Til baka á síðuna "Lokaskýrsla forvinnuhóps"

 
Handavinna
Að nýta efnisheiminn áþreifanlega og milliliðalaust til þess að búa til hlut er uppspretta gleði og lífsfyllingar fyrir einstaklinginn í nútímanum. Jafnframt er sú þekking, færni og skilningur sem glíman við efnisheiminn hefur leitt til, undirstaða allrar verkmenningar í sérhæfðu nútímasamfélagi. Þráðarmenning hvílir á árþúsunda þróun og rótgrónum hefðum. Mikilvægt er að miðla verkmenningararfinum til hverrar nýrrar kynslóðar.

Verkmenningararfur felur ekki aðeins í sér tækni og aðferðir, heldur fagurfræði sem er tungumál manngerðs umhverfis og ásamt hagnýti tjáir siðfræðilega afstöðu hvers tíma.

Handavinna byggir á þekkingu á eðli efna og vinnuferla og ríkri hefð nýtingar og endurnýtingar. Í nútíma samfélagi verður æ brýnna að koma í veg fyrir mengun og sóun efna með endurnýtingu og endurvinnslu efnislegra gæða. Slíkum markmiðum verður ekki náð nema að almenningur hafi þekkingu á efnum og eiginleikum þeirra og þá færni sem þarf til að hagnýta sér þessa eiginleika.

Handavinna er ríkur þáttur í íslenskri menningu. Íslenskur útsaumur, tóvinna, prjón og vefnaður er meðal gersema íslenskrar listasögu, arfleifð sem þjóðin þarf að þekkja og meta sem veganesti til framtíðar. Þetta veganesti er ekki einungis þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar heldur einnig meðal þeirra efnislegu verðmæta og atvinnusköpunar sem nú á sér stað, m.a. í tengslum við uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu. Handverk var áður órjúfanlegur hluti lífsbaráttunnar, en er nú vaxandi atvinnuvegur og hluti þeirrar ímyndar sem íslensk menning hefur í dag.

Handavinna er einnig ríkur þáttur í félagslegum veruleika þjóðarinnar. Með handavinnu skapar fólk sér persónulegann stíl, setur svip á heimilisitt og nánasta umhverfi, gleður sig og sína nánustu með því að skapa hluti sem hafa persónulegt gildi. Með handavinnu hefur þjóðin átt og mun eiga möguleika á að vinna sér í haginn með því að búa til og gera við hluti til daglegra nota. Á tímum breytinga á þjóðlífi og efnahagsástandi er verkkunnátta á sviði handavinnu samfélagsleg auðlind og trygging ákveðinna lífsgæða fyrir einstaklinginn.

Námsgreinin handavinna felur bæði í sér þátt hönnunar og þátt handverks. Handverk á sér djúpar rætur í menningu þjóðarinnar, heimilisiðnaðinum, þar sem unnið er útfrá hefð og rótgróinni þekkingu á efnum og aðferðum. Þeim menningararfi ber að skila fram í takt við þá tíma er þjóðin lifir hverju sinni. Hönnun, hvort sem er fyrir fjöldaframleiðslu eða handverk, gegnir vaxandi hlutverki í samfélagi sem starfar að mestu í manngerðu umhverfi.

Fagið er í nútímanum undirstaða margbreytilegrar textílhönnunar, textílframleiðslu og listræns handiðnaðar. Textílhönnun er snar þáttur í mótun umhverfis hvort sem borið er niður í tísku- eða listheiminum, því hver athöfn mannsins í daglegu starfi og leik, útheimtir umgjörð og búninga.

Við skipulagningu handavinnunáms skal byggja á eftirfarandi atriðum:

Ferli og innihald námsins.
Handavinnukennsla felur í sér ákveðið ferli sem má skilgreina sem sköpun, túlkun og tjáningu annars vegar og sem skynjun, greiningu og mat hins vegar. Handavinnukennsla skal byggja á því að þjálfa færni nemenda á báðum þessum sviðum. Mismunandi vægi ætti að vera milli þessara þátta eftir aldri og þroska nemenda.

Nemendur skulu tileinka sér:

Lögmál og aðferðir handavinnu:
Form- og litafræði, efnisfræði textíla og hönnunarferli. Aðferðir og tækni s.s. prjón, saum, vefnað, tóvinnu.

