Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 

Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræðsla í skyldunámi

Um þróun inntaks, kennslu og stöðu greinarinnar  frá siðbót til nútíðar

Sigurður Pálsson
nóvember 1997
 
 
Öll hugmyndasaga Vesturlanda – og þar með talin saga heimspeki, vísinda og bókmennta – er jafnt í almennum sem einstökum atriðum óskiljanleg nema í ljósi kristinnar kenningar og með sífelldri hliðsjón af henni. Engin kenning, enginn boðskapur hefur haft jafn rík áhrif og margþætt á hugsun og menningu Vesturlandabúa, og gildir hér einu hvort menn hafa staðið innan kirkjunnar eða utan. Til þess að kynnast sjálfum okkur, sögu okkar og menningu, þurfum við því að kunna ítarleg skil á hinni  kristnu kenningu, enda hefur trúlega engin kenning verið jafn rækilega rannsökuð og hugleidd af fræðimönnum sem alþýðu manna.  
Páll Skúlason. Pælingar, 1987, bls. 261.
 Inngangur

Hér á eftir verður leitast við að gera grein fyrir því hvernig skyldugt nám íslenskra barna í kristnum fræðum hefur þróast allt frá siðbót fram á þennan dag.
Mikilvægt er, þegar staða og inntak tiltekinnar námsgreinar í grunnskóla er endurskoðuð, að þekkja sögu greinarinnar, hvaða stöðu hún hefur haft og hvernig inntak og áherslur hafa þróast.
Þar sem hér er um meira en 450 ára sögu að ræða er óhjákvæmilegt að stikla á stóru. Greinargerðinni er skipt í 7 kafla (blaðsíðutölin vísa til blaðsíðutals prentuðu skýrslunnar)

Sibótin, bls. 2.
Stutt grein er gerð fyrir skólahugmyndum siðbótarmanna og nýsköpun þeirra í kennslu kristinna fræða.

Heittrúarstefnan, bls. 4.
Í þessum kafla eru raktar þær umbætur í lestrar- og kristindómsfræðslu sem gerðar voru í kjölfar ferðar þeirra félaga Ludvigs Harbos og Jóns Þorkelssonar um Ísland 1741–1745.

Aldaskil, bls. 5.
Hér er greint frá því hvaða stöðu greinin fékk þegar fyrst voru sett lög um alþýðufræðslu 1907.

Straumhvörf, bls. 6.
Hér eru raktar ákafar umræður um stöðu og inntak greinarinnar sem leiddu til róttækra breytinga með fræðslulögunum 1926.

Viðreisn, bls. 11.
Í þessum kafla er gerð grein fyrir breytingum á stöðu, inntaki og áherslum sem urðu með setningu grunnskólalaga 1974.

Umbrot, bls. 21.
Hér er stiklað á stóru í umræðum um stöðu greinarinnar í nágrannalöndum okkar og til hvers þær hafa leitt.

Kennarinn, bls. 25.
Hver er staða hans og hlutverk? Hvernig er menntun hans háttað? Með breytingum á stöðu og inntaki, hefur staða kennarans breyst ásamt kröfum sem til hans eru gerðar.

Siðbótin

Kristin fræði sem námsgrein í nútímaskilningi fyrir börn og ungmenni á sér lengri sögu hér á landi en aðrar greinar, enda er hún afkvæmi siðbótarinnar.

Lagaákvæði um ákveðna lágmarksþekkingu í kristnum fræðum er þó að finna þegar í elstu lögbók Íslendinga, Grágás, nánar tiltekið í Kristinna laga þætti. Þar segir: „Karlmanni hverjum er skylt fulltíða að kunna orð þau að skíra barn og þau atferli er þar fylgja..... Manni hverjum er hyggindi hefir til, karlmanni og konu, er skylt að kunna pater noster og credo in dominum."

Það er þó fyrst í skóla- og kirkjuskipan siðbótarmanna sem talað er um kristin fræði sem sérstaka námsgrein með tilheyrandi kennslubókum.

Hluti af siðbótaráherslum Marteins Lúthers varðaði alþýðufræðsluna. Setti hann fram hugmyndir um alþýðuskóla sem reknir skyldu af veraldlegum ráðamönnum og taldi það þeirra hlutverk að mennta uppvaxandi kynslóð. Veigamestu námsgreinar í þessum skólum skyldu vera lestur og kristin fræði.

Áhersla hans á almenna lestrarkunnáttu tengdist þeirri sannfæringu að sérhver kristinn maður ætti að hafa frjálsan aðgang að ritningunni í stað þess að vera háður túlkun kirkjunnar.

Áhersla hans á kristna fræðslu almennings átti ser rætur í þeirri sannfæringu að sérhver einstaklingur stæði milliliðalaust ábyrgur gagnvart Guði sínum hvað varðaði trú og breytni og þyrfti því að vera upplýstur um helstu trúarlærdóma og siðgæðiskröfur.

Af þessum ástæðum þýddi Lúther Biblíuna á þýskt alþýðumál og skrifaði „Fræðin minni", kennslubók í kristnum fræðum. Lúther ætlaðist til að „Fræðin" væru leiðbeiningar um kristna fræðslu og uppeldi „...handa ólærðum prestum og prédikurum." (Hann gaf einnig úr Fræðin meiri handa lærðum prestum og menntuðu fólki). Lúther ætlaðist ekki til að prestarnir einir yrðu kennarar fólks í kristnum fræðum, heldur setti þetta hlutverk í hendur foreldrum og húsbændum.

Það eru þessi viðhorf sem berast hingað og einkenna kirkjuskipan Kristjáns III frá 1537. Enda þótt skólahald kæmist ekki á hér á landi með þeim hætti sem kirkjuskipanin gerði ráð fyrir, var dyggilega unnið að því að ákvæðin um kristna fræðslu væru haldin og þeim fundinn farvegur sem hentaði íslenskum aðstæðum. Prestarnir voru gerðir ábyrgir fyrir fræðslunni en heimilunum gert að annast hana að mestu leyti. Þegar árið 1562 eru Fræði Lúthers hin minni prentuð í íslenskri prentsmiðju að Breiðabólstað í Vesturhópi að frumkvæði Guðbrands Þorlákssonar og gefin út ásamt fræðapredikunum í þýðingu Odds Gottskálkssonar. Einstakur áhugi Guðbrands á uppfræðslu almennings í landinu ásamt merku útgáfustarfi hans markaði með vissum hætti þá stefnu sem fylgt var í fræðslumálum á Íslandi allt fram á 20. öld.  

Innihald Fræðanna minni er þetta:   1. hluti: Boðorðin 10 í sömu útgáfu og miðaldakirkjan hafði kennt þau, með útskýringum.
2. hluti: Postullega trúarjátningin með útskýringum.
3. hluti: Faðir vor, skipt niður í sjö bænir með skýringum.
4. hluti: Útskýring skírnarinnar.
5. hluti: Útskýring heilagrar kvöldmáltíðar.
6. hluti: Morgun- og kvöldbænir, borðbænir og hússpjaldið, þ.e. safn ritningarstaða er kveða á um skyldur hinna ýmsu samfélagsstétta.
Efni fræðanna var þannig kristin trúfræði og siðfræði í hnotskurn.  

Þeir sem námu lærðu utanbókar jafnt hin trúarlegu og siðferðilegu sannindi sem og skýringar á þeim. Fræði Lúthers hin minni eru fyrst gefin út á íslensku ein sér í þýðingu Odds árið 1594 og komu þau síðan út að minnsta kosti níu sinnum á 17. öld og bendir það til þess að þau hafi þegar líða tók á öldina náð allmikilli útbreiðslu.

Síðari „kver" sem gefin voru út byggðu á sömu grundvallaratriðum og uppbyggingu en urðu smám saman ítarlegri og umfangsmeiri.

Þótt kennsluaðferðirnar sem beitt var væru að mestu utanbókarlærdómur, eins og uppbygging kveranna ber með sér, var af yfirvalda hálfu lögð mikil áhersla á vandaðar útskýringar fræðarans svo efnið kæmist til skila. Utanbókarlærdómurinn reyndist mörgum ærið þungur í skauti og margir þeirra sem lærðu „kverið" sitt með þessum hætti hafa vitnað um að skýringarnar hafi farið fyrir ofan garð og neðan.
 

Heittrúarstefnan

Heittrúarstefnan (píetisiminn), sem upprunnin er í Þýskalandi, fór að hafa áhrif í Danmörku upp úr aldamótunum 1700. Friðrik konungur 4. (1699-1730) var hlynntur henni og Kristján 6. (1730-1746) var yfirlýstur „píetisti".

Þar sem heittrúarstefnan festi rætur leiddi hún af sér umfangs- miklar umbætur í fræðslumálum og umönnun munaðarlausra barna.

