Yfirlit

Næsta síða

0. Inngangur

 0.1 Skipan hópsins, erindisbréf og vinnutilhögun

 Forvinnuhópurinn var skipaður með erindisbréfi menntamálaráðherra dags. 26. febrúar 1997. Í hópnum voru:

Edda Kjartansdóttir, Vesturbæjarskóla, Reykjavík.
Höskuldur Þráinsson, Háskóla Íslands, Reykjavík (formaður hópsins).
Ólafur Oddsson, Menntaskólanum í Reykjavík.
Páll Ólafsson, Æfingaskóla Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.
Sigurður Konráðsson, Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, Fjölbrautaskólanum við Ármúla, Reykjavík.
Valdimar Gunnarsson, Menntaskólanum á Akureyri.

Faglegur umsjónarmaður endurskoðunar námskrár á námssviði móðurmáls, Sigfús Aðalsteinsson, vann með hópnum. Auk þess hafði hópurinn samband við sérstakan bakhóp sem Samtök móðurmálskennara höfðu tilnefnt til að vera fulltrúum sínum í hópnum til stuðnings.

Í erindisbréfi var hópnum falið að:

 1.  

  Rökstyðja þörf og tilgang námssviðs og námsgreina innan þess.

 2.  

  Setja fram tillögur um lokamarkmið námsins, a) á grunnskólastigi, b) á framhaldsskólastigi.

 3.  

  Gera tillögu, ef ástæða þykir til, um breytingar á skipulagi/uppbyggingu námsins.

Forvinnuhópurinn kom saman til fyrsta fundar 13. mars 1997, en þá hafði faglegur umsjónarmaður unnið mikið undirbúningsstarf og aflað margvíslegra gagna til að nota við vinnuna. Meðal gagnanna má telja þetta:

 1.  

  Lög og reglugerðir um grunnskóla og framhaldsskóla.

 2.  

  Námskrár handa grunnskólum og framhaldsskólum.

 3.  

  Ýmsar skýrslur, álitsgerðir og tillögur unnar á vegum menntamálaráðuneytisins eða fyrir það.

 4.  

  Eldri tillögur, gögn og skýrslur tengdar námskrármálum frá ýmsum aðilum (m.a. frá samstarfshópi Samtaka móðurmálskennara og menntamálaráðuneytisins 1992)

 5.  

  Sérstök gögn varðandi endurskoðun aðalnámskrár 1996-1998 (skipurit, verkefnalýsingar).

 6.  

  Viðbótargögn sem varða móðurmálskennslu sérstaklega, bæði innlend og erlend (efni úr erlendum námskrám, yfirlit yfir tímafjölda í móðurmáli í ýmsum löndum o.m.fl.)

Frá miðjum mars og fram undir mánaðamótin maí-júní voru fundir haldnir að jafnaði vikulega en tvisvar í viku undir lokin. Síðasti fundur var haldinn 16. júní. Auk þess tók hópurinn þátt í málþingi Samtaka móðurmálskennara og menntamálaráðuneytisins um endurskoðun námskrár.

Í aðalatriðum má skipta vinnu hópsins í eftirtalda þætti:

 1.  

  Hópurinn reyndi að gera sér grein fyrir eðli verkefnisins og umfangi og kynna sér þau gögn sem aflað hafði verið áður en hópvinnan byrjaði.

 2.  

  Þátttakendur gerðu lista yfir markmið móðurmálskennslu á ýmsum sviðum, byggða á eigin reynslu, eldri námskrám, erlendum fyrirmyndum og ýmsum öðrum fyrirliggjandi gögnum.

 3.  

  Umræður um reynslu af eldri námskrám og hvernig hefði gengið að fylgja þeim. Sérstök athugun á tengslum samræmdra prófa við markmið námskrár og að hvaða leyti framkvæmd samræmdra prófa í móðurmáli undanfarin ár hefði verið í samræmi við markmið Aðalnámskrár grunnskóla í móðurmáli frá 1989.

 4.  

  Markmið móðurmálskennslu endurskoðuð og sérstaklega hugað að eðli þeirra og rökstuðningi fyrir þeim. Umræður um það hvaða markmið væru brýnust á hverju skólastigi og hvernig mætti skapa eðlilega stígandi frá einu skólastigi til annars en um leið tryggja nægilega samfellu.

 5.  

  Markmiðum móðurmálskennslu skipt í flokka, bæði eftir efni og eðli, og reynt að raða undirmarkmiðum og sértækum markmiðum í þessa flokka. Gerð tilraun til að skipta undirmarkmiðunum milli skólastiga.

 6.  

  Aflað frekari gagna um móðurmálskennslu í framhaldsskólum (áfangalýsingar, skólanámskrár, skýrslur...)

 7.  

  Málþing um markmið móðurmálskennslu og námskrárgerð, haldið í samvinnu Samtaka móðurmálskennara og menntamálaráðuneytis. Hugmyndir forvinnuhópsins kynntar þar.

 8.  

  Reynt að draga lærdóma af málþinginu og meta viðbrögð þar.

 9.  

  Markmiðin endurskoðuð og aðalatriðin dregin saman í skýrslu en nánari skýringar og hugmyndir um útfærslu útbúnar sem fylgiskjöl.

 10.  

  Skýrslan endurskoðuð og afhent menntamálaráðuneyti.

Verulegur hluti vinnunnar fór fram utan funda. Formaður hópsins og faglegur umsjónarmaður héldu utan um verkið og skipulögðu fundi, verkaskiptingu og miðlun gagna milli þátttakenda, en hópurinn í heild vann mjög vel saman og allir tóku virkan þátt í starfinu, bæði milli funda og á fundum.

