Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða

2. Markmið einstakra þátta móðurmálskennslunnar

2.1 Um markmiðin og skólastarfið

Í eftirfarandi undirköflum er markmiðum einstakra þátta móðurmálskennslunnar lýst og gerð tilraun til að skipta þeim milli skólastiga á þann hátt að ákveðin samfella sé tryggð en um leið sé þess gætt að eðlileg stígandi verði í móðurmálskennslunni og móðurmálsnáminu.

Þessi sundurgreining markmiðanna í einstaka þætti er nauðsynleg til skýrleiksauka og á að auðvelda starfið fyrir þá vinnuhópa sem taka við af forvinnuhópnum. Um leið er nauðsynlegt að þessi sundurgreining haldi sér í einhverju formi í námskránum sem byggðar verða á þessari skýrslu því ella er líklegt að þeir sem eiga að vinna eftir námskránum missi sjónar á einhverjum af þeim markmiðum sem móðurmálskennslan og móðurmálsnámið á að stefna að.

Eins og áður segir er stefnt að heildstæðri móðurmálskennslu í þessari námskrá, bæði á grunnskólastigi og framhaldsskólastigi. Forvinnuhópurinn telur þetta grundvallaratriði og leggur áherslu á að því verði komið vel til skila í námskránum. Í því felst m.a. að nauðsynlegt er að tryggja ákveðið jafnvægi í móðurmálskennslunni og vinna gegn ójafnvægi og slagsíðu. Kennari sem vanrækir ákveðinn hluta markmiðanna í kennslu sinni er því ekki að vinna samkvæmt námskrá. Samræmd próf sem miðast aðeins við takmarkaðan hluta af þeim markmiðum sem stefna ber að eru ekki í samræmi við námskrá.

Þótt markmiðin séu hér flokkuð eftir skólastigum má það ekki leiða til þess að reynt verði að steypa alla í sama mótið og láta alla fást við sömu viðfangsefni. Í grunnskólalögum er skýrt kveðið á um nauðsyn þess að hver nemandi fái kennslu við hæfi (sjá t.d. 2. mgr. 2. gr. og lokamálsgrein 29. gr. laga nr. 66/1995). Þetta felur í raun í sér að ákveðin námsaðgreining er lagaskylda (sbr. líka skýrslu stefnumótunarnefndar, bls. 3). Höfundar námskrár og kennarar þurfa að átta sig vel á því hvað þetta merkir. Hugsum okkur t.d. barn sem hefur lært að lesa áður en það kemur í skóla. Samkvæmt grunnskólalögum er beinlínis óheimilt að láta þetta barn sitja aðgerðarlaust og fylgjast með því vikum og mánuðum saman að öðrum nemendum í bekknum séu kenndir stafirnir. Það er lagaskylda að fá barninu verkefni við hæfi. Sama á við um aðra þætti móðurmálsins og í öðrum greinum: nemendur eiga lagalegan rétt á því að fá verkefni við hæfi, hvort sem um er að ræða nemendur sem þurfa sérstakan stuðning á tilteknu sviði eða nemendur sem eru sérstaklega vel staddir að einhverju leyti. Við þessu má bregðast á ýmsan hátt, t.d. með því að láta nemendur fá sérstök verkefni til að vinna að í kennslustundum og utan þeirra. Þetta gerir auðvitað auknar kröfur um verkstjórn og skipulag, auk þess sem góð vinnuaðstaða, t.d. á skólasafni, hlýtur að auðvelda slíkt verklag. Margir kennarar hafa þó sýnt að þeir geta stjórnað ólíkum hópum nemenda innan sama bekkjar við býsna frumstæðar aðstæður.

Svipaður vandi kemur upp þegar reynt er að samræma tiltekinn hluta náms í framhaldsskóla, t.d. það sem samsvarar 6 eða 9 einingum í áfangakerfi. Um þann vanda er fjallað sérstaklega í 3. kafla skýrslunnar, en þar er auðvitað kostur á fleiri úrræðum vegna þess að nemendur skiptast oft í hópa eftir áhugamálum og undirbúningi þegar í framhaldsskóla er komið.

2.2 Markmið lestrarkennslu

2.2.1 Meginmarkmið

Meginmarkmið lestrarkennslu í grunnskóla eru þessi:

færnimarkmið

Að nemendur séu vel læsir við lok grunnskólans.

þekkingarmarkmið

Að nemendur þekki nauðsynleg hugtök og tákn sem varða lestur, svo sem lestrarmerki og hugtök um ólíkar tegundir lestrar.

viðhorfsmarkmið

Að nemendur fái áhuga á lestri og geri sér grein fyrir mikilvægi góðrar lestrarkunnáttu.

Rökin fyrir þessum markmiðum eru af öllum þeim fjórum gerðum sem taldar eru upp hér á undan:

nytsemdarrök

Lestrarfærni er nauðsynleg til þess að menn geti tekið virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi nútímans, t.d. fylgst með fréttum, aflað sér upplýsinga, notfært sér lýðréttindi sín o.s.frv. Einnig getur verið nytsamlegt að geta lesið texta upphátt, skýrt og áheyrilega.

námsrök

Góð færni í lestri er undirstaða alls náms.

menntunar- og menningarrök

Lestrarkunnátta er undirstaða almennrar menntunar. Um leið er færni í lestri og áhugi á lestri forsenda þess að menn njóti góðra bókmennta og nýti sér bóklestur til afþreyingar og skemmtunar. Mikilvæg færni er líka fólgin í því að geta lesið upphátt svo aðrir njóti þess, t.d. börn.

Hópurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að lestrarkennslu og lestrarþjálfun sé haldið áfram í gegnum allan grunnskólann. Í upphafi er auðvitað einkum um það að ræða að ná tökum á undirstöðuatriðum lestrar, en á síðari stigum grunnskólans er áherslan á það að geta lesið sér til gagns og gleði. Á þeim stigum tengist lestrarþjálfunin upplýsingaöflun, öðru námi og kynningu bókmennta af ýmsu tagi. Mikilvægt er að leggja áherslu á fjölbreytt lesefni, en gera nemendum jafnframt grein fyrir því að nauðsynlegt er að ná tökum á ólíkum tegundum lestrar, svo sem námkvæmnislestri, yfirlitslestri, leitarlestri, upplestri, hraðlestri. Lestrarkeppni, þar sem mest áhersla er lögð á að lesa sem flestar bækur eða texta á sem skemmstum tíma, getur verið þáttur í því að þjálfa nemendur í ákveðinni tegund lestrarfærni og getur líka vakið áhuga á bóklestri, en ekki er síður mikilvægt að kenna nemendum að lesa vandlega með áherslu á skilning og listræna nautn.

Viðhorfsmarkmiðið, það markmið að vekja áhuga nemenda á lestri og gera þeim grein fyrir mikilvægi góðrar lestrarkunnáttu, á við á öllum stigum grunnskólans, og raunar líka í framhaldsskóla. Færnimarkmiðinu má skipta niður í eftirfarandi undirmarkmið:

að ná tökum á undirstöðuatriðum lestrar - fyrir því markmiði má færa nytsemdarrök, námsrök og menntunarrök,

að geta lesið sér til gagns - fyrir því markmiði má færa nytsemdarrök, námsrök og menntunarrök,

að geta lesið sér til gleði - fyrir því markmiði má færa menningarrök.

Þessum undirmarkmiðum má ná í áföngum og þeim má skipta niður eftir námsárum eða áföngum í grunnskólanum eins og hér verður sýnt. Almennt gildir auðvitað að viðfangsefnin eiga að stigþyngjast ár frá ári og frá einum áfanga til annars. Þar verður þó að gæta þess að hver nemandi sé að fást við verkefni sem eru í samræmi við getu hans.

 

2.2.2 Markmið á einstökum skólastigum - samfella og stígandi

Á fjórða námsári grunnskóla á nemandinn

að hafa náð tökum á undirstöðuatriðum lestrar, en í því felst m.a. að geta lesið einfaldan texta, þekkja helstu lestrarmerki og geta lesið upphátt og í hljóði á sæmilegum hraða,

að vera byrjaður að lesa sér til gagns og upplýsingaöflunar, en í því felst m.a. að kunna stafrófið og geta notfært sér það við notkun handbóka, geta lesið texta sem fylgir erlendu myndefni og geta notað bækur til að afla sér upplýsinga vegna verkefna,

að vera byrjaður að lesa sér til skemmtunar og afþreyingar, en það þýðir m.a. að geta lesið og skilið einfaldar sögur og ljóð og sökkt sér niður í stuttar áhugaverðar bækur.

Á sjöunda námsári á nemandinn

að hafa fengið frekari þjálfun í því að lesa sér til gagns og vera þá orðinn vel læs á nytjatexta af ýmsu tagi, geta safnað upplýsingum, valið úr þeim og túlkað þær, einnig tölulegar og myndrænar upplýsingar,

að hafa fengið hvatningu til og þjálfun í að lesa sér til gleði, skemmtunar og afþreyingar og vera farinn að lesa heilar bækur að eigin frumkvæði, ná efnisþræði þeirra og geta endursagt hann eða rætt um sögurnar, og geta lesið laust og bundið mál upphátt á skýran og blæbrigðaríkan hátt.

Við lok tíunda bekkjar á nemandinn

að hafa náð góðum tökum á því að lesa sér til gagns og vera fær um að nýta sér flókna nytjatexta, átta sig á áróðursaðferðum, vera leikinn í því að notfæra sér upplýsingamiðla, geta náð til hlustenda í upplestri og hafa náð tökum á hraðlestri,

að vera orðinn góður lesandi bókmennta og afþreyingarefnis og hafa lesið ljóð og laust mál af margvíslegu tagi, gamalt og nýtt, og fengið þjálfun í að ræða um og meta slíkt efni, og geta lesið bókmenntalega texta upphátt þannig að efni og form njóti sín.

Á fyrstu árum framhaldsskóla á nemandinn

að treysta kunnáttu sína á öllum sviðum lestrar, þjálfa leshraða sinn og lesskilning og öðlast þannig vald á leitarlestri, yfirlitslestri og nákvæmnislestri, fá reynslu af því að lesa sem fjölbreyttasta texta, bæði nytjatexta og bókmenntatexta frá ýmsum tímum eftir því sem við á, átta sig á eðli þeirra geta rætt og ritað um þá.

Á síðari árum framhaldsskóla á nemandinn

að fá sérþjálfun í bókmenntalestri með því að lesa vandlega valda bókmenntatexta frá ýmsum tímabilum bókmenntasögunnar, ræða um textana og rita um þá.

 

2.3 Markmið kennslu í töluðu máli og framsögn

2.3.1 Meginmarkmið

Meginmarkmið kennslu í töluðu máli og framsögn eru þessi:

færnimarkmið

Að nemendur geti flutt mál sitt skýrt, áheyrilega, eðlilega og skipulega þannig að eftir sé tekið.

