[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
UPPLÝSINGA- OG TÆKNIMENNT

FORMÁLI

Á námssviði upplýsinga- og tæknimennta eru þrjár námsgreinar, hönnun og smíði, nýsköpun og hagnýting þekkingar og upplýsingamennt. Auk þess eru sett fram innan sviðsins almenn markmið um tölvulæsi nemenda, undir þætti sem nefnist tölvunotkun í grunnskóla. Markmiðin innan tölvunotkunar í grunnskóla mynda ekki ramma um eina tiltekna námsgrein heldur er þeim fléttað inn í kennslu og nám annarra námsgreina.

Nýsköpun og hagnýting þekkingar hefur nokkra sérstöðu innan námssviðsins. Ekki er gert ráð fyrir sérstakri tímaúthlutun til greinarinnar, heldur er það ákvörðun stjórnenda skóla hvort þeir nýti sér markmiðin sem þar eru sett fram til að samþætta tækni- og nýsköpunarþætti við aðrar námsgreinar.

Þátturinn tölvunotkun í grunnskóla fellur einnig utan tímaúthlutunar námssviðsins. Þar eru sett fram markmið um upplýsingatækni í hverri námsgrein. Lágmarkskennslustundafjöldi námssviðsins tekur því eingöngu til námsgreinanna hönnunar og smíða og upplýsingamenntar. Samkvæmt viðmiðunarstundaskrá skal þessi kennslustundafjöldi vera að lágmarki 2 kennslustundir á viku til greina innan sviðsins. Það er síðan val stjórnenda skóla hvort þeir nýta sér þann möguleika að bæta við kennslustundum fyrir einstakar greinar og þætti.

Í námskránni eru sett lokamarkmið fyrir allar námsgreinar og námsþætti námssviðsins. Tilgangur lokamarkmiða er að gefa heildarmynd af því sem stefnt er að í kennslu einstakra námsgreina. Lokamarkmið skýra almennan tilgang náms og lýsa því sem skólar eiga að stefna að og því sem nemendur eiga að hafa tileinkað sér að loknu lögbundnu skyldunámi.

Áfangamarkmið eru einnig sett fyrir allar námsgreinar og námsþætti sviðsins. Áfangamarkmið eru meginviðmiðið í náminu. Áfangamarkmiðum er deilt niður á þrjú stig. Í fyrsta lagi er um að ræða áfangamarkmið eftir nám í 1.-4. bekk, í öðru lagi eftir nám í 5.-7. bekk og að síðustu áfangamarkmið eftir nám í 8.-10. bekk. Áfangamarkmiðin gefa heildarmynd af því sem ætlast er til að nemendur hafi almennt tileinkað sér við lok áfanganna. Áfangamarkmiðin eru þannig orðuð að tiltölulega auðvelt á að vera að mæla eða meta hvort eða að hvaða marki þeim hefur verið náð.

Ekki eru rituð þrepamarkmið nema fyrir greinina hönnun og smíði og yngsta stigið í upplýsingamennt. Ástæða þessa er að inntak annarra greina og þátta sviðsins en hönnunar og smíða er að stórum hluta sótt í aðrar námsgreinar og eðlilegt að sú samþætting eigi sér stað í skólanámskrám en ekki aðalnámskrá. Um þrepamarkmiðin gildir að þau eru safn markmiða/viðfangsefna til að ná áfangamarkmiðum. Þau eiga að lýsa skipulagi, samfellu og stígandi í kennslu og sýna hvernig unnt er að útfæra áfangamarkmiðin nánar og raða þeim á einstök þrep eða lotur sem geta verið námsár grunnskólans. Aðalnámskráin setur þrepamarkmið fram kennurum, foreldrum og nemendum til leiðsagnar. Skóli getur ákveðið að raða þrepamarkmiðum með öðrum hætti og birt það skipulag í skólanámskrá.
 
 

INNGANGUR

Upplýsinga- og tæknimenntun fjallar um það á hvern hátt tækni og verkleg kunnátta hefur verið notuð til að fullnægja þörfum fólks til að takast á við umhverfi sitt á markvissan, skapandi og mótandi hátt. Mikilvægt er að fjalla um tækniumhverfið á heildstæðan hátt, einkum það hvernig náttúra, samfélag og menning er ein samofin heild er taka verður tillit til við tæknilega hagnýtingu. Sérstök áhersla verður lögð á tækniumhverfi nútímans sem einkennist af síbreytilegri tækni og stöðugri framsetningu nýrrar þekkingar og verkkunnáttu sem einstaklingar verða að afla sér án afláts alla ævi. Í þessu skyni fóstrar námssviðið nýja námsgrein í grunnskóla, upplýsingamennt, sem hefur það að markmiði að stuðla að upplýsingalæsi nemenda.

