Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða

2 MEGINMARKMIÐ
 
2.1 Yfirlit
Markmið samfélagsgreina er að gera nemandann læsan á umhverfi, samfélag og menningu, gera honum auðveldara að fóta sig og beita sér í mannlegu félagi og að temja honum ákveðin gildi sem samkomulag er um í samfélaginu. Heildarmarkmiðum í skólastarfi er oft skipt niður eftir því hvort þau snúa fremur að þekkingu, færni eða viðhorfum. Hér er hafður sami háttur á um samfélagsgreinar.
 
 Þekkingar- og skilningsmarkmið  Nemandinn kunni skil á innviðum samfélags síns og umhverfis, frá nánasta sviði til hinna fjarlægari: 
 • finni og skilji samspil einstaklinga í ýmiss konar myndum í fortíð og nútíð (fjölskyldu, félagahópi, vinnustað, þjóð o.s.frv.), 
 • hafi þekkingu á gangverki atvinnulífs og stjórnmála, 
 • kunni skil á sögu lands og heims, greini tímabil hennar og framvindu, 
 • geri sér grein fyrir gagnvirkum áhrifum manns og umhverfis, 
 • þekki nokkrar meginhugmyndir sem mótað hafa lífsviðhorf manna og skilning á umhverfi, samfélagi og sögu.
 Færni- og leikni- markmið  Nemandinn… 
 • geti tileinkað sér ýmiss konar texta og gögn sem fjalla um mannlegt samfélag, 
 • geti aflað sér þekkingar um samfélag og sögu með æ sjálfstæðari og gagnrýnni hætti, 
 • geti sett þekkingu sína fram á skiljanlegan, markvissan og fjölbreyttan hátt. 
 • geti greint sundur, tekið saman, beitt hugtökum, leitað orsaka og greint afleiðingar, 
 • geti mótað sér skoðun og tekið rökstudda ákvarðanir.
Viðhorfa- og gildismarkmið  Nemandinn 
 • finni rætur í umhverfi sínu, samfélagi, menningu og sögu, 
 • tileinki sér grundvallarreglur í samskiptum manna, 
 • skynji og njóti verðmæta sem skapast hafa í mannlegu samfélagi, 
 • beri virðingu fyrir gildi skipulegrar rökræðu, 
 • öðlist víðsýni, umburðarlyndi og réttsýni gagnvart kjörum, umhverfi og viðhorfum annarra. 
 
Nokkurt jafnvægi þarf að ríkja milli þessara markmiðaflokka enda tengjast þeir á ýmsa vegu. Viðhorf byggjast meðal annars á þekkingu þó að tilfinningar og hefðir komi einnig til. Leikni fæst ekki einungis með æfingu heldur krefst hún þekkingar á vinnubrögðum og ýmsum staðreyndum. Viðhorf hafa síðan hvetjandi eða letjandi áhrif á öflun þekkingar og leikni.
 
2.2 Þekkingar- og skilningsmarkmið
Á fyrri tímum var áhersla lögð á að nemendur kynnu ákveðið magn þekkingaratriða og helst utan að. Forsenda þess var annars vegar að þekkingin var takmörkuð, a.m.k. sú sem skráð var og tiltæk, og hins vegar að samkomulag (eða fyrirmæli) var um það hvað mikilvægt mætti teljast. Með vaxandi hraða hefur þessi mynd verið að breytast. Þekking hefur vaxið svo mjög að enginn hefur yfirsýn yfir hana lengur og deilt er um hvað sé nauðsynlegur þekkingarforði. Engu að síður verður skólinn að velja og benda á ákveðna þekkingarþætti sem séu nauðsynlegri en aðrir. Jafnframt hlýtur hann að veita nemandanum svigrúm til að velja sér þekkingaratriði.

Á sviði samfélagsfræða má telja eftirfarandi þekkingaratriði sem nauðsynlegt er fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi í aldarlok að kunna skil á í þeim greinum sem heyra til almennu námi (grunnskóla og kjarna í framhaldsskóla).