þekkingarmarkmið

Að nemendur kunni skil á helstu hugtökum sem varða talað mál og framsögn, þekki mun talmáls og ritmáls, mismunandi framburðarmállýskur á Íslandi og geri sér grein fyrir ólíkum kröfum til talaðs máls og framsagnar eftir aðstæðum.

viðhorfsmarkmið

Að nemendur læri að meta góða framsögn og skýran málflutning og temji sér umburðarlyndi í málfarsefnum, t.d. að því er varðar mállýskumun.

Rökin fyrir þessum markmiðum eru einkum þessi:

nytsemdarrök

Það er gagnlegt að geta flutt texta munnlega, skýrt og áheyrilega við ýmiss konar aðstæður, svo sem í skóla, í félagsstarfi, á fundum, á ýmiss konar vinnustöðum (þjónustustörf, leiðbeinendastörf...), í fjölmiðlum o.s.frv. Í lýðræðisþjóðfélagi er brýnt að geta tekið virkan þátt í umræðum af ýmsu tagi, bæði í námi, atvinnulífi og félagslífi.

námsrök

Góð framsögn og skýr framburður getur nýst í ólíkum námsgreinum. Þjálfun og færni í því að gera skipulega grein fyrir kunnáttu sinni og skoðunum er líka mikilvæg fyrir nemendur á öllum skólastigum og flestum námsgreinum. Í móðurmáli stuðlar þjálfun í töluðu máli að betra valdi á máli, festir orðaforða. Gott vald á munnlegri tjáningu í móðurmáli er vænleg undirstaða undir tungumálanám og samskipti við fólk á erlendum málum.

menntunar- og menningarrök

Þeir sem hafa gott vald á töluðu máli, framsögn og samræðulist hafa góð tök á að miðla fræðslu- og menningarefni til annarra og njóta betur félagslegra samskipta. Þekking á mállýskum og málfarsmun eykur víðsýni og umburðarlyndi.

Hópurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að þjálfun í töluðu máli og framsögn sé sinnt á öllum skólastigum. Til þæginda má greina þjálfun í töluðu máli og framsögn í tvo meginþætti, þótt þeir séu oft samofnir í reynd: a) framburðar- og framsagnarþáttur, b) frásagnar-, samræðu- og umræðuþáttur. Fyrri þátturinn varðar þá sjálfan framburðinn og taltæknina og fyrir honum má færa nytsemdarrök, námsrök og menntunar- og menningarrök af því tagi sem þegar var lýst. Síðari þátturinn varðar innihaldið og færni í því að koma efni til skila í frásögn og umræðum og fyrir honum má færa öll hin sömu rök. Nauðsynlegt er að áherslur á einstaka þætti séu mismunandi eftir aldri og þroska nemenda þannig að eðlileg stígandi verði í greininni. Þannig verði í upphafi lögð mest áhersla á skýran og eðlilegan framburð allra málhljóða, þjálfun í einföldum frásögnum, eðlilega þátttöku í venjulegum samræðum og einföldum hlutverkaleikjum. Á síðari stigum bætist við kennsla um einkenni talmáls, fræðsla um mállýskur, frekari þjálfun í leikrænni tjáningu, rökræðum o.s.frv.

 

2.3.2 Markmið á einstökum skólastigum - samfella og stígandi

Á fjórða námsári grunnskóla á nemandinn

að hafa náð tökum á undirstöðuatriðum íslensks framburðar, en í því felst að geta borið fram öll íslensk málhljóð, geta talað skýrt og áheyrilega og notað látbragð á viðeigandi hátt. Nauðsynlegt er að þeir nemendur sem eiga við tal- og málörðugleika að etja fái sérstaka aðstoð,

að hafa náð valdi á undirstöðuatriðum samræðna, frásagna og tjáningar og geta sagt frá einfaldri atburðarás, tekið eðlilegan þátt í samræðum og sett sig í hlutverk í leikrænni tjáningu.

Á sjöunda námsári á nemandinn

að hafa fengið frekari þjálfun í framburði og framsögn og geta talað skýrt og áheyrilega í umræðum, geta bæði lesið texta og flutt hann utanbókar með viðeigandi áherslum, tónfalli og látbragði,

að hafa fengið frekari þjálfun í munnlegri frásögn, samræðum og rökræðum og hafa öðlast vald á fjölbreyttum orðaforða og mismunandi málsniði, geta haldið athygli hlustenda þegar hann segir frá og geta gefið skýrar og gagnorðar leiðbeiningar og fyrirmæli munnlega.

Við lok tíunda bekkjar á nemandinn

að hafa fengið markvissa fræðslu um og þjálfun í framburði og framsögn, þekkja helstu mállýskur á Íslandi, átta sig á því í hverju munur á skýrum og óskýrum framburði getur falist, skilja hlutverk áherslu, raddbeitingar, tónfalls og látbragðs í töluðu máli og geta flutt bókmenntatexta þannig að það sé í samræmi við efni hans og tilgang, bæði í upplestri og utanbókar,

að vera orðinn allvel þjálfaður í munnlegri frásögn og umræðum, geta sagt frá af innlifun, notfært sér fjölbreyttan orðaforða á blæbrigðaríkan og viðeigandi hátt, geta sniðið málflutning sinn að þörfum hlustenda og geta flutt stutta tölu um þekkt efni.

