[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Danska

Inngangur

Danska er annað erlenda málið sem nemendur læra í grunnskóla. Með námi í dönsku er stuðlað að því að viðhalda og efla tengsl við Norðurlönd. Danska er kennd vegna samskipta og menningartengsla norrænna þjóða og einnig sækir stór hópur Íslendinga nám og störf á Norðurlöndum. Lifandi tungumál eru síbreytileg og tengsl málnotkunar og menningar eru órjúfanleg. Mikilvægt er að viðfangsefnin gefi nemendum ávallt tækifæri til að kljást við málið í margbreytileik sínum og við sem fjölbreytilegastar aðstæður. Viðfangsefnin þurfa að vera þess eðlis að þau opni nemendum sýn á menningu, siði og lifnaðarhætti í Danmörku.

Nauðsynlegt er að tengsl tungumála, félagslegra samskipta og menningar endurspeglist í kennslunni. Kynni af dægurmenningu og samskiptaháttum eru lykilatriði eigi nemendur að ná þeim tökum á erlendu máli að það nýtist þeim í námi og starfi. Í því skyni að nemendur kynnist menningu, siðum og þjóðfélagsháttum í Danmörku ber að stuðla að persónulegum samskiptum nemenda og Dana, t.d. með bréfa- og tölvusamskiptum, nemendaheimsóknum og kennaraskiptum. Þá er æskilegt að gera menningu Danmerkur sýnilega í kennslustofunni, með því meðal annars að nota efni sem fjallar á ólíkan hátt um málefni líðandi stundar, t.d. í dagblöðum, tímaritum, sjónvarpi, útvarpi eða á Netinu.

Á öllum stigum námsins ber að stuðla að því að nemendur fái sem oftast tækifæri til að upplifa dönskuna eins og hún er notuð í daglegu lífi af þeim sem hafa hana að móðurmáli. Í byrjendakennslu er haft að leiðarljósi að nemendur fjalli fyrst um þá þætti sem standa þeim næst, þ.e. sjálfa sig, nánasta umhverfi og reynsluheim sinn. Smám saman er efnið og sjónarsviðið víkkað út og fært frá nemendum sjálfum og fjallað er um ýmis efni á sífellt óhlutlægari hátt. Þannig er reynt að binda ákveðinn orðaforða inn í námið, setja hverjum efnisflokki þau mörk sem hæfa aldurs- eða námsstigi og jafnframt tryggja stígandi í viðfangsefnum.

Til að reyna að tryggja að allir nemendur hafi sömu viðmið um tileinkun orðaforða og þjálfun færniþátta eru gerðar tillögur að ákveðnum efnisflokkum fyrir hvert þrep grunnskólans og sett fram nokkuð nákvæm þrepamarkmið fyrir alla færniþætti sem jafnframt rúma talsverða menningarmiðlun. Kennarar hafa svigrúm til að ákveða hversu viðamikil viðfangsefnin verða og velja aðra efnisflokka.
 

Málnotkunaratriði í 7.-10. bekk

Eftirfarandi eru þau atriði sem nemendum er ætlað að læra á hverju þrepi. Ekki er átt við að þeir eigi að þylja upp einstakar reglur og undantekningar, heldur hafi skilið og geti beitt þessum atriðum í tali og rituðu máli.

Nemandi

[Til baka]

EAN 1999