Til baka á síðuna "Lokaskýrsla forvinnuhóps"

Tónmennt
Um húsnæði og búnað vegna tónmenntakennslu

 
4.4. Tónmennt
Tónlist hefur á öllum tímum verið snar þáttur í lífi og starfi manna. Börn skynja tónlist og bregðast við henni allt frá því að þau eru í móðurkviði. Með tónlist er unnt að tjá margt sem ekki verður tjáð með öðrum hætti. Jafnframt því að gegna mikilvægu hlutverki í daglegu lífi er tónlistin merkur hluti menningararfs þjóða. Tónmenntarkennsla á að veita nemendum innsýn í fagurfræðileg verðmæti þessa menningararfs, í eigin sköpunarverkum og annarra. Einnig er það liður í tónmenntanámi að auka skilning nemandans fyrir áhrifavaldi tónlistar í samfélagi nútímans.

Tónlist er sérstakur þáttur í mannlegri greind, sem hægt er að þroska með markvissri kennslu og þjálfun. Fyrir menntun og uppeldi hefur tónmenntarkennsla einnig víðtækt gildi sem er í því fólgið að efla alhliða þroska nemandans. Iðkun tónlistar krefst líkamsþjálfunar, skapandi og rökréttrar hugsunar og agaðra og skipulegra vinnubragða.

Tónmennt hefur auk þess yfirfærslugildi á aðra hæfni og þekkingu. Má þar meðal annars nefna örvun málþroska ungra barna og lestrarkunnáttu þeirra. Hún stuðlar einnig að sjálfstæði nemenda í lífi og leik og að nemendur tileinki sér heilbrigð og fjölbreytt áhugamál sem iðkendur og njótendur. Hún veitir nemendum lífsfyllingu, gleði, styrk og huggun.

Síðast en ekki síst ber að nefna að tónlist er orðin mikilvæg atvinnugrein í nútímaþjóðfélagi. Tónlistarfræðsla í grunn- og framhaldsskólum er liður í menntun þeirra nemenda sem síðar meir kynnu að leggja stund á þessa grein til frekara náms og starfs.
 

Ferli og innihald námsins.
Gildi tónmenntarkennslu er fyrst og fremst fólgið í að iðka tónlist og njóta hennar. Almenn markmið tónmenntarkennslu í grunn- og framhaldsskólum er að vekja og efla áhuga og skilning á tónlist með því að veita nemendum tækifæri til að iðka hana og njóta hennar. Virkni nemenda og hljómandi tónlist verður ávallt að sitja í fyrirrúmi.

Það að iðka og njóta tónlistar felur í sér ákveðið ferli sem má skilgreina, eins og í öðrum listgreinum, sem sköpun, túlkun og tjáningu annars vegar og skynjun, greiningu og mat hins vegar. Í tónlist eru ferlin: sköpun, túlkun og tjáning tvíþætt þ.e.a.s. tónsköpun og flutningur tónlistar.

Markmið tónmenntarkennslu skal flokka í eftirfarandi leikniþætti til að tryggja breidd og jafnvægi í námi:

Í venjulegu námsumhverfi skarast þessir þættir gjarnan. Nemendur öðlist t.d. tækni í söng um leið og þeir læra að hlusta, greina og beita viðeigandi orðaforða. Hæfni nemandans til að flytja, skapa eða hlusta og greina tónlist er háð næmi, skilningi, þekkingu og færni. Við markmiðsgerð og framsetningu skal hafa eftirfarandi skilgreiningu að leiðarljósi:
 

lögmál og aðferðir tónlistarinnar:
tækni og skilningur á efnisþáttum tónlistarinnar**

a) aðferðir og framsetning / leiðir og verkfæri***

b) greining og orðaforði

 
sögulegt og félagslegt samhengi:
þekking á sögulegu og félagslegu samhengi fjölbreyttrar tónlistar****
 

fagurfræði og listrýni:
 listrænt gildismat nemenda á fjölbreyttri tónlist

persónulegt gildismat nemenda á tónlist

 

* Hugtakið tónsköpun er notað hér um hefðbundna tónsmíði, spuna, útsetningu tónlistar o.s.frv.

