INNGANGUR

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og lengi býr að fyrstu gerð. Með nýrri aðalnámskrá fyrir leikskóla, hinni fyrstu sem gefin er út á Íslandi, er umhyggjan fyrir barninu höfð að leiðarljósi.

Markvisst hefur verið unnið að því að styrkja leikskólastigið. Menntun leikskólakennara er nú öll á háskólastigi og meðal þeirra ríkir mikill metnaður til að gera góða leikskóla enn betri. Hið sama á við um fjölmarga aðra starfsmenn leikskólanna. Frá upphafi hafa þeir lagt ómetanlegan skerf af mörkum við mótun og þróun leikskólans. Þá reynslu og þekkingu ber að nýta eins og kostur er.

Undanfarin misseri hefur verið unnið í anda nýrrar skólastefnu að gerð námskráa fyrir öll stig íslenska skólakerfisins til að styrkja og móta skilvirkt starf í einstökum skólum og í skólakerfinu í heild. Í námskránum er stefnt að eðlilegri samfellu og stígandi á námsleiðinni.

Aðalnámskrá leikskóla er stefnumótandi leiðarvísir um uppeldisstörf í leikskólum og byggist á markmiðslýsingu laga um leikskóla og reglugerð um starfsemi leikskóla og uppeldisáætlun fyrir leikskóla frá 1993. Námskráin er leiðarvísir fyrir alla sem vinna að uppeldi og menntun barna í leikskólum og er sveigjanlegur rammi um störf þeirra. Aðalnámskrá geymir einnig upplýsingar og viðmiðun fyrir foreldra til að þeir geti fylgst með vinnu í leikskólum og árangri starfsins.

Björn Bjarnason (sign)
menntamálaráðherra