Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða

4. Sérstök íslenskukennsla - helstu markmið

Forvinnuhópurinn vill leggja áherslu á að innan hans er ekki sérþekking á þess háttar íslenskukennslu sem hér um ræðir þótt nokkrir í hópnum hafi fengist við að kenna útlendingum íslensku (aðallega erlendum háskólastúdentum). Hér er um að ræða kennslu sem lýtur öðrum lögmálum en kennsla íslensku sem móðurmáls. Hér á landi er ekki löng hefð í kennslu af þessu tagi og því er brýnt að reyna að nýta sér sem best þá reynslu sem fengist hefur af hliðstæðri kennslu með öðrum þjóðum, svo sem af kennslu í norsku fyrir nýbúa í Noregi eða í sænsku fyrir sænska nýbúa.

Þeir sem best þekkja til hér á landi leggja áherslu á tvennt: Í fyrsta lagi telja þeir brýnt að þessi sérstaka íslenskukennsla sé miðuð við þarfir barna og unglinga sem þurfa sem fyrst að ná tökum á skólaíslensku, þ.e. skilja þá íslensku sem þeir heyra í skólastofunni og lesa í námsbókunum. Þess vegna er mikilvægt að leggja sem fyrst megináherslu á að efla viðeigandi orðaforða og hafa í því efni samvinnu við kennara í einstökum greinum grunnskólans þar sem það á við (stærðfræði, landafræði, félagsgreinar o.s.frv.). Áhersla á formleg atriði, svo sem beygingu, setningagerð, framburð og vald á ritmálinu, þarf að koma síðar sem sérstök þjálfun þegar nemendurnir hafa eitthvað að byggja á. Í öðru lagi telja þessir sérfræðingar nauðsynlegt að nemendur fái samhliða þjálfun í eigin móðurmáli, þar sem það á við og því verður við komið, til að treysta þann grunn sem skilningur á tilverunni almennt og skólanum sérstaklega byggist jafnan á, þ.e. móðurmálið. Nauðsyn þessa liggur ekki í augum uppi en erlendar rannsóknir styðja þessa skoðun (sjá m.a. fskj. 2). Það næst m.ö.o. bestur árangur þegar hægt er að nota móðurmálið ásamt skólamálinu til að byggja nokkurs konar brú milli tveggja menningarheima. En líklega er hvergi eins mikilvægt og hér að hver nemandi fái þá "kennslu við hæfi" sem lagaskylda er að veita (sbr. t.d. 2. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995), enda eru aðstæður mjög margvíslegar eins og lýst var í kafla 1.6 hér á undan.

Þá vill forvinnuhópurinn minna á það hér að nemendur íslenskra foreldra sem hafa dvalist langdvölum erlendis og jafnvel gengið í skóla þar geta þurft á svipaðri þjálfun að halda í skólaíslensku og sumir þeirra sem eiga sér erlent móðurmál. Þetta var rakið í kafla 1.6 og hér er minnt á nauðsyn þess að hafa þetta í huga við námskrárgerðina. Þessi hópur mun vera býsna stór og þótt flestir í hópnum nái landi að lokum, ekki síst með aðstoð foreldra og vegna tillitssemi einstakra kennara, þarf að viðurkenna tilvist vandans og bregðast við honum í skólastarfi.

Loks vill forvinnuhópurinn ítreka að þeir sem hafa alist upp við táknmálsnotkun á heimili sínu, hvort sem þeir eru sjálfir heyrnarskertir eða heyrandi, eru að mörgu leyti í sömu sporum og þeir sem hafa alist upp við erlent móðurmál, eins og lýst var í kafla 1.6. Oftast er leitað einhverra úrræða fyrir þá sem eru heyrnarskertir, þótt stundum verði misbrestur á því ef þeir "geta bjargað sér" eins og sagt er. En hópur heyrandi nemenda sem eiga heyrnarskerta foreldra vill oft gleymast. Sumir þeirra geta þurft á sérstakri íslenskukennslu vegna ónógrar þjálfunar í því máli heima fyrir, en þeir ættu líka að eiga kost á sérstakri þjálfun í táknmáli í skólanum. Skipuleg kennsla í táknmáli fyrir heyrandi fólk mun áreiðanlega fara vaxandi á Íslandi á næstu árum. Í nýju norsku grunnskólanámskránni er bæði gert ráð fyrir móðurmálskennslu í táknmáli (sjá "Tegnspråk som førstespråk" bls. 130-149 í norsku námskránni) og einnig fyrir táknmáli sem valgrein (sjá "Tegnspråk fordypning" bls. 303-305). Síðarnefndi kosturinn gæti komið til greina hér þótt ekki sé búið að viðurkenna táknmál sem móðurmál.

Með það í huga sem hér hefur verið rakið, og einnig í kafla 1.6, má nefna eftirtalin markmið fyrir þessa sérstöku íslenskukennslu:

að veita þeim nemendum sem á þurfa að halda sérstaka þjálfun í skólaíslensku, þ.e. þeim orða- og hugtakaforða sem notaður er í ólíkum námsgreinum í íslenskum skólum,

að veita sérstaka þjálfun í því að hlusta á umræður um námsefni í íslenskum skólum og útskýringar á því,

Þetta er ekki tæmandi upptalning en ætti að nægja til að gefa vísbendingar um áherslur. Samvinna við greinakennara (þ.e. kennara í öðrum námsgreinum en íslensku) er augljóslega mikilvæg, svo og samvinna við móðurmálskennara þeirra sem í hlut eiga þegar því er að skipta. En vegna þess hve markhópurinn er sundurleitur eiga sum þessara markmiða ekki við í öllum tilvikum (þjálfun í því að lesa íslenska skrift er til dæmis sérstaklega brýn þegar þeir eiga í hlut sem eru óvanir latnesku stafrófi).

Loks er nauðsynlegt að minna á það að sú þörf á sérstakri íslenskukennslu sem hér er fjallað um getur komið upp í framhaldsskóla ekki síður en grunnskóla. Börn nýbúa geta verið á framhaldsskólaaldri þegar þau flytja til landsins, heyrnarskertir nemendur ná oft að bjarga sér í grunnskóla en þurfa síðan á sérstakri aðstoð að halda í framhaldsskóla, heyrandi nemendur frá heimilum þar sem táknmál er notað geta þurft stuðning í framhaldsskóla (bæði í táknmálinu og í íslensku) og börn Íslendinga sem hafa dvalist erlendis eru oft komin á framhaldsskólaaldur þegar þau koma (aftur) inn í íslenskt skólakerfi. Þetta þarf að hafa í huga við gerð námskrár fyrir framhaldsskóla, ekki síst vegna þess að lagalegur réttur til sérstakrar aðstoðar af þessu tagi er ekki eins skýr á framhaldsskólastigi og á grunnskólastigi. Það má ekki leiða til þess að hann verði fyrir borð borinn.

Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1997
Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
dags: 15.09.1997