Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
1 ALMENNIR ÞÆTTIR

1.1 Þjóðfélagsþróunin
Samfélagsbreytingar eru nú örari en áður hefur þekkst, á Íslandi sem og víðast annars staðar. Nokkra þætti er rétt að benda á sem hafa eða geta haft áhrif á hlutverk skólastarfs almennt og á samfélagsgreinarnar sérstaklega.
 
 • Fjölskyldugerð er margbrotnari og breytilegri en áður. Hjónabönd og sambúð eru að jafnaði skammvinnari en fyrr, börn búa lengur í foreldrahúsum en mörg hver með öðrum en kynforeldrum eða aðeins öðru þeirra, hópur aldraðra stækkar hlutfallslega og býr æ meir aðgreindur, samkynhneigð er til umræðu – svo að nokkrir áberandi þættir séu nefndir. Um leið reynir meira á nemandann sem einstakling í skóla og samfélagi.
Hlutverk og staða kynjanna hafa breyst og eru í deiglunni, bæði á heimilum, í atvinnulífi og almennt í þjóðlífinu. Þó að ýmsu hafi þokað í jafnréttisátt þykir mörgum enn langt í land.
Útivinna foreldra er að jafnaði löng svo að börn og ungmenni eru oft langtímum saman á eigin vegum, án afskipta fullorðinna.
Mörg ungmenni vinna með skólanámi, hafa nokkur eigin fjárráð og þurfa að axla nýja ábyrgð í neyslusamfélagi nútímans. Sífellt oftar er höfðað til þeirra sem kaupenda og neytenda á vöru og afþreyingu.
Margt ungt fólk finnur fyrir rótleysi og á erfitt með að fóta sig í samtímanum. Ópersónuleg og margþætt samskipti hafa iðulega komið í stað náinna og persónulegra tengsla. 
Þó að lífskjör batni að meðaltali er viðvarandi munur á efnahag og aðstæðum fólks eftir félagslegri stöðu, búsetu, menntun og fleiri þáttum.
Hreyfanleiki fólks vegna náms og starfa er vaxandi. Flutningur fólks úr strjálbýli í þéttbýli heldur áfram. Ennfremur búa nú um 8% Íslendinga erlendis (1996) og hefur sú tala farið hækkandi jafnt og þétt um árabil. Tveir þriðju hlutar þessa hóps hafa valið Norðurlönd að aðsetri. Jafnframt flytja erlendir ríkisborgar í vaxandi mæli til Íslands (tæp 2% landsmanna 1996), setjast að til lengri eða skemmri tíma og láta til sín taka í atvinnulífi og þjóðlífi.
Þekking og kunnátta eru varanlegar auðlindir en þær þarfnast stöðugrar endurnýjunar; störf eru tímabundnari og krefjast meiri sveigjanleika og frumkvæðis en áður í vaxandi markaðsumhverfi.
Flæði upplýsinga er meira en nokkru sinni fyrir tilstilli fjölmiðla og fjölbreyttrar upplýsingatækni. Margir aðilar og miðlar keppa um athyglina. Leiðir opnast til margra átta en sumar leiða til einangrunar og þröngrar sérhæfingar.
Vitundin um samspil manns og umhverfis hefur tekið gagngerum breytingum á síðustu þrjátíu árum. Fleiri og fleiri mál koma til álita og ákvörðunar hjá einstaklingum og þjóð, svo sem nýting og endurnýjun auðlinda, umhirða landsins og endurnýting úrgangs.
Menningar- og félagsstarfsemi hvers konar hefur eflst verulega og þátttaka er almennari en áður. Fleiri tómstundir, meiri fjárráð og menntun eiga sinn þátt í þessari aukningu.
Mörgum þykir heimsmyndin brotakennd og að örðugt sé að fá yfirsýn og finna heildstæðar skýringar. 
Einingar samfélagsins hafa í senn stækkað og minnkað. Þróunin hefur staðið til Evrópusamstarfs og alþjóðahyggju en jafnframt færast verkefni á hendur smærri eininga, svo sem skólahald til sveitarfélaga. Staða Íslands er í deiglunni í norrænu, evrópsku og alþjóðlegu samhengi.
Ýmis hefðbundin einkenni á íslensku samfélagi, svo sem einsleitni þess og þátttaka ungmenna í atvinnulífi, eru nú breytingum undirorpin. Hér reynir á verðmætamat, víðsýni og umburðarlyndi.
Sú samfélagssýn, sem hér er dregin upp, var höfð í huga þegar skýrslan var samin. Sérstaklega er fjallað um nokkra þætti hennar í köflum hér á eftir um rótfestu, alþjóðlega vídd, upplýsingasamfélagið og kennsluhætti. Þar er brugðist við nokkrum atriðum í þessari samfélagsgreiningu. Í námskrárhugmyndunum, sem útfærðar eru í framhaldinu, sér hennar einnig stað, t.d. með því að leggja til kennslu í þjóðfélagsfræði í tíunda bekk, með því að að tengja saman þjóðarsögu og mannkynssögu í grunn- og framhaldsskóla og með hugmynd um sérstakan ritgerðaráfanga í framhaldsskóla.

