[Til baka]

Aðalnámskrá grunnskóla
Erlend tungumál

FORMÁLI

Í aðalnámskrá grunnskóla eru markmið í ensku og dönsku og norsku/sænsku. Er þetta í fyrsta sinn sem markmið í norsku/sænsku koma fram í aðalnámskrá.

Markmið í erlendum tungumálum í grunnskóla eru sett fram innan fjögurra færniþátta sem eru hlustun, lestur, talað mál og ritun. Markmið í hlustun og lestri taka einkum til atriða sem snerta skilning á erlendum tungumálum og markmið í töluðu máli og ritun til atriða sem snerta tjáningu á erlendum málum.

Markmið í erlendum tungumálum eru fyrst og fremst færnimiðuð, þ.e. þau lýsa því hvað nemendur eiga að vera færir um að gera. Eðli lokamarkmiða í hverju tungumáli er að gefa heildarmynd af því sem stefnt er að með náminu. Áfangamarkmið í erlendum tungumálum miðast við nám að loknum 7. bekk og 10. bekk. Í þeim eru tekin saman þau atriði sem nemendur eiga að hafa tileinkað sér á undangengnum árum í námi. Þrepamarkmiðin lýsa megináherslum á hverju námsári og þarf útfærsla þeirra að taka að einhverju leyti mið af mismunandi getu nemenda í hverjum aldurshóp. Nánar er fjallað um markmiðasetningu í almennum hluta aðalnámskrár.
 

INNGANGUR

Tungumál greina jarðarbúa í þjóðir, afmarka menningarheildir og oft landamæri. Tungumálið hefur gert þjóðum kleift að varðveita menningararfleifð sína og siðvenjur sem flust hafa frá einni kynslóð til annarrar.

Kunnátta í erlendum tungumálum og innsýn í menningu annarra þjóða getur lagt grunn að skilningi, virðingu og umburðarlyndi og er ein af forsendum þess að geta átt farsæl samskipti og samvinnu við einstaklinga af öðru þjóðerni.

Samvinna milli landa og heimsálfna eykst stöðugt á öllum sviðum og er mikilvægt að nemendur séu undir slíkt búnir í námi sínu. Kunnátta í erlendum tungumálum er mikilvægur lykill að fræðslu, námi og atvinnutækifærum. Fyrir fámenna þjóð eins og Íslendinga, sem eiga mál sem hvergi er þjóðtunga nema á Íslandi, skiptir kunnátta í erlendum tungumálum sérlega miklu máli. Íslendingum er nauðsynlegt að geta sótt nýja þekkingu til annarra þjóða samhliða því að koma eigin þekkingu á framfæri.

Kunnátta í erlendum tungumálum er nauðsynleg í daglegu lífi. Má nefna sem dæmi að ýmsar upplýsingar um verslunarvarning eru á erlendum málum, við þurfum að geta bjargað okkur á ferðalögum erlendis, geta átt samskipti við ferðamenn á Íslandi, geta átt samskipti við fólk erlendis og nýtt okkur upplýsingar í tölvutæku formi. Fyrir grunnskólanemendur er dýrmætt að geta notað erlend tungumál sér til gagns og ánægju. Því þarf að leggja áherslu á að tungumálanámið sé hagnýtt og víkki sjóndeildarhringinn.

Meginmarkmið náms í erlendum tungumálum í grunnskóla er að nemendur geti notfært sér kunnáttu sína til að afla sér þekkingar, eiga samskipti og geta miðlað upplýsingum um sig og umhverfi sitt. Mikla áherslu þarf því að leggja á málnotkun. Nemendur þurfa að ná tökum á færni og kunnáttu sem gerir þeim kleift að skilja málið eins og það er notað við raunverulegar aðstæður. Þeir þurfa sjálfir að geta talað málið og skrifað og kunna skil á reglum þess. Jafnframt þurfa þeir að öðlast innsýn í menningu sem bundin er tungumálinu. Mikilvægt er að nemendur verði meðvitaðir um hvernig þeir geta sjálfir styrkt og bætt kunnáttu sína.