** Efnisþættir tónlistar eru tónhæð, tónlengd, hljómar, form, tónstyrkur, tónblær, áferð, tón- og hendingarmótun og rými.

Hugtakið tónmótun er notað um mismunandi framburð innan tónhendingar t.d. þegar tónar eru bundnir saman (legato) eða slitnir í sundur (staccato)

Hugtakið áferð er hér notað til að lýsa mismunandi rithætti í tónsmíðum t.d. þar sem ein rödd ber uppi laglínu en hinar styðja við, eða þar sem tvær eða fleiri sjálfstæðar raddir hljóma saman.

Rými er það umhverfi sem tónlistin hljómar í..

*** Leiðir og verkfæri tónlistar: Hér er átt við aðferðir í flutningi, tónsköpun, hlustun og greiningu, ( t.d. notkun radda og hljóðfæraleiks, nótnalestur og ritun).

**** Fjölbreytt tónlist á við margar tónlistartegundir svo sem: íslenska tónlist, vestræna tónlist, heimstónlist, jass og dægurtónlist.

 

skipan náms í grunnskóla
Nemendur í grunnskóla eiga að fá kennslu í söng og hljófæraleik, sköpun, hlustun og greiningu. Eðlilegt vægi og samhengi á að vera á milli þessa leikniþátta, án þess þó að það hindri fjölbreytni og mismunandi áherslur í tónlistarkennslu einstakra skóla.

Námsmarkmið fyrir grunnskóla skulu miðast við að tónmennt sé skyldunám frá 1. - 9. bekk og að nemendur fái að jafnaði tvær kennslustundir á viku í tónmennt. Í 9. - 10. bekk skal nemendum standa til boða valgreina nám að jafnaði tvær kennslustundir á viku. Námsmarkmið skulu flokkast eftir aldri, þ.e. 1.- 3. bekkur, 4. - 6. bekkur, 7.- 9. bekkur og 10. bekkur. Tónlistarhæfni byggist á markvissri þjálfun og samfellu í námi. Markmiðin eiga að vera víðtækur, markviss og sveigjanlegur rammi til kennslu og námsmats sem endurspeglar það sem raunhæft er að ætla að börn með mismunandi getu og þroska nái á viðkomandi stigi. Markmiðin eiga að vera metnaðarfull en sanngjörn.

Tónmenntakennsla innan hvers skóla er ekki einungis í höndum og á ábygð tónmenntakennara (sérgreinakennara). Færa má ýmis rök fyrir því að bekkjarkennarar yngri barna bera einnig ábyrgð á tónlistaruppeldi í samstarfi við tónmenntakennara eða fagstjóra í tónmennt. Markmið í tónmennt skulu vera sett fram með það í huga. En til þess að kennarar séu almennt færir um að axla slíka ábyrgð þarf að bæta verulega kennaranám þeirra.

Nauðsynlegt er að tónmennt slitni ekki úr tengslum við heildarstarf skólanna né einangrist. Tengsl tónmennta við aðrar námsgreinar grunnskóla er margþætt. Samþætting og tengsl við aðrar greinar víkkar sjóndeildarhring nemandans og setur tónlist í þjóðfélagslegt samhengi. Samhliða því að njóta tónlistar, má jafnframt beita henni til að miðla annarri þekkingu til barna, t.d. með því að syngja texta um efni sem tengist öðrum námsgreinum eða læra um lífshætti annarra þjóða með því að tileinka sér tónlist þeirra.

Eðli greinarinnar og skýr markmið hafa í för með sér kröfu um viðeigandi aðstöðu, hljóðfæri, tæki og tól, sem ekki er hægt að horfa fram hjá ef námsmarkmiðum á að ná. Í viðauka eru talin upp hljóðfæri og búnaður sem gera má ráð fyrir að séu nauðsynleg við tónmenntarkennslu í grunnskóla.

