Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða
 Inngangur
 
Um skipun forvinnuhópsins og faglegs umsjónarmanns

Forvinnuhópurinn vegna endurskoðunar aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla, á námssviði samfélagsfræði og trúarbragða, var skipaður í febrúar og mars 1997 með erindisbréfi frá menntamálaráðherra og eftir tilnefningum menntamálaráðuneytisins og samtaka kennara. Nefndarmenn voru eftirfarandi:

Anna Agnarsdóttir, dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, tilnefnd af ráðherra (formaður),

Auður Pálsdóttir, landfræðingur og kennari við Árbæjarskóla, tilnefnd af Kennarasambandi Íslands og Félagi landfræðinga,

Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekingur og forstöðumaður Kennaradeildar Háskólans á Akureyri, tilnefndur af ráðherra,

Halla Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Fræðsludeild kirkjunnar, tilnefnd af Þjóðkirkjunni,

Pétur Pétursson, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, tilnefndur af ráðherra,

Sigurður Ragnarsson, sagnfræðingur og kennari við Menntaskólann við Sund, tilnefndur af Félagi sögukennara í framhaldsskólum f. h. Hins íslenska kennarafélags,

Þórunn Friðriksdóttir, félagsfræðingur og kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja tilnefnd af Félagi félagsfræðikennara í framhaldsskólum f. h. Hins íslenska kennarafélags.
 

Faglegur umsjónarmaður var ráðinn Baldur Ingvi Jóhannsson, heimspekingur, og hóf hann störf í byrjun september 1996 við undirbúning endurskoðunar aðalnámskrárinnar og starfaði framan af verkinu með forvinnuhópnum. Meðal verkefna hans var að undirbúa starfið í samvinnu við verkefnisstjórn og afla gagna til notkunar í forvinnuhópnum. Baldur I. Jóhannsson lét af störfum sem faglegur umsjónarmaður sumarið 1997.

Áður en unnt var að ljúka starfinu urðu miklar breytingar á nefndinni sem hér segir:

Pétur Pétursson sagði af sér um sumarið 1997 vegna anna,

Halla Jónsdóttir hvarf úr nefndinni sama sumar til að starfa sjálfstætt að endurskoðun námskrár á námssviði trúarbragða sem var þar með aðskilið frá samfélagsfræði-greinunum,

Guðmundur Heiðar Frímannson lét af störfum um haustið til að fara utan í rannsóknarleyfi,

Þórunn Friðriksdóttir lét af störfum um haustið til að fara utan í námsleyfi.

Í stað þeirra voru skipaðir í september:

Garðar Gíslason, félagsfræðingur og kennari við Menntaskólann í Kópavogi, tilnefndur af Félagi félagsfræðikennara í framhaldsskólum f. h. Hins íslenska kennarafélags,

Gunnar Harðarson, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, tilnefndur af ráðherra,

Helgi Gunnlaugsson, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, tilnefndur af ráðherra.

Í október 1997 var Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur og kennari við Menntaskólann í Kópavogi, ráðinn sem faglegur umsjónarmaður forvinnuhópsins.

 
Um starf og vinnulag hópsins

Samkvæmt erindisbréfinu var hlutverk forvinnuhópsins að vinna að tillögum um faglega stefnumótun menntamálaráðuneytisins á viðkomandi námssviði fyrir grunn- og framhaldsskóla, gera tillögur að meginmarkmiðum námsgreina innan námssviðsins og meginskiptingu námsþátta í grunnskóla og á námsbrautum framhaldsskóla.
Nánar tiltekið er hópnum falið að:

  1. Rökstyðja þörf og tilgang námssviðs og námsgreina innan þess.
  2. Setja fram tillögur um lokamarkmið námsins
    1. á grunnskólastigi
    2. á framhaldsskólastigi
3) Gera tillögu, ef ástæða þykir til, um breytingar á skipulagi/ uppbyggingu námsins."

Nefndin var fyrst kölluð saman þann 1. apríl 1997. Var faglegur umsjónarmaður þá búinn að vinna verulegt undirbúningsstarf með því að afla margvíslegra gagna sem hann bjó í hendur nefndarinnar (sbr. meðfylgjandi ritaskrá).

