Næsta síða

Heimasíða náttúrufræða

Efnisyfirlit

Afstaða hópsins til yfirlýstra stefnumiða ráðuneytisins

Við skilgreiningu á markmiðum í nýrri námskrá og röksemdafærslu í tengslum við þau hefur hópurinn tekið tillit til yfirlýstrar stefnu Menntamálaráðuneytisins í menntamálum eins og hún kemur fram í ýmsum skrifum og álitsgerðum sem hafa komið frá ráðuneytinu eða verið unnar á vegum þess. Hér viljum við hnykkja á ýmsum atriðum er varða einstaka stefnumið; draga saman afstöðu hópsins og koma að atriðum sem þarfnast sérstakrar athygli. Á stöku stað er vísað inn í skýrsluna eftir úfærslum og nánari skilgreiningum.

 

1. Áherslu á íslensku, sögu og þjóðmenningu.

Þekking og skilningur á náttúruvísindum, rannsóknum og tæknikunnáttu er einnig hluti af þjóðmenningunni. Náttúrufræðilega hugsun þarf að orða á íslenskri tungu. Valin viðfangsefni í náttúrufræðikennslu geta eflt skilning á sérkennum íslenskrar náttúru og því umhverfi sem við lifum í. Mikilvægt er að skólarnir eigi aðgang að námsefni sem sameina íslenskan veruleika og námsgreinar sem í eðli sínu eru alþjóðlegar.

 

2. Áhersla á vísindalæsi

Náttúrufræðinámi er meðal annars ætlað að mæta kröfum nútíma atvinnulífs um vel menntað en sveigjanlegt vinnuafl. Rétt þjálfun gerir menn hæfa til að tileinka sér nýjungar og aðlagast breyttum aðstæðum. Þannig er nauðsynlegt að námið þroski með nemendum "læsi" á hvað vísindaleg þekking felur í sér, hvernig hennar er aflað og hvernig þeir geti hagnýtt sér þekkinguna sjálfum sér og samfélaginu til framdráttar.

Þetta hefur hópurinn haft að leiðarljósi við sína vinnu. Góð kennsla í þessum greinum gefur ágætt tækifæri til þjálfunar í því sem kallað hefur verið vísindalæsi. Sá knappi rammi sem greinin hefur búið við í skólakerfinu til þessa á verulega sök á vanrækslu í þessum þætti kennslunar. Aukin áhersla á vísindalæsi er því enn frekari rökstuðningur fyrir því að náttúrufræðikennsla fái hér þann sess sem hún skipar hjá öðrum þjóðum.

 

3. Áhersla á tæknimenntun.

Vaxandi notkun tölva og framboð nýrra upplýsinga í gegnum margmiðla o.fl. gera það að verkum að tæknilæsi mun verða hluti af almennri menntun nemenda. Tæknilæsi felur í sér skilning á virkni og eðli manngerðra hluta og kunnáttu til að velja viðeigandi tækni við úrlausnir verkefna. Slík þróun kallar á nýja efnisþætti og aðrar kennsluaðferðir en tíðkast hefur í náttúrufræðum sem og á öðrum sviðum. Að því er stefnt með tillögum nefndarinnar að hin aukna áhersla sem er á sjálfstæðar athuganir nemenda ásamt verklegri og tæknilegri nálgun viðfangsefna verði vettvangur til að þjálfa tæknilæsi í víðtækri merkingu þess orðs.

 

4. Alþjóðlegar kröfur

Forvinnuhópurinn hefur tekið saman og kynnt sér form og inntak námskráa tíu þjóða (samanber formála og heimildaskrá). Sama hvert litið er; alls staðar má líta sviptingar innan námssviðsins (sjá einnig 2.1.3). Að mati hópsins má merkja áhrif frá þessari vinnu í öllum þáttum skýrslunnar. Í tillögum um námskröfur og stefnubreytingar er reynt að taka mið af íslenskum veruleika og þörfum nemenda hér. Rétt er að undirstrika að þegar hópurinn talar um íslenskan veruleika er ekki átt við þær aðþrengdu aðstæður sem námssviðið býr við í dag heldur þá umgjörð sem við teljum að samfélagið geti búið skólanum.