Á fyrstu árum framhaldsskóla á nemandinn

að fá sérstaka þjálfun í töluðu máli og framsögn og fræðslu um íslenskan framburð, bæði í íslenskutímum og sérstökum tjáningaráföngum, í tengslum við fræðslu um íslenskar mállýskur og málhljóð og æfingu í tæknilegum atriðum varðandi öndun, raddbeitingu, hljóðmótun, upplestur, leikræna tjáningu, umræður, ræðumennsku, fundarsköp og viðtalstækni.

Á síðari árum framhaldsskóla er æskilegt

að gefa nemendum kost á sérþjálfun í leikrænni tjáningu og leiklist í valáföngum.

 

2.4 Markmið kennslu í hlustun og áhorfi

2.4.1 Meginmarkmið

Meginmarkmið kennslu í hlustun og áhorfi eru þessi:

færnimarkmið

Að nemendur geti fylgst með efni sem er flutt munnlega eða sýnt á myndrænan hátt, t.d. á leiksviði, myndbandi eða kvikmynd, geti nýtt sér töflur, línurit, skýringarmyndir, nýtt sér hvers konar myndefni í tengslum við texta og haft gagn og gaman af.

þekkingarmarkmið

Að nemendur kunni skil á helstu hugtökum sem nota þarf við umræðu um munnlegan flutning máls og myndræna framsetningu efnis.

viðhorfsmarkmið

Að nemendur læri að meta vel flutt efni og góða myndræna og leikræna framsetningu og fái áhuga á þess háttar miðlun

Rökin fyrir þessum markmiðum eru einkum þessi:

nytsemdarrök

Mikill hluti upplýsingamiðlunar nútímans á sér stað um ýmiss konar hljóð- og myndmiðla (útvarp, sjónvarp, myndbönd, kvikmyndir, geisladiskar...). Nauðsynlegt er að geta numið þær upplýsingar sem þannig er miðlað og metið þær af gagnrýni. Lestur á ýmiss konar myndrænu efni er einnig þáttur í lestrarkunnáttu. Hlustun er líka mikilvægur þáttur í mannlegum samskiptum og hvers konar félagsstarfi. Þess vegna er brýnt að kunna að hlusta

námsrök

Námsefni er gjarna miðlað með aðstoð hljóð- og myndefnis, auk þess sem hefðbundin kennsla og umræður í kennslustundum gera kröfur um nákvæma hlustun og úrvinnslu. Þeir nemendur sem geta hlustað og horft með athygli á það sem fram fer eru vel settir. Ýmiss konar myndir, línurit og töflur koma mikið við sögu í nytjatextum og mikilvægt er að geta túlkað slíkt efni og nýtt sér þessa tækni, en myndefni er líka oft tengt bókmenntatextum þótt á annan hátt sé. Hér má minna á að í alþjóðlegri samanburðarkönnun á læsi 1991 stóðu íslensk 14 ára börn sig tiltölulega lakar í því að túlka töflur, myndir og kort en lesa og skilja sögur og fræðsluefni (sjá skýrslur Sigríðar Valgeirsdóttur Læsi íslenskra barna 1993 og Kennari, skóli & læsi íslenskra barna 1996).

menntunar- og menningarrök

"eyrum hlýðir/ en augum skoðar./ Svo nýsist fróðra hver fyrir" segir í Hávamálum og það er enn í gildi: Það er mikilvægur þáttur í almennri menntun að kunna að hlusta og skoða af athygli og á gagnrýninn hátt. Um leið er nauðsynlegt að geta notið miðlunar menningarefnis af ýmsu tagi sem miðlað er með hljóði og/eða mynd.

Eins og nærri má geta tengist hlustun og áhorf ýmsum öðrum þáttum móðurmálskennslunnar, svo sem lestri, töluðu máli, ritun og kynningu bókmenntalegs efnis. Líkt og kennsla í töluðu máli og framsögn þarf kennsla í hlustun og áhorfi að ná frá neðstu bekkjum grunnskóla til framhaldsskóla þótt viðfangsefnin breytist í áranna rás eftir því sem færni eykst. Til þæginda má skipta markmiðunum niður í eftirfarandi þætti (sbr. hliðstæða flokkun lestrarmarkmiða):

að ná tökum á undirstöðuatriðum hlustunar og áhorfs,

að geta hlustað á talað mál og fylgst með myndrænni framsetningu efnis sér til gagns og með gagnrýnu hugarfari,

að geta notið munnlegs flutnings texta og myndrænnar framsetningar og metið það sem vel er gert á því sviði.

Á fyrstu skólastigum er áherslan mest á undirstöðuatriðin en verður sérhæfðari á síðari stigum.

 

2.4.2 Markmið á einstökum skólastigum - samfella og stígandi

Á fjórða námsári grunnskóla á nemandinn

að hafa náð tökum á undirstöðuatriðum hlustunar og áhorfs, en í því felst m.a. að geta hlustað með athygli á einföld fyrirmæli, upplýsingar og útskýringar og farið eftir þeim, og geta skilið einfaldar skýringarmyndir,

að hafa fengið þjálfun í að hlusta á sögur, leikrit og ljóð sér til skemmtunar og afþreyingar og geta tengt myndefni við sögur (myndasögur).