1.2 Í ljósi fyrri námskráa
Á sjöunda áratug aldarinnar urðu ýmsar breytingar á íslensku efnahagslífi í átt til þess sem tíðkaðist í öðrum vestur-evrópskum ríkjum. Frjálsræði jókst í viðskiptum, beinar erlendar fjárfestingar hófust í landinu, Ísland gekk í EFTA og fleiri nýjungar mætti nefna. Menntakerfið var þáttur sem mörgum þótti hafa dregist aftur úr. Framlög til menntamála voru nú aukin undir kjörorðinu „menntun er besta fjárfestingin" og var það raunar í takt við það sem gerðist víða í vestrænum heimi. Komið var upp skólarannsóknadeild í menntamálaráðuneytinu; menntun skyldi efld og vísindalega staðið að henni. Í kjölfarið fylgdi löggjöf um skólamál sem leysti fræðslulög frá 1946 af hólmi. Framhaldsskólum fjölgaði stórlega, grunnur var lagður að áfanga- og fjölbrautakerfi. Leiðsagnar var einkum leitað í kenningar og athuganir bandarískra fræðimanna, sem víða um lönd voru fyrirmynd, um nám sem alhliða ferli þar sem markmiðin áttu að vera fjölþætt en ekki einungis staðreyndanám. Áherslan færðist frá utanbókarlærdómi í mjög afmörkuðum námsgreinum til leitarnáms og verkefnavinnu með barnið og þroska þess í brennidepli. Svipuð sjónarmið höfðu heyrst áður en urðu ekki að opinberri stefnu fyrr en nú. Myndaðir voru hópar um ákveðna flokka námsgreina sem unnu að námsefnisgerð og nýju skipulagi greinanna og gáfu út námskrár um miðjan áttunda áratuginn.

Námsgreinar, sem fjalla um manninn og samfélagið, í þessu tilviki einkum saga og landafræði, voru teknar róttækum tökum. Byggt var upp heildstætt kerfi sem náði yfir allan grunnskólann og byggði einkum á þrennu:

  1. Lykilhugtökum sem voru hugsuð sem spírall upp þroskaferil barnsins og sóttu innblástur í kerfi bandarísku uppeldisfræðinganna Bruners og Taba.
  2. Kenningum Piaget, Kohlbergs o.fl. um vitsmuna- og siðgæðisþroskastig barna.
  3. Virkri leitarvinnu í anda Bruners, Deweys o.fl.
Námsskrá í þessum anda kom út 1977 fyrir samfélagsfræði. Námsgreinarnar átthagafræði, landafræði, saga og félagsfræði skyldu samþættar í einni heild undir merkjum samfélagsfræði þar sem einnig var sótt í sjóð fleiri fræðigreina. Margt var ágætlega gert undir þessum formerkjum, faglega var unnið að markmiðum og heildarskipulagi greinarinnar og fjöldi kennara og annarra uppeldisaðila kom að verki. Vankantarnir reyndust einnig margir. Uppeldishugmyndin var full bundin, þroskamarkmið námsins vildu yfirskyggja aðra þætti. Rök greinarinnar voru sett fram með svo sérfræðilegum hætti að hleypti illu blóði í hefðarhyggjumenn og margir kennarar áttu fullt í fangi með að fylgja eftir. Of mikið púður fór í samþættingu á kostnað annarra þátta og aldrei tókst að vinna nema brot af því námsefni sem þurfti til að gera heild úr verkefninu. Afmarkaðir þættir fengu mikið rými en aðrir hurfu í skuggann. Verkefnið var því oft gagnrýnt vegna þess hve brotakennt það þótti, ekki síst hlutur sögunnar. Í reynd var samfélagsfræðin kennd sem aðskildar greinar í mörgum skólum.

1983 hófust miklar deilur í samfélaginu um samfélagsfræðina og féllu stór orð um „fúsk og leiki", Íslandssögukennslu sem væri í molum og að þjóðernið væri jafnvel í hættu. Margt var á misskilningi byggt og málið fékk óeðlilega pólitískan lit. Árið 1984 hætti nefndin um skipulag samfélagsfræði (samfélagsfræðihópurinn) störfum og við tók óvissuástand.

1985-86 skipaði menntamálaráðherra nefnd til að fjalla um samfélagsfræðina og gera tillögur um framhald vinnunnar. Nefndin lagði m.a. til að samfélagsfræði yrði kennd sem samþætt grein í fyrstu bekkjum grunnskólans en skiptist síðan upp í landafræði og sögu – og félagsfræði í efri efri bekkjunum. Vinna við námskrá og námsefnisgerð tók mið af þessum tillögum. Samfélagsfræðinámskráin, sem birtist í Aðalnámskrá grunnskóla 1989, var á margan hátt málamiðlun milli síðustu námskrár og hefðarhyggju. Gert var ráð fyrir sérgreiningu samfélagsgreina frá og með 5. bekk grunnskóla en mælt með samþættingu þar sem hún þætti henta. Ýmsu var haldið til haga af fyrri stefnu eins og hún birtist t.d. í hugmyndum um lykilhugtök, meginhugmyndir og leiðarhugmyndir. Enn var bent á gildi svæðisbundinna athugana, þemavinnu og samanburðar á hinu nálæga og fjarlæga (líf í heitu og köldu landi, samskipti í dýraríkinu og á landnámstíma á Íslandi). Að einhverju leyti mótaðist þetta af því kennsluefni sem til var.