Víða er öflugt samstarf milli grunnskóla og tónlistarskóla, enda hafa þessar stofnanir mikilvæg, sameiginleg markmið. Ennfremur er um að ræða sams konar námsinntak og námsþætti í tónmenntakennslu í grunnskóla og tónlistarkennslu í tónlistarskóla, þó að það sé oftast með öðruvísi áherslum og öðruvísi kennsluháttum*. Skýr markmið bæði fyrir tónmennt í aðalnámskrá grunnskóla og námskrám tónlistarskóla, ættu að gera samstarf á milli þessara stofnana markvissara og beina því að faglegum þáttum, þ.e. að inntaki og skipulagi náms og kennslu og síðast en ekki síst nemandanum sjálfum.
 

* Sjá Aðalnámskrá tónlistarskóla, bráðabirgðaútgáfa, Menntamálaráðuneytið 1996 og námskrá í tónfræðum, Handrit, Menntamálaráðuneytið 1997.

 

Lokamarkmið tónmenntakennslu í grunnskóla:

Við lok grunnskóla eiga nemendur að:

 
Sköpun / túlkun / tjáning:

Flutningur:

- hafa öðlast tækni til að flytja fjölbreytta tónlist og geta notað nótnatákn og aðrar leiðbeiningar til túlkunnar tónlistar.

- geta sungið og spilað fjölbreytta tónlist eftir eyranu, og í spuna.

- geta skipulagt og metið eigin flutning.
 

Tónsköpun:

- geta spunnið, útsett og samið tónlist í mismunandi stíl og sýnt þekkingu og skilning á efnisþáttum, efniviði* og eðli tónlistarinnar.

- geta metið eigin tónsköpun og skráð hana eða hljóðritað.

 

Skynjun / greining / mat:

Hlustun og greining:

- geta hlustað á og tileinkað sér fjölbreytta tónlist og jafnframt greint efnisþætti hennar og efnivið með viðeigandi orðaforða.

- geta sýnt fram á þekkingu á sögulegu og félagslegu samhengi tónlistar sem þeir hafa hlustað á eða flutt.

- geta rökstutt eigin skoðanir á fjölbreyttri tónlist.

- geta rökstutt eigin skoðanir og haft ánægju af að hlusta á fjölbreytta tónlist.
 

* Efniviður: Hér er átt við byggingarefni tónlistar t.d. tónbil, tónstiga, hryn, hljóma.
 

skipan náms í framhaldsskóla
Nám í tónmennt / tónlist í framhaldsskóla er þrískipt: Í fyrsta lagi er það nám á kjörsviði listnámsbrautar, í öðru lagi er tónlistarnám í boði sem valgrein og í þriðja lagi er um skyldáfanga að ræða í almennum brautarkjarna.

Eðlilegt er að ólíkar áherslur séu lagðar á ofangreinda leikniþætti greinarinnar eftir því hvort um er að ræða skyldunám, val eða kjörsvið.

Skyldunám (2 einingar) skal byggja aðallega á hlustun og greiningu, þ.e.a.s. á nemandanum sem njótanda.

Valgreinarnám í tónlist getur verið með margvíslegum hætti. Innan hvers framhaldsskóla kemur til greina að byggja valgrein aðallega á t.d. kór- eða hljómsveitarstarfi, tónlistarbókmenntum, tónlist og nýtækni eða námi í tónlistarskóla. Einnig mætti bjóða upp á samþætt listnám sem val. Allt þetta fer eftir aðstæðum á hverjum stað. Hver framhaldsskóli þarf að skilgreina þá valmöguleika sem nemendum stendur til boða á sviði tónlistarinnar, hvort sem þeir eru skipulagðir einungis innan skólans eða í samstarfi við einhvern tónlistarskóla. Inntak og matsaðferðir skal skilgreina í námskrá hvers skóla að fengnu samþykki yfirvalda. Nám í tónlistarskóla skal meta til eininga samkvæmt viðmiði Menntamálaráðuneytisins.