Fylgjendur hennar voru ekki ánægðir með þá „fræðakennslu" sem tíðkuð var. Þess vegna settu þeir fram kröfur um að ungmennum væri gert kleift að lesa fræðin og biblíusögur á eigin spýtur með því að efla lestrarkennsluna. Einnig vildu þeir að komið yrði á eftirliti með því að uppvaxandi safnaðarmeðlimir hefðu viðunandi þekkingu á kristnum dómi og að þeir staðfestu trú sína opinberlega frammi fyrir söfnuðinum (fermingarheitið).

Þessar kröfur höfðu mikil áhrif á fræðslu- og uppeldismál í löndum Danakonungs. Komið var á fermingarskyldu með konunglegri tilskipun 13. janúar 1736. Samkvæmt henni var öllum skylt að hlíta ákveðinni fræðslu fyrir fermingu.

Áhrif píetismans leiddu einnig til þess að alþýðuskólar voru stofnaðir í ríkjum Danakonungs árið 1739 þótt svo yrði ekki hér á landi, einkum vegna strjállar byggðar í landinu. Þess í stað var heimilisfræðslan efld hér á landi og eftirlit með henni aukið.

Fyrir áhrif heittrúarstefnunnnar mun „Kirke-Inspektions Kollegiet" hafa verið sett á fót í Kaupmannahöfn árið 1737. Þangað sneri Jón Þorkelsson sér með tillögur varðandi endurreisn í kirkju- og menntamálum íslensku þjóðarinnar. Í framhaldi af því var afráðið að Ludvig Harboe, sem þá var kastalaprestur í Kaupmannahöfn, skyldi sendur til Íslands að rannsaka menntunarástand þjóðarinnar, kirkjumál og skólamál. Ritari hans og aðstoðarmaður var Jón Þorkelsson og ferðuðust þeir um landið 1741-1745.

Þegar Harboe kemur hingað til lands í eftirlitsferð sína hefur hann með sér tilskipun þá um ferminguna frá 1736 sem áður er getið, svo og íslenska þýðingu á kveri Eriks Pontoppoidans.

Í kjölfar þeirra félaga kemur svo hver tilskipunin eftir aðra þar sem kveðið er á um hvernig standa skuli að kristinni fræðslu og kennslu í lestri, sú síðasta 1790. Skyldi fræðslan hefjast um 5–6 ára aldur.

Við þau fræðsluákvæði sem greint hefur verið frá hér að framan var engu bætt fyrr en lögfest voru ákvæði um fræðslu barna í skrift og reikningi 9. jan. 1880. Átti sú fræðsla einnig að fara fram á heimilunum undir eftirliti sóknarprests.

Eins og áður er getið voru kennslubækur í kristnum fræðum fyrst og fremst „kverin" sem svo voru kölluð, og var þeim einkum ætlað að upplýsa um kristna trúarlærdóma og siðugt líferni.

Þegar kom fram á síðari hluta 19. aldar var farið að gefa út Biblíusögur og voru þær víða notaðar jafnframt kverinu.
 

Aldaskil

Íslenskt þjóðfélag var í deiglu á síðari hluta 19. aldar. Íslendingar fengu stjórnarskrá 1874 sem m.a.tryggði þegnunum trúfrelsi. Þjóðernisvakningin blómstraði um þessar mundir og hýrnaði mjög yfir umræðu um skóla- og menntamál.

Þegar nálgaðist aldamótin 1900 hófst lífleg umræða um kennslu í kristnum fræðum. Snerist hún framan af einvörðungu um hvernig kenna skyldi og hvað, en ekki hvort, enda fræðslan alfarið á vegum kirkjunnar. Hörð gagnrýni kom fram á kverkennsluna og þululærdóminn og lagt var til að upp yrði tekin kennsla í Biblíusögum. Sterklega var varað við því að kenna þær eins og þulu á sama hátt og kverin.

Árið 1903 kom út bók Guðmundar Finnbogasonar, Lýðmenntun, sem var árangur þess að Alþingi hafði veitt honum styrk til að kynna sér uppeldis- og menntamál erlendis, gera tillögur um framtíðarskipan í uppeldis og menntamálum þjóðarinnar og undirbúa setningu laga um alþýðuskóla.

Í bókinni ræðir hann m.a. kristindómsfræðsluna, tekur undir þá gagnrýni á inntak og aðferðir sem fram hafði komið, en ræðir jafnframt um stöðu greinarinnar í væntanlegum alþýðuskóla.

Eftir að hafa litið til ýmissa átta er það niðurstaða Guðmundar að kenna skuli kristin fræði í skólum, en með nýjum hætti, þ.e. valdar biblíusögur með einföldum útskýringum, en „hinn sérstaka undirbúning undir ferminguna ættu auðvitað prestarnir að hafa á hendi."

Þetta viðhorf varð ekki ofan á þegar fræðslulögin voru sett 1907. Þar urðu ákvæðin um kristinfræðikennsluna þessi:

„Hvert barn sem er fullra 14 ára, á að hafa lært í kristnum fræðum það sem heimtað er eða heimtað kann að verða, að börn kunni í þeirri grein til fermingar." Niðurstaðan varð sem sagt sú að kristindómsfræðsla skólans skyldi vera liður í fermingarfræðslu kirkjunnar eins og verið hafði. Það var því kirkjan sem réði eðli fræðslunnar og inntaki. Kverið hélt velli enn um sinn og megineinkenni kennslunnar var þululærdómur sem fyrr.

Í umræðunum á Alþingi kom fram að þessi skipan kynni að stríða gegn trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar en því svarað til að þau börn ein sem væru í þjóðkirkjunni væru skyld að sækja þessa fræðslu.

En umræðunni um þetta mál var ekki lokið. Á prestastefnu 1909 er málið á dagskrá og þar ræðir séra Magnús Helgason skólastjóri Kennaraskólans efnið og segir m.a.: „Öll þekking byrjar á reynslunni ... Kristindómsfræðslan er að þessu leyti alveg sömu lögum háð, sem aðrar námsgreinar. Efnið verður líka þar að geta tekið á sig sýnilega mynd í barnshuganum, annars skilst það ekki ...." Þess vegna leggur hann til að upp verði tekin biblíusögukennsla og telur hana vænlegri til árangurs og líklegri til að höfða til barnanna en kverkennsluna.  
 

Straumhvörf

Umræðan magnaðist á næstu áratugum og blandaðist guðfræðilegum deilum á þessum tíma þannig að ekki er alltaf jafnauðvelt að greina hvort vegur þyngra, kennslu- og uppeldisfræðileg sjónarmið eða guðfræðileg. Annars vegar snerist umræðan um Helgakver, inntak þess og framsetningu og hins vegar um stöðu kristinna fræða í skólakerfinu, inntak þeirra og kennsluhætti.

Ásgeir Ásgeirsson mælti á Alþingi árið 1926 fyrir áliti menntamálanefndar Nd. á frumvarpi um fræðslu barna sem þá lá fyrir þinginu. Í álitinu sagði m.a.: „Ákvæðunum um kennslu í kristnum fræðum er breytt í það horf, að skólunum er falin hin sögulega kristindómsfræðsla og sérstök áhersla lögð á líf og kenningu Krists, og skal lögð áhersla á að börnin hugfesti sér einkum orð hans og hafi þau rétt eftir. Nú er kristindómsfræðslan í skólunum miðuð við fermingarundirbúning. En það verður að teljast kostur að gera glögga verkaskipting milli presta og kennara, og hafi þá kennararnir með höndum hina sögulegu kristindómsfræðslu en prestarnir trúfræðina."

Í framsöguræðu sinni sagði Ásgeir m.a.: „Á kirkjan að vera einráð um það (þ.e. hvernig hún hagar fermingarfræðslunni), því ég hygg að það sé ekki vert að hið háa Alþingi fari að skipta sér af því, hverjar kröfur kirkjan vill gera til fermingarbarna."

Þessi tillögugerð átti sér langan aðdraganda og hafði Ásgeir tekið virkan þátt í umræðunni. Gaf hann meðal annars út ritið Kver og kirkja árið 1925. Það sjónarmið hans að skólinn eigi að vera óháður kirkjunni að því er varðar kennslu í kristnum fræðum kemur skýrt fram í því sem hann lætur frá sér fara í þessri umræðu .

Ákvæðin um kristindómsfræðsluna voru síðan samþykkt þannig:

„Hvert barn sem er fullra 14 ára á: að hafa lesið með leiðsögn og skýringu valda kafla úr biblíunni eða biblíusögur, sérstaklega um líf og kenning Krists, og skal lögð áhersla á, að það hugfesti sér einkum orð hans og hafi þau rétt eftir, kunna skal barnið utanbókar nokkra valda sálma." Með þessari lagabreytingu má telja að formleg skil hafi orðið milli skóla og kirkju. Kristindómsfræðsla skólans verður ákvörðunarefni þeirra sem skólamálum stjórna en ekki kirkjustjórnarinnar.

