TENGSL LEIKSKÓLA OG GRUNNSKÓLA

Mikilvægt er að samstarf sé á milli leikskóla og grunnskóla til að stuðla að samfellu í uppeldi og menntun barnsins og að það upplifi grunnskólann sem eðlilegt framhald af leikskólanum.

Samvinna skólastjóra, kennara og foreldra

Sérstaklega er mælt með því að skólastjórar leikskóla og grunnskóla hafi með sér samvinnu og skipuleggi samstarf milli skólastiganna og taki ábyrgð á samstarfinu. Leikskólakennarar og grunnskólakennarar verða að þekkja vel til hugmynda og vinnubragða hver annars. Þeir þurfa að ræða saman og skiptast á skoðunum um börn, uppeldi, nám og kennslu og hvernig ber að skilgreina þær kröfur sem gera má til barna á mismunandi þroskaskeiðum. Ber að kynna og ræða áherslur í uppeldisstarfi beggja skólastiganna. Einnig þarf að ræða hvernig auðvelda má barninu breytingar er verða á námi þess og skólalífi þegar það fer úr leikskóla í grunnskóla. Ekki er síður gagnlegt fyrir foreldrafélög eða foreldrahópa á báðum skólastigum að hafa samvinnu og samráð sín á milli. 

Heimsóknir nemenda og sameiginleg verkefni

Gagnkvæmar heimsóknir nemenda leikskóla og grunnskóla eru heppileg leið til þess að tengja skólastigin saman í huga barnsins. Æskilegt er að barn í leikskóla kynnist grunnskólanum: byggingunni, skólalóðinni og skólastofunni.

Skapa má tengsl á milli elstu barna leikskóla og yngstu barna grunnskóla með sameiginlegum verkefnum í tengslum við næsta umhverfi skólanna.