Tónlistarnám á kjörsviði listnámsbrautar fer fram í samstarfi við tónlistarskóla og samkvæmt væntanlegri aðalnámskrá og greinarnámskrám tónlistarskóla, útgefnum af Menntamálaráðuneytinu. Námið á að veita nemendum grunn að frekara námi t.d. á háskólastigi. Námskrár í hljóðfæragreinum og tónfræðum eru í undirbúningi hjá ýmsum nefndum á vegum Menntamálaráðuneytisins. Nauðsynlegt er að náin samvinna sé á milli þessara nefnda og þeirra aðila, sem koma til með að vinna að tónmenntar- / tónlistarnámskrá fyrir framhaldsskólastigið.

 

 
Lokamarkmið tónmenntakennslu í framhaldsskóla

 
Lokamarkmið tónlistar á kjörsviði listnámsbrautar:

Að loknu tónlistarnámi á listnámsbraut eiga nemendur að:

- hafa öðlast aukna færni og þekkingu í flutningi, sköpun, greiningu og hlustun tónlistar.

- hafa lokið 7. stigs prófi á eitthvert hljóðfæri, í söng eða í rytmiskri tónlist og í tónfræðigreinum samkvæmt gildandi aðalnámskrá og greinanámskrá tónlistarskóla.

 
Lokamarkmið tónlistar í almennum brautarkjarna:

Að loknu tónlistarnámi í almennum brautarkjarna eiga nemendur að:

- hafa hlustað á og greint fjölbreytta tónlist og öðlast færni sem upplýstir og gagnrýnir njótendur tónlistar.

- geta haft ánægju af að hlusta á fjölbreytta tónlist og geta greint efnivið og tónlistarþætti með viðeigandi orðaforða.

- geta sýnt fram á þekkingu á sögulegu og félagslegu samhengi tónlistar, sem þau hafa hlustað á.

- geti rökstutt eigin skoðanir á fjölbreyttri tónlist.

 

 
Lokamarkmið tónlistar sem valgreinar:

Að loknu námi í tónlist að vali, eiga nemendur að:

- hafa öðlast aukna færni og þekkingu í einum eða fleiri leikniþáttum tónlistar ,flutningi, sköpun, greiningu, hlustun

 

 

5. VIÐAUKI

 

5. 1. Um húsnæði og búnað vegna tónmenntakennslu

Hér á eftir er að finna ábendingar um húsnæði, hljóðfæri og kennslugögn vegna tónmenntarkennslu.

Húsakostur.
Við hönnun og val á húsnæði fyrir tónmenntakennslu þarf að huga sérstaklega að hljómburði og hljóðeinangrun. Nauðsynlegt er að huga að rými fyrir dans og hreyfingu og hljóðfæranotkun fyrir stóra sem og smáa hópa.

Hljóðfæri.
Nauðsynlegt er að píanó sé í kennslustofunni auk ýmissa skólahljóðfæra, bæði hryn- og laglínuhljóðfæra. Ennfremur er æskilegt að hafa hljómborð, trommusett og gítar.

Ráðlegt er að vanda val á skólahljóðfærum til þess að þau nýtist sem best í kennslunni. Þarf meðal annars að huga að tóngæðum og tónsviði þeirra. Æskilegt er að tónsvið stafspila* liggi sem næst raddsviði nemenda og mikilvægt er að valin séu krómatísk stafspil. Gera má ráð fyrir að eftirtalin hljóðfæri séu alla jafna nauðsynleg:

Annar búnaður og gögn.
Nauðsynlegt er að til séu vönduð tæki til hljómflutnings og hljóðupptöku. Mikilvægt er að hafa aðgang að fjölbreyttu safni hljóðrita, söngva, nótna og tónlistarhandbóka til að nota við kennsluna. Einnig þarf nótnapúlt og töflu með nótnastrengjum. Æskilegt er að hafa aðgang að myndbandstæki, tölvu og tónlistarforritum.