Til baka á síðuna "Lokaskýrsla forvinnuhóps"
 

2. GILDI LISTNÁMS

Listir hafa fylgt manninum frá örófi alda og eru einn af hornsteinum mannlegs samfélags. Í gegnum listir hefur hann tjáð tilgang og merkingu mannlegrar tilveru og mótað umhverfi sitt. Í listiðkun öðlast einstaklingurinn lífsfyllingu og finnur tilfinningum sínum og hugmyndum farveg. Skólinn er samfélag og þar leika listir sama hlutverk og í þjóðfélaginu í heild sinni.

Í þessum kafla verður greinasviðið rökstutt með tilvísun til gildis listgreinanna fyrir einstakling og samfélag. Þótt hér sé rætt um þessa þætti í tvennu lagi skarast þeir að sjálfsögðu.
 

Gildi lista fyrir nemandann

Listnám stuðlar að alhliða þroska einstaklingsins.
Greind er nú talin vera samsett af mörgum þáttum. Þannig er t.d. talað um fjölþáttagreind þar sem skilgreindir eru fleiri þættir en hinir hefðbundnu orðrænu og rökrænu. Í listnámi reynir á marga þætti mannlegrar hæfni bæði til hugar og handa þar sem nemendur þurfa að beita rökhyggju sinni jafnt sem ímyndunarafli til að ná árangri. Í námi þurfa nemendur tækifæri til að virkja öll svið hæfileika sinna, nota öll skynfæri sín, beita þekkingu sinni, færni og skilningi til að túlka og meta upplýsingar. Þannig verða nemendur virkir í athugun, rannsókn og athöfnum en slíkt nám verður haldbest og hugstæðast.

Listnám eflir sköpunargáfu, þar sem listir reyna jafnt á ímyndunarafl og rökhyggju.
Frumleg tengslamyndun ásamt rökrænu mati og ályktunarhæfni liggur til grundvallar því sem nefnt hefur verið sköpunargáfa. Í listum er leyfilegt að leika, spyrja og ögra, sem leiðir til óvæntra tenginga. Sköpunargáfan er einstaklingnum lífsnauðsynleg til þess að mæta síbreytilegum kröfum nútíma þjóðfélags.

Listnám veitir tækifæri til að þroska fjölbreyttan og persónulegan tjáningarmáta.
Tjáningarmáti einstaklingsins byggir á hinum ólíku þáttum greindar hans og hæfileika. Í listiðkun finnur einstaklingurinn sér leið til tjáningar og staðfestingar á eigin eðli og verðleikum. Listir endurspegla þannig fjölbreytileika mannlífsins.

Listnám eflir sjálfsmynd og sjálfsskilning sem er grundvöllur farsældar í lífi og starfi.
Listir dýpka sjálfsvitund og tilfinningu fyrir stöðu í umhverfinu. Listir eru starfsvettvangur í atvinnulífinu, en jafnframt áhugamál, sem veitir lífsfyllingu allt frá barnæsku til elliára. Að njóta lista er að næra tilfinningalíf og vitsmuni. Listir eru lífsgæði sem hver einstaklingur á rétt á að njóta.

Listnám eykur tilfinningaþroska, félagsþroska, og meðvitund um fagurfræði.
Í listnámi lærist nemendum að þekkja og tjá eigin tilfinningar jafnframt því að virða tilfinningar annarra og túlkun þeirra. Í listkennslu lærir nemandinn að ráða í þá samfélagslegu merkingu og gildismat, sem felst í formi og framsetningu hlutanna.

Listnám þjálfar hæfni til þátttöku í menningu samfélagsins.
Án þekkingar og skilnings á táknmáli lista er maðurinn ófær um að meta og greina upplýsingar og áhrif sem hann verður fyrir daglega. Þessi þekking og skilningur er forsenda virkrar þátttöku í menningunni. Listir hjálpa nemandanum að skilja menningarlegan fjölbreytileika og viðurkenna menningarlegt afstæði, með því að kynna fyrir honum gildi, hefðir og hugmyndafræði eigin samfélags og annarra.
 
 

Gildi listnáms fyrir samfélagið

Gildi listnáms fyrir samfélagið felst í því að:

Listir eru einn helsti áhrifavaldur samfélagsins.
Listir eru ráðandi í upplýsingamiðlun nútímans og eru þannig einn helsti miðill áhrifa í samtímanum. Tónlist, myndlist, hönnun, leiklist og dans endurspegla og móta viðhorf einstaklings og gildismat samfélags. Því er brýnt að hver og einn sé meðvitaður um táknmál listanna en forsenda lýðræðis er upplýstur þegn sem er fær um þátttöku í samfélagsumræðu.

Listir eru mikilvæg atvinnugrein.
Listir mynda fjölbreytilegar atvinnugreinar og eru mikilvægt efnahagslegt framlag til samfélagsins. Má þar nefna störf sem tengjast manngerðu umhverfi, skemmtana-, tölvu-, tísku- og listheimi. Fjöldi fólks á sér ævistarf og framfæri af iðkun listgreina í ýmsu formi. Sá fjöldi mun aukast með vaxandi notkun upplýsingatækni sem gerir miðlun hljóðs og mynda auðveldari og aðgengilegri en nú þekkist.

Listir eru kveikja hugmynda og nýsköpunar í efnahagslífi og samfélagi manna.
Í listiðkun er sífellt spurt spurninga og krafist svara, því eðli lista er sköpun. Sá sem er skapandi kemur fram með nýjar hugmyndir metur þær og fylgir þeim eftir. Á öllum starfssviðum þjóðfélagsins er þörf fyrir einstaklinga, sem eru gæddir þeim eiginleikum sem þroskaðir eru í listkennslu; frumkvæði og nýsköpun.

Listir móta og endurspegla sjálfsmynd og gildismat samfélagsins.
Fagurfræði og siðfræði eru greinar af sama meiði, og fjalla um hin samfélagslegu gildi. Í listkennslu er fjallað um þessi gildi og menningarlegar forsendur þeirra. Listir eru uppistaðan í menningararfi þjóðanna. Listir helga það, sem samfélaginu er mikilvægt, spegla gildi og venjur en ögra þeim jafnframt. Á helgistundum, hátíðum og merkisdögum mannsævinnar, jafnt í sorg sem gleði, leitar mannkynið til listanna til að tjá merkingu stundarinnar.