[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Enska

Inngangur

Enska er fyrsta erlenda málið sem nemendur læra í íslenskum grunnskólum samkvæmt aðalnámskrá. Enska er það mál sem mest er notað á sviði fræðslu og vísinda og í alþjóðlegum samskiptum í heiminum. Mikilvægt er að enskukennslan veiti nemendum innsýn í þann heim. Netið og margmiðlunarefni er heppilegt til enskukennslu. Efni á ensku á Netinu býðst um nánast hvað sem er og getur því verið kærkomin viðbót við námsefni í ensku og öðrum greinum.

Með námi í ensku er mikilvægt að viðhalda hefðbundnum tengslum við Bretland og Bandaríkin. Jafnframt er mikilvægt að opna augu nemenda fyrir enskumælandi svæðum eins og Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi og hinum ótalmörgu löndum þar sem enska er töluð sem annað mál og veita nemendum þar með aukna innsýn inn í hinn margbreytilega enskumælandi heim og menningaráhrif sem þar ríkja.

Gert er ráð fyrir að byrjað sé á viðfangsefnum sem snerta nemandann sjálfan og nánasta umhverfi hans og smám saman verði sjónarhornið fært frá honum yfir á óhlutbundnari viðfangsefni. Eðlilegt er að gera vaxandi kröfu um þyngd á hlustunarefni, lesefni og viðfangsefnum sem nemendur tjá sig um og að nemendur nái betri tökum á þeim lögmálum sem gilda í málnotkun í töluðu og rituðu máli. Jafnframt þurfa þeir að gera sér ljóst mikilvægi eigin vinnu til að framfarir verði í námi.
 
[Til baka]


EAN 1999