Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 

Ný námskrá í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði

 Rök fyrir greininni og viðfangsefnum hennar

 
Grunnskólalög
Í 30. gr. laga um grunnskóla eru talin upp þau svið sem setja skal ákvæði um í aðalnánskrá og tilgreinir i.-liðurinn kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði sem eitt þeirra. Meginmarkmið grunnskóla tilgreinir jafnframt þau grundvallargildi sem starfshættir skólans eiga að mótast af, þ.e. umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi (Lög um grunnskóla, 2. gr.). Í samræmi við þetta eru kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði meðal þeirra sviða sem eiga að stuðla að alhliða þroska og menntun nemenda, temja þeim ábyrgð og víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi.

Læsi á menningu
Kristin trú hefur verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi nánast frá upphafi og er enn. Það birtist m.a. í því að um 96% þjóðarinnar eru skráð í kristin trúfélög. Saga og menning þjóðarinnar verður vart skilin án þekkingar á kristinni trú og sögu kristinnar kirkju. Sama gildir um vestræna sögu og menningu. Skólanum er ætlað að efla skilning nemenda „á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum" (Lög um grunnskóla, 2. gr.). Kristin fræði eiga því m.a. að gera nemendur læsa á menningararf þjóðarinnar en einnig Vesturlanda almennt. Biblíufræðsla er liður í því. Biblían hefur haft mótandi áhrif á menningararf íslensku þjóðarinnar og Vesturlanda. Þessi áhrif birtast m.a. í bókmenntum og listum, sem og lífsskilningi fólks, trú og siðgæði.
 
Alhliða þroski
Skólanum er ætlað að „stuðla að alhliða þroska" sérhvers nemanda (Lög um grunnskóla, 2. gr.). Hann þarf því að gefa nemendum tækifæri til að fást við viðfangsefni sem snerta flesta þætti mannlegrar veru. Þar á meðal er hinn trúarlegi þáttur en hann er mikilvægur m.a. vegna þess að umfjöllun um trú og lífsskoðun tengist leit fólks að svörum við spurningum um merkingu lífsins og hluti af sjálfsmynd þess er ákveðið lífsviðhorf og gildismat. Það felur þó ekki í sér að skólanum sé ætlað að þröngva ákveðnum trúarlegum viðhorfum upp á nemendur. Hann á að veita þeim tækifæri til að þroska með sér skilning á trúarlegum þáttum mannlegs lífs og færni í að fást við trúarleg viðfangsefni og stuðla að því að þeir öðlist forsendur til að taka trúarlega afstöðu á grundvelli þekkingar og skilings.
 
Miðlun gilda
Uppeldishlutverk skólans hefur aukist jafnt og þétt og mikilvægur þáttur í því er siðgæðisuppeldið. Sérhvert þjóðfélag byggir á ákveðnum grundvallargildum. Skólanum er ætlað að miðla slíkum gildum. Í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Nægir þar að nefna virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum manneskjum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs, umhverfinu og öllu lífi.
 
Sjálfsmynd og ábyrgð
Í starfi skólans ber að leggja áherslu á að efla sjálfsvitund og félagsvitund nemenda og stuðla að alhliða velferð og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi (Lög um grunnskóla, 29. gr.). Mikilvægt er því að skólinn skapi nemendum tækifæri til að takast á við viðfangsefni sem hjálpa þeim að móta eigin sjálfsmynd, bæði persónulega og sem Íslendingar, þannig að þeir öðlist færni í að taka ábyrga afstöðu til viðhorfa og lífsgilda og geti tekið ákvarðanir byggðar á þekkingu. Jafnframt þurfa nemendur að fá að glíma við siðræn viðfangsefni þannig að þeim verði tamt að spyrja um skyldur sínar og ábyrgð í samskiptum sínum við einstaklinga, samfélagið í heild og umhverfið. Kristin fræði og siðfræði eru vettvangur til þess, enda er skólanum ætlað að stuðla að auknum siðgæðisþroska nemenda og heilbrigðri sjálfsmynd.
 
Miðlun þekkingar og skilnings
Trúarbrögð eru mótandi afl hvarvetna í veröldinni og þekking á þeim er mikilvæg til skilnings á manninum og samfélagi manna. Aðstæður í Evrópu og heiminum almennt hafa breyst mikið á síðustu árum. Samgöngur og samskipti hafa aukist til muna og fjölhyggja og fjölbreytni lífsviðhorfa fer vaxandi hér á landi eins og í nágrannalöndunum og fólk flytur á milli menningarsvæða. Mikilvægt er því að veita nemendum þekkingu og skilning á helstu trúarbrögðum og lífsviðhorfum svo þeir geti umgengist og borið virðingu fyrir fólki sem er annarrar trúar eða lífsskoðunar. Umburðarlyndi og víðsýni skipta hér miklu máli (sbr. Lög um grunnskóla 2. gr.). Í því efni er þekking og skilningur mikilvæg forsenda ásamt því að þekkja eigin trú og ríkjandi lífsviðhorf eigin samfélags. Traust þekking á eigin rótum og skilningur á ólíkum lífsviðhorfum dregur úr öryggisleysi og fordómum og stuðlar að víðsýni og friði milli ólíkra menningarheima.
 
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða

Menntmálaráðuneytið 1998. Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
20.03.1998