Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 
1. Inngangur
 
Við endurskoðun aðalnámskráa er við hæfi að spyrja ýmissa mikilvægra spurninga og óska eftir skýrum og rökstuddum svörum. Hvert er hlutverk greinarinnar í skólakerfinu? Hver eiga meginmarkmið skólaíþrótta að vera? Hver er þörfin fyrir kennslu greinarinnar í dag? Þessum spurningum ásamt ýmsum öðrum verður m.a. reynt að svara í þessari skýrslu. Markmið skólaíþrótta taka svo mið af þeim rökum sem sett eru fram.

Breytingar á lífsmáta þjóðarinnar undanfarna áratugi hafa leitt til þess að mörg störf í dag krefjast minni líkamlegrar áreynslu. Tæknivæðing leggur hér sitt að mörkum. Sá áróður sem haldið hefur verið uppi í skólum, hjá íþróttahreyfingunni og í heilbrigðiskerfinu um mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna og gildi íþrótta út frá menningarlegu sjónarmiði, er að bera árangur. Hreyfing og íþróttir eru snar þáttur í lífi fjölda fólks, þar nærist andinn, líkaminn styrkist og vellíðan eykst. Til að ná slíkum markmiðum, þarf að efla skólaíþróttir. Ekki aðeins með það í huga að nemendur fái útrás fyrir hreyfiþörf sína heldur einnig og ekki síst til fræðslu og viðhorfamótunar.

Í þessari skýrslu er komið inn á þau markmið sem forvinnuhópur telur mikilvægt að stefna að og hvaða leiðir hægt er að fara til að komast á leiðarenda.

Í inngangi er yfirlit yfir inntak í köflum þessarar skýrslu. Þá er einnig fjallað um viðmiðunarstundir í skólaíþróttum og rök færð fyrir tilverurétti greinarinnar í íslenska skóalkerfinu.

Í 2. kafla er skírskotað í stefnu verkefnisstjórnar menntamálaráðuneytis og hún skoðuð með hliðsjón af nýjum lögum um grunnskóla, ásamt tengingu við skólaíþróttir. Kaflanum lýkur á tengingu íþróttakennslu í skólum við stefnu Evrópuráðsins í íþróttum.

Í 3. kafla er umfjöllun um meginmarkmið skólaíþrótta, m.a. helstu nýbreytni frá fyrri námskrám.

Í 4. og 5. kafla eru markmiðin aðlöguð grunnskólanum annars vegar og framhaldsskólanum hins vegar. Köflunum er skipt í 6 hluta, þar sem sérstaklega er fjallað um hvern þroskaþátt og markmið honum tengd. Hverjum kaflahluta lýkur síðan á kennslufræðilegri nálgun og tillögum að námsmati.

Í 6. kafla er fjallað um inntak náms og kennslu. Komið er inn á námsþætti og viðfangsefni greinarinnar og dæmi tekin um útfærslu. Í þessum kafla er nokkrum námsþáttum gerð sérstök skil, en þeir eru sundkennsla, útivist, danskennsla, íslenska glíman og kynning á íþróttagreinum. Þetta er gert m.t.t. sérstöðu þessara þátta sem nánar verður vikið að.

Í 7. kafla er fjallað um sérkennsluþátt skólaíþrótta, þar sem áhersla er lögð á kennslu við hæfi hvers og eins.

Í 8. kafla er fjallað um námsmat en því er einnig gerð skil í 4. og 5. kafla.

Í 9. kafla er fjallað um aðbúnað og öryggisatriði í íþróttakennslu. Komið inn á aðbúnað í íþróttahúsum og sundstöðum (kennslulaugum). Í kaflanum er einnig komið inn á öryggisatriði í íþróttakennslu, en mikil vinna fer nú fram á vegum Íþróttakennarafélgs Íslands um þennan þátt vegna dóma sem nýlega hafa fallið vegna íþróttakennslu. Vinnu þessari er ekki enn lokið og kaflinn því ekki tæmandi.

