LEIKUR OG LEIKSKÓLASTARF

Leikurinn

Á bernskuárum er leikur lífstjáning barns, ríkjandi athöfn og mikilvægasta náms- og þroskaleið þess. Leikur er hornsteinn leikskólastarfsins og lífstjáning og gleðigjafi barns. Frjáls og sjálfsprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barns. Í leik lærir barn margt sem enginn getur kennt því. Í leik felst því mikið sjálfsnám, honum fylgir bæði gaman og alvara. Reynsla barns endurspeglast í leiknum. Til þess að leikurinn geti þróast og eflst þarf barn upplifun, hugmyndaflug og efnivið. Sjálfsprottinn leikur greinist frá öðru atferli í því að hann er skapandi og barnið stjórnar honum sjálft.

Í sjálfsprottnum leik er barn

Í bernsku felur leikur í sér nám. Af leik sprettur ný þekking, nýjar tilfinningar, nýjar athafnir og leikni. Í leik tjáir barn tilfinningar sínar og fær útrás fyrir þær. Sköpunarþörf og hugmyndaflug birtist í leikjum þess.

Í leik lærist börnum nauðsyn þess að vinna saman og taka tillit hvert til annars. Í leik lærir barn samskiptareglur og að virða rétt annarra. Leikur mótast af þroska barnsins, bakgrunni þess og uppeldisumhverfi.

Barn er ekki einungis leikfúst, það er einnig nám- og verkfúst. Barn hefur mikla þörf fyrir að takast á við verkefni sem reyna á færni þess, bæði andlega og líkamlega. Því vex stöðugt þróttur, þor og úthald með ári hverju. Barn getur smám saman einbeitt sér æ lengur að viðfangsefnum og leikjum. Það er forvitið og vill fást við krefjandi leiki og verkefni. Leikskólinn á að veita börnum viðfangsefni og aðstöðu sem hæfir þroska þeirra, áhuga og getu.

Leikur og sköpunarmáttur

Leikir barna mótast af hugmyndaauðgi þeirra og sköpunarmætti, þ.e. hæfni til að sjá ný tengsl, að koma fram með nýstárlegar hugmyndir og víkja frá hefðbundnu hugsanamynstri.

Skapandi barn er næmt á umhverfið og umhverfið frjóvgar hug þess. Það hefur áhuga á því smáa, á áferð, lögun og litum. Þessi frumleiki barns birtist með margvíslegum hætti: í leikrænni tjáningu, í máli, myndgerð, tónum og hreyfingum. Skapandi barn hugsar oft og framkvæmir með öðrum hætti en viðtekið er og það getur tekið áhættu.

Leikur endurspeglar reynsluheim barnsins, þá menningu og samfélag sem það býr í. Barnið lifir sig inn í atburði sem gerast í kringum það. Í leik rifjar barnið upp það sem það hefur séð, heyrt og upplifað, lætur ímyndunaraflið ráða ferðinni, umbreytir persónum og atburðum eftir skilningi sínum og tilfinningum. Spuninn í leiknum þróast oft í samráði við leikfélagana.

Leikskilyrði og efniviður

Skipulag og búnaður leikskóla á að örva leik barna, frumkvæði þeirra og virkni. Margir samofnir þættir hafa áhrif á leik barna í leikskóla; samsetning barnahópsins og innbyrðis tengsl barna, leikskilyrði og efniviður innanhúss og utan.

Lýsing og hljómburður í leikskóla hefur mikil áhrif á leik og líðan barna. Hlýlegt umhverfi stuðlar að ró í samskiptum barna en ofhlaðnar leikstofur geta skapað óróa. Hætt er við að snautt og tilbreytingarlítið umhverfi sé hvorki vekjandi né þroskavænlegt.

Skipulag og umhverfi leikskóla hefur áhrif á leik barna og getur stutt við leikinn en einnig verkað hamlandi. Umhverfið er stundum kallað þriðji uppalandinn í leikskóla, næst barnahópnum og leikskólakennara.

Börnin þurfa tíma til að skipuleggja og setja upp leikinn og þau þurfa samfelldan tíma til að þróa leik sinn og dýpka. Leik skal því ætlaður góður og samfelldur tími í dagskipulagi leikskóla. Börn þurfa vandaðan og fjölbreytilegan leikfangakost og margvíslegan efnivið til skapandi starfa. Leikbúnað allan ber að velja í samræmi við þroska barna.

