Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða

3. Móðurmálskennsla á ólíkum brautum framhaldsskólans

Þar sem endurskoðun og samræming námskrár í grunnskólum og framhaldsskólum á einkum að miða að því að tryggja eðlilega samfellu og stígandi í náminu, er nauðsynlegt að skilgreiningar móðurmálsáfanga í framhaldsskólum taki mið af þeirri þekkingu og færni sem námskráin ætlast til að nemendur tileinki sér í grunnskóla. Eins og lýst er í kafla 1.2 hér á undan, hefur forvinnuhópurinn tekið mið af yfirlýstri stefnu menntamálaráðuneytisins um að móðurmálið eigi að "skipa veglegan sess í námskránni" (sbr. skýrslu verkefnisstjórnar til stefnumótunarnefndar bls. 2; sjá líka skýrslu stefnumótunarnefndar bls. 10 um sérstöðu íslensku sem kjarnagreinar). Þess vegna er hér ekki lagt til að dregið verði úr kröfum í móðurmáli í grunnskóla heldur þvert á móti gerðar tillögur um að þær verði ákveðnari og skýrari en áður. Vonandi leiðir það í fyllingu tímans til þess að nemendur sem koma í framhaldsskóla verði betur undirbúnir í öllum greinum móðurmálsins. Hér er að nokkru leyti gert ráð fyrir að svo verði.

Ein af spurningum verkefnisstjórnar til stefnumótunarnefndar var sú hversu langt ætti að ganga í því "að laga allt nám tiltekinnar námsbrautar að lokatakmarki hennar" (liður 3.3.3). Þessu svaraði stefnumótunarnefnd svo að nám á stuttum námsbrautum hlyti að verða mjög bundið af lokamarkmiðum brautarinnar en á lengri brautum hlyti talsverður hluti námsins að geta verið sameiginlegur (sjá skýrslu stefnumótunarnefndar bls. 12-13). Í umræðum innan forvinnuhópsins var hölluðust flestir að því að nauðsynlegt væri að halda sem flestum leiðum í framhaldsskóla opnum eins lengi og kostur væri. Með hliðsjón af því væri æskilegt að grunnáfangar í móðurmáli væru sem sambærilegastir á ólíkum brautum, enda þótt áherslur og kennsluaðferðir hlytu að miðast að einhverju leyti við þarfir, áhuga og undirbúning nemendahópsins á hverjum tíma. Sama skoðun kom mjög oft fram í viðtölum við kennara í framhaldsskólum. Í eftirfarandi lýsingu reynir hópurinn því að stefna að því sem kalla mætti samræmi með sveigjanleika.

 

Fornám

Þar sem tilgangur þessa náms er að aðstoða þá sem ekki hafa lokið grunnskóla með fullnægjandi árangri (sjá 18. gr. laga um framhaldsskóla, 80/1996), er eðlilegt að viðfangsefni í móðurmáli verði hliðstæð við þau sem fengist er við í efstu bekkjum grunnskóla. Hins vegar getur verið gagnslítið að snúa sér að þeim fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að nemandinn hafi nægilega undirstöðu og færni til að fást við þau og reynt hafi verið að aðstoða hvern og einn á þeim sviðum sem hann á í erfiðleikum með. Auk þess hlýtur að vera æskilegt að nota að einhverju leyti aðra texta en í grunnskóla til að reyna að koma í veg fyrir námsleiða. Þetta væri auðveldara en ella ef prófið að loknu þessu fornámi væri að verulegu leyti fólgið í greiningu og lýsingu texta sem ekki hafa verið hluti af lesefni skólans en ekki próf þar sem spurt er um efnisatriði úr lesnum textum, sbr. almenna umfjöllun um samræmd próf í grunnskóla í kafla 1.2.