Þegar þessi skýrsla um markmið náms í samfélagsgreinum birtist árið 1998 hefur öldur samfélagsfræðideilunnar lægt að mestu. Verðmæt reynsla hefur skapast og hún hefur að sjálfsögðu haft sín áhrif á samningu þessarar skýrslu þó að ekki hafi verið gerð skipuleg úttekt á fyrra starfi. Margar fyrri áherslur eru nú taldar sjálfsagður hlutur – um virkni nemandans, um mikilvægi sjálfstæðis og samstarfs, um það viðhorf til þekkingar að hún sé stöðugt í mótun. Fulltrúar atvinnulífs eru meðal þeirra sem bent hafa á nauðsyn þessara sjónarmiða. Hins vegar hafa veikleikar fyrra starfs einnig verið reynslusjóður. Þannig hefur hér verið reynt að ganga út frá því besta sem til var í fyrri reynslu og hefðum sem til eru og sveigja þær að nýjum markmiðum án þess að taka kollsteypur. Ekki hefur verið skotist undan því að velja þau þekkingaratriði og þekkingarsvið sem metin eru nauðsynleg og áhugaverð fyrir börn og unglinga á Íslandi í aldarlok. Þekkingaratriðin hafa meðal annars verið valin út frá mikilvægi þeirra í ljósi íslenskrar þjóðmenningar. „Íslensk þjóðmenning" er hins vegar ekki skilin þröngum skilningi enda er hún í sífelldri mótun. Hefðbundnar námsgreinar á borð við félagsfræði, landafræði og sögu eru svo víðfeðmar, einkum á seinni árum, að ekki ætti að vera hætta á að kennsla í þeim lokaðist inni í þröngum fræðaheimi þó að þeim sé ekki allajafna steypt saman í eitt. Í skýrslunni er reynt að feta rétta slóð milli valfrelsis og skipulags, milli þekkingar og leikni, milli hefðar og nýbreytni.

Markmið og inntak samfélagsgreina eru nú í fyrsta sinn útfærð til nokkurrar hlítar á framhaldsskólastigi. Fyrri námskrár snerust alltaf að verulegu leyti um fyrstu ár grunnskóla. Nú er reynt að skapa samfellu og markvissa samfélagsgreinakennslu á öllum árum grunnskóla og framhaldsskóla.

 1.3  Íslensk menning og skólahefðir
Fátt er til af könnunum á kennsluháttum í samfélagsgreinum í íslenskum skólum. Þó má reyna á grundvelli þeirra athugana, sem til eru, og almennra hefða sem einkennt hafa íslenska menningu, að gera sér grein fyrir nokkrum þáttum sem hafa þarf í huga þegar undirbúin er aðalnámskrá í samfélagsgreinum.

Íslenskt samfélag hefur alla tíð verið óvenjulega einsleitt. Þetta birtist í því að tungumálið er eitt og mállýskumunur hverfandi lítill, menningin er samstæð og afmörkun lands og þjóðar skýr. Sumt af þessu kann að breytast að einhverju marki. Hlutfall Íslendinga, sem búa erlendis um lengri eða skemmri tíma, fer jafnt og þétt hækkandi. Útlendingum (nýbúum) fer fjölgandi og eru margir þeirra af framandi menningarsvæðum. Samskipti við útlönd fara ennfremur vaxandi. Tvennt ber þó að hafa þar í huga. Annars vegar að Íslendingar hafa jafnan sótt aðföng og hugmyndir til annarra þjóða í ríkum mæli enda er það hluti af lífsfærni smáþjóðar. Hins vegar er ljóst að fjarlægðir þurrkast ekki út þó að Ísland nálgist umheiminn með fjarskiptatækni og bættum samgöngum. Aðrar þjóðir nálgast einnig hver aðra. Sem dæmi má nefna að svæðið umhverfis Eyrarsund, bæði í Danmörku og Svíþjóð, er að verða að einu atvinnu- og skólasvæði. Samskipti, sem þegar voru mikil, verða nú enn nánari. Samskipti með nýjum upplýsingamiðlum geta þó orðið lyftistöng fyrir smáþjóð úr alfaraleið ef rétt er á haldið.