2.2.1  Félagsgreinar

2.2.2 Landafræði 2.2.3 Saga
 
2.3 Færnimarkmið
Til að menn geti ratað um og tekið virkan þátt í nútímasamfélagi þurfa þeir að þekkja, skilja og hagnýta sér táknkerfi samfélagsfræða. Hugtök eru smíðuð og notuð yfir fyrirbæri samfélags, umhverfis og sögu. Töflur, línurit og kort eru meðal þeirra tækja sem notuð eru til að skoða heildir og líkja eftir þáttum í veruleikanum. Í samfélagi nútímans þurfa allir að leita upplýsinga, vinsa úr magni þeirra og taka ákvarðanir um þjóðfélagslega kosti. Til alls þessa þarf þekkingu og þjálfun sem gefur leikni og færni.

Færniþáttum samfélagsgreina má til hægðarauka skipta í nokkra þætti:

Öllum þessum þáttum er hægt að sinna innan samfélagsgreina. Til þess þarf að velja kennsluaðferðir sem stuðla að slíkri færni (sjá kaflann 1.7 um kennsluhætti og ritaskrá í viðauka). Ef rétt er á haldið leiðir færnin jafnframt til aukinnar þekkingar og auðveldar mönnum að viðhalda og endurnýja þekkingu með virkum og sjálfstæðum hætti. Færnina þarf að byggja upp markvisst og stig af stigi gegnum alla skólagönguna. Margir færnisþættir eru sameiginlegir með öðrum námsgreinum og er árangursríkast að samráð sé haft milli þeirra. Hér eru taldir allmargir færniþættir sem eiga við á mismunandi stigum kennslu eftir þroska, þekkingu og framvindu náms. Upptalningin er ítarlegri en um aðrar gerðir markmiða enda hefur skort að þessum markmiðum væri nægilega sinnt í skólastarfi. Ljóst er að sum markmiðanna gera ekki aðeins ráð fyrir færni í þröngri merkingu þess orðs heldur fleiri þáttum svo sem sköpun.

 
2.3.4 Vísindalæsi

2.3.5 Upplýsingaöflun 2.3.6 Miðlun  2.3.6  Rökfærsla, greining 2.3.7 Samvinna, sjálfstæði 2.3.8 Innsæi og sköpun
2.4  Viðhorfamarkmið

Í nútímasamfélagi er veigamiklum hluta þekkingar miðlað milli kynslóða í skólum. Þar tileinka nemendur sér einnig færni og vinnubrögð sem verða veganesti þeirra. En um leið móta skólarnir einnig viðhorf nemenda ásamt öðrum aðilum í samfélaginu. Í þessu sambandi er stundum talað um að skólinn hafi ekki aðeins hina opinberu, rituðu námskrá heldur einnig „dulda námskrá" þar sem á óbeinan hátt komi fram hvaða viðhorf og hegðun er talin æskileg og óæskileg.

Í samfélagsgreinunum eru lífsviðhorf iðulega og beinlínis á dagskrá. Samskipti kynjanna eru skoðuð og skilgreind í félagsfræði, verndun og nýting umhverfisins eru vegin og metin í landafræði og í sögutímum er á dagskrá umdeild samskipti stétta, þjóða og kynþátta – svo að dæmi séu tekin. Yfirleitt er fjallað um slík málefni fyrst og fremst út frá sjónarmiði þekkingar í samfélagsgreinakennslu enda er ekki talið æskilegt að kennarar stundi innrætingu eða komi nemendum í uppnám. Fáir trúa því að vísu með Sókratesi lengur, að þekkingin ein dugi til að menn breyti rétt, vegna þess að maðurinn er ekki einungis skynsemisvera. Þekkingin hefur þó sín áhrif ásamt ýmsum öðrum þáttum skólasamfélagsins: kennsluháttum, félagahópi, viðmóti kennara og almennum reglum skólans. Fyrir því er æskilegt að skólinn geri sér grein fyrir viðhorfamótun sinni og beini henni í þá farvegi sem samkomulag er um í þjóðfélaginu og æskilegir eru taldir.

Í kennslu samfélagsgreina eru þetta helstu viðhorfamarkmið:

 
Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1998. Þorsteinn Helgason thelga@ismennt.is