Sögulegt og félagslegt samhengi:
Sögu og þróun íslensks heimilisiðnaðar og handverks, þekkingu á helstu dýrgripum íslenskrar textílsögu ásamt tilfinningu fyrir daglegri notkun textíla. Efnahagslegt og félagslegt hlutverk heimilisiðnaðar og handverks.

Fagurfræði og listrýni:
Þekkingu á umfjöllun um eðli handverks, hönnunar og heimilisiðnaðar og hugtökin hagnýti, notagildi og nýtni. Færni til að meta formfræðilegt og hagnýtt gildi handverks og að leggja grunn að persónulegu gildismati.

Markmið hvers innihaldsflokks taka mið af báðum ferlunum, þ. e. til hæfni í framsetningu og móttöku eða með öðrum orðum, til færni, þekkingar og skilnings.

 
Skipan náms.
Miðað er við að handavinna sé skyldunám frá 1.- 9. bekk grunnskóla og að nemendur fái tvær kennslustundir á viku hálft skólaárið. í 10. bekk er um valgrein að ræða þar sem nemendur fá 2 - 4 kennslustundir á viku.

Unnið skal út frá nemandanum sjálfum eða skilgreindri þörf. Mikilvægt er að nemendur venjist öguðu vinnuskipulagi og fái yfirsýn yfir ferlið: frá hugmynd að fullunnu verki. Stefnt skal að vaxandi sjálfstæði í vinnubrögðum í samræmi við þroska, svo að nemandinn fái traust á eigin getu. Í handavinnunámi gefst kjörið tækifæri til þess að nýta miðla upplýsingatækninnar (þar sem þeim er til að dreifa) sem hjálpargagn við t.d. snið- og mynstur-teikningar, skissuvinnu og við upplýsingaleit.

Fræðileg kennsla skal að hluta til samþætt verklegri kennslu á grunnskólastigi og fari fram með fyrirlestrum, verkefnum, safnaheimsóknum og í tengslum við starfandi hönnuði og handverksfólk.

Eðli greinarinnar og markmið fela í sér þörf fyrir viðeigandi aðstöðu, sérbúna stofu, áhöld og tæki.

 
Lokamarkmið handavinnukennslu í grunnskóla
Að loknum grunnskóla á nemandinn að hafa öðlast lykil að þeirri mannlegu reynslu sem tjáð er með tækni og aðferðum fagsins. Hann á að hafa öðlast reynslu af undirstöðuaðferðum og færni í grundvallartækni fagsins og hafa byggt upp sjálfstraust til þess að leysa verkefni innan greinarinnar á sjálfstæðan hátt.

Skynjun / greining / mat:

Að nemandinn:

- hafi öðlast þekkingu á fagurfræðilegum gildum í handavinnu.

- hafi öðlast þekkingu á þráðarmenningu og þeim náttúrulegu og menningarlegu forsendum sem stýra neyslu og tísku.

- hafi öðlast þekkingu á hönnun sem undirstöðu iðnaðarframleiðslu annars vegar og handverks hins vegar

- hafi skilning á tengslum heimilisiðnaðarhefðar og nútíma handverks.

- geti leitað sér upplýsinga um fagið og nýtt sér þær við sjálfsnám.

 

Sköpun / túlkun / tjáning

 
Að nemandinn geti á sjálfstæðan hátt:

- sett fram hugmyndir að framleiðslu í ýmiss konar efni bæði munnlega, skriflega og á myndrænan hátt m.a. með hjálp tölvu.

- valið form og lit, efni og aðferð og stutt það útfrá fagufræði, gæða-, hagnýtis-, og umhverfissjónarmiðum.

- skipulagt vinnuferlið þannig að það sé raunhæft miðað við forsendur (tímaþátt, tilgang, hráefni o.s.frv.)

- notfært sér mismunandi hannyrðaaðferðir og beitt verklagi og verkfærum greinarinnar.

- þróað eða endurmetið hugmynd eða framleiðslu á öllum stigum vinnuferlisins.

- Greint og metið vinnuferlið og framleiðsluna og dæmt um það sem hefur haft áhrif á afurðina.