NÁMSSVIÐ LEIKSKÓLA

Námssvið

Námssvið leikskóla eru áhersluþættir í leikskólauppeldi. Þau eru hreyfing, málrækt, myndsköpun, tónlist, náttúra og umhverfi, menning og samfélag. Námssviðin skarast og þau eru samofin undirstöðuþáttum leikskólastarfs: leik, daglegri umönnun og almennri lífsleikni.

Hreyfing

Börn hafa ríka þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Í leikskóla ber því að leggja áherslu á hreyfingu barna og hreyfiuppeldi. Öll hreyfing stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan. Leikir, sem reyna á líkamann, veita barni útrás.

Börn eru sífellt á hreyfingu og þau fara fljótt að tjá sig með hreyfingum. Hreyfing hefur áhrif á heilsu, snerpu og þol. Barn skynjar líkama sinn og nær smám saman betri stjórn á hreyfingum sínum. Í hreyfileikjum öðlast barn skilning á styrk sínum og getu og sjálfstraust þess vex. Samhæfing hreyfinga, jafnvægi og öryggi barnsins eykst.

Í hreyfileikjum lærir barn að meta aðstæður. Það lærir að velja, hafna og þora. Leggja ber áherslu á að barnið læri ýmis stöðuhugtök og að átta sig á rými, fjarlægðum og áttum. Ýmsir hlaupaleikir reyna verulega á þrótt barnsins og úthald, örva hjartslátt og blóðrás. Í hvíld og slökun í lok slíkra leikja skynjar barn muninn á spennu og slökun. Með því að fylgjast með hreyfingu barns sér leikskólakennari þroska þess og framfarir.

Útivera

Hreyfing og útivera eru samtengdir þættir. Í útiveru komast börn í snertingu við náttúruna, þau skynja nánasta umhverfi sitt og læra að meta það. Utan dyra geta börnin leyft sér ærslaleiki, hróp og köll. Þar geta þau hlaupið, hoppað, stokkið og klifrað. Leikvellir leikskóla eiga að vera vel fallnir til alls konar hreyfileikja, bæði sjálfsprottinna og skipulagðra.

Málrækt

Tungumálið er mikilvægasta tæki manna til boðskipta. Sameiginlegt tungumál — móðurmálið — tengir fólk saman og eflir samkennd þess. Tungumálið er snar þáttur í menningu þjóða og þjóðarbrota. Móðurmál okkar og bókmenntaarfur tengir saman fortíð þjóðarinnar og nútíð. Því ber að leggja áherslu á málrækt: í samtölum, með krefjandi spurningum, með því að lesa fyrir barnið, segja því sögur og kenna því kvæði og þulur. Einnig skal hvetja barn til að spyrja, segja frá og hlusta með athygli. Málörvun á að flétta inn í sem flesta þætti leikskólastarfsins. Einkum á að nota leikinn í þessu skyni en ótal aðrar stundir í dagsins önn eru vel fallnar til málörvunar.

Samtöl

Hvetja á barnið til að segja frá atburðum og öðru sem því er hugleikið og þá skal hlustað af athygli. Samræður, sem byggjast á opnum spurningum þar sem svarið krefst íhugunar, örva gagnrýna hugsun. Hvetja þarf börn til að færa rök fyrir máli sínu. Börn spyrja oft heimspekilegra spurninga. Ein spurning vekur oft upp aðra. Ber að hlusta vel á svör barna og hugleiðingar. Samræðuaðferð, sem notuð er í „barnaheimspeki“, á vel við í leikskólastarfi. Nauðsynlegt er að gæta þess að sérhverju barni gefist kostur á að leggja eitthvað til málanna.

Barnabækur, sögur og ævintýri

Barnabækur eru ómissandi í leikskólastarfi, bæði til málörvunar og til að miðla fróðleik og reynslu. Bækur þurfa að vera hluti af daglegu umhverfi barna til að þau læri að njóta þeirra. Í leikskóla ber að leggja ríka áherslu á að lesa fyrir börn efni sem hæfir aldri þeirra og þroska. Einnig skal segja börnum sögur og ævintýri frá eigin brjósti. Það er persónulegt tjáningarform sem nær oft athygli barna betur en upplestur úr bók. Sögumaður er í nánari tengslum við börnin og frásögnin er oft meira lifandi en þegar lesið er.

Þegar lesið er fyrir barn þjálfast það í að hlusta og því skal gefið tækifæri til að ræða um atburði og persónur sögunnar. Sögur geta og hjálpað barni til að skilja tilfinningar sínar og annarra.

