Skýrslur forvinnuhópa

Heimasíða náttúrufræða

Efnisyfirlit

 Viðauki C. Greinargerð um umhverfismennt.

 

Saga umhverfismennta í íslenskum skólum og kröfur í núverandi aðalnámskrá.

Hugmyndir um umhverfismenntun í íslenskum skólum hafa verið að mótast síðan snemma á áttunda áratugnum. Þetta svið byggir á nokkrum eldri áherslum í skólastarfi og almenningsfræðslu, en hefur vaxið fram með aukinni þekkingu í vistfræði og vitund um misfellur í samskiptum mannsins við náttúruna og vilja til að bæta þau. Umhverfismennt er því liður í viðleitni manna til að bregðast við vanda og byggja upp heilbrigð samskipti manns og umhverfis.

Umhverfismenntun varð fyrst sérstakt kennslusvið í grunnskólanum með Aðalnámskrá frá 1989. Í samræmi við stefnu þáverandi stjórnvalda um að umhverfismenntun eigi að koma sem víðast fyrir í námi, er hennar getið í markmiðum margra námsgreina í Aðalnámskránni. Auk þess er gert ráð fyrir því að koma megi námsþættinum að sem litlum námsskeiðum eða þemavikum. Í skipulagi skóla hafði þó ekki verið gert ráð fyrir sérstökum kennslustundum fyrir umhverfismennt.

 

Staða umhverfismennta í íslenskum skólum

Síðan að Aðalnámskrá kom út hafa verið gerðar nokkrar ítarlegar athuganir á því hvert eðli og umfang náttúrufræðináms er í íslenskum skólum. Þar hefur komið í ljós að kennarar telja umhverfismennt almennt mjög mikilvægan þátt í öllu skólastarfi en tengja hann þó sérstaklega náttúrufræðinámi í grunnskólum. Breytingar sem verða á jörðinni af manna völdum bitna oft á tíðum á lífkerfum hennar og slík atriði hafa kennarar talið best útskýrð innan náttúrufræðinnar. Vistfræðilegur skilningur er víðast talinn liggja til grundvallar allri umhverfismenntun.

Af niðurstöðum fyrrnefndra kannanna má einnig álykta að ekki sé tekið markvisst á umhverfismálum í skólakerfinu, of mikið sé háð einstökum kennurum, áhuga þeirra og skilningi á því í hverju umhverfismennt er fólgin. Sýnt þykir að hugtakið umhverfismennt hafi mjög víða merkingu í hugum kennara. Það nær yfir "allt sem gera má til að styrkja vitund fólks um umhverfi sitt". Í námskránni er ekki kveðið nægilega skýrt á um kennsluaðferðir eða viðfangsefni og í því námsefni sem í boði er er að mati kennara. þáttur umhverfismenntar ekki nægilega stór Framboð á endurmenntunarnámskeiðum hefur aukist en þó alls ekki náð að fylgja vaxandi eftirspurn.

 

Eðli umhverfismála

Íslendingar hafa á undanförnum árum verið í samfloti með öðrum Norðurlandaþjóðum við að þróa umhverfismennt í skólastarfi. Þetta samstarf byggist á hefðum í hverju landi, sameiginlegum menningararfi og stefnu sem mörkuð hefur verið á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna um umhverfismenntun. Áhersla hefur verið lögð á að ganga út frá vandamálum sem eru tengd nemendum á einhvern hátt og standa þeim nærri, en jafnframt er reynt að víkka sjóndeildarhring þeirra og sýna fram á að þau eru sameiginleg öllum jarðarbúum.

Á allra seinustu árum hefur verið mikið rætt og ritað meðal nágrannaþjóða okkar um hvað hugtakið umhverfismennt feli í sér og hvernig unnið sé að því í skólum. Vandamál umhverfismenntar hefur verið líkt og hérlendis, að of margir og fjölskrúðugir kennsluhættir, efni og inntak, hafa verið flokkaðir þar undir. Flestir eru sammála um að tímabært sé að skerpa skilgreiningar á því hvert eðli og umfang umhverfismenntar eigi að vera.

Hér á landi, líkt og meðal nágranna þjóða okkar, hefur fagleg vinna og umræða með umhverfismennt fyrst og fremst verið tekin fyrir innan náttúrufræðigreinanna. Það hefur orðið til þess að námið felst aðallega í að þekkja eðli og umfang umhverfisvandamála. Markmiðin með kennslu um umhverfismál innan náttúrufræðasviðsins hafa víða snúist upp í það að upplýsa nemendur um það hversu stór og alvarleg umhverfisvandamálin væru. Samfara því var talið nauðsynlegt að gefa nemendum tækifæri til að njóta heilbrigðrar útiveru, skynja fegurð óspilltrar náttúru og taka þátt í að fegra landið.

Niðurstöður norrænna rannsókna sýna að slíkar áherslur eru ekki vænlegar til árangurs og auka á svartsýni nemendans og vanmáttartilfinningu.

 

Tillögur forvinnuhópsins

Starfshópurinn tekur undir það að of einhliða áhersla hefur verið lögð á að faglegur bakgrunnur í náttúrufræði sé mikilvægastur skilningi nemenda á eðli og umfangi umhverfisvandamála.

Umhverfisvandamál eru samfélagslegs eðlis en náttúrufræðileg þekking eykur skilning á afleiðingum athafna mannsins. Það eru ólíkir hagsmunir einstaklinga og hópa sem að rekast á og skapa umhverfisvandamál. Ágreiningurinn snýst oft um hagnýtingu sameiginlegra auðlinda okkar allra. Umhverfismennt í skólum hlýtur að taka mið af því.

Starfshópurinn leggur til að umhverfismennt verði gerð skýr og góð skil innan námskrár. Í námskrá séu nákvæm markmið innan allra námssviða sem skólarnir skulu útfæra í skólanámskrám og kennarar allra námsgreina vinna með.

Samþætting námsgreina á oft við í umhverfismennt. Í námskrá fyrir grunnskólann verði bent á leiðir hvernig vinna megi þverfaglega með viðfangsefni umhverfismenntar.

Huga ber sérstaklega að samþættingu efnisins á tveimur námssviðum, náttúrufræði og samfélagsfræði og því hvort og þá hvernig námsgreinin landafræði ( náttúru- og samfélagsleg landafræði) og umhverfismennt falla saman.

Framhaldsskólinn ætti einnig að hafa umhverfismennt á boðstólnum sem námsgrein á náttúrufræðibraut og sem mikilvægan þátt í almennu kjarnanámi allra nemenda.

 

 

Starfshópurinn leggur til að sameiginleg markmið umhverfismennta í grunn- og framhaldsskólum verði að nemendur:

Skýrslur forvinnuhópa

Heimasíða náttúrufræða

Efnisyfirlit

Höfundarréttur © menntamálaráðuneytið, Hallveigarstaðir, Reykjavík 20.11.1997
Uppsetning: Sigríður Ólafsdóttir. nattsig@ismennt.is