[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
NÝSKÖPUN OG HAGNÝTING ÞEKKINGAR

Inngangur

Atvinnulíf nútímans byggist í vaxandi mæli á þekkingu og hugmyndavinnu. Umhverfi þess er síbreytilegt vegna sífelldra nýjunga í tækni og þekkingu. Til að takast á við þetta atvinnuumhverfi þurfa einstaklingar að geta aðlagast nýjungum á skjótan hátt, komið auga á möguleika nýrrar þekkingar, auk þess að búa yfir færni í að hagnýta nýja þekkingu og vinna úr henni verðmætar afurðir.

Nýsköpun og hagnýting þekkingar snýr að því að virkja hugmyndir nemanda um það á hvern hátt má nota þekkingar- og færnisvið hverrar námsgreinar til að leysa vandamál, uppfylla þarfir eða skapa önnur gæði sem máli skipta. Tilgangurinn er að efla siðvit nemandans og frumkvæði í gegnum skapandi starf þar sem nemandi þjálfast í kerfisbundnum aðferðum við að útfæra hugmyndir sínar frá fyrstu hugdettu til lokaafurðar. Með afurð er hér átt við ýmiss konar vörur, þjónustu, afþreyingu, þekkingu og annað slíkt sem hefur markaðsvirði.

Áhersla verði lögð á að tengja hugmynda- og verkefnavinnu nemenda við raunverulegar aðstæður, hvernig þekking og færni skólanámsins birtist í starfsemi samfélagsins, í heimabyggð, þjóðfélagi og í alþjóðlegu samhengi. Nýsköpun og hagnýting þekkingar verði þannig í senn starfsfræðsla og nýsköpunargrein.
 

Nám og kennsla

Nýsköpun og hagnýtingu þekkingar er ekki ætlaður sérstakur tími á viðmiðunarstundaskrá menntamálaráðuneytisins. Greinin er þverfagleg og samþættist námsefni einnar eða fleiri námsgreina. Nýsköpun og hagnýting þekkingar er sérstök aðferð sem skólar geta nýtt sér til að umbreyta hverri námsgrein í starfs- og tæknigrein. Þannig getur nýsköpun og hagnýting þekkingar orðið góður stuðningur við námsmarkmið annarra greina með því að setja efnið í nýtt samhengi og tengja það við veruleika nemenda, sköpunarþörf og leikgleði.

Gera má ráð fyrir að nýsköpun og hagnýting þekkingar geti komið inn í skólastarfið á þrennan hátt. Í fyrsta lagi samþættist hún beint við tíma annarra(r) greina(r). Í öðru lagi getur skólinn nýtt eigin ráðstöfunartíma fyrir greinina. Í þriðja lagi má blanda saman þessum tveimur aðferðum.

Verkefni í nýsköpun og hagnýtingu þekkingar gæti til dæmis verið að nemendur velti fyrir sér hvernig megi hagnýta málfræði. Er hægt að hagnýta málfræðilega þekkingu til að leysa úr brýnni þörf eða að leysa einhver vandamál? Þegar hugmyndin er komin þá hefst næsta skeið sem er að raungera hana. Hlutverk kennarans er að vera eins konar verkstjóri og leiðbeinandi í lausnar- og framleiðsluferlinu. Hann er ekki í hlutverki þess sem allt kann og veit, heldur stýrir hann leiðinni að lausninni, þ.e. hlutverk kennarans er að kenna sérstaka aðferðafræði til að gera hugmynd að veruleika.

Nýsköpun og hagnýting þekkingar er ekki tæknigrein í hefðbundnum skilningi þess orðs. Verkefni nemenda geta ekki síður falið í sér umönnunar- og þjónustustörf en verkfræðileg störf sem beinast að sjálfvirkni, tölvustýringum, verksmiðjuframleiðslu o.s.frv. Vegna þess hversu starfsumhverfi nútímans er tæknivætt er þó mikilvægt að gæta þess að sporna gegn hugsanlegri "tæknihræðslu" nemenda síðar á ævinni. Leikir geta verið mikilvæg leið að þessu marki. Einkum er mikilvægt að slíkir leikir höfði jafnt til stúlkna sem drengja.

Nýsköpun og hagnýting þekkingar greinist í þrjá efnisþætti:

Í námskránni eru eingöngu skrifuð áfangamarkmið fyrir yngsta stigið (1.-4. bekk), miðstigið (5.-7. bekk) og unglingastig (8.-10. bekk). Þrepamarkmið eru ekki útfærð í aðalnámskrá fyrir greinina. Áfangamarkmiðin eru þó þannig sett fram að þau mynda að nokkru safn markmiða sem hægt er að nota til að setja saman heildstæðan ramma án þess að verið sé að vinna að þeim öllum. Nokkur blæbrigðamunur er á markmiðum yngsta stigs, miðstigs og unglingastigs. Þannig gera markmið yngsta stigsins t.d. ráð fyrir meiri samþættingu við annað nám nemenda og hlutverkaleikjum en t.d. markmið unglingastigsins enda er á unglingastigi mun meira svigrúm til að kenna greinina sem sjálfstæða tækni- og nýsköpunargrein en á yngri stigum grunnskólans.
 

Námsmat

Allt nám í nýsköpun og hagnýtingu þekkingar er verkefnamiðað, þ.e. nemandinn býr eitthvað til. Því er ekki ætlast til að nemandinn þreyti próf með kunnáttuspurningum. Þess í stað er lagt til að matið sé í formi gátlista eða viðmiðunarreglna sem kennarinn býr til og birtir nemendum áður en verkið hefst. Þar á meðal annars að koma fram hvort gefin verður hópeinkunn eða einstaklingseinkunn, hvaða kröfur eru gerðar til verkefna og hverju kennari leitar eftir við matið.

[Til baka]


EAN 1999