Úr: Enn betri skóli, þeirra réttur-okkar skylda, 
grundvöllur endurskoðunar aðalnámskráa - frá apríl 1998

 

3.10. Lífsleikni

Samfélagið gerir á hverjum tíma kröfur um að ákveðnum fræðsluþáttum sé skipaður sess í skólastarfi. Líf í nútímasamfélagi gerir sívaxandi kröfur um færni einstaklinga á ýmsum sviðum til undirbúnings virkrar þátttöku í atvinnulífi sem og á vettvangi fjölskyldunnar. Samskiptahæfni, umburðarlyndi, samvinna og skilningur á gangverki lýðræðisins eru meðal þeirra þátta sem nútímamenn verða að tileinka sér. Á síðari árum hefur sú krafa farið vaxandi að skólinn taki þátt í þessari mótun með fræðslu um ýmsa þætti er lúta að lífi og starfi eða þeirri ábyrgð sem fullorðanárunum fylgja. Fræðsla af þessu tagi hefur gengið undir nafninu lífsleikni. Lífsleikni í ofangreindum skilningi er mikilvægt hugtak í nýjum aðalnámskrám fyrir grunn-og framhaldsskóla. Hugtakið felur í sér kerfisbundna viðleitni til að dýpka skilning nemenda á sjálfum sér og umhverfi sínu og stuðla þannig að persónulegri hæfni þeirra til að takast á við lífið í nútímasamfélagi. Til að svo verði, er nauðsynlegt að nemendur þekki þau réttindi og skyldur sem lúta að virki þátttöku í lýðræðissamfélagi. Núgildandi aðalnámskrá fjallar um nokkra lífsleikniþætti en ætlar þeim hvorki sérstakan stað í kennslu né ákveðið tímamagn. Í ljósi reynslunnar er nauðsynlegt að skapa með markvissum hætti skilyrði fyrir skóla til að hyggja að þessum fræðsluþáttum, þannig að öllum nemendum verði sem best tryggð lágmarksviðkynni af þeim.

Umræddir þættir verða felldir saman í ákveðna lífsleiknigrein á grunn- og framhaldsskólastigi og henni ætlaður sérstakur tími í viðmiðunarstundaskrá. Með þessu móti munu skólar eiga hægara með að bregðast við kröfum samfélagsins um aukna þátttöku í uppeldi nemenda í samvinnu við heimilin sem bera höfuðábyrgð á uppeldi barna og skólum jafnframt gert auðveldara að fjalla markvisst um ýmis atriði sem nemendur þurfa á að halda í lífi sínu sem fullveðja einstaklingar. Má í þessu sambandi nefna fræðsluþætti eins og fíknivarnir, neytendafræðslu, vitund um samspil atvinnulífs og afkomu þjóðarinnar, fræðslu um mannréttindi og málefni fjölskyldunnar og öryggismál, s.s. umferðarfræðslu svo dæmi séu tekin. Markmið kennslunnar er að nemendur verði virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi en slíkt samfélag byggist á þeirri forsendu að einstaklingar séu meðvitaðir um rétt sinn og getu til að móta umhverfi sitt með þátttöku í málefnum sem þeir telja að skipti máli.

Með tilkomu nýrra kennslugreina eiga skólar einnig auðveldara með að bregðast við staðbundnum aðstæðum með markvissri fræðslu og tvinna málefni líðandi stundar saman við lífsleikninám nemenda. Þá er skólum einnig auðveldað að standa við ýmsar skuldbindingar Íslendinga á innlendum og alþjóðlegum vettvangi með fræðslu sem menntayfirvöld gera kröfu um eða leiða af sáttmálum Íslands við önnur ríki.

Við útfærslu á lífsleikni er mikilvægt að hafa í huga að skólinn er samfélag sem mótast af gildum lýðræðislegs samstarfs, kristilegs siðgæðis og umburðarlyndis. Greinin er því kjörinn vettvangur þar sem nemendum gefst tækifæri til að sýna samábyrgð og samstöðu, taka sameiginlegar ákvarðanir innan hópsins og skólans og bera ábyrgð á framkvæmd þeirra. Lífsleiknin hvílir því á þeirri meginforsendu að nemendur eru virkir og að fullu þátttakendur í lýðræðissamfélagi skóla.
 

Meginmarkmið með kennslu í lífsleikni

Leiðir að markmiðum

 
Menntamálaráðuneytið 1998. Umsjón með vefsíðu hefur Jóhann Ásmundsson joas@ismennt.is
Síðast uppfært 26.6.1998.