Tækni er einn af skapandi þáttum menningar og mótar ásýnd hennar, inntak, merkingu og tilgang. Hún verður til þegar fólk beitir ímyndunarafli sínu, sköpunargáfu, þekkingu og verklegri færni til að takast á við umhverfi sitt í markvissum tilgangi.

Tæknin verður til í samskiptum okkar við umhverfið, vegna aðstæðna sem við viljum breyta, hafa áhrif á eða nýta okkur. Umhverfi okkar í þessu sambandi er:

Þessi aðgreining er mikilvæg til að undirstrika að við beitum ekki aðeins tækninni til að takast á við þessi svið, heldur hagnýtum við okkur markvisst þekkingu sem er sótt í eðli þeirra. Til að öðlast heildstæða sýn á tækni nútímans þurfum við vera læs á flest svið vísinda, lista og fræða eins og málvísindi, félagsvísindi, hugvísindi, náttúruvísindi og hagvísindi.

Þótt tækni feli í sér sína eigin þekkingar- og aðferðafræði byggist tæknileg hagnýting á þekkingu sem oft er fengin frá öðrum sviðum mannlegra athafna. Sérstaklega er samneyti vísinda og tækni náið; vísindin hafa það að markmiði að afla þekkingar og leita skilnings en tæknin miðar að því að hagnýta þekkingu og beita innsæi til að búa til afurðir, kerfi og umhverfi. Í nútímanum er náið samneyti vísinda og tækni sérstaklega mikilvægt. Nútímavísindi búa yfir tólum og tækjum sem ráða við þekkingarsvið og upplýsingamagn sem skynsemi okkar og innsæi eitt og sér getur með engu móti fangað. Nútímavísindi eru því nú helsta þekkingaruppspretta tækninnar.

Tæknin sækir þekkingu ekki aðeins í vísindi og fræði. Tæknin sækir einnig margt til lista. Glíma listafólks við form, liti, tóna, hrynjandi og orð hefur mikið þekkingar- og aðferðafræðilegt gildi fyrir tæknina til að skapa hagnýta hluti. Tæknin skapar einnig tækjabúnað fyrir listafólk til að fást við hið óræða og margræða.
 

Nám og kennsla

Innan hverrar námsgreinar verður fjallað sérstaklega um nám og kennslu en almennt skal á sviðinu leggja áherslu á að nemendur þjálfist í að nýta sér tækni og upplýsingar af færni og kunnáttu. Nauðsynlegt er að nemendur temji sér að vera virkir gerendur í umhverfi sínu og að þeir temji sér það viðhorf að símenntun sé ævilöng í samfélagi sem einkennist af stöðugri framsetningu nýrrar þekkingar og tækni. Mikilvægt er að gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Í þessu felast ekki endilega sömu úrræði fyrir alla heldur sambærileg og jafngild tækifæri. Gæta skal þess að verkefnin höfði jafnt til drengja og stúlkna.

Í vissum skilningi má segja að menntastefna sé umhverfisstefna Netsins. Með notkun Netsins í skólastarfi eru nemendur settir inn í hringiðu upplýsingaheims sem á köflum einkennist af ringulreið og miður hollu efni en sem í annan stað geymir dýrustu perlur menningarinnar. Í þessum efnum er því mikilvægt að einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir, sem eru að setja inn efni á Netið, hafi í huga að það er menntavöllur barna og ungmenna. Með skýrt fram settum námsmarkmiðum í aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla gefst einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum í landinu kjörið tækifæri til að marka sér skýra stefnu í því hvernig þau haga framsetningu þess efnis sem sett er á Netið þannig að það nýtist við kennslu og til ræktunar mannauðs Íslendinga.
 

Námsmat

Aðrar greinar námssviðsins en hönnun og smíði eru samþættar námsgreinar. Námsmatið er því í valdi kennara þeirrar námsgreinar er þáttur sviðsins samþættist hverju sinni. Mat á sérfaglegum markmiðum upplýsingamenntar hlýtur þó ávallt að vera í verkahring þess kennara sem annast hana ef hann er annar en bekkjarkennari.
 
[Til baka]

EAN 1999