Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 
2.  Tengsl skólaíþrótta við 
     lög og stefnur
Í þessum kafla er annars vegar tenging skólaíþrótta við stefnu verkefnisstjórnar menntamálaráðuneytis og hins vegar við lög um grunn- og framhaldsskóla og stefnu Evrópuráðs í málefnum íþrótta.

 

2.1  Stefna verkefnastjórnar menntamálaráðuneytis 
       og tengsl við skólaíþróttir
Í fyrri hluta 2. kafla er annars vegar fjallað um skýrslu verkefnisstjórnar endurskoðunar aðalnámskráa og þeim áherslum sem menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir í endurskoðun á námskrám fyrir grunn- og framhaldsskóla og hins vegar áherslum forvinnuhóps skólaíþrótta í tengslum við þessi atriði. Í formála að skýrslu verkefnisstjórnar segir m.a.:
„Lög setja skólastarfi ytri ramma en námskrá tilgreinir hvernig stjórnvöld á hverjum tíma telja að markmiðum skólalöggjafar sé best náð. Á tímum örra breytinga í tækni, vísindum og atvinnumálum er brýnt að yfirvöld menntamála bregðist við á markvissan hátt með reglulegri endurskoðun aðalnámskráa. Stjórnvöldum ber að forgangsraða í menntamálum sem og á öðrum sviðum. Áherslur í skólastarfi eru lagðar með vali á námsgreinum sem kenndar eru í skólum, sérstökum námsþáttum og þeim tíma sem viðkomandi grein fær í viðmiðunarstundarskrá.

Aðalnámskrár eru svar samfélagsins við því hvernig nemendur verði best búnir til þátttöku í tæknivæddu lýðræðisþjóðfélagi nútímans. Í aðalnámskrám eru meginmarkmið skólalöggjafarinnar útfærð á skýran hátt í formi markmiða og hæfniskrafa. Aðalnámskrár, sem menntamálaráðherra setur, eru því meginviðmiðun skólastarfs í grunn- og framhaldsskóla og eru ígildi reglugerða. Í aðalnámskrám er mælt fyrir um starfshætti skóla og námsmat, þar með talin próf og vitnisburð. Þar koma fram hvaða kröfur nemandi þarf að uppfylla til þess að hann teljist hafa lokið einstökum áföngum náms með fullnægjandi árangri og lágmarkskröfur til þess að standast tiltekin lokapróf.

Til að meta þörfina fyrir endurskoðun á námskrám þarf að taka mið af reynslu af gildandi námskrá, utanaðkomandi breytingum og námskrám þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við. Engin þjóð getur litið fram hjá áherslum annarra þjóða í skólamálum. Aðalnámskrár beggja skólastiga hafa ekki verið endurskoðaðar um alllangt skeið. Síðasta heildarendurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla lauk árið 1989 en á aðalnámskrá framhaldsskóla árið 1990.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum hinn 26. júlí sl. skipulag og verkáætlun menntamálaráðherra um endurskoðun aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla. Í menntamálaráðuneytinu hefur undirbúningur að endurskoðun staðið yfir frá því í byrjun maí síðastliðinn og verkefnið nú komið á fullan skrið."

 

2.1.1 Áhersla á íslensku, sögu og þjóðmenningu

Í skýrslu verkefnisstjórnar er að finna eftirfarandi áherslur á íslensku, sögu og þjóðmenningu:
„Þjóðlegir námsþættir eins og móðurmálið, þjóðmenning og saga lands og þjóðar eiga að skipa veglegan sess í námskránni. Forsenda þess að þjóðmenning nái að dafna í straumi sífellt sterkari erlendra áhrifa er lifandi samband þjóðar við tungu sína, menningu og sögu. Ráðuneytið leggur áherslu á að mörkuð verði skýr stefna í kennslu á þessum sviðum og að þessi viðfangsefni fái aukið rými í námskrám bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Jafnframt leggur ráðuneytið á það áherslu að samhliða kennslu um þessi mál verði börnum og unglingum skapaðar forsendur til að njóta lista í tengslum við nám sitt."
 

Tengsl við skólaíþróttir

Í gegnum aldirnar hafa íþróttir tengst sögu okkar og þjóðmenningu. Þær hafa fylgt Íslendingum frá upphafi byggðar. Enginn gat talist hafa hlotið gott uppeldi nema að vera liðtækur í íþróttum og vopnaburði. Líkamleg færni og hreysti var beinlínis hverjum manni nauðsynlegt nesti í lífsbaráttunni. Litið var á íþróttir fyrr á öldum sem vettvang til að styrkja líkamsbyggingu og atgerfi, en einnig sem undirbúning fyrir vopnfimi og ýmsa leiki sem forfeður okkar iðkuðu. Í fornbókmenntum má víða lesa um lýsingar á íþróttaafrekum fornmanna. Hér eru nokkur dæmi, hið fyrsta er úr Grettissögu:

„Var þá talað til að annar hvor þeirra Þórðanna myndi taka á Gretti, en hann bað þá ráða. Nú gekk annar fram þeirra bræðra. Grettir stóð fyrir réttur en hinn hljóp að honum sem snarast og gekk Grettir hvergi úr sporum. Grettir seildist aftur yfir bak Þórði og tók svo í brækurnar og kippti fótunum og kastaði honum aftur yfir höfuð sér svo að hann kom að herðum niður og varð það allmikið fall. Þá mæltu menn að þeir skyldu fara til báðir bræðurnir senn og svo var gert. Þá urðu allmiklar sviptingar og máttu ýmsir betur en þó hafði Grettir ávallt annan hvorn undir en ýmsir fóru á kné eða slyðra fyrir öðrum. Svo tókust þeir fast á og hvarvetna var blátt og blóðrisa. Öllum þótti að þessu hin mesta skemmtan. Og er þeir hættu þökkuðu allir þeim fyrir glímuna...."
Hér er annað dæmi úr Egilssögu þar sem segir frá sundafreki Skalla-Gríms, en sá frægi höfðingi fæddist árið 851 og kom til Íslands árið 878:
„En er hann fékk þar engan stein, þann er svo væri harður eða sléttur, að honum þætti gott að lýja við - því að þar er ekki malargrjót, eru þar smáir sandar allt með sæ - var það eitt kveld, þá er aðrir menn fóru að sofa, að Skalla-Grímur gekk til sjóar og hratt fram skipi áttæru, er hann átti, og reri út til Miðfjarðareyja, lét þá hlaupa niður stjóra fyrir stafn á skipinu. Síðan steig hann fyrir borð og kafaði og hafði upp með sér stein og færði í skipið. Síðan fór hann sjálfur upp í skipið og reri til lands og bar steininn til smiðju sinnar og lagði niður fyrir smiðjudyrum og lúði þar síðan járn við."
Þriðja dæmið tengist einnig sundiðkun, en það er einstakt afrek Helgu Haraldsdóttur sem synti úr Geirshólma til lands með syni sína. Í Harðar sögu og Hólmverja segir svo frá:
„Helga er nú í hólminum og þykist nú vita allar vélar og svik landsmanna. Hún hugsar nú mál sitt. Það verður nú hennar ráð, að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr Hólminum um nóttina og flutti með sér Björn, son sinn, fjögurra vetra gamlan, til Blákeppsár, og þá fór hún móti Grímkatli, syni sínum, átta vetra gömlum, því að honum dapraðist sundið þá, og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund."
Íþróttir í skólum hafa skipað fastan sess í þjóðmenningu og skólahaldi á þessari öld og má í því sambandi nefna að Íslendingar ásamt Áströlum voru fyrstir þjóða í heiminum til að taka upp sundkennslu sem skyldunámsgrein í grunnskóla. Áhugi landsmanna á líkams- og heilsurækt og útivist hefur aukist mjög síðustu ár. Eitt af markmiðum nýrrar námskrár í skólaíþróttum er að auka vægi heilbrigðissjónarmiða samhliða því að auka tengsl greinarinnar við sögu, þjóðmenningu og umgengni einstklingsins við náttúruna.

 

2.1.2 Áhersla á vísindalæsi

Eftirfarandi áherslur á vísindalæsi eru í skýrslu verkefnisstjórnar:

„Þjóðmenning sem ekki hefur forsendur til að afla og nýta alþjóðlega vísindalega þekkingu á í vök að verjast. Auk þess er vísindamenntun sérstaklega vel til þess fallin að efla gagnrýna hugsun, ályktunar- og greiningarhæfni, skipulagshæfileika og agaða meðferð upplýsinga. Alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýna að íslenskir nemendur standa jafnöldrum sínum í nágrannalöndunum að baki þegar borin er saman frammistaða þeirra í stærðfræði og náttúruvísindum. Í alþjóðlegri lestrarrannsókn sem Ísland tók þátt í fyrir nokkrum árum kom í ljós að þrátt fyrir allgóðan árangur á lestrarprófum áttu íslenskir unglingar erfitt með að nýta sér upplýsingar sem settar voru fram í töflum og á línuritum. Samanburður á námskrám í allmörgum löndum leiðir einnig í ljós að hér á landi er minni tíma varið í kennslu þessara greina en í helstu viðmiðunarlöndum. Ráðuneytið leggur ríka áherslu að mótuð verði skýr stefna í kennslu þessara greina og þær fái aukið vægi í námskránum."

 

Tengsl við skólaíþróttir

Tengsl greinarinnar við vísindalæsi er m.a. í gegnum lífeðlisfræðilegar eða þjálffræðilegar niðurstöður rannsókna á líkamsfari einstaklinga. Hér er nemendum m.a. kennt á markvissan hátt ákveðin lífsleikni, þar sem lögð er á það áhersla að hver og einn geti lesið út úr niðurstöðum mælinga í ýmsu formi og nýtt sér þær til frekari uppbyggingar eða þjálfunar á líkamlegri og andlegri heilsu. Þetta atriði tengist einu helsta markmiði skólaíþrótta við lok grunn- og framhaldsskóla, en það er að gera nemendur ábyrga á eigin heilsu.

