SAMSTARF HEIMILIS OG LEIKSKÓLA

Foreldrasamstarf

Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna en leikskólanum ber að veita foreldrum stuðning í uppeldi barna. Mikilvægt er að náið samstarf og gagnkvæmt traust skapist milli heimilis og leikskóla. Foreldrar þekkja barn sitt best, þeir hafa þekkt það frá fæðingu og fylgst með þroskaferli þess og líðan. Leikskólakennari kynnist barni í leikskólastarfi og þekkir þroska þess, færni og viðbrögð í barnahópi.

Leikskólastjóra ber skylda til, samkvæmt lögum um leikskóla og reglugerð um starfsemi leikskóla, að stuðla að samstarfi heimila og leikskóla.

Markmiðið með foreldrasamstarfi er að

Kynning á leikskólanum

Samstarf heimilis og leikskóla hefst áður en barn byrjar í leikskóla. Leikskólastjóri og leikskólakennari skulu kynna leikskólann og starfsemi hans fyrir foreldrum. Kynna ber aðalnámskrá leikskóla, skólanámskrá, húsakynni, efnivið og leiksvæði. Einnig ber að kynna starfsfólk fyrir foreldrum. Foreldrar skulu einnig kynnast helstu hefðum og siðum sem gilda í leikskólanum og fá upplýsingar um foreldrafélag leikskólans og starfsemi þess.

Aðlögunartími

Í upphafi leikskólagöngu barns þarf að gefa því góðan tíma til að aðlagast leikskólanum. Aðlögunartíma ber að skipuleggja í samráði við foreldra. Náin tengsl við tiltekinn leikskólakennara eru mikilvæg fyrir farsæla aðlögun barnsins. Sami leikskólakennari skal því helst taka á móti barninu og foreldrum þess í upphafi leikskólagöngu og bera ábyrgð á aðlögunarferlinu. Foreldrar skulu á aðlögunartímanum fá tækifæri til þess að dvelja með barninu og kynnast um leið leikskólanum og starfsháttum hans.

Samstarf og samtöl við foreldra

Nauðsynlegt er að foreldrar gefi leikskólakennara upplýsingar um hagi barnsins og fræðist jafnframt um starf deildar. Nauðsynlegt er fyrir leikskólakennara að fá heildarmynd af þroska barns þegar í upphafi. Leikskólakennara ber að fylgjast með því hvernig barn hegðar sér og dafnar í leik og starfi, úti og inni.

Dagleg samskipti

Foreldrar þurfa að fylgjast með því sem helst hefur drifið á daga barns í leikskóla og leikskólakennari þarf að vita um helstu atburði í lífi barnsins utan leikskólans, t.d. ferðalög, leikhúsferðir og afmæli, sem gaman er fyrir barnið að segja frá. Mikilvægt er að foreldrar láti leikskólakennara barns vita ef breytingar verða á högum þess og fjölskyldulífi. Börn eru næm á allar breytingar og geta þær haft áhrif á líðan þeirra og hegðun.

Foreldrasamtöl

Gefa á foreldrum kost á að ræða við leikskólakennara um hagi barnsins þegar þeir óska þess. Foreldrar þurfa að fá upplýsingar um stöðu barns og líðan þess í leikskóla. Leikskólakennari byggir þá upplýsingar um barnið á þekkingu sinni á færni þess og þroska, ásamt skráðum athugunum á barninu í leik og starfi. Samræður foreldra og leikskólakennara þurfa að vera vel undirbúnar af beggja hálfu. Leikskólakennari ber ábyrgð á að reglulega sé rætt við foreldra. Fara ber með allar upplýsingar um barnið sem trúnaðarmál.

Almennar upplýsingar og fræðsla

Leikskóla ber að veita foreldrum barna upplýsingar og fræðslu um leikskólastarfið: með daglegum upplýsingum á upplýsingatöflu, í fréttabréfum eða á heimasíðu leikskólans á Netinu og á foreldrafundum. Með þessu er tryggt að allir foreldrar hafi aðgang að sömu upplýsingum frá leikskólanum.

Foreldrafundir, foreldrafélög og þátttaka foreldra í leikskólastarfi

Við sérhvern leikskóla skal starfa foreldrafélag og foreldrafundir skulu haldnir reglulega og skulu foreldrar hafðir með í ráðum við undirbúning þeirra. Foreldrar geta á ýmsan hátt tekið þátt í starfi leikskólans. Þeir geta fylgst með og verið þátttakendur í starfinu daglangt eða hluta úr degi. Einnig geta þeir verið með í ferðum á vegum leikskólans og tekið þátt í skipulagningu þeirra.

Opið hús

Æskilegt er að bjóða foreldrum og aðstandendum barnanna öðru hverju í sérstaka heimsókn í leikskólann, t.d. í tengslum við sýningar og leikskólahátíðir. Með þeim hætti kynnast foreldrar og aðstandendur verkefnum barnanna.