Til baka á síðuna "Lokaskýrsla forvinnuhóps"

4.2. Hönnun

Hönnun er aðferð sem ætti að tengjast öllu námi og starfi. Árangur hönnunar felst bæði í áþreifanlegum hlutum og óáþreifanlegum svo sem hagnýtum lausnum, vandaðri framleiðslu og góðu umhverfi, svo felst hann í þeim menningararfi sem við skilum næstu kynslóðum. Hönnun samþættist öðrum námsgreinum í grunnskóla á forsendum hverrar greinar, en þó að hönnunaraðferðir kunni að vera með blæbrigðamun eru markmiðin þau sömu:

Að nemendur þekki þau skipulagsferli sem liggja að baki hverri framkvæmd.

Að nemendur skilji hvaðan hugmyndir koma og hvernig hugmyndir verði til.

Að nemendur verði færir um að vinna ferlið frá hugmynd til útfærslu.

Í námskrá listasviðs grunnskóla er hönnun ekki skilgreind námsgrein heldur námsþáttur samþættur kennslugreinunum handavinnu og myndlist. Báðar þessar skyldugreinar eru ágætur undirbúningur undir hönnunarnám á framhaldsskólastigi.

Skilgreining á hugtakinu hönnun hefur verið nokkuð á reiki hér á landi. Gjarnan er talað um tvenns konar hönnun, verklega hönnun, sem tekur til vinnuferlisins og svo formræna hönnun, sem tekur til útlits hluta. Hönnun í grunn- og framhaldsskóla tekur til beggja tegunda hönnunar þ.e. vinnuferlisins og þróunar ímyndar. Í þessu áliti er lögð áhersla á formræna hönnun. Verkleg hönnun fellur einnig undir starfssvið verk- og tæknimenntar.

Oft er gerður greinarmunur á "iðnhönnun" og "listhönnun". Hönnun sem undirstöðu fjöldaframleiðslu annars vegar og sem undirstöðu handverks hins vegar. Nauðsynlegt er að byggja upp nám fyrir báðar forsendur, en jafnframt að gera greinarmun á hönnun, handverki og iðnaði. Í grunnskóla er lögð áhersla á hönnun í tengslum við handverk en í framhaldsskóla er aukin áhersla á tengsl hönnunar og iðngreina.

Hinum ýmsu tegundum hönnunar er þó sameiginlegt ákveðið ferli, hönnunarferlið, sem í grófum dráttum felst í að:

 
Hönnun í framhaldsskóla:
Hönnun í framhaldsskóla getur verið kjörsvið á listnámsbraut sem lýkur með stúdentsprófi, tveggja ára listnámsbraut, þáttur í almennu skyldufagi í kjarna eða valgrein.

Hönnunarnám er samheiti yfir víðtækt svið. Það er hlutverk námskrár að setja fram almennar kröfur um umfang og skipan námsins. Hver skóli verður síðan að byggja námsframboð sitt á staðbundnum forsendum s.s. aðstöðu, sérþekkingu, nemendahóp og skipulagi viðkomandi skóla.

 
Lögmál og aðferðir:
Hönnunarferlið, form- og litafræði og sértækar aðferðir og tækni greinarinnar, s.s. hugmynda og skissuvinna, teikning, vinnuteikning og tölvugrafík.

Félagslegt og sögulegt samhengi:
Hönnunarsaga (erl. ísl.), manngert umhverfi, staða í tíma og rúmi, neysla og tíska í víðasta skilningi, hráefni og umhverfisvernd.

Fagurfræði og listrýni:
Eðli og forsendur hönnunar, mat á gildi hönnunar frá formfræðilegu, fagurfræðilegu og samfélagslegu sjónarmiði. Grundvöllur persónulegs gildismats á hönnun.

 
Lokamarkmið hönnunar í framhaldsskóla.

 
Lokamarkmið hönnunar á listnámsbraut

Eftir nám á hönnunarsviði listnámsbrautar eiga nemendur að:

Skynjun / greining / mat

- hafa kynnst og öðlast skilning á hinum ólíku listrænu tjáningarformum, hvernig þau skarast og vinna saman.

- hafa kynnst samtíma straumum og stefnum í hönnun og kenningum um eðli hönnunar með aðaláherslu á sína sérgrein.

-hafa náð tökum á orðaforða greinarinnar.

- geta tekið eftir, lýst, greint og dæmt um stíl, lögmál og forsendur hönnunar.

- hafa öðlast grundvöll til þess að tengja hönnun því menningarlega samhengi sem verkið var skapað í.

- hafa kynnst lögmálum markaðssetningar, og hlutverki hönnunar í velmegun og öruggum efnahag.

- hafa kynnst aðferðum og lögmálum hönnunar auk undirstöðukunnáttu í vinnuferli ýmissa handverksgreina.

- hafa öðlast þekkingu á neyslu í víðasta skilningi ásamt þeim náttúrulegu og menningarlegu forsendum sem stýra henni og hafa áhrif á tísku og hönnun.

- geta leitað sér upplýsinga um fagið og nýtt sér þær við sjálfsnám.

 

Sköpun / túlkun / tjáning

- geta sett fram hugmynd að hönnuðum hlut bæði munnlega, skriflega og á myndrænan hátt í tvívídd og þrívídd m.a. með hjálp tölvu, þar sem gerð er grein fyrir tilurð og forsendum hugmyndar.

- geta valið form og lit, efni og aðferð og stutt valið útfrá formfræði, fagurfræði, gæða-, hagnýtis-, og umhverfissjónarmiðum.

- geta skipulagt vinnuferlið þannig að það sé raunhæft miðað við forsendur (tímaþátt, tilgang, hráefni o.s.frv.).

- geta nýtt sér mismunandi aðferðir að minnsta kosti einnar listiðnaðargreinar og beitt verklagi og verkfærum greinarinnar.

- geta þróað eða endurmetið hugmynd eða framleiðslu á öllum stigum vinnuferlisins.

- geta greint og metið vinnuferlið og framleiðsluna og dæmt um það sem hefur haft áhrif á afurðina.

- geta nýtt sér miðla upplýsingatækninnar á sviði greinarinnar.

 

Lokamarkmið sjónlista í almennum brautarkjarna:

Sjónlistir eru skylduáfangi sem allir nemendur framhaldsskóla taka og er sameiginlegur myndlist og hönnun. Með sjónlistum er átt við handverk, myndlist og hönnun. Nánar skal kveða á um áherslur í skólanámskrám.

Að loknu sjónlistanámi í almennum brautarkjarna eiga nemendur að:

Sköpun / túlkun / tjáning:

- skilja lögmál og aðferðir sjónlista.

- hafa öðlast yfirsýn yfir heildarvinnuferlið frá hugmynd til endanlegs verks.

 

Skynjun / greining / mat:

- þekkja íslenska sjónlistaarfleifð, hafa yfirsýn yfir stefnur og strauma í sjónlistum nútímans í sögulegu og félagslegu samhengi.

- geta nýtt sér þekkingu sína á sjónlistum sem grunn að persónulegu mati.

- vera læsir á myndmál nútímasamfélags * og færir um gagnrýna umræðu um sjónlistir.

* t.d. kvikmyndir, auglýsingar, ljósmyndir, dagblöð, tímarit og tölvur.

 

Lokamarkmið hönnunar í vali:

Eftir nám í hönnun að vali eiga nemendur að:

- hafa öðlast aukna færni og þekkingu í einum eða fleiri þáttum hönnunar, sköpun, túkun, tjáningu, skynjun, greiningu, mati.