Í upphafi náms í erlendu tungumáli þarf að leggja sérstaka áherslu á að nemendur nái tökum á undirstöðuatriðum. Fyrsta erlenda tungumálið, sem nemendur læra, er enska. Enskukennsla hefst í 5. bekk grunnskóla. Nám í dönsku hefst í 7. bekk og nám í norsku og sænsku getur komið í stað dönsku fyrir þá nemendur sem uppfylla ákveðin skilyrði um fyrri kynni af þeim málum. Nám í öðrum tungumálum er háð framboði á valgreinum í hverjum skóla, sbr. reglugerð um valgreinar í grunnskólum. Slíkt nám getur verið einingabært sem nám í framhaldsskóla.
 

Nám og kennsla

Markmið í erlendum tungumálum eru sett fram í lokamarkmiðum, áfangamarkmiðum og þrepamarkmiðum. Áfanga- og þrepamarkmið eru sett fram í fjórum færniþáttum sem eru hlustun, lestur, talað mál og ritun. Nemendur þurfa jafnframt að öðlast þekkingu á margþættum lögmálum málsins, bæði þeim sem lúta að beitingu þess við ýmsar aðstæður og reglum um formgerðir, ásamt þekkingu á menningu og siðum þeirra sem málið tala.

Við raunverulega málnotkun beitir notandi ákaflega flókinni og margþættri kunnáttu og leikni. Mikilvægt er að þetta endurspeglist eftir því sem kostur er í viðfangsefnum þannig að nemendur fái sem oftast raunveruleg tækifæri til að nota erlenda málið við margbreytilegar aðstæður. Því er mikilvægt að nám sé sem heildstæðast og að unnið sé með færniþættina samþætta. Til að hnýta saman markmið innan mismunandi færniþátta og til að ná fram heildstæðri nálgun í kennslu er heppilegt að vinna með ákveðin viðfangsefni, efnisflokka eða þemu í nokkurn tíma í senn. Með því móti er hægt að láta nemendur hlusta á margvíslegt efni, lesa fjölbreytilega texta, tala og skrifa um sama meginviðfangsefnið út frá breytilegum sjónarhornum. Þannig kynnast nemendur blæbrigðum málsins og margbreytileika, vinna markvisst með orðaforða og reglur um málbeitingu. Ekki er síður mikilvægt að tengja tungumálanám við aðrar námsgreinar og gefa nemendum tækifæri til að reyna á kunnáttu sína, t.d. við efnisöflun og heimildanotkun í öðrum námsgreinum.

Til þess að ná markmiðum málanáms er mikilvægt að beita mismunandi kennsluaðferðum, bæði einstaklingsmiðuðum og samvinnunámi. Allt fer þetta eftir eðli og umfangi verkefna hverju sinni.

Viðfangsefni þurfa að vera fjölbreytt og krefja nemendur um mismunandi verklag. Sum verkefni krefjast ítrustu nákvæmni en önnur beinast að því að vinna hratt og situr nákvæmni þá ekki í fyrirrúmi. Sjaldnast er nauðsynlegt að skilja hvert einasta orð talaðs máls eða við lestur skáldsögu. Öðru máli gegnir þegar fylla þarf út umsókn, ganga frá hreinritun texta eða fylgja leiðbeiningum. Smám saman þurfa nemendur að átta sig á hvenær er viðeigandi að beita mismunandi verklagi, t.d. hraðlestri og nákvæmnislestri.

Miklu skiptir að skapa nemendum sem flest tækifæri til að tala málið, t.d. með hlutverkaleikjum, leikþáttum, frásögnum eða viðtölum sem eru flutt fyrir bekkjarfélaga eða tekin upp á hljómbönd eða myndbönd.

Öll vinna með málnotkun og málfræði á að tengjast markvisst vinnu með orðaforða og notkun færniþáttanna fjögurra. Brýnt er að hafa í huga að málfræði og málnotkunarreglur hafa einkum hlutverki að gegna þegar málið er notað í ritun og tali. Nákvæmniskröfur í málfræði mega ekki yfirskyggja kröfur um færni í öðrum þáttum málanáms. Þegar unnið er með reglur málsins, t.d. málfræði, þurfa kennarar að vanda valið og beina sjónum að þeim þáttum málfræðinnar eða þeim málvenjum sem líklegastar eru til að valda íslenskum nemendum erfiðleikum eða sem sýnt er að muni valda misskilningi í tjáskiptum. Nemendur þurfa að venjast því að nota hjálpargögn, svo sem orðabækur og málfræðilykil, þegar leita þarf upplýsinga um undantekningar frá meginreglum málfræði og málnotkunar eða þegar þekkingu nemenda þrýtur.