Heimsóknir eldri barna á bókasöfn ættu að vera fastur liður í lífi leikskólabarna. Þá kynnast þau veröld bóka, hvernig hægt er að fá bækur að láni og að þeim verður að skila aftur.

Orðaforði, lestur og ritun

Hjá barni vaknar fljótt áhugi á rituðu máli og síðar fyrir lestri og skrift. Í leikskóla ber að skapa umhverfi sem hvetur barn til þess að kanna leyndardóma ritaðs máls og vekur löngun þess til að læra að lesa og skrifa.

Fyrstu kynni barns af rituðu máli hefjast oft í leik þess. Margs konar leikir og leikföng í leikskóla búa barnið á eðlilegan hátt undir að læra að lesa og skrifa. Ýmsir samtengingar-, röðunar- og tölvuleikir skerpa formskyn barnsins og leikir með rím, tóna og takt auka hæfni þess til að greina hljóð. Smám saman lærir barn heiti bókstafa, það áttar sig á lestrarátt og að orð eru búin til úr hljóðum sem það þekkir. Það fær áhuga á texta bóka og tengir hann við talmálið. Þessi áhugi vex eftir því sem líða fer á leikskólaaldur.


Ýmsir leikir barna, eins og að handfjatla og skoða bækur, nota blýanta og liti og að lesa og skrifa í „þykjustunni“, fela í sér hvatningu til þess að læra að lesa og skrifa.

Gera á ritað mál áberandi í leikskóla, t.d. með því að skrifa nafn barns með prentstöfum við mynd þess, skrá frásögn þess og lesa hana síðan fyrir barnið. Skilst því þá betur að skrifaður texti er tákn fyrir talmál og geymir frásögnina. Er það börnum hvatning til að læra að lesa.

Orðaforði og hugtök

Barn fær frumreynslu sína af hugtökum, sem tengjast stað, stærð og tíma, í mörgu sem lýtur að daglegu lífi. Þessi fyrirbæri og hugtök, sem þeim tengjast, eru tekin hér sem dæmi um eflingu orðaforða barna og skilning þeirra á hugtökum. Barn nemur þessi hugtök af ýmsu í daglegu lífi sínu. Það fer smám saman að skilja tímaröð og tímahugtök og læra orð yfir þau. Dagskipulag leikskólastarfs felur í sér reglubundna tímaröð starfsþátta. Vekja ber áhuga og athygli barnsins á skiptingu tíma í klukkustundir, daga, vikur, mánuði og ár. Barn kynnist klukkunni í sambandi við tímaröðun starfsþátta, það kynnist dagatalinu, heitum daga og viku- og mánaðaskiptingu og það kynnist árstíðaskiptum af breytingum í veðurfari.

Nota má margvísleg tækifæri, t.d. í hreyfileikjum, byggingarleikjum og myndgerð, til þess að efla hugtakaskilning barns á ýmsu er lýtur að fjölda, magni, þyngd, hæð, lengd og breidd. Barn gerir sér smám saman gleggri grein fyrir rými og rúmtaki hluta og efna og lærir orð yfir þau.

Myndsköpun

Myndsköpun er mikilvægur tjáningarmiðill. Börn hafa ríka þörf fyrir að tjá sig með myndmáli. Frjáls og skapandi myndgerð barna, eins og t.d. teikningar, mótast af þroskastigi þeirra, reynslu og uppvaxtarskilyrðum. Skapandi myndmótun eflir sjálfstraust barnsins.

Í leikskóla á að veita barni fjölbreytileg tækifæri til að tjá sig í myndum og margs konar mótanlegum efnum. Barn þarf að kanna ýmiss konar efni, kynnast eðli þeirra og eigindum og gera frjálslegar tilraunir. Það þarf að æfast í að samhæfa auga og hönd, þjálfa fínhreyfingar og að læra að nota einföld tæki og verkfæri. Barn nýtur þess að skapa og sjá hverju það fær áorkað. Það sér reynslu sína og skapandi afl birtast í teikningum, smíðisgripum o.fl. Í sköpunarstarfinu þroskar barn með sér einbeitingu, æfist stig af stigi við að leysa æ flóknari verkefni. Það lærir að miðla hugmyndum sínum og tilfinningum til annarra með myndum og ýmiss konar táknum.

Börn eiga auðvelt með að tjá tilfinningar sínar í myndsköpun, t.d. í teikningum, mótun í leir eða á annan hátt. Sköpunarþörf barna er mikil, þau teikna, mála og móta frjálst eftir eigin hugmyndum á sinn sérstæða hátt. Í myndgerð þeirra kemur fram ýmist það markverðasta í reynslu þeirra og það sem þeim er hugleikið. Megináherslu ber að leggja á sköpunarferlið sjálft sem er mikilvægur þáttur í alhliða þroska barna. Ber því að ýta undir sjálfstæða myndsköpun en forðast að láta öll börn vinna eins.