 

5. Almenn lífsleikni

Nokkrir þeirra þátta sem taldir hafa verið til lífsleikni og ratvísi verða kenndir innan náttúrufræðinnar samkvæmt tillögum starfshópsins. Hér er um að ræða þætti úr umhverfismennt (tengsl manns og náttúru, verndun og nýting auðlinda), heilbrigði og hollustu (sjúkdómar, hreyfing, næring) og að hluta til kynfræðslu og neytendafræðslu. Lagt er til að þessir þættir séu hluti af náttúrufræðinámi á miðstigi, unglingastigi og í kjarnanámi í framhaldsskóla.

 

Forvinnuhópurinn leggur á það sérstaka áherslu að umhverfismennt og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar verði felld inn í sem flestar námsgreinar og þannig að tryggð verði fagleg umfjöllun á öllum sviðum náms. Jafnframt að sameiginleg markmið umhverfismennta í grunn- og framhaldsskólum verði að nemendur:

 

Forvinnuhópurinn bendir á nauðsyn þess að skólarnir marki sér sína eigin umhverfisstefnu til að sýna fordæmi og ábyrgð í skólastarfinu og styrkja uppeldishlutverk skólans.

 • Sjá nánar Viðauka C. "Greinargerð um umhverfismennt"

   

  6. Símenntun

  Það er mikilvægt að allir grunn- og framhaldsskólanemendur eigi þess kost að læra grunnhugmyndir og rannsóknaraðferðir vísindanna sem hluta af almennri menntun sinni og með viðeigandi verkefnum. Endurmenntun og viðbótarnám verður einnig að standa þeim til boða. Mikilvægt markmið með kennslunni er að efla áhuga, forvitni og frumkvæði nemendanna þannig að þeir sæki í að dýpka og styrkja þekkingu sína eftir ýmsum leiðum. Líta má svo á að byrjunarnám hafi tekist ef það hefur lagt til þá hvatningu og faglega undirstöðu sem gerir mönnum fært að halda áfram að læra allt sitt líf, bæði í og utan vinnutíma.

   

  7. Mat og eftirlit

  Forvinnuhópurinn telur nauðsynlegt að beita fjölbreyttum aðferðum við mat á skólastarfi, bæði hvað varðar innra mat og mat á stöðu nemenda miðað við markmið aðalnámskrár fyrir hvert aldursstig.

  Leiðir að markmiðum:

  • Nákvæm framsetning og flokkun markmiða í námskránni auðveldar mat og eftirlit, bæði innan skólans og á landsvísu.
  • Hópurinn leggur til að í námskrá í náttúrufræði verði leiðsögn um námsmat og ákveðin dæmi sýnd um framkvæmd þess, en útfærir það ekki í þessari skýrslu.
  • Hópurinn telur að námsmat eigi að þjóna nemendum sem best og leiðbeina þeim í námi. Í því skyni er mikilvægt að skólarnir og nemendur setji sér viðmið eða áfangamarkmið í námi og meti námsárangur reglulega með hliðsjón af þeim. Það geta nemendur gert að hluta til sjálfir.

  Starfshópurinn telur að samræmd próf í náttúrufræðum eigi rétt á sér en fara verði fleiri leiðir en nú er gert. Samræmd próf á ýmsum aldursstigum skulu í reynd virka sem stuðningur við skóla landsins, kennara og nemendur og væri því æskilegast að bjóða upp á samræmd könnunarpróf og aðstoð við að endurmeta kennsluna út frá niðurstöðum prófa.

   

  8. Endurskoðun kennsluhátta

  Í skýrslu verkefnisstjórnar til stefnmótunarnefndar segir ( á bls. 4) að athuganir bendi til þess að kennsluhættir séu of einhæfir og því sé erfitt að koma til móts við ólíka nemendur. Úr þessu er þörf að bæta.

