[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
KRISTIN FRÆÐI, SIÐFRÆÐI OG TRÚARBRAGÐAFRÆÐI

FORMÁLI

Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði er sjálfstæð námsgrein í grunnskóla en hefur ráðstöfunartíma sameiginlega með samfélagsgreinum í viðmiðunarstundaskrá. Í þessu hefti eru sett fram markmið greinarinnar, greint frá forsendum hennar, fjallað um tengsl við aðrar greinar og greint frá kennslu og námsmati. Markmiðin eru af þrennum toga eins og á öðrum greinasviðum þessarar aðalnámskrár: lokamarkmið, áfangamarkmið og þrepamarkmið.

Lokamarkmið gefa heildarmynd af því sem stefnt skal að í kennslu námsgreinarinnar í grunnskóla. Þau skýra almennan tilgang náms og lýsa því sem skólar eiga að stefna að og nemendur eiga að hafa tileinkað sér að loknu skyldunámi.

Áfangamarkmið teljast meginviðmið fyrir nám og kennslu í hverri grein. Þau eru sett fram fyrir þrjú stig grunnskólans, yngsta stig (1.-4. bekk), miðstig (5.-7. bekk) og unglingastig (8.-10. bekk). Áfangamarkmið gefa heildarmynd af því sem ætlast er til að nemendur hafi almennt tileinkað sér að áfanganum loknum.

Þrepamarkmið eru safn markmiða og viðfangsefna til að ná áfangamarkmiðunum. Þau eiga að lýsa skipulagi, samfellu og stígandi í kennslu námsgreinarinnar og sýna hvernig unnt er að útfæra áfangamarkmiðin nánar og raða þeim á einstök þrep.

Nánar er fjallað um markmiðssetningu í almennum hluta aðalnámskrár.
 

INNGANGUR

Námi í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum er ætlað að stuðla að menntun og þroska nemenda og efla skilning þeirra á íslensku samfélagi og menningu í fortíð og nútíð.

Þeir þroskaþættir, sem greininni er einkum ætlað að efla, eru trúar-, siðgæðis- og félagsþroski þannig að nemendur verði sífellt hæfari til að taka ábyrga afstöðu í trúarlegum, siðferðilegum og félagslegum efnum. Með trúarþroska er hér átt við hæfni til að fást við trúarleg viðfangsefni á grundvelli þekkingar og skilnings.

Þá er náminu ætlað að hafa mótandi áhrif á skólastarfið, sem á að einkennast af lýðræðislegu samstarfi, kristilegu siðgæði og umburðarlyndi, og efla þannig virðingu og skilning í samskiptum einstaklinga og þjóða með ólík lífsviðhorf.

Kristin trú hefur verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi í þúsund ár og er enn enda eru meira en 95% þjóðarinnar skráð í kristin trúfélög. Saga og menning þjóðarinnar verður vart skilin án þekkingar á kristinni trú og siðgæði og sögu kristinnar kirkju. Sama gildir um vestræna sögu og menningu. Bókmenntir og aðrar listir sækja vísanir og minni í texta Biblíunnar og daglegt íslenskt mál er ríkt af orðatiltækjum og líkingum sem sóttar eru þangað.

Önnur og ólík samfélög verða heldur ekki skilin án þekkingar á ríkjandi trúarbrögðum og siðferðilegum gildum. Námi í almennum trúarbragðafræðum er ætlað að miðla þeirri þekkingu og auka þannig skilning á ólíkum menningar- og trúarhefðum. Traust þekking á eigin rótum og skilningur á ólíkum lífsviðhorfum stuðlar að umburðarlyndi og víðsýni.