Leikskóla ber að sjá barni fyrir fjölbreyttum efnivið til myndsköpunar og leiðbeina því og örva til sjálfstæðra verka. Barni þarf að ætla góðan og samfelldan tíma og aðstöðu til myndsköpunar. Við myndsköpun í hópi gleðst barnið með félögum sínum yfir sameiginlegu verki.

Að skynja og skilja list er hæfileiki sem þróast með barninu. Leikskólinn á að sjá til þess að barnið komist í kynni við ýmiss konar listaverk og listiðnað. Lærdómsríkt er fyrir barn að fara á listsýningar og listasöfn og heimsækja jafnvel vinnustofur lista- og listiðnaðarmanna. Slíkar ferðir þarf að undirbúa vel svo að barnið geti notið þeirra undir leiðsögn.

Leikskólakennari þarf að vera vakandi fyrir tækifærum í umhverfinu sem geta orðið kveikja að myndverkum barna. Hann þarf að vera hugmyndaríkur gagnvart fjölbreytilegum efnivið og skapa skilyrði til þess að hægt sé að nýta sér hann. Leikskólakennari verður að vera reiðubúinn að taka þátt í sköpunarferlinu með barninu og gleðjast með því.

Tónlist

Leggja ber áherslu á að öll börn í leikskóla fái ríkuleg tækifæri til að njóta tónlistar og iðka hana. Helstu þættir í tónlistariðkun barna í leikskóla eiga að vera söngur, hreyfing, hlustun og leikur með hljóðgjafa. Leitast skal við að flétta tónlist inn í sjálfsprottinn leik barns, flétta þar saman hljóð, hrynjandi og hreyfingu.

Í tónlistaruppeldi leikskóla á að stuðla að því að barn þroski með sér

Söngur

Í leik syngja börn, hjala, söngla og raula af einskærri ánægju og lífsgleði. Mikilvægt er að veita þessum sjálfsprottna söng og söngli barna eftirtekt og örvun. Börn hafa einnig mikla gleði af alls konar spunasöng sem tengir þau saman í áhugahóp og hópsöngur eykur samkennd barna.

Leggja ber áherslu á fjölbreytt lagaval sem hæfir söngrödd barna og þroska og texta sem vekja áhuga þeirra. Enn fremur ber að huga að skapandi þætti söngs. Hvetja á börn til að syngjast á, þ.e. að „tala saman“ í tónum. Þau gera það oft sjálfkrafa í leik sínum og samskiptum. Einnig á að örva börn til tónsmíða.

Hreyfing og hrynjandi

Barn tengir oft hljóð og tóna við reglubundnar líkamshreyfingar, það hreyfir sig eftir tónlist, snýr sér í hringi, ruggar sér og hoppar. Barni er eðlilegt að tengja raddhljóð við hreyfingu og hrynjandi. Margs konar hreyfingar barns í leik koma því til að söngla og syngja. Hvetja skal barn til frjálsrar túlkunar og skapandi hreyfinga þar sem það tjáir tilfinningar og hughrif sem tónlistin vekur.

Með samleik tóna og hreyfinga nemur barn grunnatriði tónlistar. Barn getur lýst með hreyfingum mismunandi tónlengd, tónhæð, blæ, styrk og formi þeirrar tónlistar sem það heyrir.

Hljóðgjafar og hljóðfæri

Barn skynjar smám saman og greinir margvísleg hljóð úr umhverfi sínu og breytileika þeirra. Það lærir að skynja hæð, lengd og styrk hljóðs í leik með hljóðgjafa. Með aukinni reynslu og hvatningu fer barn að hlusta betur og vinna úr tónlistarreynslu sinni.

Ýmsa hljóðgjafa er hægt nota í tónlistaruppeldi barna. Barn þarf að hafa aðgang að margbreytilegum hljóðfærum og leggja ber áherslu á hljómgæði þeirra. Sögur og ævintýri öðlast meira líf þegar hljóðfæri eru notuð til að túlka ýmsar persónur sögunnar. Leikur barna á hljóðfæri verður að byggjast á áhuga þeirra og löngun til að gera tilraunir með hljóð og tjá sig með þeim.