 

2.1.3 Áhersla á tæknimenntun

Í skýrslu verkefnisstjórnar eru eftirfarandi áherslur um tæknimenntun:

„Tæknimenntun nýtur sífellt meiri athygli stjórnvalda í mörgum löndum og bendir margt til þess að ,menntamálayfirvöld víða um heim séu farin að líta á tæknimenntun sem almennan undirbúning undir líf og starf í nútíma þjóðfélagi. Hér á landi er tæknimenntun nær alveg takmörkuð við einstakar starfsnámsbrautir á framhaldsskólastigi og því fer stærstur hluti nemenda varhluta af öllu sem heitir tæknimenntun. Stefnt er að því að efla tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum, bæði með því að gefa öllum nemendum kost á að kynnast tækni af eigin raun í námi sínu og sem sérstakt faglegt viðfangsefni. Einkum er mikilvægt að gera tölvulæsi hluta af almennri menntun bæði á grunn- og framhaldsskólastigi."
Tengsl við skólaíþróttir

Tæknivæðing hefur á mörgum sviðum leitt til hreyfingaleysis og þar með lítils álags á hjarta- og blóðrásarkerfi líkamans. Afleiðingarnar eru óhjákvæmilega veikbyggt blóðrásar- og stoðkerfi, léleg samhæfing og stirðleiki. Hjá börnum birtast þær aðallega í lélegum líkamsburði. Við þessu er brugðist í skólaíþróttum og því er nauðsynlegt að námsgreinin hafi ákveðið vægi og fastan sess í skólakerfinu.

2.1.4 Alþjóðlegar kröfur

Í skýrslu verkefnisstjórnar eru eftirfarandi áherslur sem tengjast alþjóðlegum kröfum:

„Smáþjóð eins og Íslendingum er lífsnauðsyn að dragast ekki aftur úr öðrum þjóðum í þeim kröfum sem gerðar eru til nemenda í skólum. Slakur undirbúningur í grunn- og framhaldsskóla rýrir ekki aðeins möguleika nemenda til að afla sér frekari menntunar hérlendis og erlendis, heldur dregur slíkt einnig úr samkeppnishæfni einstaklinga á vinnumarkaði. Það er því mikilvægt að endurskoðun námskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla taki mið af þeim kröfum sem gerðar eru til nemenda í nágrannalöndum okkar. Þegar teknar eru ákvarðanir um námskröfur þarf að gæta þess að taka mið af þeim tíma sem ætlaður er til kennslu einstakra námsgreina og uppbyggingar skólakerfisins hérlendis."
Tengsl við skólaíþróttir

Þær kröfur sem gerðar eru hér á landi til íþrótta í skólum, bæði hvað varðar inntak náms og kennslu standast fyllilega erlendan samanburð. Rannsóknir hafa sýnt að íslensk ungmenni hafa forskot á jafnaldra sína í öðrum Evrópulöndum ef tekið er mið af könnunum á líkamsfari skólabarna, EUROFIT (1985), Rannsókn á líkamsfari íslenskra skólabarna (1996). Til að viðhalda þessum þáttum, er mikilvægt að ekki sé slakað á þeim kröfum sem fyrir hendi eru.

Ef litið er á ytri aðstæður til íþróttaiðkunar í skólum er það áhyggjuefni hve illa er búið að íþróttakennslunni í samanburði við nágrannalöndin, þar sem fastir staðlar eru fyrir hendi um byggingar og aðbúnað. Sérstaklega eru aðstæður fyrir íþróttakennslu í nokkrum framhaldsskólum landsins áhyggjuefni.

Ennfremur má benda á samþykkt Íþróttanefndar Evrópuráðsins, þar sem varað er við því að fækka tímum í íþróttakennslu skólanna. Í viðauka við ályktun nr. R (95) 16, „Evrópsk stefnuyfirlýsing um íþróttir og ungt fólk," segir eftirfarandi í 1. grein:

„1. Markmið þessarar yfirlýsingar er að stuðla að því að ungt fólk öðlist jákvæða afstöðu til þátttöku í íþróttum og líkamsrækt í samræmi við evrópska íþróttasáttmálann og evrópsku siðareglurnar, og þannig er lagður grundvöllur að ævilangri iðkun íþrótta.

2. Það er skylda þjóðfélagsins í samvinnu við alla sem málið varðar að veita ungu fólki tækifæri til að ná þessu markmiði. Því skulu:

2.1 Opinber yfirvöld, ásamt þeim íþróttasamtökum sem í hlut eiga, bera ábyrgð á að veita nauðsynlega forystu við þróun og kynningu íþróttastefnu fyrir ungt fólk.