Eins og mælt er fyrir um í ábendingum frá verkefnisstjórn endurskoðunar aðalnámskrár reyndi forvinnuhópurinn m.a. að taka mið af eftirfarandi atriðum í vinnu sinni:

 1.  

  Reynsla af gildandi námskrám.

 2.  

  Utanaðkomandi breytingar.

 3.  

  Fyrirmyndir í námskrám þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við.

Um fyrsta atriðið hafði hópurinn ýmsar ábendingar frá starfandi kennurum (að þeim kennurum meðtöldum sem sátu í hópnum) og athugasemdir í skýrslum, samþykktum og álitsgerðum. Annað atriðið varðar einkum breytingar á þjóðfélagsgerð og þó ekki síst þær nýju aðstæður sem hafa skapast í skólum með tölvu- og upplýsingatækni (sbr. bæklinginn Í krafti upplýsinga). Í sambandi við þriðja atriðið má sérstaklega nefna nýja norska námskrá fyrir grunnskóla (útg. 1996), auk þess sem ýmsir í hópnum höfðu kynnst skosku grunnskólanámskránni og þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki henni. Áhrifa frá þeirri námskrá gætti í ýmsum gögnum sem hópurinn hafði til hliðsjónar í vinnu sinni.

 

0.2 Efni skýrslunnar

Eins og sjá má af efnisyfirliti er skýrslunni skipt í kafla. Fyrsti kaflinn er almennur og þar er fyrst gerð grein fyrir meginmarkmiðum móðurmálskennslunnar, hvers eðlis þau eru og hvers konar rök koma við sögu þegar reynt er að meta mikilvægi einstakra þátta móðurmálskennslu og -náms. Í samræmi við erindisbréf nefndarinnar er því einnig lýst í kaflanum hvernig þau markmið sem fram koma í þessari skýrslu samræmast yfirlýstri stefnu menntamálaráðuneytisins og ýmsum hugmyndum sem nú eru í deiglunni. Þá er einnig vakin athygli á því hvaða tengsl eru milli markmiðanna í þessari skýrslu og þeirra markmiða sem eldri námskrár hafa sett á oddinn, hvað hópurinn telur að hafi mátt betur fara í móðurmálskennslu undanfarinna ára og að hvaða leyti megi reyna að bæta úr því með breyttum eða skýrari markmiðum í námskrá. Sérstakur gaumur var gefinn að hlutverki og áhrifum samræmdra grunnskólaprófa í móðurmáli og tengslum þeirra við markmið námskrár. Þá er lögð áhersla á að skilgreina samfelld og samræmd markmið í móðurmáli fyrir grunnskólann og framhaldsskólann, eins og erindisbréf gerir ráð fyrir, en það er nýtt í þessari námskrárvinnu og kemur auðvitað líka fram í öðrum köflum skýrslunnar. Loks er svo fjallað um tengsl íslensku og annarra móðurmála á Íslandi, m.a. í tengslum við nýbúafræðslu, en hópnum var falið að huga að því máli.

Á eftir almenna kaflanum er móðurmálskennslunni og móðurmálsnáminu skipt í nokkur svið á tiltölulega hefðbundinn hátt, gerð grein fyrir meginmarkmiðum hvers sviðs og síðan lýst ólíkum áherslum á þau (eða einstök atriði þeirra) eftir skólastigum. Þessi svið eru lestur, talað mál og framsögn, hlustun og áhorf, ritun, bókmenntir og málfræði. Þrátt fyrir þessa skiptingu er lögð megináhersla á það í skýrslunni að móðurmálskennslan (íslenskukennslan) eigi að vera heildstæð, þ.e. sviðin eigi að tengjast og skarast, þættirnir að fléttast saman og hvað eigi að styðja annað. Þessi áhersla er í samræmi við grunnskólalög (sjá t.d. 30. gr. laga nr. 66/1995) og þá stefnu sem boðuð hefur verið í fyrri námskrám, þótt henni hafi ekki alltaf verið fylgt í raun og ýmsir þættir í skólastarfi hafi unnið á móti henni. Þar sem framhaldsskólinn skiptist í allmargar brautir sem eru ólíkar að eðli og lengd þótti nauðsynlegt að gera nokkra grein fyrir því í sérstökum kafla hvaða markmið ætti að setja hæst í hinu samræmda grunnnámi framhaldsskólanna (4-6 einingar í áfangakerfi eða 1-2 ár í bekkjakerfi) og hverjum skyldi frekar sinnt í valáföngum eða á síðari árum framhaldsskólans.

Að loknu þessu yfirliti yfir markmið móðurmálskennslunnar á ýmsum skólastigum fyrir þá sem hafa íslensku að móðurmáli er fjallað um markmið sérstakrar íslenskukennslu fyrir þá sem hafa annað móðurmál. Í síðasta kaflanum er reynt að draga meginatriði saman, en í fylgiskjölum er gerð nánari grein fyrir því með dæmum hvernig hópurinn hugsar sér að hægt væri að útfæra meginhugmyndir hans í ritun námskrárinnar sjálfrar (eða móðurmálsköflum hennar), fjallað nánar um vanda þeirra sem eiga sér annað móðurmál en íslensku og sýndar tölur um hlutfall móðurmálskennslu af heildarkennslu í grunnskólum og framhaldsskólum á Íslandi og í nokkrum nágrannalöndum.

Yfirlit

Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1997
Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
dags: 15.09.1997