Hlustun

Hluti tónlistaruppeldis er að hlusta á margvísleg hljóð. Barn kannar hljóðheim sinn, hlustar á umhverfið og náttúruna. Í leikskóla er nauðsynlegt að leggja áherslu á virka hlustun barna. Vekja þarf athygli þeirra á ýmsum hljóðum í náttúrunni, t.d. fuglakvaki, árnið og brimhljóði, svo og alls konar hljóðum í umhverfinu eins og fótataki barna og fullorðinna. Börn þurfa að læra að hlusta, ekki einungis að horfa á.

Markviss hlustun hjálpar barni að skilja tónverk og greina hugblæ þess. Einnig lærir það að hlusta eftir og greina mynstur, hendingar og stef. Þegar barn fær næg og síendurtekin tækifæri til að hlusta á tónlist, hvort heldur er lifandi tónlist eða af hljómdiskum, gerir það sér brátt grein fyrir mismunandi eigindum tónlistarinnar. Barnið lærir smám saman að greina sundur ýmis hljóðfæri, þekkja hljómblæ þeirra og nafngreina þau. Mikils er um vert að börn hafi aðstöðu til að hlusta á tónlist á eigin forsendum.

Náttúra og umhverfi

Lífsafkoma mannsins, líf hans og heilsa er háð náttúrunni og náttúruöflunum. Þekking á náttúrunni og fyrirbærum hennar er því manninum lífsnauðsynleg. Auk þess er náttúran stöðugt undrunarefni. Barn þarf að kynnast fjölbreytileika náttúrunnar, komast í lifandi tengsl við hana og njóta hennar. Opna þarf augu barns fyrir fegurð náttúrunnar og vekja virðingu fyrir henni og ábyrgðarkennd. Reynsla barns af náttúrunni fléttast iðulega inn í leik þess og myndsköpun.

Í leikskóla ber að fræða börn um náttúruna, umhverfið og verndun þess. Þetta má gera með því að ræða um dýr, plöntur, árstíðir, veðurfar, ræktun, umgengni um náttúruna og fleira.

Tengsl barns og náttúru

Leikskólakennara ber að fara í náttúruskoðunarferðir með börnunum. Börn eru næm og taka vel eftir hinu smáa í umhverfinu, þann áhuga ber að nýta. Fjölbreytileiki náttúrunnar er óendanleg uppspretta nýrra hugmynda, leikja, viðfangsefna og athugana.

Úti í náttúrunni kannar barnið ýmis fyrirbæri, skoðar og gerir tilraunir. Það leitar tengsla milli ólíkra fyrirbæra og lærir að draga ályktanir af þeim. Fylgjast skal vel með áhuga barnsins og vinna síðan frekar úr athugunum þess á ýmsa vegu. Nauðsynlegt er að hlusta vel á spurningar barnsins um náttúruna og hvetja það til að kanna fyrirbærin sjálft og leita svara við spurningum sínum.


Náttúrugripir, tæki og tilraunir

Helga má náttúru og vísindum svæði í leikstofu og koma þar fyrir ýmsum náttúrugripum, efnum og tækjum sem börn geta leikið sér með og notið sér til fróðleiks og ánægju, t.d. ýmsum dýrum og steinum. Æskilegt er að börn komi sjálf með hluti í leikskólann sem þau hafa fundið, t.d. leggi, kjálka, horn og ýmiss konar bein sem fyrrum voru leikföng barna.

Einnig er ákjósanlegt að skapa tækifæri og aðstöðu í leikskóla til tilrauna og athugana barna. Í leikskóla eiga því að vera ýmis tæki í þessu skyni. Barn nýtur þess að sjá t.d. hvernig hlutir festast við segulstál, stækkunargler gerir lítinn hlut stóran og hvernig hitamælir stígur og hnígur. Tilraunir með vatn, heitt og kalt, eru í senn skemmtilegar og lærdómsríkar. Þannig öðlast barn smám saman skilning á náttúrunni og ýmsum fyrirbærum hennar.

Menning og samfélag

Barn kynnist smám saman því samfélagi sem það lifir í. Leikskólar eru í mismunandi umhverfi í atvinnulegu, félagslegu og menningarlegu tilliti eftir því hvar þeir eru — í borg eða bæ, við sjó eða í sveit. Leikskólastarf á hverjum stað mótast eðlilega af þessum ytri skilyrðum. Leikskóla ber að nýta þau menningarlegu og félagslegu tækifæri sem umhverfi hans og staðsetning gefur kost á.

Börn búa við mismunandi uppeldisskilyrði, eru úr ólíkum fjölskyldugerðum og eru af ólíku bergi brotin. Ber leikskóla að taka tillit til þess í starfi sínu og skólanámskrárgerð og efla með því tilfinningu sérhvers barns fyrir því að það tilheyri samfélaginu og sé hluti af því. Margvísleg samskipti við starfsemi utan leikskólans geta verið hluti þessarar viðleitni.