Með þessum breytingum má segja að til hafi orðið ný námsgrein, Biblíusögur. Fram að því höfðu Biblíusögur verið lesnar sem hluti af almennri kristindómsfræðslu kirkjunnar og heimilanna.

Eftir þetta hefur kirkjan ekki, svo teljandi sé, átt formlega aðild að því hvernig staðið hefur verið að þessari fræðslu í skólunum. Hins vegar hefur hún, svo sem eðlilegt er, látið sig þessa fræðslu varða með ýmsum hætti eins og dæmin sanna og átt fulltrúa í nefndum sem fjallað hafa um greinina.
 
Námskrá 1929: Kristin fræði.

Eftir samþykkt fræðslulaganna 1926, var farið að vinna að gerð námskrár fyrir skyldunámsskólann og kom hún út árið 1929. Þar er kveðið á um hvert inntak kristinfræðikennslunar skuli vera og jafnframt að kennslan skuli hefjast á 2. námsári eða um 8 ára aldur.  

2.ár. Frásögn: Kennarinn segir sögurnar um fæðingu Jesú, æsku hans og uppvöxt og nokkrar af hinum barnalegri sögum úr Gamla Testamentinu. - Sálmavers og lög.  

3.ár. Frásögn: Einfaldar sögur um ævi Jesú og starf, helstu kirkjulegar hátíðir og viðeigandi sögur úr Gamla testamentinu. Faðir vor og Blessunarorðin.  

4.ár. Sögur úr Gamla testamentinu lesnar í tímaröð - boðorðin tíu og sálmavers.  

5.ár. Valdir kaflar úr Nýja testamentinu eða biblíusögur, sérstaklega um líf Krists, og skal lögð áherlsa á, að börn hugfesti sér orð hans og hafi þau rétt eftir. Nokkur sálmavers.  

6.ár. Starfsemi postulanna og kristniboð. Dæmisögur Jesú og ræður. Leskaflar úr spámannaritum og Pálsbréfum. Sálmar.  

7.ár. Stórmenni kirkjusögunnar og höfuðhreyfingar. Passíusálmar. Upplestur á námsefni 4.-6. árs.  

Skólaskyldu lauk eftir 7. námsár.

Í umræddri námskrá er einnig kveðið á um kennslustundafjölda í hverri grein og eru kristnum fræðum ætlaðar 10 vikustundir alls á 1.-7. námsári af 174 vikustundum alls, eða 5,75% af heildarstundafjölda í skyldunámi.

Þar með hélt Biblíusögukennslan, eins og flestir núlifandi Íslendingar þekkja hana, innreið sína í skyldunámsskólann. Jafnframt hafði orðið róttæk breyting á þeim tíma sem varið var til kennslunnar frá því Guðmundur Finnbogason kynnti sér skólamálin rúmum 20 árum áður, en þá hafði hann áætlað að um fjórðungi (25%) námstímans væri varið til kennslu kristinna fræða.

Kennsluaðferðir munu hafa breyst lítið. Utanbókalærdómur færðist víða yfir á Biblíusögurnar og loddi við fram yfir miðja öldina og átti það reyndar einnig við um aðrar lesgreinar.

Lög eru sett um Ríkisútgáfu námsbóka í júní 1936 og eftir að hún tekur til starfa eru allar námsbækur fyrir skyldunámsstigið gefnar út á vegum hennar. Fyrstu Biblíusögurnar sem hún gaf út voru eftir Þorstein Kristjánsson, Biblíusögur, Gamla testamentið (1938) og Biblíusögur, Nýja testamentið (1939). Biblíusögur þessar leystu af hólmi Barnabiblíuna og Biblíusögur Klaveness sem notaðar höfðu verið fram að því.

„Leiðsögn og skýringar" sem lögin höfðu kveðið á um voru almennt ekki í kennslubókunum heldur alfarið á hendi þeirra sem kenndu, þ.e. kennara og svo presta sem víða önnuðust þessa fræðslu þrátt fyrir aðgreiningu kirkju og skóla.

Í menntun kennara voru kristin fræði og kirkjusaga skyldugar námsgreinar.

Þróun þessara mála hér á landi var svipuð þeirri sem átti sér stað á Norðurlöndum sem byggðu á sömu hefð í skóla og kirkjumálum.  

Fræðslulögin 1946.

Þegar ný fræðslulög voru sett árið 1936, voru ákvæðin um kristnidómsfræðsluna samhljóða lögunum frá 1926 og engar breytingar voru gerðar á námskránni frá 1929.

Ríkisstjórn sú sem kennd hefur verið við „nýsköpun" lét gera umfangsmiklar breytingar á fræðslulöggjöfinni, með lögum um skólakerfi og fræðsluskyldu nr. 22, 10. apríl 1946 og með lögum um fræðslu barna nr. 34, 29. apríl 1946.

Með þessari löggjöf hefur vegur kristnidómsfræðslunnar í skyldunámi orðið hvað rýrastur. Í VI. kafla, 36. gr. laganna um kennsluskipan og starfstíma skóla er talið hvaða greinar skuli kenna. Barnaskólanum var skipt í tvær deildir, yngri deild 7 - 9 ára og eldir deild 10 - 13 ára. Kristinna fræða er að engu getið þegar taldar eru námsgreinar yngri deildar en þau eru hins vegar nefnd sem námsgrein í eldri deild. Ekki er í lögum kveðið á um hvað skuli kennt en vísað er til námskrár er fræðslumálastjórn muni gefa út. Samkvæmt drögum að námskrá sem út kom árið 1948 eru kristin fræði þó nefnd í yngri deild, og skyldu þá tiltekin atriði kennd í tenglsum við nýja grein sem nefndist „átthagafræði".

Um nám í kristnum fræðum segir í þessari námskrá:

7 ára börn: Hátíðir og merkisdagar.
8 ára börn: Munnlegar frásagnir um líf Jesú. Nokkur barnavers lærð.
9 ára börn: Frásagnir af lífi og starfi Jesú. Nokkrir barnasálmar lærðir.
10 ára börn: Biblíusögur 1. hefti, bls. 1-62 og nemendum sögð saga gyðinga (ágrip) frá dögum Salómons að Krists fæðingu.
11 ára börn: Upprifjun fyrra námsefnis. 2.h. biblíusagna, bls. 1-65, að Innreiðin í Jerúsalem.
12 ára börn: Upprifjun. - 2.h. frá bls. 65 og út, síðan 3. hefti, bls. 1-24 að Postulasagan.
Í öllum ársdeildum skal kenna nokkra sálma eftir því sem þroski nemenda leyfir.

Það efni bókarinnar sem hér er ekki tilgreint, verður svo námsefni miðskólans. Skal þar einkum nefnt: Síðari hluti 1. heftis, saga spá-mannanna og rit þeirra, ræður Jesú í 2. h. og loks Postulasagan og ágrip Kirkjusögu í 3. hefti. (Drög að námsskrá, bls. 6-15).

Kennslubækur þær sem hér er vitnað til eru fyrrnefndar Biblíusögur Berggravs.

Af heildarstundafjölda skyldunámsins fá kristin fræði nú alls 8 vikustundir eða 3,4%.

Þegar námskráin kemur svo út fullbúin 1960, eða 12 árum síðar, er nánar kveðið á um námsefni hvers aldursflokks frá 7 ára aldri og jafnframt nefndir sálmar, sem æskilegt er að börnin læri. Kennslustundafjöldi er óbreyttur frá drögunum.

Um markmið kennslunnar segir: „Kristindómsfræðslan á að veita nemendum þekkingu á aðalefni ritningarinnar, fræða þá um líf, kenningu og starf Jesú, efla þroska þeirra með fræðslu um lífsskoðun og siðfræði kristinnar trúar. Þeir skulu læra nokkra sálma og ritningargreinar og vita deili á helstu viðburðum kirkjusögunnar."

Kaflanum um kristin fræði lýkur með grein til athugunar. Þar segir: „Kennaranum verður að vera það ríkt í huga, að kennsla hans í kristnum fræðum á að vera börnunum undirstaða undir trú þeirra og siðgæði ævilangt. Hann verður að miða fræðsluna við það, að nemandinn fái heilsteypta mynd af Jesú, lífi hans og starfi.

Kennarinn verður að taka tillit til þess að nemendur hans koma frá heimilum þar sem skoðanir eru skiptar í kristindómsmálum. Hann verður að gæta þess að særa þá ekki sem eru á öðru máli en hann sjálfur, og kenna þannig nemendum sínum að vera umburðarlyndir. Kristindómsfræðsla hans má aldrei stríða gegn frjálsri hugsun, en verður jafnan að vera einörð, hrein og sönn. Hún verður að vera ljós og lifandi, svo að ekki slakni á áhuga nemendanna...