2.2 Opinber yfirvöld á öllum stigum íþrótta bera ábyrgð á að stuðla að möguleikum á sviði íþrótta með viðeigandi umgerð laga og reglugerða, fjárstuðningi, sköpun aðstöðu og hverjum þeim öðrum aðgerðum sem við eiga."

 

Ennfremur segir í 4. grein ályktunar ráðherranefndar Evrópuráðsins til aðildaíkja um gildi íþrótta fyrir þjóðfélagið:

„1. Heimilið og skólinn leggja grunninn að félagsmótun barnanna og gegna því einstæða hlutverki að hvetja þau til að þroska virkan og heilbrigðan lífsmáta.

2. Skólinn hefur það mikilvæga verkefni að sjá fyrir líkamsrækt og íþróttum til að tryggja heilbrigt jafnvægi milli líkamlegarar og andlegrar virkni. Íþróttir geta stuðlað að gæðum skólalífsins þegar á heildina er litið.

2.1 Allt ungt fólk ætti að geta notið íþróttakennslu og öðlast grundvallarkunnáttu í íþróttum og fá þannig hvatningu til að taka þátt í íþróttum eða daglegri líkamsrækt, hvort sem það tilheyrir námskránni eða ekki.

2.2 Skólar ættu að láta í té öruggt og heilnæmt umhverfi fyrir líkamsæfingar og íþróttir.

2.3 Skólar ættu að reyna að bregðast við nýjum stefnum á íþróttasviðinu sem hafa uppeldisgildi og gefa ungu fólki kost á að fá útrás með margvíslegum hætti."

 

2.1.5 Almenn lífsleikni

Í skýrslu verkefnisstjórnar um almenna lífsleikni eru eftirfarandi áherslur:

„Samkvæmt 17. gr. laga um framhaldsskóla skulu í brautarkjarna, auk sérgreina brautar, vera námsgreinar sem stuðla að almennri menntun og búa nemendur undir þátttöku í samfélaginu. Í greinargerð með frumvarpinu er talað um ratvísikjarna í þessu sambandi. Notað hefur verið orðið lífsleikni um sambærilega þætti í grunnskólanámi. Í þessu sambandi eru oft nefnd viðfangsefni eins og atvinnuhættir, menning og listir, náttúra og umhverfi, hagfræði og auðlindir jarðar, samskipti, fjölskylduábyrgð og umburðarlyndi gagnvart ólíkum kynþáttum. Ráðuneytið leggur áherslu á að þessi markmið verði útfærð í endurskoðuðum námskrám, bæði sem sérstakt viðfangsefni en einnig sem hluti af öðru námi. Önnur atriði sem skipta máli í þessu sambandi eru til að mynda umhverfisfræðsla, neytendafræðsla, forvarnir og fíkniefnafræðsla svo dæmi séu tekin."
 

Tengsl við skólaíþróttir

Flesta þætti skólaíþrótta má tengja lífsleiknihugtakinu. Líta má á lífsleiknihugtakið sem einskonar yfirhugtak um allar athafnir mannsins í víðum skilningi þessa orðs. Lífsleikni skólaíþrótta nær yfir þær athafnir mannsins sem snúa að líkamsþroska og heilsurækt, en þó einnig yfir aðra þroskaþætti (sjá nánar umfjöllun um markmið skólaíþrótta). Skólaíþróttir eru mjög mikilvægar sem hluti af lífsleikninámi og geta haft lykilþýðingu fyrir heilbrigði og lífsvenjur einstaklings þegar fram líða stundir. Óhætt er að segja að ein af grunnþörfum mannsins til að viðhalda þroska sínum og tilveru sé að hreyfa sig skv. A. H. Maslow (1970), og það er einmitt þessi grunnþörf sem skólaíþróttirnar eru að leitast við að sinna. Breytingar á íþróttakennslu framhaldsskóla, námskrá fyrir framhaldsskóla (1990), þar sem tekið var mið af því að gera einstaklinginn ábyrgan á eigin heilsu og um leið að koma til móts við leikni hans til að lifa, er hluti af þessu almenna lífsleikniferli sem hver skóli þarf að hafa sem markmið.

2.1.6 Símenntun

Í skýrslu verkefnisstjórnar eru eftirfarandi áherslur í sambandi við símenntun:

„Á undanförnum árum hafa fjölmargar þjóðir og flest alþjóðasamtök sem um menntamál fjalla komist að þeirri niðurstöðu að endurskoða þurfi gjörvallt menntakerfi þjóðanna í ljósi þess að símenntun er óðum að fá sess sem grundvallarviðmið í menntun og þjálfun. Símenntunarhugtakið byggir á þeirri hugmynd að menntun og þjálfun séu órjúfanlegur og sívaxandi hluti af starfsferli einstaklingsins og möguleikum hans til virkrar þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Flestir sem um menntamál fjalla eru einnig sammála um að símenntun felur ekki aðeins í sér námsframboð fyrir fullorðið fólk heldur þurfi einnig að leggja grunn að símenntun í grunnmenntuninni sjálfri. Í þessu sambandi hefur verið bent á að leggja þurfi meiri áherslu á námshvatningu, sjálfstæði í vinnubrögðum, gagnrýna hugsun, frumkvæði og annað sem hjálpar einstaklingnum að laga sig að síbreytilegum viðfangsefnum alla ævi. Því er mikilvægt að námsmarkmið allra námsgreina taki mið af þessari breyttu afstöðu til menntunar og þjálfunar."
Tengsl við skólaíþróttir

