Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
Inngangur
 

A. Aðdragandi

Í bréfi frá 2. apríl 1997 fór menntamálaráðuneytið þess á leit við „nefnd til að koma með tillögur um hvernig efla megi námsgreinina stærðfræði og stærðfræðiáhuga nemenda í skólakerfinu" að hún taki til umfjöllunar nokkur atriði sem snerta endurskoðun aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla. Nánar tiltekið var nefndinni falið að:  

1. Rökstyðja þörf og tilgang námssviðs og námsgreina innan þess.
2. Setja fram tillögur um lokamarkmið námsins, a) á grunnskólastigi, b) á framhaldsskólastigi.
3. Gera tillögu, ef ástæða þykir til, um breytingar á skipulagi/uppbyggingu námsins.
 
Í nefndinni eiga sæti:   Hildigunnur Halldórsdóttir, Menntaskólanum við Hamrahlíð
Hörður Lárusson, Menntamálaráðuneytinu
Jónína Vala Kristinsdóttir, Háteigsskóla
Kristín Halla Jónsdóttir, Kennaraháskóla Íslands
Pétur H. Blöndal, Alþingi
Reynir Axelsson, Háskóla Íslands, formaður nefndarinnar
Sigríður Hlíðar, Menntaskólanum í Reykjavík
Sven Þ. Sigurðsson, Háskóla Íslands
 
Nefndin hefur haft samráð við Kristínu Bjarnadóttur, umsjónarmann endurskoðunar námskrár á námssviði stærðfræði, um tillögur sínar. Svör nefndarinnar eru sett fram hér á eftir, og skiptast í fjóra kafla og tvo viðauka.

Í kafla 1, sem ber yfirskriftina Nokkur meginsjónarmið sem gæta þarf að þegar sett eru markmið stærðfræðikennslu spyrjum við spurningarinnar til hvers á að kenna stærðfræði í skólum. Við leitumst við að svara henni með því að setja fram átta fullyrðingar, sem við ræðum síðan og rökstyðjum hverja fyrir sig. Með því móti teljum við okkur rökstyðja þörf og tilgang stærðfræðinnar sem námssviðs, og jafnframt gefst tækifæri til að rökstyðja tilgang ýmissa sérstakra undirgreina stærðfræðinnar í náminu. Þetta er því svar nefndarinnar við 1. lið hér að ofan. Í kafla 2, sem er örstuttur og ber yfirskriftina Hvernig verður þessum markmiðum best náð? setur nefndin fram án rökstuðnings nokkrar fullyrðingar sem eru svör hennar við spurningunni í fyrirsögn kaflans.

Í kafla 3, sem ber yfirskriftina Lokamarkmið stærðfræðikennslu í grunnskólum, og í kafla 4, sem ber yfirskriftina Lokamarkmið stærðfræðikennslu í framhaldsskólum setjum við fram tillögur um lokamarkmið námsins, a) á grunnskólastigi, b) á framhaldsskólastigi. Þetta er því svar nefndarinnar við 2. lið hér að ofan.

Í tveimur viðaukum setjum við fram Tillögur um gerð aðalnámskrár í stærðfræði fyrir grunnskóla og Tillögur um gerð aðalnámskrár í stærðfræði fyrir framhaldsskóla. Þessar tillögur hefur nefndin áður sent Menntamálaráðuneytinu, en hún lítur svo á að í þeim felist svar hennar við lið 3. hér að ofan.
 

B. Þörfin fyrir markmiðssetningu  

Það er kannski eðlilegt að spurt sé hvers vegna þörf sé fyrir að gera í löngu máli grein fyrir markmiðum stærðfræðikennslu, því að við fyrstu sýn kann að virðast að um þau ríki nokkurn veginn alþjóðlegt samkomulag. Þegar litið er yfir námsskrár í grunnskóla í nágrannalöndum okkar og víðar, þá kemur til dæmis í ljós að þær eru mjög líkar, bæði hvað efnisatriði varðar og í stórum dráttum einnig um efnistök. Á hinn bóginn virðast menn einnig víðast hvar vera sammála um að stærðfræðimenntun sé í nauðum stödd, og gagnrýni á stærðfræðikennslu í skólum er útbreidd í mörgum löndum. Eftirfarandi tilvitnun getur staðið sem dæmi um fjölmargar áþekkar fullyrðingar sem hafa verið settar fram við ýmis tækifæri á síðustu árum:  

Stærðfræðimenntun á öllum stigum er í djúpri kreppu. Áköll um úrbætur hafa brotist inn í meðvitund allra sem leggja stund á stærðfræðileg vísindi. Vísbendingar um þörf fyrir breytingar blasa við okkur daglega. Að koma af stað umbótum — og raunar að móta þær umbætur — krefst besta skilnings sem við getum hvatt til — skilnings á nemendum og kennurum, á námi og hugsun, á heppilegum kennsluaðferðum og námsgögnum, á námsmati, á hentugu skipulagi stofnana.
 
Hér á landi hafa einnig heyrst gagnrýniraddir; til dæmis hefur Atli Harðarson fyrir fáum árum sett fram gagnrýni á stærðfræðikennslu í skólum í grein frá 1994. Þar segir hann meðal annars:   Árangur af stærðfræðikennslu í framhaldsskólum er sorglega lítill og sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki sé réttast að draga úr henni og nýta tímann fyrir aðrar námsgreinar.
 
Þess ber að vísu að geta að aðfinnslur sem þessar eru ekki nýjar af nálinni, og sambærilegar tilvitnanir mætti finna frá ýmsum tímum. En að sjálfsögðu er nauðsynlegt að taka tillit til málefnalegrar gagnrýni þegar reynt er að setja fram markmið fyrir stærðfræðikennslu.

Í [Aða1989] eru skilmerkilega sett fram meginmarkmið með kennslu stærðfræði í grunnskóla; þau má lesa í kaflanum Stærðfræði undir fyrirsögnunum Meginmarkmið og Skýringar á bls. 142–146. Undir öll þessi meginmarkmið getum við tekið, og sumt af því sem við segjum hér á eftir má, að minnsta kosti hvað grunnskóla varðar, líta á sem hugleiðingar um og stundum nánari útfærslu á því sem þar stendur. En einnig ætti hér að vera að finna einhverjar viðbætur.

Við teljum mikilvægt að markmið með stærðfræðikennslu séu sett fram með skýrum hætti. Á hinn bóginn gerum við okkur grein fyrir að slík markmiðssetning er auðveldasti hlutinn af að skilgreina þann vanda sem stærðfræðikennarar standa frammi fyrir. Meginvandinn felst í að finna leiðir til að hrinda markmiðunum í framkvæmd.

Í þessari skýrslu höfum við einbeitt okkur að því að lýsa markmiðum stærðfræðikennslunnar og gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem að baki liggja. Það skýrir hvers vegna við höfum látið kennsluhætti og kennsluaðferðir að mestu liggja milli hluta.
                                
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1998. Kristín Bjarnadóttir kristinb@ismennt.is