Val viðfangsefna sé í samræmi við fermingarundirbúning nemenda, þar sem hægt er að koma því við, t.d. sálmar og ritningar-greinar sem nemendur eru látnir læra."

Þetta síðasta ákvæði er athyglisvert og sýnir að enn eimdi eftir af fyrri tengslum við fermingarfræðslu kirkjunnar.

Í þessari námskrá er í fyrsta skipti gerð tilraun til að takast á við breyttar aðstæður. Þessar breytingar snertu bæði stöðu greinarinnar og hlutverk kennarans. Engar teljandi breytingar verða þó á inntaki og kennsluaðferðum.
 

Viðreisn.

Lög um grunnskóla1974.

Viðreisnarstjórnin, sem svo hefur verið nefnd, en menntamálaráðherra í henni var Gylfi Þ. Gíslason, skipaði hinn 4. júlí 1969 nefnd til að endurskoða gildandi lög um skólakerfi og fræðsluskyldu.

Sumarið 1970, meðan verið var að vinna að þessari endurskoðun, var haldin prestastefna í Reykjavík. Aðalmál hennar var „Kristin fræði í skólum". Prestastefna þessi sendi frá sér álitsgerð og í henni segir m.a.:

„Í þeirri endurskoðun, sem nú fer fram á fræðslulögum og námskrá, þarf að stefna að því, að auka kristna fræðslu og kristin áhrif á öllum stigum skólakerfisins. Að loknu skyldunámi ber m.a. að leggja áherslu á kristna trú og siðfræði. Miða skal kennsluna við það, að börn og ungmenni geti séð vandamál líðandi stundar og verkefni framtíðarinnar í ljósi kristinna trúarsanninda og lífsskilnings.

Hinn 27. janúar 1971 voru lögð fram í neðri deild Alþingis sem stjórnarfrumvörp, „Frumvarp til laga um skólakerfi" og „Frumvarp til laga um grunnskóla." Í grunnskólafrumvarpinu var kristinna fræða að engu getið og ekkert að finna í greinargerð með því, hverju sú breyting sætir frá því sem verið hafði í fyrri löggjöf. Í 63. gr. frumvarpsins, f-lið segir: „Í samræmi við markmið grunnskóla skal námskrá kveða á um uppfræðslu í trúarbrögðum og almennri siðfræði."

Menntamálaráðuneytið hafði sent frumvarpið til Kirkjuráðs til kynningar. Kirkjuráð samþykkti á fundi sínum 13. janúar 1971 eftirfarandi ályktun:

„Kirkjuráð hefur athugað frumvarp það til laga um grunnskóla, sem menntamálaráðuneytið hefur sent því til kynningar og áformað mun að leggja fyrir Alþingi innan skamms. Hefur kirkjuráð að sjálfsögðu einkum gefið gaum að þeim ákvæðum, sem lúta að markmiði grunnskólans og að stöðu kristinna fræða á skyldunámsstigi. Þykir kirkjuráði einsætt, að annmarkar séu á frumvarpinu, að því er snertir þessi tvö nátengdu atriði.

Vill Kirkjuráð eindregið vænta þess að ný lög um skyldunám íslenskra barna kveði skýrt á um fræðslu í kristnum lífsviðhorfum og siðgæði, enda virðist annars fremur þörf í uppeldismálum, eins og nú horfir, en veikja aðstöðuna til kristinna áhrifa í skólum landsins. Vill Kirkjuráð benda á og taka undir álitsgerð síðustu prestastefnu um þetta, og leggja fyllstu áherlsu á þau ummæli þeirrar álitsgerðar, að aldrei hafi verið brýnna en nú, bæði fyrir einstakling og þjóðfélag, að kristin fræðsla sé vel rækt í skólum landsins og fái mótað íslenskt þjóðaruppeldi.

Þess vegna leggur kirkjuráð til að þessar breytingar verði gerðar á 1. og 63. grein frumvarpsins:

Upphaf 1. greinar orðist svo:

Í apríl 1971, áður en lög um grunnskóla höfðu verið afgreidd frá Alþingi, tók til starfa nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins sem gera skyldi tillögur um „námskrá í kristnum fræðum fyrir barna- og gagnfræðaskóla." Nefndin skilaði tillögum um markmið náms í kristnum fræðum í grunnskóla og námstíma á stundarskrá, til menntamálaráðuneytisins í júní sama ár.

Frumvarp til laga um grunnskóla fékk ekki afgreiðslu á Alþingi er sat veturinn 1970-1971, komst aldrei lengra en til 1. umræðu og var síðan vísað til nefndar. Kosningar til Alþingis fóru fram sumarið 1971 og í kjölfar þeirra stjórnarskipti. Með bréfi dags. 3. júní 1972 skipaði menntamálaráðherra, Magnús Torfi Ólafsson, nefnd til þess að endurskoða frumvarpið og var það lagt fyrir Alþingi á 93. löggjafarþingi í febrúar 1972 og var því vísað til nefndar án umræðu. Í þessari breyttu mynd frumvarpsins voru komin inn ákvæði um kennslu í kristnum fræðum. Í 43. gr. (áður 63.) eru taldar þær námsgreinar er setja skal námskrá um, og e-liður greinarinnar var nú: „ ... kennslu í kristnum fræðum og fræðslu um önnur helstu trúarbrögð, almenna siðfræði og háttvísi."

Enn er frumvarpið lagt fram í upphafi þings 1973/74, óbreytt. Eftir framsöguræðu Magnúsar Torfa Ólafssonar menntamálaráðherra kvaddi Gunnar Thoroddsen, formaður þingflokks Sjálfstæðismanna sér hljóðs og sagði m.a.:

„Í þriðja lagi vil ég nefna 2. gr. frumv. (2. gr. kvað á um markmið grunnskólans á sama hátt og 1. gr. hafði gert í upphaflegri gerð frumv. -innsk. höf.), þar sem stefnumótun grunnskólans er ákveðin. Þar segir: „Hlutverk skólans er, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi." Ég tel nauðsynlegt að það sé skýrt tekið fram, að skólastarfið skuli byggjast á því að innræta nemendum einnig kristilegt siðgæði. Það er mjög mikilsvert atriði, að slíkt sé ekki látið undan falla í þeim greinum, þar sem meginverkefni skólans er markað."

Eftir fyrstu umræðu var frumvarpinu vísað til menntamálanefndar og skilaði hún áliti í apríl 1974. Gerði nefndin breytingatillögur við fjölmargar greinar, m.a. við 2. grein, (markmiðsgreinina) og 43.gr. (þar sem námsgreinar eru taldar). Lagði nefndin til að inn í aðra grein yrði skotið orðunum „kristilegu siðgæði" á milli orðanna „umburðarlyndi" og „lýðræðislegu samstarfi". Þannig yrði þessi málsgrein:

„Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi."

Enn fremur lagði nefndin til, að e-liður 43.gr. væri orðaður þannig: „..kennslu í kristnum fræðum, siðfræði og fræðslu um önnur helstu trúarbrögð."

Ekki verður séð að neinar umræður hafi farið fram á Alþingi um þessar breytingar. Frumvarpið verður að lögum vorið 1974 með áorðnum breytingum, og þar með þeim sem snertu kristna fræðslu og kristilegt siðgæði.

Þessi lög fólu í sér þau nýmæli að nú var í fyrsta skipti kveðið á um það í lögum að kristilegt siðgæði skuli móta skólastarfið. Sömuleiðis var í fyrsta skipti kveðið á um sérstaka kennslu í siðfræði og almennum trúarbragðafræðum.

Í október 1973, meðan grunnskólafrumvarpið var enn til umræðu á Alþingi, skipaði menntamálaráðherra nýja nefnd til að „gera tillögur um endurskoðun námskrár, námefnis og kennslu í kristnum fræðum á barnafræðslu- og gagnfræðastigi." Sú nefnd var alfarið skipuð af ráðherra án tilnefningar. Nefndin skilaði áliti í febrúar 1976 og var nefndarálitið gefið út af skólarannsóknadeild menntamálaráðuneytisins í júní sama ár.

Í nefndarálitinu voru ítarlegar tillögur um námsefni og skiptingu þess á námsár og gerði nefndarálitið ráð fyrir kennslu í greininni í öllum bekkjum grunnskólans (1. - 9. bekk). Enn fremur var fjallað um tengsl kristinna fræða við aðrar greinar, skipulag kennslu og kennsluaðferðir, kennslustundafjölda, menntun og endurmenntun kennara o.s.frv. Gerði nefndin tillögu um að greinin fengi sem svaraði 12 vikustundum alls í 1. -9. bekk.