Með hliðsjón af þessu mætti hugsa sér að skilgreina tvo móðurmálsáfanga í fornáminu, en markmið þeirra væri annars vegar að treysta undirstöðu í grunnþáttum móðurmáls (lestur, talað mál, ritun...) og hins vegar að veita þjálfun í umfjöllun um texta og mál og kynna helstu hugtök sem að gagni mega koma í því sambandi. Með þessu móti væri reynt að treysta undirbúning nemenda undir nám í framhaldsskóla án þess að hjakka um of í sama gamla grunnskólafarinu þótt markmiðin væru nánast þau sömu og í efstu bekkjum grunnskólans. Nánar tiltekið gæti þetta litið út á þessa leið:

 

Fyrri fornámsáfangi í móðurmáli

Viðfangsefni þessa áfanga þyrftu að geta verið nokkuð mismunandi eftir þörfum nemenda. Sumir kynnu að hafa mesta þörf fyrir þjálfun í lestri (með áherslu á leshraða og lesskilning), aðrir á þjálfun í hlustun (endursagnir ýmiss konar texta, skráning aðalatriða úr texta), enn aðrir í grundvallaratriðum munnlegrar framsetningar (munnlegar frásagnir, upplestur...) eða ritunar (stafsetning, endursagnir, lýsingar, bréf...). Þessi þjálfun yrði eftir föngum tengd við lestur aðgengilegra bókmenntatexta, kynningar þeirra á á hljóð- og myndböndum og umræðu um slíkt efni.

 

Síðari fornámsáfangi í móðurmáli

Í þessum áfanga yrði meiri áhersla á að lesa valda bókmenntatexta og fjalla um þá með aðstoð grundvallarhugtaka í bókmenntafræði, og skoða tungumálið í margbreytileik sínum, bæði sögulegum og samtímalegum, og nýta nauðsynleg málfræðihugtök við þá umfjöllun. Námsefnið yrði af svipuðum toga og í efstu bekkjum grunnskóla, einkum 10. bekk, en þó ekki alveg hið sama (t.d. valdir aðrir textar og notaðar aðrar kennslubækur).

 

Fjögurra og sex eininga lágmarksnám

Í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu (1994) var lagt til að í boði verði eins árs almennt nám í framhaldsskóla (svokölluð almenn námsbraut), einkum ætluð þeim sem ekki hafa gert upp hug sinn um framhald eða þurfa nokkurn umþóttunartíma og þessi hugmynd hefur nú verið lögfest (sbr. 16. gr. laga um framhaldsskóla, 80/1996). Á þessari braut ber að leggja áherslu á hagnýtt nám og góða undirstöðu í kjarnagreinum eins og móðurmáli og almenna menntun, meðal annars þá sem felst í ratvísikjarna. Þetta getur þá ekki orðið minna en fjögurra eininga nám í móðurmáli, eða samsvarandi þeim áföngum sem nú eru oftast kallaðir ÍSL102 og ÍSL202 (eða 302) í áfangaskólum. Sömu lágmarkskröfur í móðurmáli eru gerðar til nemenda á ýmsum stuttum starfsnámsbrautum (sbr. Námskrá handa framhaldsskólum bls. 241 o.v.).

Í gildandi Námskrá handa framhaldsskólum er "kappkostað að samræma fyrstu 6 einingar íslenskunámsins" (sbr. bls. 241), eða samsvarandi í bekkjakerfisskólum. Þetta er í samræmi við það að á ýmsum lengri starfsmenntabrautum er nú gert ráð fyrir minnst 6 einingum í móðurmáli.

Forvinnuhópurinn hefur ekki talið ástæðu til að skipta markmiðunum í flokka eftir því hvort miðað er við 4 eða 6 eininga nám. Það er fremur í verkahring þess vinnuhóps sem semur námskrá fyrir framhaldsskóla og þeirra sem taka saman skólanámskrár. Hér eru hins vegar talin nokkur markmið sem hópurinn telur að stefna skuli að í þessu samræmda grunnnámi framhaldsskólanna.

