ÞRÓUNARSTARF Í LEIKSKÓLUM

Samkvæmt lögum um leikskóla ber menntamálaráðuneytinu að stuðla að þróunar- og tilraunastarfi í leikskólum. Markmið þróunarstarfs í leikskóla er að leita leiða sem miða að endurbótum og nýbreytni í leikskólastarfi. Þróunarverkefni felur í sér afmarkað og tímabundið viðfangsefni með vel skilgreindu markmiði.

Í upphafi þróunarstarfs þarf að skilgreina viðfangsefnið vel. Það verður að byggjast á traustri þekkingu og reynslu og skipuleggja þarf alla þætti verkefnisins vandlega.

Ferli þróunarstarfs

Ferli þróunarstarfsins má greina í sjö þrep. Þrepin eru sett hér fram í þeirri tímaröð sem fylgja þarf í stórum dráttum en sumir þættir eru þó unnir samtímis en stundum þarf að snúa til baka til fyrri þrepa.

Hugmynd og forathugun

Margt getur orðið kveikjan að þróunarstarfi. Niðurstaða sjálfsmats eða ytra mats getur orðið tilefni þróunarverkefnis. Hugmynd kemur ef til vill fram úr annarri átt um nýjung eða endurbót í leikskólastarfi. Sé talið æskilegt að ráðast í þróunarverkefni á grundvelli fram kominnar hugmyndar er rétt að fram fari forathugun á verkefninu, þ.e. metið sé lauslega umfang þess, líklegur árangur, leitað sé álits fagfólks o.fl.

Skilgreining

Sé hugmynd talin álitleg er verkefnið skilgreint, afmarkað og greint í verkþætti. Oft er heppilegt að skoða það í ljósi spurninga:

Öflun upplýsinga og nýrrar þekkingar

Þróunarverkefni skal byggja, eftir því sem kostur er, á reynslu og rannsóknum annarra. Þá þarf oft að leita frekari upplýsinga í fagritum, sækja fyrirlestra eða fræðast um efnið með öðrum hætti.

Áætlunargerð/skipulagning

Verkefni þarf að afmarka miðað við markmið, aðstæður og metnað. Gera þarf ítarlega áætlun um alla þætti verkefnisins:

Stjórn þróunarverkefnis er oftast í höndum leikskólastjóra eða einhvers úr hópi starfsmanna. Stundum er þó æskilegt, jafnvel nauðsynlegt, að leita utanaðkomandi leiðsagnar, ýmist vegna faglegra leiðbeininga, verkstjórnar eða umsjónar.

Framkvæmd

Í framkvæmd verkefnis skal fylgst vel með hvort allir þættir þess séu í samræmi við gerða áætlun. Komi fram veruleg frávik þarf að bæta úr því sem úrskeiðis hefur farið. Stundum þarf þó að endurskoða upphaflega áætlun.

Skýrsla og mat

Þegar þróunarverkefni er lokið skal skila skýrslu þar sem verkefninu og niðurstöðum þess er lýst og árangur þess metinn. Nauðsynlegt er að gera úttekt á þeim árangri sem náðst hefur, þ.e. að sannprófa hvort og að hve miklu leyti markmiðum verkefnisins hefur verið náð.

Kynning

Lærdóm, sem draga má af þróunarstarfi, ber að varðveita og nýta áfram í starfi leikskóla. Auk þess er mikilvægt að miðla reynslunni til annarra. Ýmsar leiðir koma til greina:

Endanlegt mat á árangri þróunarverkefnis birtist í því í hve ríkum mæli það bætir og auðgar starf í leikskólum.