Fyrri síða

Yfirlit

1. Inngangur

Ýmsir geta ekki nýtt sér hefðbundna kennslu í íslensku í grunnskóla. Hluti þeirra hefur gengið undir nafninu nýbúar. Í Reglugerð um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku (Stjtíð. B, nr. 391/1996) er talað um "nemendur í grunnskóla er hafa annað móðurmál en íslensku". Þessir nemendur geta hins vegar sem best verið íslenskir ríkisborgarar og átt íslenskt foreldri eða jafnvel foreldra og m.a. af þessum ástæðum er hugtakið nýbúi tæpast heppilegt.

Verkefnisstjórn um endurskoðun námskrár hefur með bréfi áréttað að forvinnuhópi í íslensku er falið að:

  1. hyggja að móðurmálskennslu barna sem hafa erlend mál að móðurmáli,
  2. taka afstöðu til draga að námskrá í sérstakri íslenskukennslu fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Hér eru vissulega margir hópar undir og eitthvað á sjötta tug tungumála þannig að ekki eru margir í hverjum hópi í öllum tilvikum.

Fyrst verður fjallað nokkuð um móðurmálskennslu, síðan verður lítillega vikið að sérstakri íslenskukennslu. Hvað síðari þáttinn varðar er ástæða til að forvinnuhópur nýti sér þá vinnu sem fram hefur farið í menntamálaráðuneytinu um kennslu af þessu tagi.

 

2. Önnur móðurmál en íslenska

2.1 Vandinn

Margur vandi steðjar að þegar fjallað er um móðurmálskennslu minnihlutahópa í íslensku málsamfélagi. Viðfangsefnið er nýtt af nálinni hér á landi og því engar hefðir við að styðjast. Reynsla kennara og fræðimanna er af skornum skammti. Þess ber þó að geta að margir hafa kynnst þessum aðstæðum af bókum, í námi erlendis og sumir hafa starfað við erlenda skóla og kynnst móðurmálskennslu minnihlutahópa og kennslu sömu hópa í máli meirihluta (oftast ríkismáls) í viðkomandi landi. Þar sem umfjöllun þessi á sér ekki langa sögu hér á landi er ekki óeðlilegt að rekast einna fyrst á vanda vegna þess að hugtök eru ekki skýrt mörkuð. Ekki er tryggt að allir sem ræða um mál í þessu samhengi noti hugtökin á sama hátt. Því er mikilvægt að skilgreina þau (sjá kafla 2.2). Í kafla 2.3 verður leitast við að skýra að nokkru leyti nýjar aðstæður í íslensku málsamfélagi og nefna fáein atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga nú á tímum mikilla breytinga á afstöðu til hugtaksins móðurmáls.

 

2.2 Skilgreind fáein hugtök

Móðurmál

Ýmsar skilgreiningar eru til á hugtakinu móðurmál. Í hefðbundnum skilningi merkir það oft málið sem menn hugsa á, dreymir á, telja á o.s.frv. Móðurmál getur einnig verið málið sem börn læra á undan öðrum málum, eða mál sem málnotendur ráða best við og jafnvel mál sem einstaklingur notar mest eða það sem hann telur nánast sér.

Skilgreining

Móðurmál minnihlutabarns, sem talar tvö tungumál, er mál sem notað er á heimilinu af báðum foreldrum eða öðru, þegar rætt er við barnið.

Skýring

Barnið getur því haft tvö móðurmál.

Annað mál

Skilgreining

Annað mál minnihlutabarns er mál sem lærist fyrst og fremst vegna beinna tengsla við tiltekið málsamfélag. Oftast er um að ræða tungumál meirihluta í ákveðnu samfélagi. Í annan stað lærir einstaklingur í minnihlutahópi annað mál í skóla. Annað mál lærir fólk vegna þess að það er notað í málsamfélaginu og er því nauðsynlegt í daglegu lífi. Í skóla er annað mál kennt til þess að nemendur verði hæfir til að taka þátt í skólastarfi, atvinnulífi og samfélagi meirihlutans.

