Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða

5. Lokaorð

Eins og áður segir (í kafla 1.2) hefur forvinnuhópurinn túlkað stefnu menntamálaráðuneytisins svo að ætlunin væri að gera veg móðurmálsins meiri en áður í þeirri endurskoðun námskrár sem nú stendur yfir. Þess vegna mætti gera ráð fyrir auknum tíma í móðurmálskennslunni, að minnsta kosti grunnskóla. Samanburður við nokkur nágrannalönd bendir líka til þess að á Íslandi sé varið hlutfallslega minni tíma til móðurmálskennslu en þar (sjá fskj. 3). Þetta er einkum áberandi í grunnskólanum en kemur þó einnig fram í samanburði bóknámsbrauta í framhaldsskólanum. Þetta kann að koma nokkuð á óvart þar sem við Íslendingar höfum gjarna talið okkur trú um að við sinntum móðurmálinu og þjóðlegum fræðum betur en aðrir. Sú er greinilega ekki raunin og það þarf að breytast ef ætlunin er að fylgja þeirri stefnu að leggja áherslu á "íslensku, sögu og þjóðmenningu" og taka "mið af þeim kröfum sem gerðar eru til nemenda í nágrannalöndum okkar" (sjá skýrslu verkefnisstjórnar til stefnumótunarnefndar, bls. 2 og 3).

Ef skoðað er hver hlutur móðurmálskennslunnar af heildartímafjölda í grunnskóla hefur verið undanfarin 25-30 ár, mun koma í ljós að hann hefur farið minnkandi. Ástæðan er líklega einkum sú að þegar kennsla í nýjum greinum hefur verið tekin upp hefur þótt nauðsynlegt að skera í staðinn af þeim tíma sem varið er til kennslu kjarnagreina á borð við móðurmál. Þetta er ákaflega varhugaverð þróun vegna þess að hún á sér stað um leið og þjóðfélagsþróun sem er að nokkru leyti móðurmálsfjandsamleg, ef svo mætti segja. Með því er t.d. átt við það að íslensk börn og unglingar eyða nú minni tíma en áður í bóklestur en meiri tíma fyrir framan sjónvarp og önnur afþreyingartæki þar sem önnur mál en íslenska eru efst á blaði. Þetta kemur t.d. fram í nýlegum könnunum sem Þorbjörn Broddason prófessor við Háskóla Íslands hefur stýrt. En í stað þess að bregðast við þessu með því að efla og treysta móðurmálskennslu og bókmenntalestur hefur íslenska skólakerfið gert hlut móðurmálsins minni en hann var. Þetta þarf að breytast.

Íslenskir skólamenn tala oft um það að allir kennarar, að minnsta kosti í grunnskóla, séu móðurmálskennarar og þurfi að vera góð fyrirmynd um málnotkun. En ef litið er á hlut móðurmálsins í íslenskri kennaramenntun og hann borinn saman við hlut móðurmálsins í kennaramenntun í nágrannalöndunum, mun koma í ljós að hér stendur íslenskan líka höllum fæti. Það væri því í samræmi við yfirlýsta stefnu menntamálaráðuneytis að ráða bót á þessu.

Þessi skýrsla gerir ráð fyrir því að vilji sé fyrir hendi til að bæta stöðu móðurmálsins í íslenskum skólum og efla móðurmálskennsluna. Í samræmi við erindisbréf hefur hópurinn lagt áherslu á samræmi milli skólastiga. Það er kallað samfella og stígandi í skýrslunni. Innan framhaldsskólans hefur hópurinn gert ráð fyrir nokkurri samræmingu milli skóla og námsbrauta, án þess þó að gera tillögur um mjög fastar skoður í því efni. Það er kallað samræmi með sveigjanleika í skýrslunni. Hópurinn telur mikilvægt að þeir sem taka við skýrslunni víki ekki frá þessum meginatriðum ef verkefnisstjórn og menntamálaráðuneyti samþykkja þá stefnu sem hér er lýst.

 

Mosfellsbæ 17. júní 1997,

fyrir hönd forvinnuhóps á námssviði móðurmáls

Höskuldur Þráinsson, formaður

Fyrri síða

Yfirlit

Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1997
Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
dags: 15.09.1997