Í grunnnámi í framhaldsskóla (stuttar námsbrautir/1-2 námsár) á nemandinn að hafa lokið 4-6 einingum í móðurmáli. Í því námi á hann að

hafa lesið ólíka texta frá ýmsum tímum og mismunandi að gerð (fornar og nýjar bókmenntir, frásagnir, lýsingar atburða og fyrirbæra o.s.frv.), þekkja mun þeirra og geta skýrt þá og lýst formgerð þeirra,

geta greint ýmis bókmenntafræðileg atriði í texta (minni, þema, stílbrögð o.s.frv.),

geta lýst nokkrum málfarslegum einkennum og stíleinkennum texta (sjálfgefin eða breytt orðaröð, langar/stuttar málsgreinar, formlegt og óformlegt málsnið o.s.frv.)

semja með viðeigandi málsniði ýmsar gerðir texta (ekki síst nytjatexta) og nýta sér málfræðilegar og stílfræðilegar leiðbeiningar um gerð þeirra,

ganga á viðurkenndan og smekklegan hátt frá öllum ritverkefnum, bæði að því er varðar uppsetningu, stafsetningu og allan frágang, og fá þjálfun í að nýta sér tiltækar handbækur og tölvutækni í því skyni,

flytja á áheyrilegan hátt bundið mál og óbundið, bæði frumsamið efni og annarra manna texta,

þekkja meginatriði íslenskrar málsögu og helstu þætti málþróunar, bæði fyrri tíðar og á síðari tímum,

bera nokkurt skynbragð á stílsmun orða og samfellds máls og geta náð mismunandi áhrifum með stílbrögðum,

þekkja og hafa lesið fleiri en eitt skáldverk frá þessari öld og hafa rætt efni þeirra og búning,

hafa tekið saman ýmsar endursagnir, útdrætti, greinargerðir og pistla um margvísleg efni, samið ritgerð eftir heimildum og gengið frá þessu efni öllu samkvæmt viðteknum reglum,

þýða á vandað íslenskt mál mismunandi texta úr erlendu máli og nota við það orðabækur og handbækur sem að gagni mega koma.

Þessu til viðbótar skal minnt á að í markmiðslýsingunum hér á undan var lögð áhersla á þjálfun í töluðu máli og framsögn. Því er gjarna sinnt í sérstökum tjáningaráfanga (þ.e. TJÁ102) í áfangaskólum, en þar fá nemendur þjálfun í hljóðmyndun, raddbeitingu, upplestri og munnlegum flutningi, ræðugerð, kappræðum, þátttöku í fundum o.s.frv. Slíkur áfangi ætti að henta vel fyrir stuttar námsbrautir og almennt hagnýtt nám eða undirbúningsnám í framhaldsskóla, enda ekki ólíklegt að hann verði talinn æskilegur hluti ratvísikjarna. Að öðrum kosti þarf að huga meira að talmálsþáttum í þeim móðurmálsáföngum sem skipulagðir verða í grunnnáminu.

Einnig má minna á að áherslur í þessu námi hljóta að verða misjafnlega fræðilegar og efnistökin eitthvað mismunandi eftir því hvers konar nemendahópur á í hlut og hvort farin er hægferð eða hraðferð. Hins vegar ætti að vera hægt að ná nokkuð sambærilegu 6 eininga undirstöðunámi í íslensku með því að stefna að þessum markmiðum, og séu þau borin saman við markmiðslýsingarnar sést að þau eiga að tryggja nokkra samfellu og stígandi.

 

Níu eininga nám í móðurmáli

Í Námskránni frá 1990 er gert ráð fyrir 9 einingum í íslensku (í sumum tilvikum 11 þegar tjáningaráfangi er skylda) á ýmsum starfsnámsbrautum, svo sem á uppeldisbraut og tölvubraut. Væntanlega má gera ráð fyrir svipuðum námsleiðum í nýrri námskrá. Í gömlu námskránni geta viðbótareiningarnar þrjár (þ.e. þær einingar sem eru umfram hina sex samræmdu áfanga) verið úr hvaða íslenskuáfanga sem er, nema kröfur um undanfara hindri það. Þó segir að nemendur á uppeldisbraut skuli taka barnabókaáfanga sem viðkomandi skóli skipuleggi.

