Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 
 

Ný námskrá í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði

Helstu áherslubreytingar í markmiðssetningu rök fyrir þeim:

Meginmarkmiðum er fækkað niður í fjögur. Þau eru síðan útfærð nánar fyrir hvert stig grunnskólans. Framsetning er einfölduð og gerir það skólunum kleift að útfæra þau nánar í sínu starfi m.a. í gerð skólanámskrár sem kveðið er á um í grunnskólalögum (31. gr.).

Áhersla á hið sögulega og menningarsögulega er aukin enda er skólanum ætlað að efla skilning nemenda á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum (Lög um grunnskóla 2. gr.). Því er lögð áhersla á íslenska kirkjusögu og tengsl hennar við almenna kirkjusögu og þátt trúar í listum og bókmenntum. Saga og menning þjóðarinnar sem og vestræn menning og saga verður vart skilin án þekkingar á kristinni trú og sögu kristinnar kirkju.

Nú sem áður er veruleg áhersla lögð á siðfræðiþáttinn og siðræn gildi. Kristileg gildi hafa mótað vestræna hugsun í þeim efnum og starfshættir skólans eiga m.a. að mótast af kristilegu siðgæði (Lög um grunnskóla 2. gr.). Uppeldishlutverk skólans hefur aukist jafnt og þétt og mikilvægur þáttur í því er siðgæðisuppeldið. Í starfi sólans ber að leggja áherslu á að efla sjálfsvitund og félagsvitund nemenda og stuðla að alhliða velferð og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi (Lög um grunnskóla 29. gr.). Siðfræðiþátturinn er hér mikilvægur enda er skólanum ætlað að stuðla að auknum siðgæðisþroska nemenda og heilbrigðri sjálfsmynd og styrkja þá í að taka ábyrga afstöðu í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Áhersla er lögð á Biblíuna, biblíutexta og biblíusögur, og með því mætt óskum kennara og fleiri sem telja nauðsynlegt að efla biblíuþekkingu meðal barna og unglinga. Biblían hefur haft mótandi áhrif á menningararf íslensku þjóðarinnar eins og Vesturlanda almennt. Þessi áhrif birtast m.a. í bókmenntum og listum, sem og lífsskilningi fólks, trú og siðgæði. Biblíufræðslan er liður í því að gera komandi kynslóðir læsar á menningararfinn þannig að þær þekki rætur sínar.

Áhersla á fræðslu um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf en kristni er aukin. Tekið er mið af breyttum aðstæðum í Evrópu og heiminum og áhrifum þeirra. Fjölhyggja og fjölbreytni lífsviðhorfa fer vaxandi hér á landi eins og í nágrannalöndunum og fólk kemur frá ýmsum menningarsvæðum. Mikilvægt er því að veita nemendum þekkingu og skilning á helstu trúarbrögðum og lífsviðhorfum svo þeir geti umgengist og borið virðingu fyrir fólki sem er annarrar trúar eða lífsskoðunar. Lögð er áhersla á umburðarlyndi og víðsýni (sbr. Lög um grunnskóla 2. gr.). Í því efni er þekking og skilningur mikilvæg forsenda ásamt því að þekkja eigin trú og ríkjandi lífsviðhorf eigin samfélags.
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða

Menntmálaráðuneytið 1998. Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
20.03.1998