MAT Á LEIKSKÓLASTARFI

Í reglugerð um starfsemi leikskóla segir að sérhver leikskóli skuli móta aðferðir til að meta uppeldisstarf, stjórnunarhætti og samskipti bæði innan leikskólans og utan. Mat skal gert með hliðsjón af lögum, reglugerð og aðalnámskrá leikskóla. Sérstaklega skal gera grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum matsins.

Mati á leikskólastarfi er skipt í innra og ytra mat. Með innra mati er átt við sjálfsmat leikskólans og skal það framkvæmt af starfsmönnum hans. Með ytra mati er átt við úttekt á starfsemi leikskólans sem gerð er af utanaðkomandi aðila.

Sjálfsmat

Sjálfsmat leggur faglegan grundvöll að endurbótum í leikskólastarfi og er leið til að vinna kerfisbundið að því að auka gæði skólastarfsins og gera það skilvirkara. Í sjálfsmati skal taka mið af markmiðum og stefnu leikskólans og lýsingu á leiðum til að ná þeim. Mat á að leiða í ljós hvort markmiðum hefur verið náð og hvort breytinga er þörf. Sjálfsmatið gerir starfsfólki jafnframt auðveldara að vinna að markmiðum leikskólans.

Með sjálfsmati fer fram víðtæk gagnaöflun um leikskólastarfið sem heild eða einstaka þætti þess. Sjálfsmat er því einnig leið til að miðla þekkingu og upplýsingum um leikskólastarf. Leikskólum er í sjálfsvald sett hvaða aðferð þeir beita við sjálfsmatið.

Sjálfsmat leikskóla á að vera samvinnuverkefni þeirra sem tengjast starfinu. Stjórnandi matsins deilir út verkefnum, skipuleggur skýrslugerð og setur fram ábendingar og tillögur til hópsins sem vinnur matið. Ákveða skal hvað á að skoða hverju sinni, t.d. samskipti, viðhorf eða skipulag. Taka á saman upplýsingar um þá þætti sem eru til skoðunar.

Til að tryggja að matsvinna gangi vel þarf að

Sjálfsmati skal ljúka með skýrslu. Þegar unnið er að sjálfsmati er nauðsynlegt að ákveða fyrirkomulag gagnaöflunar og skýrslugerðar.

Í skýrslu um sjálfsmat er nauðsynlegt að fram komi

Viðmið fyrir sjálfsmat

Þau atriði, sem menntamálaráðuneytið telur mikilvæg sem viðmið fyrir vinnu við sjálfsmat, eru að sjálfsmatið sé:

Formlegt. Matið skal byggt á kerfisbundnum aðferðum sem lýst er í sjálfsmatsskýrslu. Þar skal einnig koma fram hvernig var staðið að verkinu og hverjir unnu það.

Altækt. Matið skal ná til allra helstu þátta leikskólastarfsins. Meta þarf markmið, stjórnun, framkvæmd uppeldis- og námssviða, framfarir og líðan barnanna og samvinnu meðal starfsfólksins og samvinnu við heimili barna.

Áreiðanlegt. Matið þarf að byggjast á traustum gögnum frá leikskólanum, jafnframt því að framkvæmdar séu viðhorfskannanir meðal foreldra, barna og starfsfólks.

Samstarfsmiðað. Allir, sem starfa í leikskólanum, þurfa að tengjast matinu. Verkaskipting og boðleiðir þurfa að vera skýrar. Við skipulagningu og undirbúning sjálfsmatsins þarf að kynna starfsmönnum umfang verkefnisins og sátt þarf að ríkja um framkvæmd þess. Huga þarf að þátttöku foreldra og annarra hagsmunaaðila í sjálfsmatinu.

Umbótamiðað. Í kjölfar mats þarf að gera áætlun um umbætur og þróun á starfinu. Einnig þarf að benda á hvernig markmiðum umbótaáætlunarinnar verði náð og skilgreina þarf hvernig megi meta árangur.

Stofnana- og einstaklingsmiðað. Matið þarf að taka bæði til leikskólans í heild og þeirra einstaklinga sem þar vinna.

Lýsandi. Í sjálfsmatsskýrslu skal lýsa í stuttu máli starfsemi leikskólans í skrifuðum texta, með myndum og í töflum.

Greinandi. Í matinu skal koma skýrt fram greining á styrkleika og veikleika í einstökum þáttum leikskólastarfsins.

Opinbert. Ákveða þarf hverjir eiga að hafa aðgang að tilteknum þáttum sjálfsmatsins en sjálfsmatsskýrslu þarf að birta opinberlega. Hér þarf að tryggja að haldin séu í heiðri ákvæði gildandi laga, m.a. um meðferð persónuupplýsinga.

Ytra mat

Menntamálaráðuneytið lætur, samkvæmt lögum um leikskóla, fara fram skipulegt ytra mat a.m.k. á einum leikskóla á ári. Rekstraraðili leikskóla getur einnig látið framkvæma slíkt mat. Mati er ætlað að tryggja að starfsemi leikskóla sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar og í samræmi við aðalnámskrá leikskóla. Hægt er að fela sérfræðingi í mati með þekkingu á málefnum barna á leikskólaaldri að gera slíkt mat eða matshópi. Matsaðili eða matshópur getur nýtt sér sjálfsmatsskýrslu leikskólans. Sjálfsmat er þá tekið til nánari skoðunar auk þess sem matsaðili gerir eigin athuganir á starfsemi skólans, skólanámskrá hans, skipulagi, samskiptum innan skólans og við foreldra, svo að dæmi séu tekin. Gagnaöflun getur t.d. verið í formi einkaviðtala eða hópviðtala, athugana á staðnum og spurningalista. Matsaðili eða matshópur skilar niðurstöðum í skýrslu þar sem lýst er séreinkennum skólans, styrk hans og veikleika og leggja skal fram tillögur og ábendingar um breytingar. Niðurstöður úr mati ættu að leiða til aukinnar þekkingar og þróunar á leikskólastarfi.

Matsþættir

Við innra mat á leikskólastarfi skulu eftirfarandi atriði athuguð:

Börn

Starfsfólk

Samskipti

Líðan

Leikur og leikskólastarf

Námssvið leikskóla

Skólanámskrárgerð

Stjórnunarhættir

Samskipti og tengsl utan leikskólans

Samstarfsverkefni og þróunarstarf

Húsnæði/lóð, útileiksvæði og búnaður

Samstarf heimilis og leikskóla