Á sjöunda námsári á nemandinn

að hafa fengið frekari þjálfun í því að hlusta á munnleg fyrirmæli og leiðbeiningar, horfa á fræðsluefni og geta þannig notfært sér ýmiss konar upplýsingaefni í töluðu máli og myndrænu, geta hlustað á útskýringar kennarans og fylgst með umræðum,

að hafa náð verulegri færni í að njóta bókmenntaefnis og afþreyingarefnis sem flutt er munnlega og/eða miðlað á myndrænan hátt, t.d. upplesturs á ljóðum og sögum, leikritaflutnings, og geta hlustað á stutta sögu og endursagt með orðréttum tilsvörum.

Við lok tíunda bekkjar á nemandinn

að hafa fengið fræðslu um eðli talaðs máls, hljóð- og myndmiðla, geta nýtt sér slíkt efni, hlustað á ítarlegar skýringar og umræður og punktað hjá sér aðalatriði, horft og hlustað á fréttir, umræðuþætti og áróðursefni í útvarpi og sjónvarpi og metið það,

að vera orðinn góður og áhugasamur "neytandi" menningarlegs efnis í hljóð- og myndformi, hafa fengið nokkra þjálfun í að meta gildi og gæði listræns efnis í leikhúsi og kvikmyndahúsi, hafa kynnst íslenskum kvikmyndum og kannast við hugtök sem notuð eru um slíkt efni og geta nýtt sér þau við bókmenntalestur.

Á fyrstu árum framhaldsskóla á nemandinn

að fá frekari þjálfun í að nýta sér fræðsluefni í hljóð- og myndformi, svo sem ýmiss konar margmiðlunarefni, og verða leikinn í að túlka línurit, myndir og gröf af ýmsu tagi og setja efni fram á þann hátt.

Á síðari árum framhaldsskóla er æskilegt

að gefa nemendum kost á valnámskeiðum sem varpa ljósi á gildi kvikmyndalistar og myndmennta og tengsl þeirra við leikritun og bókmenntir.

 

2.5 Markmið kennslu í ritun

2.5.1 Meginmarkmið

Meginmarkmið kennslu í ritun eru þessi:

færnimarkmið

Að nemendur nái valdi á því að skrifa margvíslega texta, bæði frumsamið efni og endursagt, formlegt og óformlegt, og ganga rétt og vel frá textum, bæði um stafsetningu, frágang og uppsetningu.

þekkingarmarkmið

Að nemendur kunni skil á helstu hugtökum sem varða ritað mál, þekki mun ritmáls og talmáls og ritmáls, og geri sér grein fyrir ólíkum kröfum til ritaðs máls eftir eðli þess og aðstæðum.

viðhorfsmarkmið

Að nemendur læri að meta það sem vel er gert á sviði ritunar

Rökin fyrir þessum markmiðum eru einkum þessi:

nytsemdarrök

Í nútímaþjóðfélagi er nauðsynlegt að geta skrifað margvíslega texta og tjáð sig skriflega, bæði í námi (ritgerðir, endursagnir, glósur, minnispunktar...), starfi (umsóknir, umsagnir, skýrslur...), félagslífi (fundargerðir, tillögur...) og einkalífi (bréf, frásagnir, bókmenntalegt efni...). Færni á þessu sviði næst ekki nema með markvissri þjálfun.

námsrök

Þjálfun og færni í því að gera skipulega grein fyrir kunnáttu sinni og skoðunum í rituðu máli er mikilvæg fyrir nemendur á öllum skólastigum og flestum námsgreinum, auk þess sem ýmiss konar glósugerð, skýrslugerð og fleira er ríkur þáttur í öllu námi. Í móðurmáli stuðlar þjálfun í ólíkum þáttum ritaðs máls að betra valdi á máli og festir orðaforða

menntunar- og menningarrök

Þeir sem hafa gott vald á rituðu máli af ýmsu tagi hafa góð tök á að miðla fræðslu- og menningarefni til annarra, auk þess sem þeir eru líklegir til að njóta þess sem vel er gert á sviði ritaðs máls.

Hópurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að þjálfun í ritun sé sinnt á öllum skólastigum. Til þæginda má greina þjálfun í ritun í tvo meginþætti, þótt þeir séu oft samofnir í reynd:

tæknileg atriði sem varða frágang, stafsetningu og uppsetningu

efnisleg atriði sem tengjast framsetningu, málsniði, skipulagi og efnistökum

Fyrri þátturinn varðar þá ytri búning og fyrir honum má færa nytsemdarrök, námsrök og menntunar- og menningarrök af því tagi sem þegar var lýst. Síðari þátturinn varðar innihaldið og færni í því að koma efni til skila. Hópurinn leggur áherslu á að mikilvægi góðrar framsetningar, hæfilegs málsniðs og góðs skipulags á ekki bara við um bókmenntalega texta (ljóð, sögur, frásagnir) og frumsamda nytjatexta (rökfærsluritgerðir, heimildaritgerðir) heldur ekki síður endursagt efni, skýrslur og þess háttar. Þess vegna má ekki einskorða þjálfun og kennslu í slíkum "innihaldsþáttum" við þjálfun í því að skrifa ljóð, sögur eða viðamiklar ritgerðir heldur er mikilvægt að tengja þessi atriði við hvers konar efni og skrif, bæði í móðurmálstímum (endursagnir, lýsingar, umsóknir...) og í öðrum námsgreinum (félagsgreinar, raungreinar...). Nauðsynlegt er að áherslur á einstaka þætti séu mismunandi eftir aldri og þroska nemenda þannig að eðlileg stígandi verði í greininni og mest áhersla sé á undirstöðuatriðunum fyrst en sérhæfðari og vandasamari atriðum síðar.