Erlent mál

Skilgreining

Erlent mál lærir einstaklingur einkum í skóla. Það er fyrst og fremst lært við kennslu með ákveðið hlutverk í huga, t.d. nám eða starf.

Skýring

Munurinn á öðru máli og erlendu máli skiptir mestu máli hvað varðar tengsl þess sem er að læra tungumál og samfélagsins sem um ræðir. Sá sem er að læra annað mál lærir það bæði í skóla og utan hans. Á hinn bóginn er staða þess sem er að læra erlent mál yfirleitt þrengri vegna þess að tengsl hans við tungumálið eru einkum í gegnum kennslu þar sem fá tækifæri gefast til þess að nota málið í almennum samskiptum.

Móðurmálskennsla

Ýmis rök eru fyrir móðurmálskennslu almennt. Þau geta verið af félagslegum, sálfræðilegum, hagfræðilegum og uppeldisfræðilegum toga. Einnig má nefna söguleg og menningarleg rök fyrir móðurmálsnámi. Varðveisluhlutverk skiptir enn máli. Réttur til móðurmálskennslu er viðurkenndur í íslensku samfélagi og sé vilji til þess að viðurkenna rétt minnihlutahópa almennt hlýtur réttur til móðurmálskennslu þeirra að skipta verulegu máli.

Í skilgreiningum þessum vekur sennilega athygli að einstaklingur getur haft tvö móðurmál. Hafa ber í huga að hér er um nýja skilgreiningu að ræða fremur en að aðstæður hafi breyst svo að þær gefi tilefni til nýrrar skilgreiningar.

 

2.3 Nýjar aðstæður

Fræðimenn greinir ekki lengur á um gildi móðurmálskennslu minnihlutahópa. Hins vegar eru ekki allir á eitt sáttir um hvenær rétt sé að hefja kennsluna og hvernig best verði að henni staðið (sjá Hvenekilde 1994b:204). Hér er vert að staldra við og hafa fáein atriði í huga. Í fyrsta lagi spyrja allir móðurmálskennarar þessara spurninga. Kennarar hafa t.d. lengi velt fyrir sér hvers konar málfræði á að kenna í grunnskóla, hvernig er eðlilegast að staðið verði að slíkri kennslu og hvenær er rétt að leggja áherslu á tiltekin atriði.

Börn tileinka sér þekkingu á umhverfi með því að læra tungumál. Móðurmálið skiptir sköpum í þessu samhengi. Það læra þau heima hjá sér, yfirleitt af foreldrum. Oft hefur verið lögð rík áhersla á að leikskóli og félagar skiptu hér mestu, en óhætt er að fullyrða að þáttur heimila verður aldrei ofmetinn. Börn læra mest í móðurmáli frá fæðingu til fjögurra ára aldurs, og á þeim tíma eyða þau að öðru jöfnu mestum hluta tíma síns með foreldrum. Aðeins þegar fullorðnir eða stálpuð börn og unglingar tala við barn og hlusta á það er unnt að búast við því að barnið læri að vinna úr reynslu og þróa tilfinningar. Hér skiptir máli að fullorðnir leiki sér dálítið með málið í samskiptum við börn, þeir þjálfi þau í að ríma orð, syngja, segja frá og hlusta á frásagnir, kenni þeim mun á réttu og röngu með því að kenna þeim reglur. Öll þessi samskipti fara fram með máli. Barn sem fær fá tækifæri til þess að eiga málfarsleg samskipti við fullorðna, m.a. vegna þess að tungumál er hindrun, kemur verr undirbúið í skólann en ella. Gildir þá einu hvað því stendur þar til boða.