  Leiðir að markmiðum:

  • Heildstæð náttúrufræðikennsla gerir miklar kröfur til náttúrufræðikennarans en það er sú stefna sem hér er boðuð. Tillögur hópsins fela því í sér breyttar og jafnframt auknar kröfur á kennaramenntunina, ásamt endurmenntun og stórauknum stuðningi við skólana og starfandi kennara.
  • Hópurinn hefur lagt áherslu á fjölbreytni í kennslu og í námskrá verði lýst nokkrum mismunandi leiðum að nálgun viðfangsefnisins. Þar verði sérstök áhersla lögð á útikennslu og vettvangsferðir.
  • Framboð á námsgögnum þarf að aukast þannig að kennurum standi fjölbreyttar leiðir til boða. Þá þarf að leggja á það aukna áherslu að koma út frumsömdu íslensku efni.
  • Tillögur hópsins kalla á að góð aðstaða til verklegrar kennslu sé til staðar í skólanum og að metin sé vinna við eftirlit og umsjón á stofunum.
  • Ein af forsendunum fyrir árangursríkari verklegri kennslu er viðráðanleg stærð nemendahópa.
   

  9. Efling fjarkennslu

  Í því skyni að koma til móts við sem flesta nemendur ætti í auknum mæli að nýta möguleika upplýsingatækni og fjarkennslu í náttúrufræði á báðum skólastigum. Slíkt býður upp á mikla möguleika fyrir alla. Þannig geta skólar sérhæft sig innan námssviðsins og boðið upp á nám sem nemendur annars staðar geta nýtt sér og fengið metið í sínum heimaskóla. Með því að æðri menntastofnanir komi markvisst að málum á þessu sviði fá nemendur alls staðar aðgang að sérfræðiaðstoð sem þeir hefðu ekki annars tækifæri á að nýta sér.

  Leiðir að markmiðum:

  • Hópurinn gerir tillögu að námsauka í eðlis- og efnavísindum við lok grunnskólans sem hæglega mætti kenna í fjarkennslu. (Sjá kafla um grunnskólann þar sem er að finna nánari útfærslu).
   

  10. Dregið úr brottfalli í framhaldsskólum

  Tillögur hópsins miðast við það að gera námið aðgengilegra fyrir fleiri með því að bjóða upp á heildstæðara náttúrufræðinám þar sem áhersla er lögð á víðtækara verkefnaval, fjölbreyttari vinnuaðferðir og námsmat.

   

  11. Nám við hæfi hvers og eins

  Krafan um nám við hæfi hvers og eins felur í sér að sérhver nemandi fái viðfangsefni við hæfi og honum séu búnar aðstæður og veitt hvatning til að nýta námshæfileika sína sem best.

  Á yngri stigum grunnskólans er mikilvægt að námsefni og kennsluaðferðir séu fjölbreyttar og krefjist virkrar þátttöku nemendanna. Á unglingastigi er breidd í nemendahópnum mikil hvað varðar getu, þarfir og áhugasvið. Í framhaldsskóla skal miða námið í auknum mæli við lokamarkmið brautanna.

  Leiðir að markmiðum:

  • Á öllum stigum; Kennsluaðferðir sem krefjast virkrar þátttöku
  • Tvær leiðir í eðlis- og efnavísindum að lokaprófi í grunnskóla. (Sjá nánar á bls. 33)
  • Breyttar áherslur í kjarna í framhaldsskólum og aukin sérhæfing á náttúrufræðibrautum.
  • Náttúrufræði getur verið mikilvægur þáttur í einstaklingsnámskrám og sérkennslu m.a. vegna möguleika á verklegri kennslu, athugunum og vettvangsnámi.
   

  12. Jafnrétti

  Það er mikilvægt að í námskrá sé viðurkennt og tekið fullt tillit til mismunandi aðstæðna nemenda, þarfa, reynslu, getu og viðhorfa nemenda af báðum kynjum.

  Leiðir að markmiðum

  • Víðtækari náttúrufræðikennsla og fleiri sjónarhorn tekin inn í umræðu og úrvinnslu.
  • Virkari þátttaka nemenda og sjálfstæðari vinnubrögð. Meira val innan sviðsins og viðfangsefni er tengjast áhugasviði nemenda.
  • Námsefni og dæmi sem tekin eru séu í anda jafnréttissjónarmiða og höfði til beggja kynja.

   

  13. Samfella í námi

  Í tillögum sínum leggur starfshópurinn á það ríka áherslu að námsmarkmið og röðun námsþátta á aldursstig verði sett þannig fram að það stuðli að samfellu og stígandi í námi innan grunnskólans, frá grunnskóla til framhaldsskóla og innan framhaldsskólans. Þessa stefnu þarf síðan að útfæra í skólanámskrám.

 •  

  Næsta síða

  Heimasíða náttúrufræða

  Efnisyfirlit