Í 10. kafla sem jafnframt er lokakafli skýrslunnar er samantekt á helstu markmiðum og leiðum á grunn- og framhaldsskólastigi, auk þess sem vikið er að helstu nýmælum sem forvinnuhópur leggur til í þessari skýrslu.

 

1.1 Viðmiðunarstundir

Í riti menntamálaráðuneytis, ³Menning - menntun, forsenda framtíðar," sem gefið var út í febrúar 1996 segir um íþrótta- og æskulýðsmál á bls. 16:

ãÍ kjölfar nýrra laga um grunnskóla og breytinga á skólahaldi með einsetnum skóla og heilsdagsskóla í mörgum sveitarfélögum er nauðsynlegt að skoða stöðu íþróttakennslu í skólum. Með lengri skóladegi ber að athuga hvort ekki sé unnt að auka íþróttakennslu."
Þrátt fyrir að það sé ekki beint verksvið forvinnuhóps að fjalla um fjölda kennslustunda í íþróttum og skiptingu kennslustunda milli námsþátta, telur forvinnuhópur eðlilegt að setja fram æskilegan kennslustundafjölda fyrir greinina. Byggist það á þeirri forsendu að meginmarkmið skólaíþrótta og kennslustundafjöldi greinarinnar sé órjúfanleg eining og þurfi að skoðast sameiginlega. Viðmiðunarstundir í skólaíþróttum er í raun forsenda fyrir því að hægt sé að vinna nákvæma markmiðasetningu. Tillaga forvinnuhópsins er eftirfarandi:
 1. Fjölgun um eina kennslustund í 1. - 4. bekk grunnskóla, þ.e.a.s. að lágmarks kennslustundafjöldi verði 4 stundir á viku.
 2. Fjölgun um eina kennslustund í 5. - 7. bekk, þar sem dans, rytmik og leikræn tjáning fái aukið vægi innan skólaíþrótta.
 3. Fjölgun um eina kennslustund í 8. - 10. bekk, þar sem dans, rytmik, leikræn tjáning ásamt útivist og almennri heilsurækt í formi verklegra og fræðilegra kennslustunda fái aukið vægi. Á unglingastigi þarf að skoða þessa þætti í formi valgreina.
 4. Á þeim dögum sem eigi eru iðkaðar skólaíþróttir í grunnskóla, skal bjóða nemendum upp á markvissa hreyfingu, þar sem stefnt er að eftirfarandi markmiði: ³Daglegar skólaíþróttir í grunnskóla."
 5. Sundnám í grunnskóla skal skoðast sem hluti af íþróttakennslu skóla og fellur undir áðurnefndan tímafjölda, en þó með þeim skilyrðum, að ákveðnum lágmarkstíma sé varið til sundkennslu í skólum (sjá kafla 6.2 um sundkennslu). Sundnám skal hefjast í 1. bekk.
 6. Kennslustundafjöldi í framhaldsskóla verði 3 kennslustundir á viku hjá öllum nemendum á hverri önn/ hverju ári.
Rökstuðningur:

Íþróttakennslan býr við sérstöðu að því leyti að nemendur þurfa að hafa fataskipti og fara í sturtu eftir kennslu. Þar sem þessi atriði fara nær undantekningarlaust fram innan kennslutíma nær íþróttakennarinn ekki fullum tíma til kennslu eins og staðan er í dag. Íþróttakennarar hafa átt erfitt með að sinna þeim markmiðum sem námskrá gerir kröfur um og svo mun verða áfram, verði ekki um breytingar á viðmiðunarstundum að ræða. Hér gildir það sama um grunn- eða framhaldsskóla. Annað sem vert er að benda á er að íþróttamannvirki eru oft staðsett fjarri skólum og því fer ákveðinn tími í ferðir á milli staða sem dregst frá kennslu.

 
1.2 Gildi íþrótta og rökstuðningur

Það má glöggt sjá að ofangreindar tillögur fela í sér fjölgun kennslustunda í íþróttum í grunn- og framhaldsskólum frá því sem verið hefur. Forvinnuhópurinn styður kröfur sínar með eftirfarandi greinargerð.