Í kaflanum um skipulag kennslu, kennsluaðferðir og kennslutækni segir m.a.:

„Hvernig hefur kennslu í kristnum fræðum verið háttað hér á landi á undanförnum áratugum? Óhætt mun að fullyrða að nær eingöngu hafi verið kenndar Biblíusögur. Kenndar hafa verið sögur af einstökum mönnum og/eða atburðum Gt. og sögur af Jesú Kristi. Til þess hefur verið ætlast af nemendum, að þeir kynnu síðan skil á persónum og atburðum og gætu jafnvel endursagt sæmilega skilmerkilega sumar þessara sagna. Ástæða er til að ætla að minna hafi verið gert af því að yfirfæra hið biblíusögulega efni á samtíðina eða inn í heim nemendans, aðstæður hans, viðhorf og vandamál. Að sjálfsögðu eru til undantekningar frá þessari fullyrðingu en að líkindum aðeins undantekningar. Þessi háttur kennslu í kristnum fræðum (biblíusögum) er ekki séríslenskt fyrirbæri heldur virðist til skamms tíma hafa verið sameiginlegur fyrir mikinn hluta hins evangelísk-lútherska heims. Einkennandi fyrir þessa kennslu er:

  1. að kennarinn (og e.t.v. kennslubókin) endursegja nemendum biblíutexta, oft í mjög einfaldaðri mynd, einkum í yngri deildum,
  2. að kennarinn (eða kennslubókin) útskýrir biblíutexta fyrir nemendum (sjaldnar að nemendur séu sjálfir hvattir til slíks með innleiðandi spurningum). Þetta stig fellur þó oft út í kennslunni enda þótt það gæti gefið tilefni til að flytja viðfangsefnið inn í hugarheim og aðstæður nemendans,
  3. að nemendur eru látnir skrifa útdrátt úr einstökum sögum og/eða einstök atriði eða biblíuvers, einkum í þeim tilgangi að hjálpa þeim að muna ákveðin atriði eða til að dýpka skilning (sjaldnar).
Engin marktæk rannsókn hefur farið fram hér á landi er gefi til kynna hvaða árangri þessir kennsluhættir skila. Rannsóknir á viðhorfum og þekkingu nemenda hafa hins vegar farið fram t.d. í Svíþjóð, Þýskalandi og Bretlandi þar sem þessum kennsluháttum hefur verið beitt. Af niðurstöðum þeirra má draga nokkurn lærdóm enda þótt varlegt sé að flytja niðurstöður óunnar milli landa."

Niðurstöður þessara rannsókna bentu til

Reynsla þeirra sem í nefndinni sátu benti til að líkt væri komið hér á landi.

Síðan leitast nefndin við að svara spurningunni: Hver er tilgangur kennslu í kristnum fræðum?

Í nefndarálitinu voru sett fram markmið náms í kristnum fræðum í grunnskóla og eru þau nánast samhljóða markmiðum þeim sem fjögurra manna samstarfsnefnd menntamálaráðuneytisins og kirkjunnar hafði sett fram. Þar segir:   Nám í kristnum fræðum á að efla trúarlegan, siðferðilegan og félagslegan þroska nemenda með því að:
 
  1. veita þeim þekkingu á Jesú Kristi og kenningu hans, Biblíunni og sögu kristninnar og glæða skilning þeirra á mikilvægi trúarinnar fyrir einstaklinga og samfélög,
  2. kynna þeim starf íslensku þjóðkirkjunnar, eigin safnaðar og annarra kirkjudeilda og beina athygli þeirra einkum að sameiginlegum arfi og hlutverki kristinna manna,
  3. leiða hug þeirra að siðrænum viðfangsefnum, glæða ábyrgðartilfinningu þeirra gagnvart guði og mönnum, öllu lífi og umhverfi og efla siðferðilega dómgreind þeirra og hæfni til heillavænlegra ákvarðanna og athafna,
  4. hjálpa þeim að tileinka sér þær samskiptareglur er byggja á mannhelgi og félagslegu réttlæti, glæða með þeim umhyggju fyrir öðrum mönnum og þakklæti til Guðs og manna,
  5. stuðla í hverri bekkjardeild og hverjum skóla að mótun þess félagsanda er virðir einstaklinginn án tillits til getu hans, hæfileika og aðstöðu og efla þannig andlega heilbrigði og sjálfsvirðingu hvers nemenda,
  6. hjálpa þeim að skynja fegurð í lífi og listum, fræða þá um líknar-og mannúðarstörf og þroska með þeim hugsjónir friðar, bræðralags og samábyrgðar,
  7. fræða þá um helstu trúarbrögð heims og mun á þeim og kristunum dómi, innræta þeim innburðarlyndi og virðingu fyrir rétti manna til mismunandi trúar-og lífsskoðanna og fræða þá um sameiginleg réttindi og skyldur allra manna."
 
Námskrá á grundvelli nefndarálitsins var síðan gefin út í ágúst sama ár og féllst menntamálaráðuneytið í öllum aðalatriðum á tillögur nefndarinnar að því undanskildu að ekki var gert ráð fyrir að nám í kristnum fræðum hæfist fyrr en í 2. bekk.

Tillögur nefndarinnar um kennslustundafjölda voru hins vegar ekki teknar til greina, þótt gerð væri tillaga um færri stundir hér en í nágrannalöndum okkar.

Í inngangi að námskránni segir svo (bls.5.):

Tilgangur

Tilgangur náms í kristnum fræðum, siðfræði og fræðslu um önnur aðaltrúarbrögð er að veita nemendum þekkingu á kjarna og kenningu kristinnar trúar, sögu og útbreiðslu hennar og áhrifum á líf einstaklinga og menningu þjóða, leiðbeina nemendum um undirstöðuatriði kristinnar siðfræði og fræða þá um önnur helstu trúarbrögð nútímans.

Náminu er ætlað að hjálpa nemendum til víðsýni og skilnings á viðhorfum og vandamálum samtímans og horfinna kynslóða, hjálpa þeim að skilgreina trúarleg vandamál og viðfangsefni og leiðbeina þeim við að taka afstöðu út frá trúarlegu sjónarmiði.

Ljóst er af námskránni 1976 að um var að ræða róttækar breytingar á greininni.

Í fyrsta lagi breyttist inntak kristinfræðikennslunnar, auk þess sem sérstök áhersla var lögð á kristilega siðfræði.

Í öðru lagi skyldi frætt um aðrar kirkjudeildir og tekin upp fræðsla um helstu trúarbrögð önnur en kristni.

Í þriðja lagi var gert ráð fyrir breyttum kennsluaðferðum þar sem tekið skyldi í ríkara mæli en áður tillit til forsendna nemendanna og meira lagt upp úr samræðum milli nemenda og kennara og nemenda innbyrðis og rík áhersla lögð á skilning grundvallarhugtaka.

Til að fylgja þessum breytingum eftir var Sigurður Pálsson ráðinn námstjóri að greininni.

Athygli vekur að í almennum hluta Aðalnámskrár grunnskóla 1976 er engin tilraun gerð til að skýra eða ræða þau grundvallargildi sem tilgreind eru í markmiðsgrein, þ.e. lýðræði, kristilegt siðgæði og umburðarlyndi, þótt það hafi talist til nýmæla að tilgreina meginmarkmið skólastarfs með þeim hætti sem gert var í 2. grein laganna. Hins vegar fer mikið fyrir þroskasálfræðilegri umræðu í þessum almenna hluta.  

Námsefni

Til að mæta nýjum kröfum var farið að huga að útgáfu nýs námsefnis og varð að ráði að þýða og staðfæra norskt námsefni í sex heftum sem þótti hæfa þessum breytingum. Efnið hafði auk þess hlotið viðurkenningu fyrir vandaðan frágang og vel útfærða kennslufræði.

Kennslufræðilegar hugmyndir sem lágu til grundvallar efninu rímuðu vel við þær áherslur sem þá þegar höfðu verið lagðar í öðrum greinum. Mikil áhersla var lögð á að nálgast efnið á forsendum nemenda á ólíkum aldri og auk annars lögð áhersla á skilning á grundvallarhugtökum. Efnið var ekki hefðbundið Biblíusagnaefni heldur var það byggt upp á ákveðnum þemum, trúfræðilegum, siðfræðilegum og kirkjusögulegum og Biblíuefnið tengt þeim.

Áður en ráðist var í útgáfuna voru samtökum kennara og skólastjóra sendar bækurnar til umsagnar, og auk þess biskupsembættinu, guðfræðideild Háskóla Íslands og stjórn Prestafélags Íslands. Allir þessir aðilar mæltu með útgáfunni.