Þegar kemur að skólagöngu er nauðsynlegt að öll börn eigi þess kost að læra meira um sjálf sig og heiminn. Þá skiptir máli að skólinn sé fær um að taka við þeim á sómasamlegan hátt. Sum börn búa þegar yfir mikilli þekkingu og eru ágætlega þroskuð. Önnur hafa ekki lært jafn mikið. Hér gildir einu hvort um er að ræða börn sem tala íslensku eða eitthvert annað tungumál. Hlutverk skólans er að kenna börnum í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Æskilegt er að málfarslegir minnihlutahópar megi þroska móðurmál á sem bestan hátt. Þeir þurfa að sætta sig við að læra annað tungumál til þess að geta tekið þátt í samfélaginu og grunnskóli verður að sinna þeirri skyldu sinni að brautskrá nemendur sem kunna íslenskt mál.

Fyrstu dagar barna í grunnskóla geta skipt sköpum fyrir framhaldið og allt gengi þeirra í skólanum. Kennari barna gegnir lykilhlutverki. En sjaldnast standa börn af erlendum uppruna og kennari í sömu sporum eða búa að svipaðri reynslu. Þau tala ekki sama tungumál. Í stuttu máli má því segja að tvennt verði að hafa í huga strax frá byrjun: Fullorðinn starfsmaður skóla sem talar móðurmál barna verður að taka á móti þeim og leggja verður áherslu á að kenna börnum af erlendum uppruna íslensku sem annað tungumál.

Því er stundum haldið fram að við búum að lítilli þekkingu á stöðu barna sem hafa annað tungumál en meirihluti tiltekins málsamfélags. Þetta er ekki alls kostar rétt. Vitanlega er ýmislegt í huldu í þessum fræðum og auknar rannsóknir hjálpa án efa til. Íslendingar geta þó huggað sig við að til eru margvíslegar erlendar rannsóknir og síðustu tvo áratugi hafa aðstæður, mál og málþroski barna sem tala minnihlutamál verið rannsökuð víða um heim, t.d. í Svíþjóð, Bandaríkjunum, Noregi og Þýskalandi. Fræðimenn hafa verið á eitt sáttir um gildi móðurmálskennslu. Þar má t.d. nefna viðamiklar danskar rannsóknir sem birst hafa í ritröðinni Københavnerstudier i tosprogedhed sem Danmarks Lærerhøjskole gefur út. Í þeim ríflega 20 bindum sem komin eru út er gildi móðurmálskennslu varla dregið í efa.

Fé sem látið er af hendi rakna til opinberrar þjónustu eins og skóla þarf að nota þannig að það nýtist sem best. Hæpið er að láta skammtímasjónarmið ráða því hvernig fé til skólamála er varið. Sýnt hefur verið fram á það í norskum rannsóknum (sjá Loona 1993) að með því að leggja í aukinn kostnað vegna móðurmálskennslu gengur nemendum almennt betur að tileinka sér norsku. Þegar endar voru dregnir saman var því um sparnað að ræða. Oft er það svo að sparnaður á einu sviði kann að hafa í för með sér aukin útgjöld á öðru. Þetta getur átt við um móðurmálskennslu fólks sem hefur annað móðurmál en meirihluti. Sé henni ekki nægilega vel sinnt hér á landi, má búast við því að nemendur verði ekki færir um að læra íslensku sem annað mál og ná þess vegna ekki tökum á öðrum greinum sem kenndar eru í grunnskóla. Í kjölfar fylgja útgjöld vegna sérkennslu. Í Reglugerð um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku (Stjtíð. B, nr 391/1996) er greinilega tekið tillit til reynslu og nýrrar þekkingar á þessu sviði í öðrum löndum, en þau mál hafa lítillega verið reifuð hér á undan.