Upplýsingatækni er mikilvæg í kennslu erlendra tungumála. Má þar nefna sérstök kennsluforrit, ritvinnslu, geisladiska, leitarvefi, vefslóðir, tölvupóst, spjallrásir og tungutækni.

Á þeim aldri, þegar börn hefja ensku- og dönskunám í grunnskóla, eru þau meðvituð um móðurmál sitt og notkun þess. Þau túlka hreyfingar, svipbrigði og raddblæ ekki síður en hið talaða orð. Mikilvægt er að kennarar notfæri sér þetta í byrjendanámi.

Mikilvægt er að kenna börnum grundvallarreglur um samskipti í upphafi málanáms. Öguð samskipti og jákvætt andrúmsloft skiptir sérstaklega miklu í byrjendanáminu þar sem leikur, athafnir og skapandi starf þarf að skipa stóran sess.

Forsendur nemenda við upphaf málanáms eru ólíkar. Námsefni og kennsluhættir verða að vera sveigjanlegir til að hver og einn geti lært út frá sínum forsendum. Mikilvægt er að nemendur öðlist jákvætt viðhorf til málanámsins, að máltilfinning þeirra sé örvuð og að þeir geti notað kunnáttu sína sér til gagns og ánægju. Með því er lagður traustur grunnur að málanámi.

Sérstaklega verður að gæta þess að viðfangsefni hæfi þroska barnanna og örvi máltöku þeirra sem mest. Í upphafi þarf því að leggja megináherslu á

Ferlisverkefni

Ef unnið er með efnisflokka eða þemu eru ferlisverkefni heppileg til að fá fram fjölbreytni í efni og aðferðum. Þau bjóða upp á að nemendur noti málið í heild sinni og margbreytileika. Til að skýra þá stefnu, sem boðuð er, eru sýnd tvö dæmi um möguleika á útfærslu. Þau henta best nemendum sem hafa töluvert nám að baki, t.d. 10. bekkjar nemendum. Til að nota slík verkefni með yngri nemendum þarf að einfalda þau. Þegar unnin eru verkefni eins og hér er lýst er mikilvægt að huga vel að efnisöflun, úrvinnslu og sjálfu ferlinu.

Efnisöflun: Dagblöð, vikublöð, íþróttablöð, ferðabæklingar, ferðasögur, sjónvarp, útvarp, farið á vettvang, upplýsingar sóttar á heimasíður, bréfaskipti á tölvuneti við jafnaldra eða fyrirspurnir sendar til stofnana eða fyrirtækja.

Úrvinnsla: Myndbandsþáttur, veggblað/veggspjald, bæklingur, leikþáttur, fyrirlestur, kynning, ferðaskrifstofa (hlutverkaleikur), vefsíðugerð (til að senda öðrum).

Ferlið: Skoða efni, safna orðaforða, velja og hafna og setja síðan í samhengi sem hentar og loks að koma hugmyndum í orð. Þegar um viðamikil verkefni er að ræða má hugsa sér tvenn skil; fyrst að reifa hugmynd og síðan að skila í endanlegu formi. Önnur útgáfan gæti verið munnleg en hin skrifleg.

Eitthvað þessu líkt má gera við hvaða efni sem er, láta hugarflugið ráða og nýta sem flest tjáningarform.
 

Talmálsverkefni

Dæmi: Störf fyrir unglinga

Þemaverkefni

Dæmi: Vetraríþróttir
Byrjað er með kynningu og þankahríð á töflu/glæru. 2-4 vinna saman, umfang verkefna er mismikið. Hver hópur velur sér viðfangsefni og getur sjónarhornið verið

Námsmat

Mikilvægt er að mat endurspegli þjálfun færniþátta í kennslu. Grundvöllur námsmats eru markmið námsins. Námsmat á að endurspegla leiðir, innihald og verkefni sem unnið hefur verið með. Árangur skal metinn, bæði með símati á verkefnum sem unnin eru á kennslutímanum og prófum í lok annar eða skólaárs. Í námsmati skal taka mið af þeim fjórum færniþáttum sem fram koma í markmiðum. Auk þess er mat á orðaforða hluti af námsmati í öllum færniþáttum. Óvirkur orðaforði, þ.e. orðaforði til að skilja, er metinn í lestri og hlustun en virkur orðaforði, þ.e. orðaforði til að beita, í ritun og tali.
 