Hjá einsleitri smáþjóð hefur fjarlægð milli manna verið minni en víðast hvar annars staðar. Það hefur ennfremur verið talinn kostur að bil milli nemenda og atvinnulífs hefur verið stutt; ungt skólafólk hefur tekið beinan þátt í atvinnulífinu. Skólanámið hefur einnig verið alhliða; nemendur hafa fengið innsýn í mörg fræðasvið. Sérgreining í námi hefur byrjað seinna en hjá mörgum öðrum þjóðum. Skólaárið hefur verið styttra en gerist í nágrannalöndum en skólaárin fleiri fram að háskólastigi. Þessi einkenni hafa verið talin aðalsmerki íslenska menntakerfisins. Að sumum þessara einkenna steðja breytingar um þessar mundir. Nefna má að sumarvinna unglinga dregst nokkuð saman, meðal annars af því að sjálfræðisaldur hefur verið hækkaður og vegna þess að ákvæðum Evrópusambandsins um takmörkun barnavinnu er nú framfylgt á Íslandi.

Ritmenning sú, sem hér hefur verið almennari en víðast annars staðar, er verðmæti sem rétt er að standa vörð um. Hins vegar hefur skort á að þessi hefð væri nægilega nýtt í skólastarfi og hlúð að henni með skipulegri leiðbeiningu. Samfélagsgreinar eru tilvalinn vettvangur fyrir þetta þar sem ritleiknin fær ákveðið inntak.

Frásagnarlist er jafnan talin rótgróin hér á landi, en önnur munnleg tjáning, ekki síst skipulegar rökræður, hvílir ekki á jafngömlum grunni og finna margir nemendur fyrir því þegar þeir koma í erlent skólaumhverfi. Til samanburðar má nefna að heimspekileg umræða er gamalgróin í Frakklandi og lögð er rækt við hana í skólakerfinu þar í landi. Ef litið er nær kemur fram í úttekt á sögukennslu í Danmörku (Historie. Kvalitet… 1994) að þar í landi er saga „munnleg námsgrein" og að útlendingar taka fljótt eftir því að „dönskum nemendum er tamt að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í tali". Hér eru mikil verkefni framundan á Íslandi. Samræðan er eðlileg aðferð í samfélagsgreinum sem nauðsynlegt er að leggja rækt við.

Rannsóknir Ingvars Sigurgeirssonar á kennslu í miðbekkjum grunnskóla (Ingvar Sigurgeirsson 1992) benda ótvírætt til þess að námsbækur stýri kennslu í skólum að verulegu leyti. Mestallur tími fer til vinnu við eða í tengslum við kennslubækurnar. Það er að vísu engan veginn einsdæmi í veröldinni en kann að gilda hér í ríkara mæli en annars staðar. Þetta kallar á tvenns konar viðbrögð.

Ýmis ytri skilyrði eru fyrir hendi til að efla fjölþættara nám. Húsakostur er víða góður þótt hann sé misjafn. Skólasöfnum hefur fleygt fram á síðustu 20–30 árum. Tölvukostur og nettengingar eru ennfremur ört vaxandi þáttur í skólastarfi. Kennaramenntun, þar með talda endurmenntun, þarf hins vegar að efla og gera þarf kennurum kleift að sinna starfi sínu af alefli. Stefna stjórnvalda hefur löngum verið sveiflukennd eftir stjórnmálahræringum hverju sinni en hefur þó verið að færast á faglegri grunn hin síðari ár. Fjárframlög til menntamála eru þó enn lág miðað við það sem almennt tíðkast meðal OECD-ríkja.

1.4  Erlendar námskrár
Allar norrænu grannþjóðirnar eru með nýlegar námskrár sem unnar voru á þessum áratug. Sama gildir um mörg önnur lönd og fylki. Þjóðfélög breytast ört og reynt er að mæta þróuninni í skólastarfinu og meðal annars að skilgreina upp á nýtt hver sérstaða hvers menningarsvæðis er. Norðmenn tilgreina til dæmis miklu nánar hvað kenna skal hverju sinni en vani er í Danmörku þar sem kennarar hafa hefðbundið frjálsræði; Frakkar tala um „sjálfsmynd hins upplýsta borgara" og leggja áherslu á menningararf (patrimoine) mannkyns, en í þjóðadeiglu Bresku Kólumbíu er á dagskrá í samfélagsgreinum að velta því fyrir sér „hvað það þýðir að vera Kanadamaður".

Flokkun samfélagsgreina í grunnskóla er með ýmsum hætti og breytingum undirorpin. Í Skotlandi, svo að dæmi sé tekið, falla þær allar undir einn hatt „umhverfisfræða" (environmental studies) ásamt náttúrufræði, tæknimennt, heilsufræði og upplýsingafræðum, en undir þeim hatti er skipt í flokka á borð við „samfélagsgreinar" (social subjects) og þar undir má greina útlínur sögu, landafræði og félagsfræði. Í Frakklandi mynda saga og landafræði eina heild (histoire-géographie) í öllum grunnskóla. Auk þess er „borgaramennt" (éducation civique) tíðkuð í efri bekkjunum þar sem áhersla er lögð á borgaraleg réttindi og skyldur, gagnrýna hugsun og rökræðulist. Námsgrein eða námsþáttur af þessu tagi tíðkast einnig í engilsaxneskum löndum. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er almennur siður að flétta samfélagsgreinum saman fyrstu fjögur árin, og þær eru áfram skoðaðar sem ein heild í seinni bekkjum þó að þær séu greindar í landafræði, sögu og samfélagsfræði. Í Danmörku er saga kennd á 3.-8. ári, samfélagsfræði ein og sér í 9. bekk (og sem val í 10.), landafræði aðeins í 7. og 8. bekk en náttúru- og tæknimennt með samfélagsívafi í bekkjunum á undan.