Mikilvægur þáttur í þroskaferli hvers einstaklings er mótun heilbrigðrar sjálfsmyndar. Hún felur meðal annars í sér heildstætt lífsviðhorf og skilning á sjálfum sér sem einstaklingi og sem hluta af stærri heild. Skólinn þarf því að gefa nemendum tækifæri til að fást við viðfangsefni sem tengjast leit þeirra að svörum við spurningum um merkingu lífsins og siðræn gildi og miðla þekkingu þar að lútandi. Umræða um þessi efni þroskar dómgreind nemendanna og eykur þeim víðsýni. Hvatning til að taka afstöðu á forsendum þekkingar og skilnings stuðlar að sjálfræði að því er varðar lífsviðhorf og gildismat.

Uppeldishlutverk grunnskólans hefur aukist jafnt og þétt þótt meginábyrgð uppeldismótunarinnar sé foreldranna. Góð samvinna skóla og heimilis skiptir því sköpum. Mikilvægur þáttur uppeldismótunarinnar er siðgæðisuppeldið. Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum. Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs, umhverfinu og öllu lífi. Skólinn þarf því að temja nemendum að spyrja um skyldur sínar, réttindi og ábyrgð í samskiptum sínum við einstaklinga, samfélagið og umhverfi sitt.
 

Nám og kennsla

Inntak námsgreinarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi fræðsla um kristna trú og menningu og sögu kirkjunnar. Í öðru lagi siðferðileg viðfangsefni. Í þriðja lagi fræðsla um helstu trúarbrögð heims.

Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists. Framhald þeirrar sögu er svo saga kristinnar kirkju allt til okkar daga. Í námskránni er leitast við að láta þessa sögulegu framvindu og tengsl hennar við nútímann verða ljós, svo og margvísleg trúarleg og menningarleg áhrif hennar. Mikilvægur hluti þessarar sögu er einnig saga einstaklinga og hreyfinga sem markað hafa spor í þágu trúar, mennta og mannúðar.

Í námskránni er lögð áhersla á þau atriði sem eru sameiginleg kristnum mönnum og teljast vera grundvöllur kristinnar trúar. Eigi að síður er eðlilegt, miðað við íslenska sögu og samtíð, að taka mið af evangelísk-lútherskri trúarhefð. Jafnframt er mikilvægt að gerð sé grein fyrir helstu sérkennum annarra kristinna kirkjudeilda.

Biblían er trúarbók kristinna manna og gyðinga (að hluta) og íslam á sér einnig rætur í Gamla testamentinu. Hún hefur því haft víðtæk áhrif á trú, siðgæði og menningu í heiminum. Má í því sambandi minna á áhrif hennar á bókmenntir, myndlist og tónlist auk áhrifa hennar á íslenska tungu. Því er í námskránni stefnt að því að nemendur þekki efni Biblíunnar, geri sér grein fyrir trúarlegu og menningarlegu mikilvægi hennar og kynnist jafnframt sögu hennar sem ritsafns.

Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði.

Trúarbragðafræðsla er umfangsmikið viðfangsefni. Eðlilegt er að beina sjónum nemenda fyrst og fremst að útbreiddustu trúarbrögðum heims, svo sem búddadómi, hindúasið, íslam og gyðingdómi. Í tengslum við landafræði og sögu er mikilvægt að skoða átrúnað í þeim samfélögum sem fjallað er um hverju sinni. Í yngstu bekkjum grunnskólans er stefnt að því að nemendur kynnist framandi trúarbrögðum með frásögnum af jafnöldrum og hvernig trú þeirra hefur áhrif á daglegt líf. Í efstu bekkjum grunnskóla er síðan farið kerfisbundið í helstu trúarbrögð heims.

Með vaxandi fjölda nýbúabarna frá ólíkum menningarsvæðum þarf skólinn að huga að því, í samvinnu við heimili þeirra, hvernig koma má til móts við óskir um að þau fái fræðslu um eigin trú og menningu. Þá er æskilegt að nýta þá möguleika sem blandaður nemendahópur gefur til að kynna nemendum ólíka trú og siði og stuðla þannig að auknum skilningi, virðingu og umburðarlyndi.

