SKÓLANÁMSKRÁR

Skólanámskrá

Aðalnámskrá leikskóla er lögum samkvæmt hugmyndafræðilegur grundvöllur og stefnumótandi leiðarvísir að uppeldisstarfi í leikskólum landsins. Á grunni aðalnámskrárinnar ber sérhverjum leikskóla að semja skólanámskrá þar sem gerð er uppeldis- og námsáætlun til lengri eða skemmri tíma. Við gerð skólanámskrár þarf að taka mið af aðalnámskrá leikskóla, starfsmannastefnu leikskólans, skipuriti og stjórnunarháttum. Skólanámskrána ber að kynna fyrir foreldrum.

Leikskólar búa við mismunandi aðstæður í félagslegu og landfræðilegu tilliti. Þessa sérstöðu leikskólanna ber að nýta og virða. Aðalnámskráin er höfð sveigjanleg m.a. í þeim tilgangi að veita svigrúm fyrir sérstöðu sérhvers leikskóla. Markmið námskráa fyrir einstaka leikskóla er að laga aðalnámskrána að aðstöðu, möguleikum og hefðum hvers leikskóla og að gera hana virkari í daglegu starfi skólans. Hún er jafnframt grundvöllur þess að hægt sé að leggja mat á uppeldisstarfið í leikskólanum eins og lög standa til.

Skólanámskrá á að veita í stórum dráttum heildaryfirlit yfir starfsemi leikskólans. Í henni skal flétta saman sem flesta þætti uppeldisstarfsins. Leggja þarf áherslu á að skólanámskrá sé í nánum tengslum við áhuga barna, reynslu þeirra, daglegt líf og nánasta umhverfi. Námskráin skal vera í rituðu formi og öllum aðgengileg sem málið varðar.

Námskrárgerð krefst þekkingar, vinnu og tíma en hún má ekki taka of mikinn tíma frá virku uppeldisstarfi. Markmið skólanámskrár er fyrst og fremst að skipuleggja uppeldisstarfið og nám barnanna og stuðla að skilvirkara starfi í leikskóla. Skólanámskrá skal vera í samræmi við opinbera uppeldisstefnu leikskólans, svo og þær áherslur og sérstöku markmið sem hver leikskóli setur sér. Leikskólastarf og skólanámskrá á að vera í sífelldri þróun.

Skólanámskrá á að vera rökstuddur og raunhæfur leiðarvísir um hvað og hvernig, hvenær og hvar hinir fjölbreytilegu starfsþættir leikskólans eiga að fara fram. Hún á að sýna hvernig skólinn hyggst vinna að þeim uppeldismarkmiðum sem aðalnámskrá setur, hvernig þörfum hvers barns verði mætt og hvernig starfið skuli skipulagt og samþætt. Í skólanámskrá skal taka tillit til aldurs, þroska og þarfa barna og séraðstæðna skólans.

Skólanámskrá

Við gerð skólanámskrár þarf að taka tillit til allra starfsþátta og ákveða hvar skal leggja sérstakar áherslur. Skólanámskrá skal taka mið af aðstæðum leikskólans. Taka þarf tillit til ýmissa ytri þátta starfseminnar, svo sem hvenær leikskólinn er opinn, komu- og brottfarartíma barna, vinnutíma starfsmanna, matar- og kaffitíma þeirra, vakta- og verkaskiptingar. Staðsetning leikskóla, staðhættir og staðarmenning, húsakynni, útivistarsvæði og aðbúnaður allur hefur einnig áhrif á námskrá sérhvers leikskóla, sem og menntun, reynsla og hæfileikar starfsfólks og fjöldi þess.