 

2.5.2 Markmið á einstökum skólastigum - samfella og stígandi

Á fjórða námsári grunnskóla á nemandinn

að hafa náð tökum á undirstöðuatriðum tæknilegra þátta ritunar, en það merkir m.a. að hann skrifar læsilega og vandar frágang, þekkir og getur notfært sér hugtök sem notuð eru í umræðu um stafsetningu og ritmál, skrifar einfaldar setningar og málsgreinar og er byrjaður að skipta texta í efnisgreinar,

að vera byrjaður að skrifa einfalda texta af ólíkum gerðum og setja þá fram á skipulegan og læsilegan hátt, en í því felst m.a. að geta lýst atburðum, skrifað einfaldar sögur og bréf með viðeigandi orðaforða og fjölbreyttri setningagerð.

Á sjöunda námsári á nemandinn

að hafa fengið frekari þjálfun í stafsetningu og frágangi ritaðs máls og m.a. kynnst fleiri hugtökum sem nauðsynlegt er að nota við umræðu um stafsetningu og frágang texta, náð nokkurri færni í greinarmerkjasetningu og valdi á helstu atriðum stafsetningar, setningaskipun og skiptingu texta í efnisgreinar,

að hafa fengið frekari þjálfun í framsetningu og skipulagi ritaðs máls af ýmsu tagi og geta t.d. endursagt munnlega frásögn í rituðu máli, skrifað nákvæmar lýsingar, tjáð eigin reynslu, hugsanir og tilfinningar, skrifað ýmiss konar bréf, tekið glósur og unnið úr gagnrýni á eigin ritverk.

Við lok tíunda bekkjar á nemandinn

að hafa náð góðum tökum á stafsetningu og frágangi ritaðs máls og hafa m.a. mótaða rithönd, geta nýtt sér málfræðihugtök við umfjöllun um frágang, málsnið og stíl, geta beitt stafsetningarreglum, átta sig á ólíku stílgildi orða og setningagerðar, orðtökum og málsháttum, nýta sér handbækur, orðabækur og leiðréttingaforrit,

að hafa náð verulegri leikni í ritun margvíslegra texta, geta m.a. skipt texta í málsgreinar, efnisgreinar og kafla, geta skrifað margvíslega nytjatexta með ólíku málsniði, hafa náð leikni í að endursegja munnlega frásögn í rituðu formi, geta tekið glósur í kennslustundum, samið rökfærslutexta, og hafa reynt sig við bundið mál og lausamálstexta.

Á fyrstu árum framhaldsskóla á nemandinn

að fá þjálfun í sem fjölbreyttastri ritun, bæði ritun margs konar nytjatexta og texta um eigin reynslu og lesið efni, temja sér notkun orðabóka, handbóka og leiðbeininga um frágang og þjálfast í því að umsemja og endurrita texta í samræmi við leiðbeiningar.

Á síðari árum framhaldsskóla á nemandinn

að eiga kost á markvissri ritþjálfun af ýmsu tagi, bæði samningu og frágang rökfærsluritgerða og heimildaritgerða eftir viðurkenndum reglum og ýmiss konar skrifa um bókmenntir og texta, en ekki síður æfingu í því að nota málið á markvissan hátt í ritun, bæði í frumsömdu og þýddu efni, nota mismunandi málsnið og gera stílæfingar.

 

2.6 Markmið kennslu í bókmenntum

2.6.1 Meginmarkmið

Meginmarkmið kennslu í bókmenntum eru þessi:

færnimarkmið

Að nemendur verði læsir á bókmenntatexta af ýmsu tagi, geti greint ólíkar gerðir bókmennta og jafnvel samið bókmenntalega texta.

þekkingarmarkmið

Að nemendur kunni skil á helstu hugtökum sem nýtast við umræðu um bókmenntir, öðlist grundvallarþekkingu á íslenskum bókmenntum frá upphafi til nútímans, kynnist helstu höfundum og verkum íslenskra bókmennta og fái hugmynd um tengsl íslenskra bókmennta við erlendar bókmenntir, stefnur og strauma.

viðhorfsmarkmið

Að nemendur rækti með sér áhuga á bókmenntum, fái áhuga á að lesa bækur og bókmenntir af margvíslegu tagi og læri að meta góðar bókmenntir.

Rökin fyrir þessum markmiðum eru einkum eftirfarandi:

nytsemdarrök

Lestur bókmennta er mikilvægur liður í almennri lestrarþjálfun og lestrarfærni er hverjum manni lífsnauðsyn. Bókmenntalestur stuðlar líka að auknum orðaforða og betra valdi á máli, en hvort tveggja er mikilvægt í mannlegum samskiptum. Þá getur bókmenntalestur stuðlað að betri skilningi á mannskepnunni og eðli hennar.

námsrök

Sú lestrarþjálfun sem fæst við bókmenntalestur er mikilvæg undirstaða alls náms. Þekking á undirstöðuhugtökum um bókmenntir er mikilvæg á ýmsum skólastigum, bæði í tengslum við móðurmálskennslu og umfjöllun um bókmenntir á öðrum tungumálum, auk þess sem umfjöllun um bókmenntasögu tengist almennri sögu, félagsfræði og menningarsögu. Ekki er síður brýnt að bókmenntalestur auðgar orðaforða, eflir máltilfinningu og styrkir vald á máli, en þessi atriði skipta miklu í margvíslegu námi.