Helstu leikefni, sem vera ættu í hverjum leikskóla, eru

Hlutverk leikskólakennara í leik barna

Þó að börn þurfi að leika sér á eigin forsendum á leikskólakennari ekki að vera aðgerðarlaus. Langur vegur er á milli aðgerðarleysis og stjórnunar. Leikskólakennari á að fylgjast vel með leiknum og á ávallt að vera reiðubúinn að örva eða taka þátt í leiknum og þá á forsendum barnanna. Leikskólakennari veitir þannig öryggi, getur vakið áhuga, svarað spurningum, spurt spurninga eða frætt börnin. Leikur verður oft skemmtilegri ef leikskólakennari bregður á leik, gantast og hlær með börnum.

Leikskólakennari þarf að vera næmur á andlegar og líkamlegar þarfir barnsins og fylgjast gaumgæfilega með börnunum í leik. Þannig kynnist hann börnunum betur og getur áttað sig á hvað leikurinn kann að endurspegla. Börn dvelja að öllu jöfnu lengur við leik og störf ef leikskólakennari er nálægur. Návistin veitir barni öryggi og stuðning. Börn skynja fljótt hvort áhugi er á leik þeirra og sækjast þá eftir að fá viðkomandi með í leikinn.

Leikskólakennari þarf að ætla sér tíma til uppeldislegra athugana og skráningar á atferli barns, bæði þegar það er eitt og í samspili við barnahóp.

Barnahópurinn

Hópleikir og hópstarf eru mikilvægir þættir í leikskólastarfi. Barn þarf að læra að leika sér og starfa í barnahópi sem það tilheyrir. Í hópleikjum öðlast barn skilning á gildi samvinnu og þroskar með sér samkennd og ábyrgðartilfinningu.

Barn lærir annað og með öðrum hætti í samskiptum sínum við önnur börn en í samskiptum sínum við fullorðna. Í hópi jafnaldra fá börnin tækifæri til að láta til sín taka, eiga frumkvæði, leika sér og starfa og deila gleði með öðrum. Þau líkja hvert eftir öðru og hjálpast að og vinátta skapast. Í samskiptum við önnur börn eykst félagslegur þroski barna og lífsleikni.

Með þátttöku í barnahópi — stórum eða litlum — öðlast barn margþætta félagslega reynslu. Það þarf að finna að það hafi hlutverki að gegna þar og tilheyri hópnum. Barn á að fá margvísleg tækifæri til að njóta samverustunda og gleðjast með öðrum. Hópstarf og einstaklingsþroski eru ekki andstæður. Heilbrigt hópstarf örvar þroska einstaklings, þroski einstaklings auðgar starf hópsins. Efniviður og verkefni eiga að örva hópleiki. Jafnframt þarf að gefa börnum kost á að leika sér í ró og næði í návist starfsfólks.

Leikskólakennari þarf að fylgjast vel með líðan hvers barns og breytingum í hegðun þess, með samskiptamynstri í barnahópi og gæta þess að jafnvægi og jafnrétti ríki. Örva skal samvinnu barna, það eykur samheldni þeirra og ábyrgðarkennd. Mótuð stefna þarf að ríkja um aðhald og hæfilegan aga í leikskóla og í samskiptum barna.

Sérþarfir barna

Börn hafa mismunandi getu, reynslu og þroska. Þau hafa þörf fyrir samneyti við önnur börn, jafnt jafnaldra sína sem eldri og yngri börn. Leikskólinn á að taka tillit til þarfa hvers einstaks barns svo að það fái notið sín í hópi annarra barna á eigin forsendum.

Taka ber sérstakt tillit til barns sem á einhvern hátt er fatlað eða með tilfinninga- og/eða félagslega erfiðleika. Það þarf að njóta sérstakrar aðstoðar til að vega upp á móti þeirri hömlun sem fötlunin setur því. Sama gildir um heyrnarlaust og heyrnarskert, blint og sjónskert barn. Sérhvert barn þarf að fást við viðfangsefni við sitt hæfi. Gæta þarf þess að barn einangrist ekki og aðlagist vel barnahópnum og njóti eðlilegra félagslegra tengsla. Styrkja ber sjálfsmynd barnsins. Barn hefur þörf fyrir að vinna sigur, það sem á við fötlun, hömlun eða veikindi að stríða jafnt sem heilbrigt barn. Leikskólinn á að hjálpa börnum frá öðrum menningarsvæðum til að vera virkir þátttakendur í hinu nýja samfélagi án þess að þau glati tengslum við eigin menningu, tungu og trú. Þau þurfa að öðlast sjálfsöryggi í hinu nýja umhverfi og tilfinningu fyrir því að þau séu velkomin þar. Þannig halda þau sjálfsvirðingu sinni og styrkja sjálfstraust sitt.