Hlustun

Í hlustun getur nemandi annars vegar verið í hlutverki hlustanda og hins vegar í hlutverki hlustanda og mælanda. Meta þarf alla færniþætti innan hlustunar eftir því sem þeir eru þjálfaðir. Þrep innan hlustunar eru að

Lestur

Námsmat í lestri þarf að byggjast á lestraraðferðum sem áhersla er lögð á í þrepamarkmiðunum, þ.e. leitarlestri, yfirlitslestri, hraðlestri og nákvæmnislestri. Mikilvægt er að lesskilningur sé metinn út frá ólesnum textum.
 

Talað mál

Námsmat í töluðu máli þarf að byggjast á því að nemandi fái tækifæri til að tjá sig á eigin forsendum um efni sem er honum kunnuglegt.
 

Ritun

Mikilvægt er að mat á ritunarverkefnum endurspegli tilgang og eðli verkefnisins og að nemandi fái tækifæri til að tjá sig um viðfangsefni sem er honum kunnuglegt.

Dæmi um útfærslu á námsmati
 

Lestur

Mikilvægt er að mat á lestri endurspegli aðferðir sem nemendur þurfa að tileinka sér og lögð er áhersla á í þrepamarkmiðum.

Hraðlestur hentar fyrst og fremst þegar lesið er sér til fróðleiks og skemmtunar. Verkefni úr hraðlesnu efni þurfa að endurspegla hlutverk sitt og geta verið að greina frá helstu atburðum og/eða persónum og persónueinkennum í skáldsögu eða segja frá hvað fræðandi efni fjallar um.

Leitarlestri er fyrst og fremst beitt til að leita í texta að ákveðnum upplýsingum, s.s. í blaðaauglýsingum, t.d. til að kaupa hlut eftir smáauglýsingu, að leita að fyrir fram gefnum, afmörkuðum upplýsingum í lengri texta, t.d. í blaða- eða tímaritsgrein, um merkispersónu, hvaða ár var hún fædd? hvar bjó hún? við hvað starfaði hún? o.s.frv.

Í yfirlitslestri lesa nemendur texta hratt yfir og ákveða hvort þeir eru þess virði að lesa nánar, t.d. til að nota í þemavinnu. Mikilvægt er að texti sé nemendum auðskiljanlegur til þess að þeir geti leyst slík verkefni af hendi.

Nákvæmnislestri er beitt þegar skilja þarf texta til hlítar.

Verkefni geta verið af margvíslegum toga, s.s. að nemendur

Almenn ritun

Mati á ritun, t.d. í 10. bekk, má skipta upp í fjóra þætti, uppbyggingu, innihald, orðaforða og málnotkun. Þá má greina í smærri undirþætti og skilgreina hvaða geta/færni liggur að baki hverjum þeirra. Innbyrðis vægi þáttanna fer eftir aldri nemenda og markmiðum.

Hraðritun
Eftir að unnið hefur verið með ákveðið þema (efnisflokk) getur mat á hraðritun (t.d. í 10 mín.) beinst að orðaforða og hvort hann er notaður í eðlilegu samhengi. Einfalt er þá að telja orð sem nemandi notar (rétt) og flokkast undir tilgreint þema.
 

Tal

Hér eru sýnd tvenns konar dæmi um hvernig mögulegt er að meta talað mál.

Myndbandsverkefni.

Verkefnið getur verið ígildi munnlegs prófs eða hluti af munnlegu prófi. Hér sem fyrr ræðst innbyrðis vægi þáttanna af aldri nemenda og eðli verkefnis.
 
Innihald (efni, lengd, uppbygging)
Málnotkun (málbeiting, málfræði)
Orðaforði
Framburður
______ stig 
 ______ stig 
 ______ stig 
 ______ stig 
______ stig alls
Samtal
Dæmi um viðmiðanir við mat á samtölum nemenda

Þemavinna / þverfagleg vinna

Dæmi um matsþætti við mat á þemavinnu / þverfaglegri vinnu Vægi þáttanna innbyrðis getur verið breytilegt eftir aldri nemenda og eðli verkefnis. Þeir þættir, sem snúa að tungumálinu, þurfa þó að vega þyngst.
 
[Til baka]

EAN 1999