Áhyggjuefnin eru mörg hver svipuð í vestrænum heimi – af veikri stöðu fjölskyldunnar, af upplýsingabyltingunni sem engir vilja missa af, af mengun og umhverfisspjöllum, af slakri lestrar- og stærðfræðikunnáttu. Menntamálaráðherra Bretlands greip til þess ráðs (jan. 1998) að afnema námskrá í samfélagsgreinum í grunnskóla svo að meiri tími gæfist til „kjarnagreina" – ensku, stærðfræði, náttúrufræði, upplýsingatækni og trúarbragðafræði. Hins vegar hafði stjórn hans lýst áhyggjum af of mikilli sérhæfingu í framhaldsskóla. Hér á landi hafa margir verið uggandi vegna slakrar niðurstöðu úr alþjóðlegri könnun á kunnáttu grunnskólanema í náttúrufræði og stærðfræði. Að sjálfsögu er mikilvægt að vanda til kennslu í þessum greinum (sumt í þeim er einnig nauðsynlegur stuðningur samfélagsgreina) en áhyggjuefni af þessu tagi mega ekki verða til þess að samfélagsgreinum verði fórnað. Styrkur vestrænnar menningar og atvinnulífs á upplýsingaöld felst ekki síst í sjálfstæði og frumkvæði einstaklinga sem taka virkan þátt í að greina og móta samfélag og umhverfi í fortíð og nútíð af kunnáttu og víðsýni. Þær eru ómissandi hluti af almennri menntun. Einnig má benda á að lestrarfærni þroskast ekki nema lestrarefnið hafi sífellt efnismeira inntak. „Stefnan á áttunda áratugnum, sem byggðist á því að hamra á leikni (drill the skills) og lágmarkshæfni (minimum competencies) fór langt með að útrýma inntakinu í grunnskólanámi", segir í landsnámskrá fyrir sögu í Bandaríkjunum frá 1996, „og þetta hafði í för með sér að inntakið varð rýrara og fyrir vikið liðu flóknari hugsanaferli og lestrarkunnátta sem nærist á efnismiklum texta svo að nemendur hafi eitthvað til að „hugsa um"".

Alla þessa öld hafa Íslendingar sótt hugmyndir um kennslu og skipulag samfélagsgreina til ýmissa landa, einkum Norðurlanda og Bandaríkjanna. Nokkur dæmi um þetta verða að duga: Steingrímur Arason kom með glóðvolgar hugmyndir verkhyggjunnar frá Columbia-háskóla í New York um 1920 (Kristín Indriðadóttir 1995), Ísak Jónsson sótti átthagafræðihugmyndir sínar einkum frá Svíþjóð, samfélagsfræði áttunda og níunda áratugarins var af bandarískum stofni og norrænar kennslubækur hafa haft áhrif á allt skólakerfið.

Þó að forsendur séu nokkuð mismunandi og niðurstöður með ólíkum hætti kemur námskrárvinna margra landa að góðu gagni þegar ný íslensk námskrá er mótuð.

1.5 Rótfesta
Í skólunum er nauðsynlegt að fræða um þær þjóðfélagsbreytingar sem lýst er í upphafskafla skýrslunnar (1.1). Til dæmis þarf að fjalla um fjölskylduna, þróun hennar og ólíkar gerðir á ýmsum tímum og stöðum en ekki síst þá fjölbreyttu mynd sem hún tekur á sig í dag. Í þessu skyni er nærtækt að draga upp mynd af fjölskyldulífi fyrr á tímum annars vegar og hins vegar að kanna meðal nemenda sjálfra hvernig fjölskylduaðstæður eru. Hér þarf þó að fara að með gát þannig að hvorki sé gengið of nærri nemandanum og einkahögum hans né fjölskyldumynd fyrri tíma sé dregin upp í rósrauðum bjarma.

Auk fræðslu um fjölskylduna getur skólinn reynt að nálgast fjölskylduna með því að tengja eldri kynslóðir við skólaæskuna og hagnýta reynslu þeirra og þekkingu. Þetta getur gerst bæði með heimsóknum eldra fólks í skólana og með því að fela nemendum verkefni sem byggjast á því að þeir leiti til foreldra, ömmu og afa eða annarra nákominna.

Fjölskyldan er nærtækasta svið einstaklingsins en fleira er í innsta hring nemandans sem skólinn getur miðað við í samfélagsgreinum á öllum skólastigum: skólinn sjálfur sem stofnun og bygging, nánasta umhverfi skólans, bæjarhlutinn, bæjarfélagið, sveitin; félagsstarf sem nemandinn tekur þátt í. Sumir nemendur eru aðfluttir og eiga sér „átthaga" fjarri skólaumhverfinu og jafnvel erlendis. Reynsla þeirra, þekking og tilfinningatengsl geta verið auðlind í skólastarfinu ef rétt er á haldið.