menntunar- og menningarrök

Almenn menntunar- og menningarrök vega þungt þegar hugað er að markmiðum í bókmenntakennslu. Þetta á kannski enn betur við á Íslandi en víða annars staðar þar sem bókmenntir og bókmenntaarfur skipa trúlega hærri sess í menningarlífinu en með ýmsum öðrum þjóðum. Þess vegna hlýtur það að vera mikilvægur þáttur í íslenskri menntun og menningu að þekkja íslenskar bókmenntir vel, geta notið þeirra, miðlað þeim og jafnvel samið nýjar

Viðfangsefni í bókmenntum og bókmenntalestri verða auðvitað að miðast við aldur og þroska nemenda. Í neðri bekkjum grunnskóla er því lítil ástæða til að rýna djúpt í textana eða stunda fræðilega bókmenntagreiningu, en hæfni nemenda til slíkrar iðju fer vaxandi og þá má nýta bókmenntafræðileg hugtök og -rýni til að skerpa skilning nemenda á bókmenntunum og eðli þeirra, án þess þó að þau fræði verði markmið í sjálfu sér.

 

2.6.2 Markmið á einstökum skólastigum - samfella og stígandi

Á fjórða námsári grunnskóla á nemandinn

að hafa kynnst bókmenntatextum af ýmsu tagi, bæði með eigin lestri en ekki síður af upplestri annarra, svo sem vísum, ljóðum, þjóðsögum, ævintýrum, goðsögnum og stuttum sögum, með og án myndefnis, hafa tekið þátt í leikrænni tjáningu, kynnst skólabókasafni og fengið aðstoð við að velja og finna bækur,

að hafa kynnst nokkrum grundvallarhugtökum sem varða bókmenntir og texta og geta nýtt sér þau í umræðum (t.d. kvæði, vísa, ljóðlína, kafli, höfundur söguhetja, rím, stuðlar, hrynjandi...) og kannast við einföld tákn.

Á sjöunda námsári á nemandinn

að hafa kynnst fleiri tegundum bókmenntatexta og hafa m.a. lesið heilar bækur, bæði frumsamdar á íslensku og þýddar, hafa lært nokkur valin ljóð, lesið og rætt um bækur ætlaðar fullorðnum og unglingum, hefðbundin og óhefðbundin ljóð, og hafa öðlast færni í að nota bókasafn,

að hafa fengið frekari þjálfun í að notfæra sér bókmenntafræðileg hugtök í umfjöllun um texta, kannast við ýmiss konar stílbrögð, hafa kynnst hugtökum sem varða byggingu og gerð skáldverka.

Við lok tíunda bekkjar á nemandinn

að hafa lesið fjölbreytta íslenska bókmenntatexta, bæði forna og nýja, og fengið nokkra yfirsýn yfir íslenska bókmenntasögu frá miðri 19. öld og til nútímans og tengsl bókmenntanna við mismunandi menningarstrauma og tísku á þessu tímabili, svo og við helstu þjóðfélagsbreytingar, læra t.d. valin ljóð utanbókar, lesa og ræða um Íslendingasögu, valdar skáldsögur og ljóð, og skoða tengsl verkanna við ólíka menningarstrauma og þjóðfélagshætti og gæta að málfarslegum einkennum þeirra,

að skilja og hafa náð talsverðri leikni í að nota ýmiss konar hugtök í umræðum um bókmenntir og texta, bæði hugtök um ólíkar gerðir bókmenntaverka og formleg og efnisleg einkenni þeirra, stílbrögð og stefnur.

Á fyrstu árum framhaldsskóla á nemandinn

að lesa sem fjölbreyttasta texta frá ýmsum tímum (t.d. smásögur, skáldsögur, fornsögur, goðsögur, greinar, ljóð...) og fá þjálfun í að fjalla um þá í ræðu og riti, nota þau hugtök sem við á hverju sinni og tengja umræðuna við hugmyndaheim, þjóðfélagsgerð, mál- og menningarsögu eftir því sem tilefni gefst til.

Á síðari árum framhaldsskóla á nemandinn

að eiga kost á því að sökkva sér betur niður í bókmenntaverk frá ólíkum tímabilum bókmenntasögunnar, bæði laust mál og bundið af margvíslegu tagi, þýtt og frumsamið á íslensku, og með meiri áherslu en áður á fræðilega umfjöllun um verkin í ræðu og riti og trausta þekkingu á íslenskri bókmenntasögu og skilning á því sem er líkt og ólíkt með íslenskum bókmenntum og erlendum, ekki síst frá Norðurlöndum.

 

2.7 Markmið kennslu í málfræði

2.7.1. Meginmarkmið

Meginmarkmið kennslu í málfræði eru þessi:

færnimarkmið

Að nemendur geti greint þau málfræðiatriði sem koma við sögu í umræðu um mál, t.d. við notkun orðabóka, handbóka og kennslubóka, í umræðu um málfar, mállýskur, málsnið, málvöndun, málsögu, talmál og ritmál, bókmenntir, stíl og stafsetningu.