Forvinnuhópurinn telur æskilegt að nemendur á ólíkum brautum velji sér viðbótaráfanga í íslensku eftir áhugasviði sínu og í samræmi við lokamarkmið brautarinnar. Barnabókaáfangi fyrir nemendur á uppeldisbraut er ágætt dæmi um skynsamlegt val af því tagi, þótt reyndar mætti eins mæla með áfanga um barnamál og máltöku ef hann væri í boði í hlutaðeigandi skóla (sjá síðar).

 

Viðbótarefni til stúdentsprófs

Á stúdentsprófsbrautum er gert ráð fyrir minnst 15 eininga námi í íslensku, auk sérstaks náms í munnlegri tjáningu. Nemandi sem hefur lokið slíku námi á, til viðbótar því sem áður er talið, að:

þekkja meginatriði íslenskrar bókmenntasögu, hafa lesið og unnið með texta, stóra og smáa, frá öllum tímabilum hennar og öðlast nokkurn skilning á tengslum íslenskra bókmennta við bókmenntir nágrannaþjóða, ekki síst annarra Norðurlandaþjóða,

geta greint öll helstu atriði íslensks brags (stuðlasetningu, rím, hrynjandi), kannast við nokkra bragarhætti og þekkja rétta kveðandi,

gera skipulega og áheyrilega grein fyrir skoðunum sínum, áliti og tilfinningum án teljandi undirbúnings,

hafa tekið saman dagskrá um eitthvert bókmenntalegt eða þjóðmenningarlegt efni og flutt með öðrum fyrir áheyrendur og áhorfendur,

hafa í framhaldsskóla lesið a.m.k. 10 skáldverk (svo sem Íslendingasögur, leikrit, skáldsögur, ljóðabækur), þýdd eða frumsamin á íslensku, og gert grein fyrir tilteknum þáttum þeirra, munnlega eða skriflega,

hafa kynnst bundnu máli frá öllum tímabilum bókmenntasögunnar (t.d. Eddukvæðum, dróttkvæðum, helgikvæðum o.s.frv.),

þekkja nokkuð til einhvers afmarkaðs sviðs málvísinda, (svo sem máltöku, félagslegra málvísinda, merkingarfræði o.s.frv.) og geta skýrt grundvallaratriði þeirra,

geta notað málfræðileg hugtök til að rökræða um málvernd, málstefnu, málnotkun og málbreytingar,

gera sér (og öðrum) skýra grein fyrir mikilvægi móðurmálsins, hvert sem það er, og líta á málrækt sem mikilsvert og skylt viðfangsefni hverjum manni.

Á málabraut og félagsfræðibraut hefur verið krafist 18 eininga í íslensku (og þá 20 með tjáningaráfanga). Æskilegt væri að geta boðið nemendum á þessum brautum sérstök viðfangsefni sem féllu vel að kjörsviði þeirra. Með hliðsjón af því sem segir í Námskránni frá 1990 um "sérstakan málfræðiáfanga" fyrir nemendur á málabraut (bls. 242), áherslu á að "efla samstarf við tungumálakennara, m.a. varðandi málfræðikennslu og textaþýðingar" (bls. 241) og nauðsyn þess að bjóða nemendum á uppeldisbraut sérstakan barnabókaáfanga (bls. 242) gætu efirfarandi viðbótarkröfur verið eðlilegar á áðurnefndum brautum:

Nemandi sem lýkur námi á málabraut á, til viðbótar því sem áður var talið, að:

fá sérstaka þjálfun í málnotkun eða samanburðarmálfræði í tengslum við erlend mál, t.d. með því að leggja sérstaka stund á þýðingar eða máljöfnuð (samanburð á setningagerð, beygingakerfi eða hljóðkerfi (framburði) íslensku og einhvers erlends máls).

Nemandi sem lýkur námi á félagsfræðibraut á, til viðbótar því sem áður var talið, að:

kynna sér sérstaklega eitthvert svið bókmennta eða málfræði sem fellur vel að kjörsviði hans, svo sem barnabókmenntir, barnamál og máltöku, félagsleg eða sálfræðileg málvísindi.

Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1997
Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
dags: 15.09.1997