Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 
 

Tillögur að meginmarkmiðum fyrir kristinfræði í grunnskólum:

Í samvinnu við heimilin og í samræmi við markmið grunnskólans á nám í kristnum fræðum að efla trúarlegan, siðferðilegan og félagslegan þroska nemenda með því að þeir: 1) öðlist þekkingu á Biblíunni og kristinni trú sem menningararfi og uppsprettu trúar, siðgæðis og lífsviðhorfa.

2) kynnist sögu kristinnar kirkju almennt og hérlendis og hlut hennar í mótun vestrænnar og íslenskrar menningar.

3) þekki þann siðgæðisgrunn sem grunnskólinn byggir á, öðlist færni í að fást við siðræn viðfangsefni í ljósi hans og temji sér samskiptareglur sem leiða af honum.

4) kynnist öðrum trúarbrögðum sem grundvelli gilda og lífsviðhorfa og tileinki sér umburðarlyndi og virðingu fyrir rétti manna.
 

Tillögur að undirmarkmiðum fyrir hvern aldurshóp:

1-4. námsár

a. Nemendur þekki vel nokkrar mikilvægar frásagnir og persónur í Biblíunni bæði í Gamla og Nýja testamentinu.

Dæmi : Móses, samskipti Jesú við einstaklinga, dæmisögur.

b. Nemendur hafi haft kynni af kristnu helgihaldi og þekki helstu hátíðir kristninnar og siði og tákn sem tengjast þeim.

Dæmi: Umfjöllun um jól, páska og hvítasunnu, kirkjuferð.

c. Nemendur hafi kynnst nokkrum mikilvægum frásögnum og persónum úr sögu íslenskrar kristni sem hefur haft mótandi áhrif á menningu og samfélag í landinu.

Dæmi: Þorgeir ljósvetningagoði, Guðmundur góði, Oddur Gottskálsksson.

d. Nemendur hafi komist í kynni við tjáningu trúar í verkum íslenskra listamanna.

Dæmi: Hallgrímur Pétursson, Davíð Stefánsson, Nína Tryggvadóttir.

e. Nemendur þekki nokkur helstu grundvallargildi kristilegs siðgæðis og hafi fengist við viðfangsefni sem stuðla að ábyrgðartilfinningu, virðingu fyrir öðrum og sáttfýsi.

Dæmi: Úr daglegu lífi nemenda sem tengjast þeirra eigin veruleika

f. Nemendur hafi fengið fyrstu kynni af öðrum trúarbrögðum og lífsviðhorfum í gegnum frásagnir af jafnöldrum.

Dæmi: Íslam, hindúismi, búddismi.

5-7. námsár

a. Nemendur þekki helstu Biblíutexta sem kristin trú og játning byggir á.

Dæmi: Sköpunarsagan, boðorðin 10, fjallræðan, dæmisögur Jesú.

b. Nemendur þekki kirkjuhúsið, helstu tákn, kirkjulegar athafnir og starf í heimabyggð.

c. Nemendur hafi kynnst völdum þáttum úr almennri og íslenskri kirkjusögu einkum í fornöld, á miðöldum og hvernig kristnin barst til Íslands.

Dæmi: Þættir úr postulasögunni, klaustur, Lúther, samfylgd kristni og þjóðar.

d. Nemendur hafi kynnst áhrifum Biblíunnar og kristinnar trúar á íslenska og erlenda listsköpun.

Dæmi: Úr ólíkum listgreinum td. Rembrandt, Michelangelo, Bach.

e. Nemendur hafi öðlast góða innsýn í kristilegt siðgæði einkum samskiptareglur sem byggja á kærleika, mannhelgi, félagslegu réttlæti og umhyggju fyrir öðrum mönnum, öllu lífi og umhverfi.

f. Nemendur þekki valda þætti nokkurra helstu trúarbragða heimsins, einkum guðshús, hátíðir, siði og venjur.

8-10. námsár

a. Nemendur þekki Biblíuna sem ritsafn, sögu hennar og tilurð og hafi öðlast færni í notkun hennar.

b. Nemendur hafi öðlast þekkingu á starfi kirkjunnar einkum hjálpar- og kristniboðsstarfi bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Þeir hafi kynnst helstu kirkjudeildum og trúfélögum, hvað þau eigi sameiginlegt og hvað greinir þau að.

Dæmi: Hjálparstofnun kirkjunnar, rómversk kaþólska kirkjan, hvítasunnuhreyfingin.

c. Nemendur hafi kynnst völdum þáttum úr almennri og íslenskri kirkjusögu einkum frá siðbótartímanum til okkar daga.

Dæmi: Siðbótin á Íslandi og áhrif hennar, forysta kirkjunnar í alþýðufræðslu á landinu.

d. Nemendur hafi kynnst áhrifum trúar á menningu og listir, bæði í hinum kristna heimi og annarsstaðar.

Dæmi: Mosaíklist úr hinum íslamska heimi.

e. Nemendur hafi glímt við siðferðisleg álitamál og skoðað þau í ljósi mismunandi gildismats og lífsviðhorfa.

Dæmi: Kristin og húmanísk viðhorf, viðhorf úr grískri heimspeki, hindúísk viðhorf.

f. Nemendur þekki megininntak og útbreiðslu helstu trúarbragða heims og annarra lífsviðhorfa.
 

 
Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða

Menntmálaráðuneytið 1998. Uppsetning á vefsíðu Jóhann Ásmundsson
20.03.1998