Íþróttakennsla hér á landi hefur breyst m.t.t. aukinnar áherslu sem nú er lögð á að leita leiða til líkams- og hreyfiþroska og heilbrigðs lífernis. Þessi atriði hafa kallað á aukna endur- og símenntun. Auk þess hefur á undanförnum árum verið lögð áhersla á sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði og gagnrýna hugsun svo ná megi þeim markmiðum stefnt er að. Þetta á jafnt við um vinnu nemenda, kennara sem skólastjóra og skólastjórnenda.

 

2.1.7 Mat og eftirlit

Umfjöllun um mat og eftirlit í skýrslu verkefnisstjórnar er eftirfarandi:

„Í nýlegum lögum um grunn- og framhaldsskóla er gert ráð fyrir stóraukinni valddreifingu í skólakerfinu. Aukin valddreifing kallar á breytingar á stjórnun og eftirliti. Í stað smáatriðastjórnunar með lögum og reglugerðum er lögð áhersla á innra gæðamat stofnana og aukna upplýsingamiðlun til almennings um starfsemi þeirra. Hlutverk ráðuneytisins verður ekki síst fólgið í því að fylgjast með því að skólar innleiði og nýti sér aðferðir til að meta starfsemi sína ásamt því að afla og miðla upplýsingum um skólastarf. Í ráðuneytinu er verið að þróa viðmiðanir fyrir úttektir á sjálfsmatsaðferðum skóla þar sem m.a. verður lögð áhersla á að hver skóli geri, nemendum sínum og aðstandendum þeirra ítarlega grein fyrir sjálfsmatsaðferðum sínum. Einnig mun ráðuneytið halda áfram að koma þeirri upplýsingastefnu í framkvæmd sem menntamálaráðherra hefur kynnt. Námskrár gegna veigamiklu hlutverki í miðlun upplýsinga og viðmiða fyrir mat á skólastarfi."
 

Tengsl við skólaíþróttir

Ein helsta breytingin frá síðustu námskrá er sú að stefnt er nú að því að setja fram „mælieiningu" í formi námsmats við öll meginmarkmið íþróttakennslu. Í þessari skýrslu eru meginmarkmið íþróttakennslunnar tengd þroskaþáttum barna og unglinga, sem námsmatið mun byggjast á. Stefnt verður að því að meta árangur kennslunnar á markvissari hátt en gert hefur verið. Þetta á jafnt við um mat á námi nemenda sem kennara við grunn- og framhaldsskóla. Hvatt verður til þess að allt mat og innra eftirlit skólastarfs verði gert markvissara og um leið mótuð stefna til þróunar skólans að sem bestum árangri.

Einnig er mjög mikilvægt að fylgst sé með líkamshreysti íslenskra skólabarna á næstu árum, en slíkar kannanir eru í raun grunnþáttur í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar. Þannig má nýta sér betur greinina til forvarna í framtíðinni, greina stöðu einstaklinga og hópa hverju sinni og draga þannig lærdóm af mælingum til hjálpar við markvissa áætlanagerð.

 

2.1.8 Endurskoðun kennsluhátta

Í skýrslu verkefnisstjórnar er u eftirfarandi áherslur um endurskoðun kennsluhátta:

„Athuganir benda til þess að kennsluhættir hérlendis séu of einhæfir. Kennsluaðferðir henta nemendum mjög misvel og því er ekki hægt að koma til móts við ólíka nemendur nema með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Þá skiptir ekki minna máli að nemendur læra ekki síst af því hvernig þeim er kennt, hvað fyrir þeim er haft og hvað þeir fá tækifæri til að gera. Það segir sig t.d. sjálft að þeim meginmarkmiðum skólalöggjafar að efla sjálfstæða hugsun nemenda, hæfni þeirra til að afla sér þekkingar og draga ályktanir og vinna með öðrum verður ekki náð ef kennsluhættir miðast eingöngu við staðreyndanám. Til að mæta þessum kröfum hafa margar þjóðir ákveðið að auka sjálfstæða verkefnavinnu í skólum, þar sem nemendum er t.d. gert að skilgreinaúrlausnarefni, safna gögnum, vinna úr þeim og setja fram niðurstöður á skipulegan og skýran hátt. Ráðuneytið leggur áherslu á að í námskrá verði sett fram sú krafa að samræmi sé á milli markmiða og kennsluhátta í skólum, t.d. með aukinni verkefnavinnu og hagnýtum úrlausnarefnum."
 