Hins vegar var ákveðið að semja hér á landi nýtt námsefni fyrir efri bekki grunnskólans í siðfræði, almennum trúarbragðafræðum, og til fræðslu um Biblíuna og kristna trúfræði.

Norska námsefnið var gefið út á árunum 1979–1989, ætlað 1.–6. bekk (7–12 ára) en hluti þess, með efni úr Gamla testamentinu, kom þó aldrei út. Hvað varðar námsefni handa 7.–9. bekk kom Siðfræði, leskaflar um kristilega siðfræði, út árið 1983 í tilraunaútgáfu, fjögur tilraunahefti í trúarbragðafræðum, Gyðingdómur, Islam, Hindúismi og Búddadómur á árunum 1982-3, og Orðið, fræðslurit um Biblíuna, tilurð hennar, ritunarsögu og. fl.1986. Efni um kristna trúfræði var aldrei gefið út.

Norska efninu var misjafnlega tekið. Sumum þótti kostir þess ótvíræðir, það væri nærri hugarheimi og veruleika barnanna, vel væri tekið á siðferðilegum álitamálum, það hvetti til umræðna, kennsluleiðbeiningar væru góðar og ítarlegar og kennarar hefðu visst svigrúm til að velja viðfangsefni. Aðrir töldu það gera of miklar þekkingarlegar kröfur til kennarans, of mikill tími færi í umræður, það væri of boðandi, kennsluleiðbeiningar allt of efnismiklar, Biblíusögurnar væru of fyrirferðarlitlar og ekki sagðar í tímaröð auk þess sem sumir töldu efnið „of norskt".

Á unglingastigi áttu nýir hættir erfitt uppdráttar og átti það sér ýmsar skýringar. Í námskrá frá 1960 voru ákvæði um um að kenna skyldi kristin fræði í 1. og. 2. bekk unglingaskóla (8. og 9. bekk miðað við núverandi skipan) eina stund á viku hvort ár. Heimilt var að sleppa kennslunni í 2. bekk með því að kenna þess í stað tvær stundir í 1. bekk. Víðast varð þróunin sú að kennd var ein stund í 1. bekk og engin í 2. bekk án þess að fræðsluyfirvöld gerðu athugasemdir við það. Það var því lítil hefð fyrir þessari fræðslu í efstu bekkjum grunnskólans.

En að líkindum hefur fleira komið til. „Mikilvægari" námsgreinar hafa þrýst á um aukið rými þegar nálgast lok grunnskólans. Einnig hafa kennarar vísast verið illa undir það búnir á þessum tíma að takast á við fræðslu um siðfræði og önnur helstu trúarbrögð þar sem þessar greinar voru þá ekki hluti af kennaranáminu og engin fræðsla var um þessi efni í framhaldsskólum.

Framvinda námsefnisgerðarinnar stjórnaðist nokkuð af þessum aðstæðum. Siðfræðin var aldrei gefin út í endanlegri gerð sökum lítillar eftirspurnar, Biblíufræðin náðu nokkurri útbreiðslu í upphafi en höfðu síðan lítinn byr en námsefni í trúarbragðafræðum hélt velli og var loks gefið út í endanlegum búningi árið 1995.

Til ársins 1991 voru kristin fræði kjarnagrein í kennaranámi, auk þess sem kennaranemar gátu lesið þau sem valgrein ásamt trúarbragðafræðum og siðfræði. Nú er greinin eingöngu valgrein í KHÍ

Endurskoðuð Aðalnámskrá fyrir grunnskóla kom út árið 1989. Þar er gert ráð fyrir að greinin skuli kennd í 1.–8. bekk, þ.e. þegar frá upphafi skólagöngu, og sem valgrein í 9. bekk. (Númer á bekkjardeildum er hér miðuð við þáverandi skipan, þ.e. áður en sex ára börn urðu skólaskyld.) Geinin er einnig réttilega búin að fá heitið „kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræðsla." Engar grundvallarbreytingar voru þó gerðar á greininni frá námskránni 1976, markmiðin voru hin sömu að öðru leyti en því að 7. tölulið var breytt og hluti hans gerður að nýjum tölulið þannig:

7. fræðist um helstu kirkjudeildir og kristna trúflokka, geti greint það sem ólíkt er með þeim, en sjái jafnframt sameiginlegan arf þeirra og tileinki sér umburðarlyndi sem felur í sér virðingu fyrir rétti manna til að hafa mismunandi trúar- og lífsskoðanir og tjá þær,

8. fræðist um helstu trúarbrögð heims og mun á þeim og kristnum dómi.

Uppsetning námskrárinnar var ítarlegri og nánari skýringar fyrir kennara á einstökum þáttum hennar.

Um kennarann og kennsluna segir í þessari námskrá, bls. 87:

„Öll kennsla sem fæst við trú og lífsskoðanir, siðgæði og mannleg samskipti almennt gerir miklar kröfur til kennarans. Hann verður að taka tillit til þess að nemendur koma frá heimilum með ólík viðhorf. Kennslan verður því að einkennast af víðsýni og vilja til að skilja og virða fólk með mismunandi trúar- og lífsskoðanir. Af þeim sökum ber að fjalla um álitamál á hlutlægan og alhliða hátt og þannig að umræðan særi ekki né lítilsvirði þá sem í hlut eiga.

Viðhorf kennarans til námsefnisins er mikilvægt og getur ráðið úrslitum um afstöðu nemendanna til þess. Því ber kennara að kappkosta að sýna viðfangsefninu virðingu og láta efnið tala eigin máli."

Ólíkt námskránni frá 1976 er í 2. kafla námskrár frá 1989, þar sem rætt er um hlutverk og meginmarkmið grunnskóla, leitast við að skýra hvað felst í grundvallarhugtökum markmiðsgreinarinnar, „lýðræði, kristilegt siðgæði og umburðarlyndi", og jafnframt færð rök fyrir því hvers vegna þau eru valin sem grundvöllur þeirra gilda sem grunnskólinn á að miðla. Úr þessari umfjöllun má einnig lesa veigamikil rök fyrir stöðu greinarinnar „kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræðsla."

Í þessum kafla er einnig annað athyglisvert nýmæli (bls. 9):

„Mikilvægt er að sýna nærgætni þegar fjallað er um málefni og viðhorf sem tengjast heimilum, t.d. neyslu og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms grunnskóla. Jafnframt ber að tryggja hverjum nemanda sem fær undanþágu jafnvæg tækifæri til menntunar og þroska." Þetta ákvæði hefur ekki komist til framkvæmda nema að hluta, þ.e. undanþágur hafa verið veittar. Hitt hefur skort að þeim nemendum sem fengið hafa undanþágu hafi verið veitt „jafnvæg tækifæri til menntunar og þroska".

Undanfarin ár hefur verið unnið að nýju íslensku námsefni fyrir 1.– 7. bekk. Þar m.a. komið til móts við eindregnar óskir kennara um aukinn hlut Biblíusagna sem sagðar eru í tímaröð að því marki sem það er fært. Auk þess er efnið í ríkara mæli en áður miðað við íslenskar aðstæður. Efnið hefur fengið afar jákvæðar viðtökur bæði hjá kennurum og nemendum. Eins og áður sagði er námsefni í trúarbragðafræðum komið út í endanlegri gerð, en að öðru leyti eru nemendur í efstu bekkjum grunnskóla hornreka hvað þessa grein varðar, hvort sem litið er til námsefnis eða þess tíma sem greinin fær raunverulega í skólunum.
 

Umbrot

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því samhengi sem kennsla í þessari grein fer fram í og á hvaða sögulega grunni ýmis þau viðhorf standa sem uppi eru og hafa verið uppi um þessa fræðslu. Gífurlegar breytingar hafa orðið á viðhorfum til skólamála bæði að því er varðar inntak og aðferðir á þeim tíma sem liðinn er frá setningu fyrstu fræðslulaga og hafa þær breytingar ekki síst orðið á síðustu áratugum. Sömuleiðis hafa orðið breytingar á stöðu kirkjunnar og starfi á sama tíma. Breytingar þessar hafa átt sér langan aðdraganda. Fjölhyggja hefur vaxið hér sem annars staðar í hinum vestræna heimi og kirkjan sem stofnun hefur ekki sömu ítök og hún hafði áður. Á hinu hefur orðið lítil breyting, að enn eru meira en 95% íslensku þjóðarinnar skráður í þjóðkirkjuna eða önnur kristin trúfélög.

Þær breytingar sem orðið hafa vekja spurningar um hvernig að verki skuli staðið í grunnskólanum varðandi kennslu í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum.  