Að lokum verða ræddir fjórir kostir sem gætu komið til greina í móðurmálskennslu minnihlutahópa hér á landi. Þeir eru þessir:

  1. Nemendur fara beint í venjulegan bekk án nokkurs stuðnings.
  2. Nemendur fara beint í venjulegan bekk en njóta stuðnings, einkum í íslensku.
  3. Nemendur fara í sérstaka móttökubekki, en svo fljótt sem auðið er taka þeir einnig þátt í hefðbundinni kennslu.
  4. Nemendur eru þjálfaðir í móðurmáli frá fyrstu stund, en taka jafnframt þátt í bekkjarstarfi.

Færa má rök að því að fyrsti kosturinn leiði ekki til góðs árangurs nemenda. Þeir þjálfast vitanlega ekkert í eigin móðurmáli. Þeir sitja aðgerðarlausir í kennslustundum. Aðferðin miðast við að þessir nemendur læri íslensku á svipaðan hátt og þeir lærðu móðurmálið. Aðstæður eru hins vegar aðrar og einnig eru þeir oft orðnir eldri en svo að þeir búi að meðfæddum hæfileikum til að læra mál á sama hátt og börn á máltökualdri.

Hinir kostirnir þrír eru vænlegir hvað varðar áherslu á að nemandinn taki þátt í hefðbundnu bekkjarstarfi frá fyrstu stund. Þetta er mikilvægt, ekki síst félagslega. Á þann hátt má t.d. búast við því að nemendur einangrist ekki. Hins vegar skortir í 2) enn á að þeir stígi fyrstu skrefin í lestrarnámi með móðurmál sem aðalmál og þeim takist á þann hátt að tengja reynsluheim sinn íslenskunámi þegar þar að kemur.

 

3. Sérstök íslenskukennsla

Fram hefur komið fram að árið 1996 var gefin út reglugerð um íslenskukennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku (Stjtíð. B, nr. 391/1996). Þar segir (1.gr.) að "[n]emendur í grunnskóla er hafa annað móðurmál en íslensku og hafa fasta búsetu hér á landi, eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku". Markmiðum kennslunnar er lýst nokkuð almennum orðum. Auk þess segir að náminu skuli setja markmið í aðalnámskrá grunnskóla (2. gr.). Þetta skiptir verulegu máli fyrir þá endurskoðun aðalnámskrár sem nú fer fram. Ekkert er um þessi mál fjallað í Aðalnámskrá grunnskóla (1989). Í 4. gr. viðkomandi reglugerðar segir að miðað sé við að nemandi fái 2 stundir á viku í sérstakri íslenskukennslu. Með reglugerðinni var mörkuð sú stefna að stefnt skuli að virku tvítyngi sem merkir færni í að skilja, tala, og síðar lesa og skrifa á tveimur tungumálum (og lifa í tveimur menningarheimum (sjá Drög að námskrá í sérstakri íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, bls. 2). Í því skyni skulu hlutaðeigandi nemendur fá kennslu í eigin móðurmáli þar sem því verður við komið og þeir skulu jafnframt hvattir til að halda móðurmáli sínu og rækta það. Því er viðurkennt að heppileg forsenda hins sérstaka íslenskunáms sé grundvöllur í móðurmáli.

Forvinnuhópur í íslensku þarf að taka afstöðu til sérstakrar íslenskukennslu, hvernig námskrá á að vera og hverjar áherslur er rétt að leggja. Þar sem allmikil vinna hefur verið lögð í námskrá af þessu tagi, beinlínis ætluð þeim hópi sem hér um ræðir, virðist skynsamlegt fyrir forvinnuhóp að byrja á því að taka afstöðu til námskrárdraga menntamálaráðuneytis (Drög að námskrá í sérstakri íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku, 1997). Í Drögunum er víða komið við. Í þeim er m.a. að finna markmið með kennslu, hvað skal kenna, tengsl við aðrar námsgreinar og hvernig námsefni verður lagað að þörfum nemenda með annað móðurmál en íslensku. Loks er fjallað um áherslur í kennslu á hverju þriggja stiga grunnskólans.

