[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Landafræði

Inngangur

Víða er gengið hart að auðlindum jarðar, fólki fjölgar ört og skipting auðæfa heimsins er ekki jöfn. Í vaxandi mæli þurfa menn að vega og meta auðlindanýtingu og umhverfissjónarmið, spá fyrir um þróun og áhrif mannvistar á vistkerfi jarðar og fjalla um álitamál í landnotkun svo að nokkuð sé nefnt.

Íslenskir nemendur búa við einstakar aðstæður. Gjöfular auðlindir skapa landsmönnum sérstakar aðstæður í nokkuð harðbýlu landi þar sem fámenn þjóð hefur byggt upp margbrotið nútímasamfélag sem byggist á hefðum lýðræðis. Þeir eiga að læra að lifa sem virkir einstaklingar í samfélaginu og geta tekið ábyrgar ákvarðanir um líf sitt og umhverfi.

Landafræðin er þverfagleg fræðigrein sem hefur almennt menntunargildi. Hún fjallar um legu, útbreiðslu og tengsl ýmissa náttúru- og mannvistarþátta á yfirborði jarðar og breytingar þeirra í tíma og rúmi. Greinin fjallar m.a. um og útskýrir samfélagið með hliðsjón af víxlverkun manns og náttúru og veitir yfirsýn yfir lífsskilyrði, lífshætti og lífskjör manna á jörðinni. Sem skólanámsgrein gegnir landafræði hlutverki lykils að tengingu milli manns og náttúru. Vísað er til landfræðilegrar þekkingar í daglegu lífi og rökræðu um úrlausnarefni samtímans, t.d. um þróun og skipulag heimabyggðar, breytingar í ferðaþjónustu landsmanna eða umfjöllun um hnattræn umhverfisvandamál. Þar hefur skólinn það hlutverk að dýpka þekkingu og auka skilning.

Markmið kennslu í landafræði er að auka vitund nemenda um umhverfi, samfélag og menningu frá nálægasta sviði til hinna fjarlægari. Leiðin að þessu marki er að þjálfa nemendur í að átta sig á áhrifum menningar, efnahags, stjórnmála og félagslegra þátta í tengslum fólks og umhverfis. Liður í því er að nemendur fáist við orð, tölur og tákn, sem og texta, myndir, gröf, töflur, uppdrætti og kort; einnig að setja niðurstöður athugana skilmerkilega fram.

Takmarkið er því ekki einungis að nemendur innbyrði fróðleik til næsta prófs. Þekking er sett í samhengi og greypist við það í minni þeirra. Hún á þannig að geta orðið þeim tiltæk þegar leitað er svara við brýnum spurningum hversdags og framtíðar. Þannig er landafræði bæði spennandi og skemmtileg námsgrein sem þroskar sköpun hugans og tilfinningar jafnt í leik og alvöru. Gefa á nemendum tækifæri til að greina og túlka landslag og annað umhverfi og átta sig á tengslum milli athafna manna og náttúrufars jarðar. Það gefur nemendum bæði innsýn og þjálfun í að vega og meta til hvaða aðgerða þarf að grípa til að viðhalda megi auðlindum, ekki einungis Íslands heldur jarðarinnar í heild og tryggja mönnum þannig lífsviðurværi og búsetuskilyrði hér á jörð.
 

Nám og kennsla

Í þessari námskrá er landafræðin inntaksmiðuð grein líkt og sagan, þótt færni-, leikni- og viðhorfamarkmið fái sinn sess þar sem þau snúast að jafnaði um ákveðið inntak. Markmið landafræðinnar eru tilgreind sérstaklega frá fyrsta þrepi. Þótt þau séu þannig gerð sýnilegri en áður er það skólans að tengja samfélagsgreinarnar saman með þeim hætti sem best þykir. Námskráin í landafræði gerir í megindráttum ráð fyrir að á fyrstu þrepum læri nemandinn um hið nálæga og á síðari þrepum um hið fjarlæga. Þó er t.d. brugðið af þessari leið á 8. þrepi þar sem meginþunginn er á landafræði Íslands. Undirflokkar þrepamarkmiðanna taka mið af þessu. Á öllum þrepum er undirflokkur sem nefnist kort og myndir og fjalla þau markmið um tilurð og túlkun landakorta og annarra mynda sem hafa að geyma landfræðilegar upplýsingar.

Nám í landafræði þarf að gefa nemendum tækifæri til að takast á við viðfangsefni við hæfi og er hvatt til að þeir afli sér þekkingar, skilnings og leikni með fjölbreyttum leiðum þar sem áhersla verði á verkefnavinnu og vettfangsferðir. Í slíkri vinnu er áríðandi að sköpunargleði nemenda fái notið sín. Þeir þurfa að læra að nýta sér margs konar heimildir eins og bækur, myndbönd og gagnasöfn (t.d. af geisladiskum og af Netinu) og setja niðurstöður sínar fram á skipulegan og skýran hátt, hvort sem er í máli eða myndum.
 
[Til baka]


EAN 1999