Ferðir — nágrennið

Börn fá snemma áhuga á nánasta umhverfi sínu og því sem þar fer fram. Þau eru forvitin og eftirtektarsöm. Áhuga þeirra og eftirtekt ber að efla og víkka áhugasvið þeirra og sjóndeildarhring með skoðunarferðum í nágrenni leikskólans og með margvíslegum heimsóknum í þjónustu- og menningarstofnanir.

Vel þarf að nýta umhverfi leikskóla til gönguferða, leikja, náttúruskoðunar og hvers konar rannsókna. Í þessum ferðum fá börnin smám saman aukna tilfinningu fyrir vegalengdum og þær styrkja tengsl þeirra og skilning á samfélaginu og menningu þess.

Leggja þarf áherslu á reglur sem gilda um umferð og að gæta varúðar á götum. Börn þurfa að kynnast umferðinni og læra hegðunar- og umferðarreglur jafnskjótt og þau hafa þroska til. Þetta stuðlar að auknu öryggi þeirra og réttum viðbrögðum í umferðinni.

Tölvur

Tölvur verða æ ríkari þáttur í daglegu lífi manna: í starfi, námi og í tómstundaiðju. Barn í leikskóla þarf að kynnast tölvu og læra að nota hana á sinn hátt. Tölvur skulu því vera í leikskólum, t.d. í leikstofu þar sem hljóðlátir leikir fara fram, í námunda við bóka- og leshornið. Þar gefast tækifæri til samræðna og samleiks í friði og ró.

Val á forritum skal taka mið af uppeldisstefnu leikskólans. Forrit, sem krefjast ekki einungis vélrænna viðbragða heldur nokkurrar umhugsunar, henta best. Leggja ber áherslu á samstarf barna í tölvuvinnu því að þar eru þau fús að þiggja ráðleggingar og hjálp frá félögum sínum og deila reynslu með þeim. Örva skal barnið til sjálfstæðra vinnubragða, að það reyni sjálft og prófi ýmsar leiðir. Leita skal hæfilegs jafnvægis milli stúlkna og drengja í leik með tölvu.

Aðeins hluti barna hefur aðgang að tölvu á heimili sínu. Tölvunotkun barna í leikskólum er því einnig til að jafna uppeldisskilyrði þeirra. Því þarf að gæta þess að öll börnin vinni með tölvu.

Hátíðir og hefðir

Í íslensku þjóðlífi eru ýmsar hátíðir og hefðir sem börn kynnast og taka þátt í á heimilum sínum en einnig á ýmsan hátt í leikskólum. Þennan menningararf þarf leikskólinn að styðja við og börn að læra að virða. Styrkir það þjóðarvitund þeirra.

Ýmsa atburði líðandi stundar ber einnig að taka til umfjöllunar í leikskólum með ýmsum hætti. Í leikskólum eru jafnframt sérstakar hefðir ríkjandi sem gefa tilefni til hátíðar, eins og til dæmis á afmæli barns.

Samskipti við aðrar þjóðir

Ísland er þátttakandi í fjölbreytilegu samfélagi þjóða. Áhugi barna á öðrum þjóðum vaknar snemma og ber að efla þann áhuga. Samskipti og tengsl milli þjóða og ólíkra menningarsvæða verða æ tíðari og nánari. Með auknum samgöngum, ferðalögum og flutningum fólks milli landa og heimsálfna eykst þekking barna um líf fólks á fjarlægum slóðum. Opinberar heimsóknir erlendra þjóðhöfðingja eða þekktra manna gefa tilefni til að fræða börnin um viðkomandi land og þjóð.

Ár hvert hvetja Sameinuðu þjóðirnar til ýmissa alþjóðlegra viðfangsefna, t.d. „Ár hafsins“ og „Ár trésins“. Vinna með slík þemaverkefni eykur skilning barna og ábyrgðarkennd. Sameiginleg baráttu- og áhugamál auka samkennd þjóða.

Börn þurfa að læra að hver þjóð hefur sín sérkenni og sína sérstæðu menningu sem ber að meta og virða. Þótt þjóðir heims séu ólíkar í siðum og háttum eiga þær að geta lifað saman í sátt og samlyndi í fjölbreytilegu samfélagi þjóða. Leikskólanum ber að rækta virðingu barnanna fyrir öðrum, hver sem uppruni þeirra, lífsviðhorf, tunga eða trúarbrögð eru.