Næsta síða

Heimasíða náttúrufræða

Efnisyfirlit

 Inngangur

Á undanförnum misserum hefur farið fram mikil umræða um skólamál og í kjölfar skýrslu um niðurstöður í svonefndri TIMSS-rannsókn hefur athyglin ekki síst beinst að málefnum raungreina og stærðfræði. Hópurinn sem stendur að þessari skýrslu er að sjálfsögðu vel meðvitaður um þessa umræðu en í hans huga eiga vandamál þessara greina miklu dýpri rætur, bæði í skólakerfinu og þjóðfélaginu, en oftast birtist í ályktunum af slíkri könnun.

Náttúruvísindi og tækni eru hluti af menningu okkar ekkert síður en bókmenntir og saga. Skilningur á umhverfi okkar bæði í starfi og leik er okkur nauðsynlegur. Til að öðlast skilning þarf bæði markvissa þjálfun og þekkingu. Það er hlutverk skólans að veita þessa færni. Búa þarf nemendur undir störf i tæknivæddu þjóðfélagi og til að vera virkir þátttakendur í ákvarðanatöku samfélagsins. Gildir hér einu hvort við viljum beita hagrænum eða vistrænum mælikvarða á þessi mál.

Tillögur starfshópsins endurspegla að hann hefur unnið að þessu máli í víðu samhengi og verður hér drepið á helstu hugmyndir hans til endurbóta.

 

Efni skýrslunnar

Skýrslan skiptist í sex meginkafla auk viðauka.

Á eftir inngangi kemur kafli sem skiptist í tvennt. Fyrri hluta kaflans er ætlað að skýra þær breytingar sem orðið hafa í kjölfar síðustu aðalnámskrár og varpa ljósi á nokkur einkenni hennar í samanburði við erlendar áherslur. Síðari hlutinn inniheldur tillögur hópsins að ýmsum breytingum er varða skipulag og umfang náttúrufræðináms í nýrri námskrá.

Í þriðja kafla er reifuð afstaða starfshópsins til einstakra áhersluatriða sem Menntamálaráðuneytið hefur sett fram varðandi menntamál.

Í fjórða kafla, fyrri hluta, er rætt almennt um gildi náttúrufræðinámsins en í þeim síðari er farið ítarlega yfir markmið og efnisþætti námssviðsins. Spyrja má hvers vegna hópur, sem falið var að marka stefnu hvað meginmarkmið varðar, fer jafn ítarlega í einstaka efnisþætti eins og kafli 4.2 ber með sér. Því er til að svara að hópurinn taldi nauðsynlegt að skýra nákvæmar hvernig hann sér fyrir sér útfærslu á þeim breytingum sem hann leggur til. Víðtæk samþætting einstakra efnisþátta, sterk áhersla á verkleg vinnubrögð og aukin áhersla á jarðvísindi hafa ekki einkennt skólastarfið til þessa. Þessum þáttum þarf að koma til skila jafnframt því sem menn mega ekki missa sjónar af grundvallar hugtökum og samfellu í námi. Með töflum yfir markmið, efnisþætti og viðfangsefni er reynt að sýna hvernig vinna megi að þessum markmiðum.

Í fimmta kafla er fjallað sérstaklega um grunnskólann. Hópurinn skiptir honum í þrjú aldursstig og í kaflanum er lýst sérkennum hvers stigs; nálgun og áherslum. Þar eru og sýnd dæmi um samþættingu og gerð grein fyrir lokamarkmiðum.

Í sjötta kafla er hliðstæð umfjöllun um framhaldsskólastigið. Fjallað er annars vegar um sameiginlegt kjarnanám og hins vegar um nám á náttúrufræðibraut. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að sú heildarmynd sem birtist í tillögum hópsins frá fyrsta bekk grunnskóla getur ekki náð inn í framhaldsskólann fyrr en eftir áratug, nema ef gerð er sérstök aðlögun. Hugmyndir þar að lútandi eru einnig ræddar í þessum kafla. Þá eru tekin dæmi um hvernig skapa megi nokkra sérhæfingu á náttúrufræðibraut eftir áherslum í eðlis- og efnavísindum, jarðvísindum eða lífvísindum. Þessi dæmi eru ekki tæmandi og fleiri útfærslur koma til greina en ekki þótti ástæða til að benda á fleiri leiðir í þessu verki.

Næsta síða

Heimasíða náttúrufræða

Efnisyfirlit

Höfundarréttur © menntamálaráðuneytið, Hallveigarstaðir, Reykjavík 20.11.1997
Uppsetning: Sigríður Ólafsdóttir. nattsig@ismennt.is