 1. Á undanförnum árum hefur það komið betur og betur í ljós að íþrótta- og hreyfinámskennsla hefur ekki aðeins jákvæð áhrif á líkams- og hreyfiþroska einstaklinga, heldur njóta aðrir þroskaþættir góðs af því námi sem stundað er í greininni.
 2. Greinin getur haft veruleg áhrif á félagsþroska einstaklinga, þar sem mismunandi leikjum og æfingum er beitt markvisst til að þroska þessa þætti í fari nemenda. Þessu til stuðnings má nefna að tilraunir í skólum hérlendis og erlendis með danskennslu hafa skilað góðum árangri.
 3. Eitt mikilvægasta atriði sem hver skóli getur veitt nemendum sínum er að styrkja sjálfsmynd einstaklingsins. Í íþróttakennslu er upplagt tækifæri til að vinna með þetta mikilvæga atriði við mótum heilsteypts einstaklings. Að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, hafa stjórn á hreyfingum sínum og fá útrás fyrir hreyfiþörf sína eru markmið í sjálfu sér. Með góðri aðferðafræði er hægt að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust hvers einstaklings. Leikurinn, fjölbreyttar æfingar og ýmsir námsþættir koma hér að góðum notum.
 4. Markvissar skólaíþróttir geta ráðið miklu um heilbrigði íslenskrar þjóðar. Það er því ekki eingöngu hagur fyrir hvern einstakling að fá gott og markvisst líkamsuppeldi, heldur einnig fyrir íslenska ríkið. Markvissar skólaíþróttir þar sem heilbrigði og hollar lífsvenjur eru hafðar að leiðarljósi, geta minnkað útgjöld til heilbrigðismála í náinni framtíð. Ingibjörg Pálmadóttir, hjúkrunarfræðingur og núverandi heilbrigðisráðherra sagði m.a. eftirfarandi í greinargerð árið 1992, þar sem fjallað var um mikilvægi íþrótta og trimms og þau jákvæðu áhrif sem slík starfsemi hefur á líkamann:
  1. ³Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að með auknum rannsóknum er æ betur að koma í ljós að íþróttir og trimm auka þol og heilbrigði líkamans. Svo mikil og góð eru áhrifin að ef til væri lyf sem hefði sömu áhrif, mundu læknar ávísa grimmt á það og ríkið borga stórar upphæðir í lyfjakostnað. Sem dæmi um áhrifin má nefna: Lækkar blóðfitu og blóðsykur. Lækkar of háan blóðþrýsting. Eykur slagkraft hjartans. Hægir á of hröðum hjartslætti. Víkkar æðar og eykur blóðrás. Dregur úr hrörnun. Eflir krabbameinsvarnir líkamans. Auðveldar meltun og þvagmyndun. Minnkar offitu. Dregur úr streitu og þunglyndi. Styrkir vöðva og dregur úr kölkun beina."
 5. Árið 1992 fór fram víðtæk rannsókn á gildi íþrótta fyrir íslensk ungmenni á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis og menntamála. Niðurstöður þessara rannsókna sem birtar voru árið 1994, benda ótvírætt á jákvætt gildi íþrótta. Gott dæmi um forvarnargildi íþrótta má nefna tengslin við reykingar og aukna íþróttaástundun á viku. Sjá nánar mynd hér að neðan.
Mynd 1. Rannsóknin ³Ungt fólk "92, 10. bekkur grunnskóla.

Myndin sýnir niðurstöður könnunar ³Ungt fólk "92, þar sem fram kemur að hlutfall þeirra sem reykja daglega lækkar með aukinni íþróttaástundun.

 1. Þrátt fyrir að kennslunstundum verði fjölgað, telur forvinnuhópur að þörfum barna og unglinga fyrir íþróttir og líkams- og heilsurækt verði ekki fullnægt. Nauðsynlegt er að stefna á daglega skólaíþróttakennslu, þar sem boðið er upp á markvissa hreyfingu fyrir utan hefðbundna íþróttatíma skóla. Eftirfarandi leiðir eru mögulegar:
 
Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

Höfundarréttur 1998 Menntamálaráðuneytið.