[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Upplýsingamennt

Inngangur

Á undanförnum árum hefur orðið bylting í upplýsingamálum. Upplýsingatæknin hefur rutt sér til rúms með margmiðlunarefni, gagnabönkum, leitarvefjum og Interneti. Á fáum árum hefur aðstaða til upplýsingaöflunar gjörbreyst og heimurinn þrengt sér inn í hverja stofu. Á sama tíma hafa tækninýjungar stóraukist og miklar breytingar orðið á starfsháttum og tómstundum fólks.

Til að takast á við þennan síbreytilega heim tækni, upplýsinga og samskipta, er í vaxandi mæli lögð áhersla á upplýsingalæsi. Það er sú þekking og færni sem þarf til að afla, flokka, vinna úr og miðla upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Þessi færni er undirstaða að ævilangri símenntun. Einstaklingur, sem býr yfir slíkri færni, á að geta aflað sér af sjálfsdáðum þekkingar og upplýsinga til að viðhalda og aðlaga færni sína og kunnáttu að síbreytilegum kröfum umhverfisins.

Upplýsingalæsi er kjarni upplýsingamenntar. Leggja ber ríka áherslu á að hver nemandi verði fær um að afla upplýsinga á sjálfstæðan hátt. Nemendur læri að afla upplýsinga úr bókum, af tölvunetum, myndefni og hljóðrituðu efni og öðrum þeim miðlum sem til greina koma. Samhliða læra þeir að meta upplýsingar, vinna úr þeim á skipulegan hátt og setja niðurstöður sínar fram með hverjum þeim miðli sem hentar viðfangsefninu best.

Leggja ber áherslu á að nemandinn átti sig á tengslum upplýsinga og menningar. Í rás tímans hefur fólk notað margvísleg form til að tjá öðrum tilfinningar sínar, hugmyndir og sýn á heiminn. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að hafa í huga að meðhöndlun upplýsinga felur gjarnan í sér varðveislu, miðlun og nýsköpun menningar. Hún felur jafnframt í sér siðferðileg og félagsleg álitamál sem þarf að hafa í huga og taka afstöðu til. Upplýsingamennt felur þannig í sér heildstæða þekkingu, færni og viðhorf til að nýta sér til gagns og yndis margslunginn samskipta- og merkingarheim manna.

Nám og kennsla
Upplýsingamennt er þverfagleg námsgrein að því leyti að áhersla er lögð á að kenna og leiðbeina nemendum um sérstaka aðferð og tækni við öflun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga í tengslum við annað nám nemenda. Kennarar í upplýsingamennt vinni því með einstökum kennurum að gerð kennsluáætlana sem lúta að samþættingu markmiða upplýsingamenntar og annarra námsgreina í upplýsingaverkefnum.

Með því að gera upplýsingamennt þannig í senn að sjálfstæðum þætti í námi og um leið samþættan við annað nám nemenda, er verið að ýta undir þann skilning með nemendum að upplýsingalæsi er öðrum þræði sérstök aðferð til að afla sér af sjálfsdáðum þekkingar og færni á ólíkum sviðum. Inntak kennslunnar, upplýsingarnar, það sem unnið er úr þeim, túlkað og sett fram, er þannig sótt til annarra námsgreina skólans, t.d. skólaíþrótta, tónlistar, íslensku eða stærðfræði. Mikilvægt er að viðkomandi faggreinakennari beri ábyrgð á þessum þætti kennslunnar. Hlutverk kennarans í upplýsingamennt getur verið með ýmsu móti í þessu ferli, allt frá því að vera til staðar á skólasafni eða tölvuveri til aðstoðar nemendum ef svo ber undir, yfir í það að vinna náið með faggreinakennara að upplýsingaverkefnum.

Til að skýra uppbyggingu markmiða er greininni skipt í þrjá efnisþætti:

Við gerð kennsluáætlana í upplýsingaverkefnum skal taka mið af öllum þáttunum. Vegna þess hversu inntak greinarinnar er bundið öðrum námsgreinum skólans er lögð megináhersla á áfangamarkmiðin í aðalnámskrá. Undantekning frá þessu er yngsta stigið. Þar eru sett fram þrepamarkmið til að lýsa mögulegu skipulagi og stígandi í kennslu upplýsingamenntar fyrstu fjögur ár grunnskólans. Ástæðan er meðal annars sú að á þessu stigi er verið að leggja grunn að því að nemendur geti nýtt sér tölvukost og upplýsingalindir skólans á sjálfstæðan og ábyrgan hátt.

Við útfærslu upplýsingamenntar í skólastarfinu getur verið góður kostur fyrir skóla að nýta greinina sem lið í tölvumenntun kennara skólans. Með því að umsjónarkennari fylgir bekknum sínum í upplýsingamenntina og tekur virkan þátt í kennslunni þjálfast hann um leið í notkun upplýsingatækni og kynnist möguleikum hennar í kennslu.

Námsmat
Vegna þess hversu upplýsingamennt er samþætt öðrum námsgreinum er mælst til þess að námsmatið verði í höndum viðkomandi bekkjar- eða námsgreinakennara enda eru verkefnin á ábyrgð hans. Mikilvægt er þó að umsjónarkennari upplýsingamenntar gefi skriflega umsögn um gengi hvers nemanda við að ná markmiðum greinarinnar.
 
[Til baka]


EAN 1999