Tengsl við skólaíþróttir

Áherslubreyting hefur orðið í íþróttakennslu á síðustu árum, þar sem reynt er að koma betur til móts við hvern og einn. Þetta hefur einnig haft í för með sér að kennsluhættir hafa breyst nokkuð. Annars vegar er um að ræða verklegra kennslu og hins vegar fræðilegt nám á sviði líkams- og heilsuræktar. Þetta hefur mælst vel fyrir samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem gerð var af Rannsóknastofnun uppeldis og menntamála um breytingar á kennsluháttum í íþróttakennslu framhaldsskóla. Samkvæmt niðurstöðum sömu könnunar voru stúlkur sérstaklega ánægðar með þessar breytingar (RUM, 1993). Mikilvægt er að það mótunarstarf sem í gangi hefur verið fái að þróast og festast í sessi. Varðandi aðrar áherslubreytingar í kennslu íþrótta í framhaldsskólum, má m.a. nefna að vottorð í íþróttum sem áður voru algeng, hafa nær lagst af og heyra líklega brátt sögunni til. Samvinna við heilbrigðisstofnanir, lækna og sjúkraþjálfara hefur aukist með það að markmiði að koma betur til móts við þarfir hvers og eins.

 

2.1.9 Efling fjarkennslu

Í skýrslu verkefnisstjórnar eru eftirfarandi áherslur um eflingu fjarkennslu:

„Þær byltingar sem orðið hafa á sviði upplýsingatækni á undanförnum árum hafa skapað algjörlega nýjar forsendur fyrir fjarkennslu bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Varast ber að líta á fjarkennslu sem neyðarúrræði eða annars flokks tilboð. Fjarkennsla rýfur ekki aðeins landfræðilega einangrun, heldur gefur hún kost á sveigjanleika í menntun sem erfitt er að koma við í hefðbundnu skólastarfi. Á undanförnum árum hafa verið gerðar tilraunir með fjarkennslu í grunn- og framhaldsskólum og mun ráðuneytið beita sér fyrir áframhaldandi tilraunum á þessu sviði. Mikilvæg forsenda þess að fjarkennsla nái að þróast sem raunverulegur valkostur í námi er að námskrár séu það skýrar að ekki fari milli mála til hvers er ætlast af nemendum. Stefnt er að því að í endurskoðuðum námskrám verði námskröfur settar fram á skýran og ótvíræðan hátt, þannig að unnt sé að verða við þeim með fjarkennslu þegar hún hentar. Einnig þarf að huga að samvinnu skóla í þeim tilgangi að samnýta betur það námsframboð sem til staðar er í landinu, þannig að litið verði á landið sem einn námsmarkað."
Tengsl við skólaíþróttir

Fjarkennsla í íþróttum hefur t.a.m. verið tekinn upp við Verkmenntaskólann á Akureyri og hefur mælst vel fyrir. Með breyttum kennsluháttum íþrótta á framhaldsskólastigi, hefur skapast möguleiki á fjarkennslu sem eflaust á eftir að aukast þegar fram líða stundir. Þetta er ákaflega mikilvægur þáttur, svo koma megi til móts við þá landsmenn sem búa í dreifbýli og vilja stunda fjölþætt fjarnám.

 

2.1.10 Dregið úr brottfalli í framhaldsskólum

Í skýrslu verkefnisstjórnar eru eftirfarandi áherslur til að draga megi úr brottfalli í framhaldsskólum:

„Rannsóknir á námsferli nemenda í framhaldsskólum hafa leitt í ljós að brottfall nemenda úr námi hér á landi er hátt miðað við það sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. Brottfall hér samsvarar því að rúmlega þriðjungur af árgangi hætti námi án nokkurra viðurkenndra réttinda. Það verður þó að gera þann fyrirvara við þessar niðurstöður að brottfall er ekki skilgreint eins í öllum löndum og íslensku tölurnar byggja á úrtaki sem tekið var fyrir nokkrum árum. Til samanburðar má geta þess að í mörgum OECD- ríkjum er algengt að 15-20% árgangs hætti í skóla án réttinda og þykir það of mikið. Ástæður þessa háa brottfalls hér á landi eru ekki þekktar en hugsanlegar skýringar eru ófullnægjandi undirbúningur nemenda til framhaldsnáms, aðhaldsleysi af hálfu skóla og foreldra, tiltölulega fábreytt námsframboð og þar af leiðandi fá lokapróf í framhaldsskólum, þ.e. fáar formlegar útgönguleiðir. Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að dregið verði úr brottfalli m.a. með skýrari námskröfum til nemenda, aukinni upplýsingamiðlun um námskröfur og störf, inntökuskilyrðum á einstakar brautir, fjölbreyttara námsframboð sem leiðir til fjölgunar lokaprófa, einkum af styttri námsbrautum."
Tengsl við skólaíþróttir

Vitað er að íslenskir nemendur hafa frekar jákvætt viðhorf til skólaíþrótta og líður þar vel, Ný menntamál (1986), RUM (1993), Tómas Jónsson (1993). Í könnun Tómasar þar sem 684 grunnskólanemar voru spurðir um líðan sína, svöruðu um 70% nemenda að þeim liði vel í tímum, en 4.4% sögðust hins vegar líða illa. Mun fleiri stúlkum líður illa og er það áhyggjuefni sem taka þarf tillit til í íþróttakennslu á næstu árum. Í heild ætti þó að vera góður jarðvegur til staðar til þess að hafa jákvæð áhrif á nemendur, en huga þarf vel að þeim sem ekki njóta sín og taka tillit til þarfa þeirra. Betri líðan nemenda getur dregið úr fjarvistum og jafnvel brottfalli úr skóla. Rétt er að vísa í kafla hér að framan þar sem fjallað var um mat og eftirlit.