Barn, sem býr við langvarandi veikindi, skal njóta dvalar í leikskóla eftir því sem heilsa þess og kraftar leyfa. Félagsskapur og þátttaka í leik og starfi er því nauðsynleg, það dregur úr kvíða barnsins og hjálpar því í erfiðleikum þess. Því skal sýna sérstaka alúð og nærfærni því að oft er þrek þess og úthald skert. Leiðsögn og stuðningur skal taka mið af þörfum hvers barns og vera í nánu samráði við foreldra.

Ýmiss konar atburðir og erfiðleikar í lífi barns geta orðið því þungbærir og haft djúp áhrif á hegðun þess og líðan. Leikskólinn skal hjálpa barninu við að vinna bug á ótta sínum og öryggisleysi.

Lífsleikni

Lífsleikni byggist á alhliða þroska barns, færni þess til samskipta, rökrænnar tjáningar og til að bera virðingu fyrir umhverfi sínu. Í leikskóla ber að efla lífsleikni barna með því að rækta þá þroskaþætti sem ræddir eru í kaflanum um leiðir að markmiðum.

Í leikskóla á að kenna barni lýðræðisleg vinnubrögð. Það skal taka þátt í áætlanagerð, ákvörðunum og mati. Ræða þarf við barnið um ýmis áform sem varða það og um áhugamál þess. Það þarf að finna að tillit sé tekið til óska þess og álits.

Lífsleikni felst m.a. í því að virða reglur. Leikskóli skal setja reglur sem gilda eiga í barnahópi og skýra tilgang þeirra fyrir börnum. Eðlilegt er að eldri börn taki þátt í að setja sumar reglur í barnahópi og ræða þær. Er það vísir að lýðræðislegum vinnubrögðum sem börn þurfa smám saman að temja sér. Styðja þarf börn í að virða settar reglur og gefa þeim kost á að leysa úr eigin málum og deilum á friðsamlegan hátt. Samskipti í leikskóla þurfa að vera með þeim hætti að allir virði rétt annarra.

Til að öðlast lífsleikni þarf barnið að læra

Daglegt líf í leikskóla

Daglegt líf í leikskóla markast af föstum athöfnum sem lúta að líkamlegum þörfum barna og heilsu. Á ákveðnum tímum matast börn, þvo sér, hvíla sig og sofa. Dagskipulagið á að sníða að þörfum barna, þroska þeirra, aldri, samsetningu barnahóps, dvalartíma og öðrum ytri skilyrðum. Í skipulagi leikskólastarfs þarf að ríkja jafnvægi á milli mismunandi þátta, á milli frjálsra og skipulagðra leikja, innileikja og útileikja, á milli félagslegra samskipta og einstaklingsverkefna og á milli hvíldar og þátttöku í leik og starfi. Skipulag og ákveðnar tímasetningar á daglegum atburðum gefa leikskólastarfinu festu og tryggja hæfilegan og samfelldan tíma til leikja og skapandi starfs.

Þegar börn og leikskólakennari sitja saman við matarborð gefst gott tækifæri til að styrkja góða borðsiði og til að spjalla við börnin. Með því að taka þátt í borðhaldi með börnum skapar leikskólakennari festu og ró. Mat skal bera snyrtilega fram og hann á að vera hollur og næringarríkur. Þegar börn hafa náð nægum þroska eiga þau að hjálpa til við undirbúning máltíða og við frágang að máltíð lokinni. Það styrkir félagsvitund barna og þau læra að meta gildi samvinnu. Í leikskóla skal styrkja hreinlætisvenjur barnsins.

Hvíldartími gefur tækifæri til að skapa tengsl við hvert einstakt barn og barnahópinn sem heild. Í fataherbergi leikskóla lærir barnið smám saman að klæða sig úr og í og að ganga snyrtilega frá fatnaði sínum og börnin hjálpa þar hvert öðru.

Barn þarf að finna að það sé velkomið á hverjum degi í leikskólann. Getur það haft áhrif á líðan barnsins allan daginn. Kveðja skal sérhvert barn þegar það býst til heimferðar.