Í bók sinni „Vi har religion. Et skolefags historie 1900–1975, byrjar prófessor K. E. Bugge kaflann „Portræt af en periode (1958-1975)" með þessum orðum:

„Á sjöunda áratugnum átti sér stað, ekki aðeins í Danmörku heldur í öllum hinum vestræna heimi, uppreisn gegn og uppgjör við þúsund ára gamla menningarhefð. Engar þjóðir, hópar eða einstaklingar, voru ósnortnir af breyttum tíðaranda. Sumir gerðu uppreisn í því skyni að byggja algjörlega nýjan heim á rústum hins gamla. Aðrir fundu sig knúna til uppgjörs: Það varð að ganga frá reikningsskilum við fortíðina. Ýmsir þættir í menningararfleifðinni urðu að víkja, aðra varð að túlka að nýju inn í nýjar aðstæður. Enn aðrir þjóðfélagshópar hrukku í varnaraðstöðu skelfingu lostnir og höfnuðu nýjum hugsunarhætti. Á öllum sviðum menningarinnar jukust andstæðurnar."

Í sumum grannlanda okkar, sem áttu sér svipaða hefð í menningar- og kirkjumálum, leiddi þetta til líflegrar umræðu um samband ríkis og kirkju og þá einnig skóla og kirkju, svo og um stöðu kristinna fræða og trúarbragðafræðslu í skyldunámi.

Og spurningar vöknuðu: Eiga kristin fræði að vera á stundaskrá almennra skyldunámsskóla? Ef svo er, á hvaða forsendum? Hvert á að vera markmið kristinfræðikennslunnar? Hvað um önnur trúarbrögð og lífsskoðanir?

Enn fleiri spurningar hafa leitað á bæði jafnframt og í kjölfar ólíkra svara við þessum. Þær spurningar hafa tengst inntaki greinarinnar sem skólagreinar, viðhorfum til náms og kennslu og kenningum um vitsmunalegan þroska barna á skyldunámsstigi. Enn fremur hefur vaxandi fjöldi innflytjenda til sumra grannlanda okkar frá þjóðfélögum með ólíka trú, siði og menningu haft áhrif á umræðuna.

Engin tök eru á því á þessum vettvangi að gera tæmandi grein fyrir umræðum og niðurstöðum þeirra í grannlöndum okkar og verður því að stikla á stóru.

Á sjöunda og áttunda áratugnum var skólalöggjöf á öllum Norðurlöndum endurskoðuð, hlutverk skyldunámsskólans skilgreint að nýju miðað við breyttar forsendur og breytingar gerðar bæði á inntaki og aðferðum. Leitast var við að setja skyldunámsskólanum markmið sem féllu að þjóðfélagi fjölhyggjunnar og tryggðu að skólinn gæti verið fyrir alla án tillits til trúar og lífsskoðana. Þetta breytti víða bæði markmiðsgreinum skólanna og stöðu kristinfræðikennslunnar. Síðasta áratug hefur þessi umræða haldið áfram og hefur sú umræða leitt til þess að vaxandi áhersla hefur verið lögð á kristinn menningararf þjóðanna og varðveislu hans þótt fullt tillit sé tekið til annarra trúar- og lífsskoðana.

Það helsta sem einkennir stöðu greinarinnar er þetta:

Í fyrsta lagi er nú alfarið gengið út frá því að kristin fræði í skyldunámsskóla séu kennd á forsendum skólans og ákvörðun um inntak og aðferðir á valdi skólayfirvalda.

Í öðru lagi, og í rökréttu framhaldi af því fyrra, hefur víða verið losað um bein tengsl fræðslunnar og játninga ákveðinna kirkjudeilda og lögð aukin áhersla á almenna kristna fræðslu, enda þótt tekið sé mið af játningunum vegna hefðarinnar.

Í þriðja lagi er lögð áhersla á að skólinn sé fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun. Hann skal vera hlutlaus um trú og lífsskoðanir, en þó eru ákveðin grundvallargildi tilgreind í markmiðsgreinum og skólanum ætlað að innræta nemendum þau. Kennarar skulu gæta þess að vera í hlutverki fræðarans en varast boðun eða innrætingu kristinnar trúar.

Auk umræðunnar um stöðu og inntak greinarinnar hefur farið fram lífleg umræða um þroskasálfræðilegar forsendur trúarbragðafræðslu og siðgæðisuppeldi almennt.
 

Ólíkar niðurstöður

Umræðurnar hafa fætt af sér a.m.k. fjögur ólík svör við því hvernig standa beri að kristindómsfræðslu/trúarbragðafræðslu í opinberum skólum.

1. Fræðslan skal miðla trúarlegum hefðum viðkomandi þjóðfélags.

Í þessu geta falist að minnsta kosti tvö viðhorf.

Annars vegar það viðhorf að miðla beri trúarlegum hefðum og viðhorfum af menningarlegum ástæðum, þar sem um sé að ræða hluta af menningararfinum sem viðkomandi þjóðfélag er grundvallað á.

Hins vegar getur þetta falið í sér miðlun trúarlegra viðhorfa og hefða viðkomandi samfélags frá einni kynslóð til annarrar á forsendum trúarinnar sjálfrar og á grundvelli játninga ákveðinnar kirkjudeildar.

Í grannlöndum okkar hefur fyrra viðhorfið átt fylgi að fagna.

2. Fræðslan skal vera hlutlaus miðlun þekkingar á trúarlegum efnum.  

Þetta felur í sér að trúarskoðanir og trúarlegt atferli er fyrst og fremst skoðað utanfrá, án þess að leitast sé við að skilja eða setja sig í spor hinna trúuðu.

3. Allir menn, hverrar trúar sem þeir eru, leita lífi sínu merkingar og tilgangs. Trúarbragðafræðslan á að hjálpa nemendum til að leita eigin svara með því að gefa þeim tækifæri til að fást við spurningar um hinstu rök tilverunnar og kynnast svörum ýmissa trúarbragða og lífsskoðana við þeim.  

Hér liggur áherslan alfarið á tilvistarspurningum nemendanna og ber skólanum samkvæmt þessu að leiða þá til fundar við hin ólíku trúarbrögð og lífsskoðanir svo þeir geti kynnst svörum þeirra og síðan valið og hafnað.

4. Tilgangur skólastarfs er m.a. að hjálpa nemendum til að skilja þann heim sem þeir byggja. Öll þjóðfélög eiga sér átrúnað í einni eða annarri mynd sem hefur mótað þau. Þess vegna er nauðsynlegt að nemendur kynnist ólíkum trúrbrögðum og þeirri þýðingu sem þau hafa og hafa haft í lífi þjóða og einstaklinga og byrji gjarnan á að kynnast því sem næst þeim stendur.

Hér er gengið út frá fyrirbærinu „átrúnaður" og leitast við að kynna nemendum sem flest þessara fyrirbæra sem þýðingu hafa fyrir skilning þeirra á því lífi sem lifað er í þeirra eigin þjóðfélagi og annars staðar í heiminum.
 
Svörin sem menn aðhyllast og þær áherslur sem lagðar eru ráðast annars vegar af aðstæðum í viðkomandi þjóðfélagi og hins vegar af viðhorfum manna til þess hvert hlutverk skólans er. Auk þess fer ekki hjá því að lífsskoðun þeirra sem ákvarðanir taka vegur þungt. Vert er að vekja athygli á að þótt hér sé um fjögur svör að ræða hafa verið reyndar leiðir sem sameina helstu kosti tveggja eða fleiri þessara ólíku svara. Sú námskrá sem nú er í gildi hér á landi leitast við að fara þá leið.

Hvaða leið sem valin hefur verið ríkir nokkur eining um þrjú atriði sem mikilvægt er að taka tillit til við kennslu í kristnum fræðum / trúarbragðafræðum sem og annarri kennslu:

a) Þjóðfélagslegar aðstæður og menningarhefð, og þær þarfir og möguleikar sem þær bjóða upp á.

b) Þroskasálfræðilegar forsendur nemendanna, áhugaefni þeirra og þarfir.

c) Eðli viðkomandi greinar/námsefnis og þær kennsluaðferðir sem af því leiðir.

Um það hvernig túlka beri hvert einstakt þessara atriða og hvaða ályktanir skuli af þeim draga hefur hins vegar ekki ríkt jafn mikil eining, hvort sem rætt hefur verið um kristin fræði eða aðrar greinar.

Íslenskt þjóðfélag hefur ekki farið varhluta af þeim umbrotum sem lýst var hér að framan. Einnig hér hafa orðið viðhorfabreytingar og íslenska skólakerfið hefur verið í deiglu breytinga og nýrra viðhorfa.

Sú námskrá sem grunnskólanum hefur verið sett í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum á grundvelli grunnskólalaga gengur út frá því að staða kirkju og kristni sé sterk hér á landi. Þetta er rökstutt með því m.a. að um 95% allra íslenskra barna sé borin til skírnar og það sé af foreldranna hálfu viljayfirlýsing um að börnin alist upp í kristinni trú og hljóti kristna fræðslu. Af því er sú ályktun dregin að skólanum beri að koma til móts við heimilin varðandi þessa fræðslu eins og aðra.