Miklar breytingar hafa orðið á kennslu þessara fræða í skyldunámsskólum á þessari öld. Framan af voru eingöngu kennd kristin fræði og var fræðslan skilgreind í lögum sem skírnarfræðsla kirkjunnar. Síðustu áratugi hefur greinin alfarið verið á ábyrgð skólayfirvalda og skilgreind af þeim.

Inntak greinarinnar hefur einnig breyst, svo og framsetning efnisins. Hlutur siðfræðinnar og trúarbragðafræðanna hefur aukist að mun á síðustu áratugum.

Í þessari námskrá eru biblíusögur veigamikill þáttur og gert ráð fyrir að leitað sé eftir trúarlegri merkingu þeirra, menningaráhrifum og tengslum við daglegt líf. Þá er ætlast til að nemendur öðlist þekkingu og skilning á trúarlegum hugtökum. Sama á við um fræðslu um önnur trúarbrögð.

Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og er því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum. Liður í því er að nemendur séu hvattir til að setja sig í annarra spor og skoða viðkomandi átrúnað innan frá, með augum hins trúaða.

Enda þótt gert sé ráð fyrir að fengist sé við siðræn viðfangsefni á skipulegan hátt er enn mikilvægara að kennari sé vakandi fyrir því að taka siðferðileg álitamál til umræðu þegar tilefni gefst, hvort heldur er innan skólans (bekkjarins) eða í samfélaginu almennt.

Öll kennsla, sem fæst við álitamál svo sem trú og lífsskoðanir, siðgæði og mannleg samskipti, gerir miklar kröfur til kennarans. Hún þarf að vera málefnaleg og einkennast af víðsýni og vilja til að skilja og virða fólk með mismunandi trúar- og lífsskoðanir.

Kristin fræði, siðfræði og fræðsla um önnur trúarbrögð gefur kennara tækifæri til að beita fjölbreytilegum kennsluaðferðum.

Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði tengjast fjölmörgum öðrum greinum með margvíslegum hætti á öllum skólastigum. Mikilvægt er að kennarar nýti þá möguleika til samþættingar sem bjóðast enda auðgar það og styrkir ekki aðeins þetta nám heldur einnig nám í öðrum greinum. Við skipulag kennslu ættu kennarar að huga sameiginlega að þessum möguleikum og hafa samvinnu um þá.

Af þeim námsgreinum, sem nærtækastar eru, má t.d. nefna sögu enda er saga kirkju og kristni samofin stjórnmála- og menningarsögu. Þá má nefna móðurmál með margvíslegum vísunum í biblíuleg minni í bókmenntum og áhrifum Biblíunnar á daglegt mál um aldir. Listgreinar, einkum tónlist, myndlist og byggingarlist, eru ríkar af trúarlegri tjáningu að fornu og nýju. Þá eru tengsl við nýja námsgrein, lífsleikni, ótvíræð þar sem báðum greinunum er ætlað að stuðla að persónuþroska og styrkja sjálfsmynd og siðferðilega dómgreind nemenda. Sama gildir um heimspeki þar sem hún er kennd. Að lokum má nefna náttúrufræði, landafræði og umhverfisvernd enda fást þessar greinar í ríkum mæli við manninn og tengsl hans við umhverfi sitt.

Þessi upptalning er síður en svo tæmandi en gefur hugmynd um margvíslega möguleika til tengsla sem auka fjölbreytni kennsluhátta og stuðla að heildstæðri sýn á lífið og tilveruna.
 

Námsmat

Það sem segir um námsmat í almennum hluta aðalnámskrár á við um kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði. Meta skal árangur nemandans við að ná þeim markmiðum sem sett eru. Þau fela í sér þekkingu sem afla skal, færni til gagnrýninnar hugsunar og viðhorf, svo sem virðingu og umburðarlyndi, sem nemendur eiga að tileinka sér.

[Til baka]


EAN 1999