 

2.1.11 Nám við hæfi hvers og eins

Í skýrslu verkefnisstjórnar er að finna eftirfarandi áherslur þar sem fjallað er um nám við hæfi hvers og eins:

„Eitt umtalaðasta en flóknasta viðfangsefni sem námskrárhöfundar þurfa við að glíma er hvernig hægt verður að koma til móts við ólíkar þarfir einstaklinga í námi. Algengasta lausnin á þessu vandamáli er að bjóða upp á fjölbreytt nám þannig að allir geti fundið sér nám við hæfi. Jafnrétti til náms, einkum á framhaldsskólastigi, er ekki í því fólgið að koma öllum sömu leið, heldur að hver og einn geti fundið nám við hæfi. Í nokkrum tilvikum er þó æskilegt að grípa til sérstakra aðgerða til að koma til móts við sérþarfir nemenda. Þetta á bæði við um nemendur með fatlanir af einhverju tagi eða sértæka námsörðugleika sem takmarka námsgetu þeirra á mjög afmörkuðum sviðum og nemendur með sérstaka hæfileika. Í slíkum tilvikum þarf að gera ráð fyrir sérstökum kennslufræðilegum úrræðum og jafnvel einhverjum undanþágum frá námskrá."
Tengsl við skólaíþróttir

Eins og komið hefur fram, hefur allt frá útkomu síðustu námskráa í grunn- og framhaldsskólum verið miðað við að koma betur til móts við þarfir hvers og eins. Vægi þessa þáttar verður aukið í þessari námskrá, sjá 7. kafla um sérkennslu í skólaíþróttum. Með markvissu námsmati verður reynt að gera þessum þætti skólastarfs betri skil.

 

 

2.1.12 Jafnrétti

Í skýrslu verkefnisstjórnar eru eftirfarandi áherslur á íslensku, sögu og þjóðmenningu:

„Við setningu aðalnámskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla skal þess sérstaklega gætt, að nemendum sé ekki mismunað eftir kyni, búsetu, stétt, uppruna, trú eða fötlun. Þetta þýðir að allir skuli fá sem jöfnust tækifæri til menntunar. Þetta þýðir ekki endilega sömu úrræði fyrir alla, heldur sambærileg og jafngild tækifæri. Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að skólar búi bæði kynin jafnt undir þátttöku í atvinnulífi, fjölskyldulífi og í samfélaginu almennt, fræði bæði drengi og stúlkur um stöðu kynjanna, mannréttindi og vinni gegn misrétti."  
Tengsl við skólaíþróttir

Aukist hefur eftirspurn á námi fyrir nemendur með sérþarfir á grunn- eða framhaldsskólastigi en áður var. Í nýrri námskrá verður leitast við að tryggja öllum jafnrétti til náms í skólaíþróttum. Reynt verður eftir megni að koma til móts við hvern og einn, þannig að allir fái sambærilega kennslu og jöfn tækifæri til náms, sjá m.a. 7. kafla um sérkennslu í íþróttum. Í framhaldsskólum hefur verið framboð á valáföngum þar sem hver og einn hefur fengið tækifæri til að velja sér líkams- og heilsurækt við hæfi. Stefna skal að því að auka einnig valmöguleika í efstu bekkjum grunnskóla.

 

2.1.13 Samfella í námi

Í skýrslu verkefnisstjórnar eru eftirfarandi áherslur um samfellu í námi:

„Í fyrsta skipti fer endurskoðun námskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla fram samtímis í þeim tilgangi að tryggja eðlilega samfelldni í kröfum til nemenda innan og milli skólastiga. Sameiginlegir forvinnuhópar munu gera tillögur um markmið sem ganga þvert á skólastigin og taka mið af þeim skólastigum, þ.e. leikskóla og háskóla, sem hin formlega endurskoðun tekur ekki til en er engu að síður mikilvægt að miða við. Þegar forvinnuhóparnir skipast upp í smærri vinnuhópa eftir skólastigum og námsgreinum munu faglegir umsjónarmenn hafa það hlutverk að tryggja nauðsynlegt samræmi í störfum þessara hópa."