Frá 1. apríl og fram í júní var að jafnaði fundað vikulega. Vegna þess hve starfið byrjaði seint voru sumir nefndarmenn búnir að ákveða sumarleyfi svo að ljóst var að gera yrði hlé á störfum nefndarinnar um sumarið. Einn fundur var þó haldinn í júlí og var fyrirhugað að hefja störf aftur í lok ágúst. Nokkur bið varð á tilnefningum nýrra nefndarmanna og ráðningu faglegs umsjónarmanns og kom forvinnuhópurinn ekki saman á ný fyrr en 16. október 1997. Frá þeim tíma hefur nefndin, yfirleitt alltaf fullskipuð, starfað af fullum krafti með faglegum umsjónarmanni. Fundir hafa oftast verið haldnir vikulega og oftar síðustu mánuði. Bókaðir nefndarfundir eru 24 talsins. Síðasti fundur forvinnuhópsins var haldinn 2. mars 1998. Rétt er að taka fram að verulegur hluti vinnunnar fór fram utan funda. Sérfræðingar einstakra námsgreina innan forvinnuhópsins áttu vinnufundi saman og með faglegum umsjónarmanni og nefndarmenn áttu einnig marga fundi með ýmsum aðilum sem málið varðar. Tillögur nefndarinnar hafa verið kynntar á fundum fagkennara og nýverið var haldinn fundur á Akureyri með kennurum á Norðurlandi svo að dæmi sé nefnt. Auk þess má nefna að faglegur umsjónarmaður hefur heimsótt skóla til að ræða við kennara.

Nokkur fagkennarafélög, sem falla undir svið samfélagsgreina í grunn- og framhaldsskóla, eiga ekki fulltrúa í nefndinni. Því var brugðið á það ráð að bjóða fulltrúum þessara félaga að koma á fund nefndarinnar og kynna hugmyndir sínar og tillögur. Sigurjón Valdimarsson og Helgi Baldursson mættu f. h. Samtaka kennara í viðskipta- og hagfræðigreinum, Elín Vilhelmsdóttir f. h. Félags sálfræði- og uppeldisfræðikennara og Guðrún Hólmgeirsdóttir f. h. Félags heimspekikennara. Formaður leitaði álits sérfræðinga í þessum greinum á háskólastigi. Álitsgerðir á sviði hagfræði- og viðskiptagreina og sálfræði- og uppeldisgreina fylgja með skýrslunni sem viðaukar. Auk þess má nefna að séra Sigurði Pálssyni, fyrrum námsstjóra á sviðum kristinfræða og trúarbragða, var boðið á fund á meðan trúarbragðasagan var enn á verksviði nefndarinnar. Að lokum má nefna að Lilja M. Jónsdóttir, æfingakennari við Háteigsskóla (Æfingaskólann), las mikinn hluta skýrslunnar yfir og kom með gagnlegar ábendingar.

Við samningu þessarar skýrslu má í aðalatriðum segja að sérfræðingar hverrar námsgreinar lögðu fram drög að köflum um sitt sérsvið en Þorsteinn Helgason, faglegur umsjónarmaður forvinnuhópsins, lagði fram drög að almennum köflum skýrslunnar. Drögin voru síðan rækilega rædd af öllum nefndarmönnum og ýmsar hugmyndir um breytingar, sem komu fram í þeirri umræðu, voru síðan felldar inn í skýrsluna. Starf hópsins var vandasamt að því leyti að viðfangsefnið tók til margra greina. Það segir sig þess vegna sjálft að mörg álitamál komu upp í starfi nefndarinnar sem taka þurfti afstöðu til svo að ná mætti heildstæðri niðurstöðu. Því vilja nefndarmenn árétta að hugmyndir og tillögur nefndarinnar mynda samstæða heild þar sem hver þáttur tekur mið af öðrum og afstaða manna til einstakra efnisatriða mótast af stöðu þeirra innan heildarinnar.

Forvinnuhópurinn vill leggja áherslu á:

Nefndin hefur ekki talið það vera í verkahring sínum að koma með margar tillögur að valáföngum í framhaldsskóla ekki síst vegna þess að þeir hljóta að mótast af aðstæðum í hverjum skóla fyrir sig og sérfræðiþekkingu og áhugasviðum kennara.

Þó að nefndin hafi verið skipuð mönnum úr mismunandi fræðigreinum hefur starfsandinn verið góður og jákvætt viðhorf ríkjandi. Nefndarmenn vilja þakka Þorsteini Helgasyni frábært starf í þágu nefndarinnar.

Fullkomið samkomulag er um þær tillögur sem kynntar eru í þessari skýrslu.

 
Reykjavík, 2. mars 1998

 

                        ________________                                                       ________________

                           Anna Agnarsdóttir                                                             Auður Pálsdóttir

 

                        ________________                                                     _________________

                            Garðar Gíslason                                                         Gunnar Harðarson

 

                          ________________                                                     _________________

                            Helgi Gunnlaugsson                                                        Sigurður Ragnarsson

 

         ________________
   Þorsteinn Helgason
    faglegur umsjónarmaður
 
Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða


Menntamálaráðuneytið 1998. Þorsteinn Helgason thelga@ismennt.is