Verkefnisstjórn telur í bréfi til forvinnuhóps að rétt sé að leita "aðstoðar sérfræðinga...í samvinnu við verkefnisstjórn". Því er eðlilegt að boða sérfræðing í þessu efni á fund hópsins áður en lengra er haldið.

 

Heimildaskrá

Ásta Kristjánsdóttir og Ingibjörg Hafstað. 1994. Nýbúafræðsla. Áfangaskýrsla. Menntamálaráðuneytið.

Ásta Kristjánsdóttir, Guðni Olgeirsson og Ingibjörg Hafstað. 1994. Skýrsla um ferð til Bergen í apríl 1994. Menntamálaráðuneytið.

Drög að námskrá í sérstakri íslensku fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Menntamálaráðuneytið, mars 1997.

Erna Árnadóttir. 1993. Aðfararorð að námskrá. Skíma 35:4-5. [Sjá einnig Meginmarkmið með móðurmálsnámi í grunn- og framhaldsskólum. 1993.]

Freyja Björk Gunnarsdóttir og Hekla Hannibalsdóttir. 1995. Nýbúafræðsla á Íslandi: Hvar stöndum við? Hvert stefnum við? B.Ed.-ritgerð við Kennaraháskóla Íslands, Reykjavík.

Greinargerð um tvítyngisnámskeið fyrir Norður-Víetnama vorið 1995. 28.9.1995. [Eftir verkefnisstjóra í nýbúafræðslu.]

Guðni Olgeirsson og Ingibjörg Hafstað. 1994. Tungumál er lykill. Skíma 36:5-11.

Holmen, Anne, og J. Normann J¿rgensen. 1993. Tosprogede børn i Danmark. Hans Reitzels Forlag.

Hvenekilde, A. 1994a. Morsmålsundervisningens plass og betydning i undervisningen for elever fra språklige minoriteter i grunnskolen. Í Anne Hvenekilde (ritstj.): Veier til kunnskap og deltakelse, bls. 53-76. îsló, Novus.

Hvenekilde, A. 1994b. Tanker om ¿konomi. Í Anne Hvenekilde (ritstj.): Veier til kunnskap og deltakelse, bls. 200-205. Ósló, Novus.

Ingibjörg Hafstað. 1994. Milli menningarheima: Um nám og kennslu nýbúa. Reykjavík, Námsgagnastofnun.

Íslenskukennsla nýbúa. Tillögur starfshóps. 1992. Menntamálráðuneytið.

Loona, Sunil. 1993. Prosjektet "En bedre start". Statusrapport. [Ósló], Antirasistisk Senter.

Meginmarkmið með móðurmálsnámi í grunn- og framhaldsskólum. 1993. Skíma 35:5-12. [Sjá einnig Ernu Árnadóttur 1993.]

Opplæring i et flerkulturelt Norge. Norges offentlige utredninger, NOU 1995, 12. Ósló, Statens forvaltningstjeneste.

Skýrslur um víetnamska nemendur í móðurmálsnámi haustið 1995. Höfundar: Fjórir grunnskólakennarar. [Í 1. viðauka.]

Ryen, Else. 1990. Grammatikk i andrespråksundervisningen. Í Lise Iversen Bjørkvåg, Anne Hvenekilde og Else Ryen (ritstj.): "Men hva betyr det, lærer?" Norsk som andrespråk. Fagdidaktiske bidrag. Ósló, Landslaget for norskundervisning og J.W. Cappelens Forlag.

Sigurður Konráðsson. 1996. Móðurmálskennsla Víetnama. Reykjavík. [Óprentuð skýrsla, tekin saman handa menntamálaráðuneyti.]

Um íslenskukennslu erlendis á grunnskólastigi. Leiðarvísir. 1995. Menntamálráðuneytið, Skrudda.

Fyrri síða

Yfirlit


Menntamálaráðuneytið 1997
Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
dags: 15.09.1997