Tengsl við skólaíþróttir

Að tilhlutan verkefnisstjórnar hefur verið unnið eftir því vinnufyrirkomulagi að endurskoða samhliða námskrár beggja skólastiga. Það hefur leitt til þess að samfella í stefnumörkun hefur orðið skýrari, markmiðasetning betri og þar með tengsl skólastiga. Mikilvægt er að þessum þáttum verði gefinn góður gaumur á útfærslustigi.

 

2.2 Tengsl skýrslu verkefnisstjórnar við lög um grunnskóla og stefnu Evrópuráðsins

Það er skoðun forvinnuhóps skólaíþrótta að verkefnisstjórn geri ekki nægilega mikið úr þeim áherslum í heilbrigðismálum skóla sem fram koma í nýjum lögum um grunnskóla nr. 66/1995. Forvinnuhópur skólaíþrótta saknar áhersluþáttar sem tengdur er líkams- og heilsurækt og hollum lífsvenjum, en hér er um að ræða grunnþarfir allra einstaklinga. Verkefnisstjórn getur ekki sniðgengið jafn mikilvægan málaflokk í stefnu sinni. Máli okkar til stuðnings viljum við benda á eftirfarandi greinar í nýjum lögum um grunnskóla:

Í I. kafla, 2. gr. grunnskólalaga segir:

„Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.
Í VI. kafla, 29. gr. grunnskólalaga um námskrár og kennsluskipan segir m.a. eftirfarandi:

„Í starfi skólans skal leggja áherslu á:

Hér er greinilegt að löggjafinn er að leggja þunga sinn á hlutverk skóla í mótun heilbrigðisstefnu. Svo þetta veigamikla markmið megi nást er nauðsynlegt að vægi íþrótta innan skólakerfis verði ekki skert heldur aukið frá því sem verið hefur.

Forvinnuhópur skólaíþrótta telur að það þurfi að koma skýrt fram hvernig samþætting námsgreina verði háttað í nýjum námskrám á grunn- og framhaldsskólastigi, svo vinna megi markvisst að útfærslu námskrármarkmiða og nálgun þeirra. Íþróttir í skólum þurfa í framtíðinni að geta staðið sér sem námsgrein. Einnig þarf að vera möguleiki á samþættingu greinarinnar við annað skólastarf, s.s. náttúrufærði, líffærafræði, lífeðlisfræði, heimilisfræði og tónlist.

Í ályktun ráðherranefndar Evrópuráðsins til aðildarríkjanna sem komið var inn á framar í kaflanum, segir í 4. grein um skilgreiningar:

  1. „Í evrópska íþróttasáttmálanum eru íþróttir skilgreindar sem hver sú líkamsrækt, sem með óreglubundinni eða skipulagðri þátttöku miðar að því að láta í ljós eða bæta líkamlega hæfni og andlega velllíðan og mynda félagsleg tengsl, eða ná árangri í keppni á öllum stigum.
  2. Íþróttahugtakið í þessum sáttmála er byggt á þeim hugsjónum mannúðar og umburðarlyndis sem einkenna Evrópuráðið. Ungu fólki er líkamsrækt eðlilegt hreyfingarform sem felur í sér áskorun og ánægju af leik. Að því er varðar þennan sáttmála merkir ungt fólk alla einstaklinga sem teljast undir lögaldri samkvæmt landslögum hvers aðildaríkis Evrópuráðsins."
Í stefnuskrá Evrópu varðandi málefni íþrótta, „European Sports Charter" eru ýmis atriði er varða íþróttir og íþróttakennslu. T.a.m. í 5. grein sem fjallar um uppbyggingu að íþróttaiðkun segir:
„Beita þarf viðeigandi aðgerðum til þess að iðkendur geti elft líkamlegt þrek og nái grundvallarfærni í íþróttum. Þá verði ungt fólk einnig hvatt til þess að stunda íþróttir með því að:

1. Tryggja að allir nemendur geti notið viðeigandi íþróttaæfinga og nýtt sér mannvirki fyrir íþróttir, heilsurækt og íþróttakennslu í skólum; og að nægjanlegur tími verði ætlaður til þess.

2. Með því að tryggja að sérmenntaðir kennarar á þessu sviði starfi við alla skóla.

3. Með því að tryggja að fyrir hendi séu viðeigandi tækifæri fyrir nemendur að loknu skyldunámi, nemendur framhadlsskóla, að halda áfram iðkun íþótta.

4. Með því að stuðla að þeirri þróun að viðeigandi samvinna megi takast með skólum, öðrum menntastofnunum, skólaíþróttafélögum og staðbundnum íþróttafélögum.

5. Með því að auðvelda og auka nýtingu skóla og almennings á íþróttamannvirkjum.

6. Með því að stuðla að skoðanamyndun þar sem foreldrar, kennarar, þjálfarar og félagsforystumenn hvetji ungt fólk til þess að taka reglulega þátt í íþróttum.

7. Með því að sjá til þess að nemendur allra skólastiga fjalli um námsefni sem varði siðfræði íþrótta."

 
Fyrri síða 
Yfirlit
Næsta síða 

Höfundarréttur 1998 Menntamálaráðuneytið.