þekkingarmarkmið

Að nemendur kunni skil á helstu málfræðihugtökum sem nýtast við umræðu um mál, málbeitingu og málanám, bæði móðurmál og erlend mál, talað mál og ritað. Að nemendur þekki og nái valdi á fjölbreyttum orðaforða og geri sér grein fyrir eðli mannlegs máls almennt og sérkennum íslensks nútímamáls.

viðhorfsmarkmið

Að nemendur rækti með sér áhuga á móðurmálinu, öðlist trú á eigin málhæfni, vilji leggja metnað sinn í að geta beitt málinu sem best við ólíkar aðstæður og læri að meta góða málnotkun

Rökin fyrir þessum markmiðum eru einkum þessi:

nytsemdarrök

Færni í notkun tungumála, bæði móðurmálsins og annarra mála, er grundvallaratriði í mannlegum samskiptum. Til þess að ná valdi á móðurmálinu og öðrum tungumálum og geta beitt þeim á markvissan hátt í ræðu og riti er nauðsynlegt að geta nýtt sér margvísleg hjálpargögn, svo sem handbækur og orðabækur. Þar eru notuð málfræðileg hugtök af ýmsu tagi sem gagnlegt er að þekkja.

námsrök

Málfræðileg hugtök eru notuð í umfjöllun um móðurmál og önnur mál í skólum, allt frá stafsetningarkennslu til stílfræði. Þess vegna er grundvallarþekking á þeim forsenda þess að geta nýtt sér ýmiss konar námsgögn um mál og málnotkun, bæði talað mál og ritað.

menntunar- og menningarrök

Málið greinir manninn frá dýrum og móðurmálið einkennir stóran hluta menningararfsins. Því telst þekking á móðurmálinu, eðli þess, sögu og sérkennum, nauðsynlegur þáttur í almennri menntun, auk þess sem gott vald á máli og auðugur orðaforði er einkenni menntaðra manna. Góð málþekking gefur og færi á því að beita málinu af listfengi og meta gott og vandað mál.

Lögð er áhersla á að í grunnskóla, einkum í neðri bekkjum, er æskilegast að kenna málfræðileg hugtök með það meginmarkmið í huga að þau geri nemendum kleift að fjalla um móðurmálið og skilja það sem um það (og önnur mál) er sagt í sambandi við málþjálfun og mállegar leiðbeiningar. Í efstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskóla verður fyrst tímabært að gefa yfirlit yfir málkerfið og sérkenni íslensks nútímamáls. Lögð verði áhersla á þjálfun í notkun handbóka, en þó er ákveðin grunnþekking er nauðsynleg til þess að menn geti nýtt sér handbækur. Bein málfræðikennsla getur verið þáttur í móðurmálsþjálfun (svo sem kennsla í beygingu sjaldgæfra orða eða nafna) en tæknilegar aðferðir við málfræðilega greiningu mega ekki verða íþrótt í sjálfu sér.

 

2.7.2 Markmið á einstökum skólastigum - samfella og stígandi

Á fjórða námsári grunnskóla á nemandinn

að hafa kynnst nokkrum grundvallarhugtökum málfræði, t.d. í tengslum við lestur og ritun, svo sem hugtökum um einstaka "hluta ræðunnar" og einkenni þeirra (orð, setning, málsgrein, efnisgrein; fall, tíð, kyn...), og merkingar- og orðmyndunarlegum hugtökum (samheiti, andheiti, samsett orð...),

að geta nýtt sér einföld málfræðihugtök í umræðu um mál og málbeitingu, svo sem í tengslum við greinarmerkjasetningu, skiptingu texta í málsgreinar og efnisgreinar, stafsetningarreglur, ritæfingar og umræður um texta.

Á sjöunda námsári á nemandinn

að hafa kynnst fleiri málfræðihugtökum sem nota má við málþjálfun og málakennslu, svo sem öllum helstu orðflokkum og formlegum og merkingarlegum einkennum þeirra, grundvallarhugtökum um setningagerð, orðgerð og málhljóð,

að hafa fengið frekari þjálfun í því að notfæra sér málfræðileg hugtök í umfjöllun um mál, bæði um formleg atriði (stafsetningu, greinarmerkjasetningu...), málfarsleg (fallstjórn, sambeygingu...) og efnisleg (staðhæfing, spurning, skipun...) og við notkun handbóka og orðabóka fyrir íslensku og erlend mál.

Við lok tíunda bekkjar á nemandinn

að vera orðinn vel kunnugur helstu málfræðihugtökum og hafa hugmynd um grundvallaratriði íslenska málkerfisins, þekkja m.a. allar beygingarformdeildir íslensku, átta sig á því hvað er reglulegt og hvað óreglulegt, hafa skoðað orðmyndun, kynnst málsögu, gera sér grein fyrir skiptingu setninga í setningarhluta og átta sig á hlutverki þeirra, hafa velt merkingu orða og setninga fyrir sér og hafa yfirlit yfir skyldleika íslensku við önnur mál,

að hafa náð talsverðri leikni í að nota málfræðileg hugtök í margvíslegri umræðu um mál, t.d. um mismunandi málfar, mállýskur, málsnið, stíl, gott mál og vont, máltöku, málbreytingar og það sem er líkast og ólíkast með íslensku og nágrannamálunum.

Á fyrstu árum framhaldsskóla á nemandinn

að fá frekari þjálfun í að nota málfræðileg hugtök í umræðu um mál, eftir því sem tilefni gefst til, og fá tækifæri til nauðsynlegrar upprifjunar málfræðilegra hugtaka í tengslum við notkun þeirra til að lýsa máli og málnotkun í ræðu og riti, mismunandi málfari og málbreytingum.

Á síðari árum framhaldsskóla á nemandinn

að fá tækifæri til að treysta kunnáttu sína á ýmsum sviðum málfræðinnar, bæði í tengslum við umfjöllun um íslenskt mál og íslenska texta frá öllum hliðum, ýmsum tímum og ólíkum landshornum, en einnig við samanburð íslensku og annarra mála sem hann er að fást við í námi sínu.

Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1997
Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
dags: 15.09.1997