Undirbúningur skólanámskrár

Til að ná sem bestum árangri skal allt starfsfólk leikskóla taka þátt í gerð skólanámskrár á grundvelli starfsreynslu, lífsviðhorfa og faglegrar þekkingar. Þetta eykur einnig áhuga starfsfólksins á að framfylgja þeim áætlunum sem gerðar eru. Þegar skólanámskrá er í mótun er nauðsynlegt að nýta þekkingu foreldra á eigin börnum og kanna viðhorf þeirra til ýmissa mála. Hver leikskóli þarf að finna hentugt form fyrir þátttöku foreldra í gerð námskrárinnar.

Við námskrárgerð skulu verkefni starfsfólks tilgreind. Stjórnandi leikskóladeildar ber ábyrgð á námskrárgerð á sinni deild og sér um framkvæmd hennar. Leikskólastjóri ber ábyrgð á heildarstefnu skólanámskrár og sér um að allar áætlanir séu í samræmi við lög og reglur.

Ræða þarf þær uppeldiskenningar og uppeldisaðferðir sem leikskóli kann að velja sér og athuga hvort þær samrýmast aðalnámskrá leikskóla og hvernig þær tengjast henni og hvernig þeim verði best framfylgt. Markviss umræða um námskrána er mikilvæg og leiðir til aukinnar fagvitundar og faglegri vinnubragða. Í skólanámskrá skal fjalla um uppeldisaðferðir og áherslur, um ábyrgð í orði og verki og ákvarðanatöku á ýmsum sviðum. Einnig þarf að fjalla um frjálsræði barna og takmarkanir.

Hafa ber í huga meginmarkmið leikskólastarfsins og gildi uppeldis-, náms- og starfsþátta í gerð námskrár.

Auk þess þarf að gera sér grein fyrir

Uppeldisstarfið á að skipuleggja miðað við aldur, þroska og uppeldisskilyrði barna og samsetningu barnahópsins.

Við mótun skólanámskrár þarf að ræða í ljósi þekkingar á þroska og getu barnsins

Námskrár um afmarkaða þætti

Námskrár geta verið mismunandi eftir því hvort gera á grein fyrir starfinu í heild eða einstökum þáttum þess. Leikskóli getur því einnig sett sér námskrár sem fjalla um afmarkaða þætti í leikskólastarfinu og skal kynna þær á sama hátt og skólanámskrána. Slíka námskrá er hægt að gera fyrir hvern dag, viku, mánuð eða misseri; einnig fyrir tiltekið þema, verkefni, deild, hóp og/eða einstaklinga.

Dagsáætlun/dagskipulag

Dagsáætlun eða dagskipulag er ramminn um uppeldisstarfið fyrir einstaka daga. Fastir liðir eru þá tímasettir nokkuð nákvæmlega.

Vikuáætlun

Í vikuáætlun eru uppeldis- og námssviðin tilgreind nánar. Vikuáætlun á að gefa yfirlit yfir þætti starfseminnar og stuðla að því að uppeldisstarfið verði hæfilega fjölbreytt.

Námskrá fyrir leik- og námssvæði

Námskráin gefur upplýsingar um námsleg markmið fyrir hvert leiksvæði þar sem fram kemur hvers konar efniviður á vera til staðar og hve aðgengilegur hann á að vera.

Námskrá um leikni barna

Námskráin gefur mynd af þeirri leikni sem álitið er að börn þurfi að búa yfir. Nauðsynlegt er að skilgreina þá leikni og með hvaða hætti hægt sé að örva hana.

Einstaklingsnámskrá

Námskráin á að gefa upplýsingar um markmið sem hafa verið sett fyrir hvert barn og þær leiðir sem fara á til að ná þeim.

Deildarnámskrá

Námskráin á að greina frá uppeldislegum leiðum hverrar deildar.

Þemanámskrá

Námskráin er um tiltekið þema sem unnið er með á ýmsan hátt: í alls konar leikjum, með lestri bóka, með frásögnum, í myndsköpun o.fl. Námskrá um þema nær til tiltekinna viðfangs- eða fræðsluefna og getur náð yfir lengri eða skemmri tíma.