„Grenndarnálgun" af þessu tagi er leið til að glæða sögu-, samfélags- og umhverfisvitund nemandans. Samanburður er fallinn til að þroska slíka eiginleika og hinn nærtækasti reynsluheimur ætti að vera greiðasta leiðin. Síðan verður sjóndeildarhringurinn stækkaður en tengsl við nálægan heim og athugun á honum ættu áfram að hjálpa nemandanum að sjá sjálfan sig í samhengi umhverfis, sögu og samfélags. Sumir skólar hafa unnið skipulega á þennan hátt en oft þykir mönnum að skortur á kennsluefni standi í veginum. Með skapandi aðferðum verður slíkt ekki óyfirstíganlegt en námsgögn eru engu að síður nauðsyn. Ekki er hægt að ætlast til að kennarar frumvinni t.d. allt námsefni um heimabyggð; þar er eðlilegt að sveitarfélagið, foreldrar og aðrir aðilar heima í héraði leggi einnig hönd á plóginn.

Svipaða grenndarnálgun má viðhafa á fleiri vegu til að létta nemendum róðurinn. Til dæmis er sjálfsagt að hagnýta sér tengslin við norrænu frændþjóðirnar, nýbúa á Íslandi sem koma víða að, ennfremur nýbyggðir Íslendinga erlendis fyrr og nú, einkum í Vesturheimi.

Allt þetta getur orðið þáttur í viðleitni skólans til að hjálpa nemendum að festa rætur á heimaslóð og byggja brú til fjarlægari heima.

1.6 Alþjóðleg vídd
Lítil þjóð þarf að horfa til margra átta og sækja á mörg mið. Íslenskir nemendur þurfa að hafa yfirsýn yfir allar heimsálfur og menningarheildir í fortíð og nútíð og sérstaklega þarf að huga að þeim svæðum og heildum sem tengjast þjóðinni mest. Þeim má skipta í þrjár deildir: Norðurlönd, Evrópu utan Norðurlanda og Norður-Ameríku.

Tengsl milli Íslands og Norður-Ameríku má rekja allt aftur til Vínlandsferða fyrir þúsund árum. Frá seinni hluta síðustu aldar hafa þau verið óslitin, fyrst vegna fólksflutninga, einkum til Kanada, og síðar með fjölþættum samskiptum á sviði viðskipta, varnarmála og menntunar. Í könnunum Þorbjörns Broddasonar á árabilinu 1968–97 (Þorbjörn Broddason 1996 og persónulegar upplýsingar), þar sem börn á aldrinum 10–15 ára voru spurð hvar þau vildu helst búa utan Íslands, reyndust Bandaríkin hafa álíka aðdráttarafl og Norðurlönd (1991 og 1997). Jukust vinsældir Bandaríkjanna sérstaklega á 8. og 9. áratugnum. Þessi áhugi kann að stafa að einhverju leyti af miklum bandarískum fjölmiðlaáhrifum en sú upplýsing, sem þannig berst, er býsna einhliða og þörf á traustari vitneskju og fjölbreyttari nálgun.

 

Til hvaða lands vildirðu flytja ef þú þyrftir að yfirgefa Ísland?

Svör 10–15 ára barna, skv. könnunum Þorbjörns Broddasonar (sjá ritaskrá).
 

Evrópuþjóðir eiga mikinn sameiginlegan menningararf og stjórnmál þeirra hafa fléttast saman í blíðu og stríðu í aldaraðir. Íslensk menning er óumdeilanlega grein af evrópskum meiði. Á síðustu árum hafa Evrópuþjóðir nálgast með skipulegum hætti og hefur sú þróun snert Íslendinga ekki síður en aðra og á eftir að gera í ríkari mæli enda hafa Íslendingar nýtt sér tækifæri, sem boðist hafa, bæði til náms og starfa. Um Evrópu er jafnan þörf á fræðslu, bæði um sameiginlegan menningararf, hugmyndir og stjórnmálasögu, einstök lönd, svæði, landshætti og ríkjaskipan í fortíð og nútíð.

Ísland hefur alla tíð verið tengdara Norðurlöndum en nokkru öðru svæði heimsins enda verið stjórnarfarslegur hluti þeirra lengst af og stendur þeim næst um tungu, menningu, stjórnarfar og alla samfélagsgerð og verðmætamat. Þrátt fyrir Evrópusamstarf og alþjóðavæðingu er fátt sem bendir til að grundvallarbreyting verði á þessu um nánustu framtíð. Íslendingar sækja mjög til Norðurlanda til náms og starfa og hefur svo verið undanfarna áratugi (sjá myndir) enda njótum við þar að jafnaði mestrar fyrirgreiðslu og velvildar. Samskipti atvinnustétta, stjórnsýslustofnana, ungmenna og margra fleiri eru geysifjölþætt. Þó að ensk tunga og ýmis viðmið séu nemendum töm – og nauðsynleg – vegna upplýsingatækni og fjölmiðlunar rista samskipti við enskumælandi heim tæpast eins djúpt og standa ekki á eins gömlum merg og hin norrænu. Auk þess eru meiri líkindi til að hægt sé að fylgja tengslum við Norðurlönd eftir með heimsóknum og öðrum persónulegum samskiptum. Kalla má Norðurlönd jaðarsvæði en þau geta líka verið – og hafa oft verið – eðlilegur og þægilegur stökkpallur fyrir Íslendinga „út í hinn stóra heim".
 