Auk þessa eru menningarleg rök færð fyrir kennslu greinarinnar að því er varðar íslenska menningu sérstaklega en jafnframt menningu Vesturlanda yfirleitt.

Íslenskar kannanir sem gerðar hafa verið á lífsviðhorfum Íslendinga benda til að þessi rökstuðningur fái staðist, þ.e. að þessi fjöldaskráning í kirkjuna eigi sér stoð í viðhorfum fólks. Sama gildir um þátt skóla og annarra uppeldisstofnana í þessari fræðslu og kristinni uppeldismótun yfirleitt.

Könnun sem Ingvar Sigurgeirsson gerði á árunum 1987–1988 birtir þó þá mynd af stöðu kristinna fræða í grunnskólum landsins að hún sé víða á undanhaldi og jafnvel horfin af stundaskrá, þrátt fyrir ákvæði námskrár og þann kennslustundafjölda sem greininni er ætlaður í auglýsingu menntamálaráðuneytisins um skiptingu kennslustunda milli námsgreina. Þetta virðist gerast án teljandi athugasemda frá foreldrum eða skólayfirvöldum.
 

Kennarinn

Að öllu þessu sögðu er orðið tímabært að fara nokkrum orðum um hlutverk kennarans í þessari fræðslu eins og henni er ætlað að vera samkvæmt lögum og námskrá.

Sá tími er löngu liðinn að kennurum sé ætlað trúboðshlutverk á vegum kirkjunnar. Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræðsla eru á stundaskrá skyldunámsskólans alfarið á forsendum skólans sjálfs sem fræðslu- og menningarstofnunar. Hvað sem persónulegri afstöðu kennara til trúmála líður eru þeir bundnir af þeirri skipan sem í gildi er hverju sinni.

Eðlilegt er því að kennarar spyrji um stöðu sína og hlutverk við kennslu kristinna fræða og fræðslu um önnur helstu trúarbrögð í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á þjóðfélaginu, skólanum og stöðu greinarinnar á liðnum áratugum. Þeir hljóta einnig að spyrja um hverjar kröfur séu gerðar til þeirra varðandi þekkingu, færni og afstöðu.

Öll kennsla sem fæst við trú og lífsskoðanir, siðgæði og mannleg samskipti yfirleitt gerir miklar kröfur til kennara. Þeir þurfa að hafa staðgóða þekkingu á því efni sem hann er að fást við. Meðan kristin fræði og trúarbragðafræði eru ekki kjarnagreinar í kennaranámi og engin kennsla um þessi efni í framhaldsskólum er þess tæpast að vænta að kröfum um þekkingu sé fullnægt, enda venja er að almennir bekkjakennarar sinni þessari fræðslu a.m.k. í sjö fyrstu bekkjum grunnskólans.

Kennarar þurfa einnig að sýna þeim markmiðum trúnað sem kennslunni eru sett í lögum og námskrá og verja til hennar þeim tíma sem til er ætlast í viðmiðunarstundaskrá. Í íslenskum skólum þarf kennari einnig að vera minnugur þess að nemendur hans eru að langstærstum hluta börn sem skírð hafa verið til kristinnar trúar. Eigi að síður þarf hann að taka tillit til þess að nemendur hans koma frá heimilum með margbreytileg trúarleg viðhorf. Kennslan verður því að einkennast af umburðarlyndi, víðsýni og vilja til að skilja og virða fólk með mismunandi trúar- og lífsskoðanir. Þetta krefst þess einnig að kennarinn geri sér sem gleggsta og heiðarlegasta grein fyrir eigin viðhorfum til þess sem hann er að fást við með nemendum sínum. Með öðrum orðum þarf kennarinn að hafa vakandi meðvitund um eigin trúar- og lífsskoðanir enda auðveldar það honum að ræða málefnalega viðhorf sem hann aðhyllist jafnt og viðhorf sem ekki eru hans.

Þegar talað er um að kennslan þurfi að einkennast af umburðarlyndi er átt við þá ögun sem felst í því að gera hlutlæga og heiðarlega grein fyrir ólíkum viðhorfum án tillits til þess hvort viðkomandi kennari aðhyllist þau viðhorf sjálfur eða ekki. Slíkt krefst staðgóðrar þekkingar á viðfangsefninu.

En hvert er þá hlutverk kennarans? Eins og álykta má af því sem fram hefur komið og einkum af því sem greint er í námskrá, er kennaranum ætlað a.m.k. tvíþætt hlutverk.

Í fyrsta lagi er hann í hlutverki fræðarans, sem ætlað er að miðla þekkingu á ákveðnu efni auk þess að stuðla að skilningi nemenda sinna á viðfangsefninu. Þekkingarmarkmið er tiltölulega auðvelt að skilgreina og meta hver árangur hefur náðst, en hvað fólgið er í skilningi á trúrlegum efnum kann að reynast erfitt að skilgreina og þaðan af erfiðara að meta. Eigi að síður ber að keppa að því með tiltækum ráðum.

Í öðru lagi er kennaranum ætlað að leiða nemendur sína til fundar við námsefnið með þeim hætti að „samræður" komist á milli nemandans, spurninga hans og viðhorfa annars vegar og efnisins hins vegar. Kennaranum er ekki ætlað að vera trúboði sem leitast við að hvetja til tiltekinnar afstöðu. Eigi að síður er í kristnum boðskap fólgin skírskotun sem ætlað er að kalla fram andsvar þess sem boðskapnum mætir. Svo er um önnur trúrbrögð. Sé sú skírskotun aðeins skoðuð utanfrá verður hún nemandanum óviðkomandi og efnið jafnvel leiðinlegt viðfangs. Einnig hefur verið bent á að slík aðkoma geti leitt til afstæðishyggju og jafnvel skeytingarleysis um trúar og lífsskoðanir. Þess vegna hefur verið lögð á það rík áhersla af flestum þeim sem um þetta hafa ritað, að mikilvægt sé að nemendum sé tamið að taka skírskotunina alvarlega, glíma við hana og gera upp hug sinn. Að sjálfsögðu verður að taka fullt tillit til aldurs og þroska nemendanna í þessum efnum.

Nemandinn er á hverjum tíma á leiðinni til aukins þroska en markmið fræðslunnar á m.a. að vera að nemandinn fái tækifæri til að afla sér þekkingar og færni sem gerir honum kleift, þegar þar að kemur, ekki aðeins að gera sér grein fyrir öllum fjölbreytileikanum í trúrlegum viðhorfum og reynslu, heldur einnig að taka sjálfstæða afstöðu og gera sér grein fyrir á hverju hún byggir. Þetta á jafnt við um trúarleg og siðferðileg efni. Jafnframt er mikilvægt að nemandinn geri sér ljóst að ákveðin sannfæring og opinn hugur þurfa ekki að vera andstæður. Vísast er fordæmi kennarans í þessum efnum drjúgt veganesti.

Það gefur auga leið að kennsla af þessu tagi gerir miklar kröfur til kennarans hvað varðar þekkingu og kennslufræðilega færni. Það er þó ekki sérstakt fyrir kennslu í þessum fræðum. Hins vegar gerir kennsla sem fæst við trúarskoðanir, lífsviðhorf og siðgæði e.t.v. meiri kröfur um heiðarleika, nærgætni og umburðarlyndi en önnur kennsla.
 

Lokaorð

Kennsla í kristnum fræðum á sér langa hefð hér á landi eins og fram hefur komið. Skipan þeirrar fræðslu hefur verið með breytilegum hætti. Þótt engar kollsteypur hafi verið teknar í þeim efnum hefur greinin þróast úr því að vera skírnarfræðsla kirkjunnar í það að vera námsgrein sem kennd er á forsendum skólans eins og þær eru skilgreindar hverju sinni. Hér að framan hefur verið leitast við að drepa á flest það sem mikilvægt er hafa í huga í þessu sambandi. Á sumt hefur verið minnst lauslega en öðru gerð nokkur skil. Þegar breytingar eru gerðar á skipan þessarar fræðslu er brýnt að skyggnst sé sem víðast og að um þær ákvarðanir sem teknar eru sé sem mest samstaða. Einnig er mikilvægt að þær ákvarðanir séu studdar ljósum rökum. Síðast en ekki síst er mikilvægt að kennaramenntunin skili hæfum kennurum til að sinna greininni, bæði hvað varðar þekkingu og kennslufræðilega færni. Ljóst er að efla þarf bæði grunnmenntun og endurmenntun kennara í þessari grein eigi nám í henni að skila því sem af henni er vænst.
 

Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða

Menntmálaráðuneytið 1998. Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
20.03.1998