um leið og þess er gætt að markmiðum einstakra greina sé fullnægt (sjá inngang samfélagsgreinasviðsins).

Markmið samfélagsfræðinnar er að saman fléttist þekking, færni og tilfinning barnsins svo að það öðlist vitund um samfélagið, umhverfið og söguna.

Viðfangsefni fyrstu skólaáranna hafa jafnan verið hinn nálægi heimur barnsins — barnið sjálft, fjölskyldan, skólafélagarnir, skólinn og skólasamfélagið, umhverfi skólans, heimabyggðin, æviskeið barnsins („þegar ég var lítil"), næsta kynslóð („þegar mamma/amma var lítil"). Hér reynir á útsjónarsemi skólans og kennarans að nýta sér það sem mismunandi umhverfi og aðstæður búa yfir.

Þessi heimur er víkkaður eftir föngum þar til hann nær til alls landsins en einnig skal litið til fjarlægari staða og sviða til að fá samanburð og viðmið og leggja grunn að heimsmynd barnsins. Heimur þess er í vaxandi mæli manngert umhverfi og um það ber að fjalla og miða við engu síður en náttúruna. Í þessu manngerða umhverfi, sem barninu er tamt, eru sögur og ævintýri, fjölmiðlar og aðrir upplýsingamiðlar sem opna gáttir út í víðan heim. Ung börn geta glímt við mörg viðfangsefni sem eru fjarlæg í tíma og rúmi. Hér er því meðal annars gert ráð fyrir að nokkrir drættir í sögu og menningu fornaldar séu teknir til meðferðar.

Aðferðir samfélagsfræðinnar fyrstu árin eru samræða og frásögn, leikur, söngur og myndvinna, vettvangskannanir og ritað mál, eftir því sem kunnáttu og þroska fleygir fram. Ævintýri og sögur geta verið neisti sem kveikir umræðu og vekur til umhugsunar um mannfélag, staðhætti og mismunandi tímaskeið. Jafnframt því sem efnisatriðum er komið á framfæri þarf að gefa nemendum tækifæri til að kynnast aðferðum og viðhorfum samfélagsgreinanna, t.d. með því að skoða og greina sögurnar og ævintýrin. Nemendur þurfa að fá tækifæri til að kynnast mismunandi gerðum upplýsinga og fást við að afla þeirra með ýmiss konar aðferðum og tækni, gæta að hvað er helst að marka og hvað hefur hæpnara sannleiksgildi og prófa hvernig hægt er að koma fróðleik á framfæri á mismunandi hátt. Þar sem kunnátta og aðrar aðstæður eru fyrir hendi getur verið farsælt að beita aðferðum „barnaheimspeki", þ.e. skipulegrar samræðu sem löguð er að þroska og áhugamálum ungra barna.

Markmið samfélagsfræðinnar eru sett fram undir nokkrum fyrirsögnum þar sem teknir eru saman skyldir þættir. Röð þeirra er ekki bindandi fyrir kennsluna.
 

Sjálfsmynd og félagslegt umhverfi

Undir þessari fyrirsögn eru markmið um fjölskylduna, bæði það sem nemandanum stendur næst ásamt athugun á fjölskyldugerðum og fjölskyldulífi í öðrum löndum og á fyrri tíð. Það getur verið vænlegt að taka mið af aðstæðum og tilveru hvers nemanda en aðgát skal höfð svo að ekki sé gengið of nærri því sem viðkvæmt er í lífi barnsins.
 

Skóli og heimabyggð

Nemendurnir eiga það sameiginlegt að vera samankomnir undir einu þaki til náms og leikja. Skólahúsið, umhverfi þess, saga og hlutverk er því nærtækt viðfangsefni sem allir geta sameinast um. Í heimabyggð eru mýmörg verkefni sem vænlegt er að fjalla um. Heimabyggð er þó ekki í öllum tilvikum einungis hið nánasta umhverfi. Sumir nemendur eiga rætur á öðrum stöðum landsins eða í útlöndum og þess þarf að gæta og hagnýta sér þegar svo ber undir.
 

Land og þjóð

Hér er hugað að táknum þjóðarinnar, svo sem fánanum og Þingvöllum, enn fremur menningararfi, einkum þeim sem fólginn er í bókmenntum. Litið er til breytinga á lífsháttum sem eldri kynslóð getur frætt um. Í nútímanum er dregin upp mynd af atvinnuháttum og efnahagslífi í stórum dráttum.
 

Heimsbyggð

Í þessum efnisþætti er skyggnst um heiminn í nútíð og fortíð til að skoða það sem forvitni vekur án þess að draga upp samfelldan þráð.
 

Fornsaga

Ævintýri og sögur, sjónvarp og tölvuleikir leiða börnin á fjarlægar slóðir og til löngu liðinna tíma. Hér má staldra við nokkra þætti: upphaf mannsins, fornminjar sem athygli vekja, forna goðheima og nokkrar grundvallarspurningar sem heimspekingar fornaldar tóku upp og ekki úreldast.
 

Tími

Framvinda tímans er einn grunnþáttur mannlífsins og tíminn er viðfangsefni og einkenni sögunnar. Í öllum sögulegum verkefnum er fengist við skilning okkar á tíma, hugtök sem notuð eru, rás viðburða og frásagnarhátt sem felur í sér framrás tíma með misjafnlega margbrotnum hætti.
 

Rýni

Þegar börnin koma í skólann hafa þau þegar ýmsar hugmyndir um hvað satt er og ósatt; þau hafa heyrt sögur og frásagnir og vita að upplýsingar og fróðleikur kemur úr ýmsum áttum. Við þetta er spunnið í skólanum og leiðbeint með skipulegum hætti um uppsprettur og miðla þekkingarinnar.
 

Innlifun og víðsýni

Þegar fengist er við samfélag og sögu er stefnt að því að auka þekkingu og þroska rökhugsun og gagnrýni. Innlifun, tilfinning, víðsýni og hugarflug er ekki síður mikilvægt enda verður þekkingin og rökhugsunin innantóm án þessa.
 

Túlkun og tjáning

Mikilvægur þáttur í námsferlinu er að miðla og tjá þekkingu sína með fjölbreyttum hætti.
 
[Til baka]

EAN 1999