Íslendingar við nám erlendis (lánþegar LÍN).

Heimild: Hagstofa Íslands, eftir Lánasjóði íslenskra námsmanna.
 

Íslendingar búsettir erlendis 1910-1997.

Tímabilin eru ekki jöfn; síðustu þrjár súlurnar standa fyrir árin 1995, 1996 og 1997. Tölurnar yfir 1910-50 sýna fólk sem fætt er á Íslandi en býr í útlöndum, einkum Vestur-Íslendinga. Frá 1965 sýna súlurnar þá sem teljast íslenskir ríkisborgarar en búa erlendis.

Heimild: Hagstofa Íslands.
 

Nauðsynlegt er því að hinna norrænu tengsla gæti í námskrá og kennslu samfélagsgreina, meðal annars til þess að nemendur séu í stakk búnir að hagnýta sér þau. Nokkuð hefur skort á að þessu væri skipulega sinnt. Veruleg bragarbót hefur að vísu verið gerð varðandi Norðurlönd í landafræði grunnskóla og sumir skólar hafa sinnt „norrænu víddinni" með ýmsum hætti, m.a. með tölvusamskiptum og gagnkvæmum heimsóknum milli landa. Eyðurnar eru þó áberandi, t.d. í sögukennslu þar sem samhengi lands og þjóðar við norræna granna hefur gleymst eða horfið. Af sögulegum, menningarlegum og hagkvæmnisástæðum er æskilegt að norrænu tengslunum verði meiri gaumur gefinn, bæði í námskrá, námsgagnagerð og í kennslu.
 
1.7 Upplýsingasamfélag og hlutverk kennarans
Rafrænir miðlar eru verkfæri í upplýsingaferlinu og það er aftur mikilvægur þáttur samfélagsgreina. Öflun upplýsinga, úrvinnsla þeirra og miðlun, bæði sjálfstætt og í samstarfi, eru veigamiklir þættir í þessum greinaflokki og jafnframt henta samfélagsgreinar vel til að þjálfa leikni á þessu sviði með því að ljá miðlunum innihald.

Nýir upplýsingamiðlar hafa náð til samfélagsgreina. Samkvæmt könnun, sem gerð var á tölvunotkun í grunnskólum skólaárið 1996–97 (Jóhann Ásmundsson 1997), kom í ljós að alnetið var notað í 27% skólanna. Í 45% þessara skóla var það hagnýtt í samfélagsgreinum. Þær standa fremst að þessu leyti, með ensku í næsta sæti með 34,5% notkun. Kennsluforrit í samfélagsgreinum notuðu álíka margir en þar skutust íslenska og stærðfræði langt fram úr, að líkindum vegna þess að framboð á hentugum forritum var mest í þessum greinum.

Þegar er mikið magn upplýsinga til á tölvutæku formi og getur sumt af því nýst sem kennsluefni. Í vaxandi mæli er hægt að hagnýta eða útbúa efni með þessu formi og býður það upp á hraðari endurnýjun en tíðkast með kennslubækur. Kennarar hafa skipst á námsgögnum með þessum hætti. Hugsanlegt er að koma á einhvers konar ritstjórn fyrir „þekkingarneti" (verkefnabanka og samskiptatorgi) kringum samfélagsgreinaefni á svipaðan hátt og lagt er til í skýrslu forvinnuhóps á námssviði upplýsinga- og tæknimennta (bls. 12-14).

Upplýsingaöflun og samskipti með þessum hætti eiga eftir að stóraukast. Þetta setur kennarann í nokkurn vanda. Við nýja tæknimiðla eru börn og unglingar oft slyngari á vissum sviðum en fullorðnir, þar með taldir kennarar. Þetta er sjálfsagt að hagnýta en það dregur ekki úr hlutverki kennarans. Áfram er þörf kunnáttu, færni og reynslu við að greina, tengja, bera saman og meta. Kennarinn þarf að skoða hlutverk sitt þannig að hann sé ekki sá sem allt kann heldur hefur yfirsýn, setur hluti í samhengi og samræmir verkin.

Forsenda nýrra upplýsingamiðla er frumkvæði og sjálfstæði einstaklinganna. Þessir miðlar nýtast því best í verkefnavinnu og kennslu þar sem treyst er á frumkvæði og sjálfstæða vinnu nemandans. Þar geta þeir aukið nýrri vídd við menntunina.

 
1.8 Kennsluhættir, kennaramenntun og námsgögn

1.8.1 Kennsluaðferðir
Eins og áður er nefnt mótar kennslubókin skólastarf í ríkum mæli hér á landi og verður svo líklega um langa framtíð. Af þeim sökum varðar miklu að til sé úrval af vönduðu námsefni sem endurnýjað er með hæfilegu millibili. En kennsluaðferðir þurfa að sjálfsögðu að vera margs konar, hvort sem kennslubókin er í miðlægu hlutverki eða ekki. Sem dæmi má nefna:

Hér verður ein kennsluaðferð ekki tekin fram yfir aðrar meðan þær þjóna markmiðum samfélagsgreina. Þó má færa rök að því að fjölbreytt vinnubrögð þjóni þessum greinaflokki best og að samræða, könnun og ritun séu aðalsmerki hans. Hér gildir að sníða sér stakk eftir vexti og velja kennsluaðferðir af kostgæfni. Í því skyni er vert að spyrja þessara spurninga: Mörgum kennurum þykir krafan um „yfirferð" yfir ákveðið námsefni vera eins og svipa og hún leyfi ekki „útúrdúra". Útúrdúrana (sjálfstæða vinnu, hópverkefni, rökræður) þarf því að skilgreina og ef þeir eru metnir mikilvægir samkvæmt markmiðssetningu samfélagsgreinanna þarf að ætla þessari starfsemi tíma og taka tillit til hennar í námsmati.

Kennarar og fræðsluyfirvöld víða um heim glíma við þennan vanda og leita jafnvægis til að ná fjölþættum markmiðum. Sem dæmi má nefna að í skosku námskránni er lögð áhersla á mikilvægi vel skipulagðra vettvangsathugana. Danir hafa talið verkefnavinnu svo mikilvæga í skólastarfi að þeir hafa bundið hana í lög í 9. og 10. bekk grunnskólans þar sem allar kennslugreinar sameinast um verkefni með skipulegum hætti. Í áliti íslenska menntamálaráðuneytisins er tekið undir þau sjónarmið „að í námskrá verði sett fram sú krafa að samræmi sé milli markmiða og kennsluhátta í skólum, t.d. með aukinni verkefnavinnu og hagnýtum úrlausnarefnum."

1.8.2 Kennsludæmi
Til að hvetja kennara í leit sinni að viðeigandi kennsluháttum hverju sinni er lagt til að í námskrá verði lýst nokkrum dæmum um mismunandi kennsluaðferðir og vísað til rita um þetta efni. Kennarar, á mismunandi skólastigum, á ýmsum sviðum samfélagsgreina og við ólíkar aðstæður, verði beðnir að lýsa ákveðnum námsþætti í kennslu. Þar komi meðal annars fram:

 1.8.3  Kennaramenntun
Í þessari markmiðaskýrslu eru gerðar auknar kröfur til kennara um að sinna fjölþættum markmiðum samfélagsgreinanna. Í grunnskólum er hins vegar undir hælinn lagt hvort kennarar, sem sinna þessum greinum, hafa til þess sérmenntun. Ennfremur skortir þá oft þjálfun og leiðbeiningu til að beita skapandi og fjölþættum kennsluaðferðum. Af þessum ástæðum halda þeir sig oft á tíðum fastar við kennslubókina en ella og treysta sér síður til að sleppa landfestum. Margir samverkandi þættir þurfa að koma til svo að úrbætur verði, en þessa má nefna til sögunnar:
  1. Greinargóð aðalnámskrá sem síðan er útfærð með sjálfstæðum og skipulegum hætti í einstökum skólum.
  2. Fjölbreytt og vönduð námsgögn.
  3. Hentugt húsnæði sem veitir sveigjanleika, upplýsingamiðlar (bókasafn, tölvur o.s.frv.), hæfileg bekkja/hópastærð.
  4. Aðstoð við kennara í formi faglegrar ráðgjafar, gæðamats eða á annan hátt.
  5. Öflug kennaramenntun, bæði grunnmenntun, endurmenntun og símenntun.
Allt eru þetta mikilvægir þættir sem nauðsynlegt er að vinna að, en að sjálfsögðu er hægt að ná árangri þó að þeir séu ekki allir fyrir hendi samtímis. Kennaramenntunin er lykilþáttur til að auka faglegt öryggi kennara í samfélagsgreinum. Hrinda þarf í framkvæmd áformum um að lengja B.ed.-námið um eitt ár. Ennfremur þarf að breikka og dýpka símenntunina með því meðal annars að Verulegt átak þarf að gera í námsgagnagerð í kjölfar nýrra námskráa. Nokkur sjónarmið er rétt að hafa þar í huga er snerta samfélagsgreinar: 1.8.4 Námsmat
Þess þarf jafnan að gæta að námsmat sé í samræmi við markmiðssetningu. Þar sem erfitt getur reynst að prófa skriflega og samtímis eftir sumum markmiðum, t.d. um munnlega færni, verður að meta slíka þætti með öðrum hætti og taka tillit til þeirra í einkunnagjöf. Þetta gildir meðal annars við samræmt próf sem áætlað er í samfélagsgreinum í 10. bekk.
 
Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1998. Þorsteinn Helgason thelga@ismennt.is